Ari Trausti Guðmundsson fjallar um ýmsa þætti orkumála í greininni „Orkan er okkar.“ í Kjarnanum 1. maí sl. Við þá úttekt er nokkru að bæta.
Valdið
Saka- og afrekaskrá Landsreglarastofu Evrópusambandsins (ACER) er vegin og léttvæg fundin af Ara Trausta. Að svo komnu máli leggur undirritaður ekki mat á hana, en minnir á þrennt:
- Saga embættisins er ekki mjög löng. Engu að síður hefur það nýtt valdheimildir sínar í mörgum málum þar sem háar fjárhæðir eiga í hlut.
- Valdi má beita með ýmsum óbeinum hætti án þess að formlegar ákvarðanir séu teknar. Svoleiðis má kalla valdheimildir kjarnorkusprengjunnar. Þótt sprengjan hafi ekki verið notuð í áratugi hefur hún haft mikil áhrif.
- Saga tiltölulega nýstofnaðs embættis segir lítið um hvernig það muni fara með það vald sem því verður fengið í síbreytilegu ríkjasambandi sem stefnir í átt að meiri sameiningu. Afar erfitt getur reynst að komast undan valdi embættisins síðar meir.
Hvar er hótunin?
Allt tal um að EES-samningurinn komist í uppnám er úr lausu lofti gripið, nema auðvitað ef Evrópusambandið hefur hótað íslenskum stjórnvöldum refsingu kjósi þau að nýta sér rétt sinn til að afþakka lagabálkinn. Hafi Ari Trausti eða aðrir þingmenn fengið upplýsingar um slíka hótun er rétt að upplýsa það tafarlaust.
Andstæðingar þess að Ísland gangi í orkubandalag Evrópusambandsins hafa ýmsar skoðanir á flestum málum, meðal annars EES-samningnum. Menn eru þó nokkuð sammála um að haldi Ísland áfram vegferðinni inn í orkubandalagið muni óvinsældir EES vaxa hratt. Þá verður vitaskuld umræða um þann samning og í þeirri umræðu mun síendurtekið söngl um að allt gott sé EES að þakka og að Íslendingar hafi búið í torfkofum við sult og seyru fyrir árið 1994 duga skammt.
Í upphafi skyldi
Frakkar og fleiri í Evrópusambandinu takast nú á við fyrirmæli Evrópusambandsins um markaðsvæðingu vatnsorku sem verkalýðsfélög og fleiri túlka sem einkavæðingu. Enginn vafi er á að hliðstæð krafa muni koma á hendur Íslendingum fyrr eða síðar verði haldið áfram innlimun Íslands í orkubandalag Evrópusambandsins. Sanngjarnt væri að Ari Trausti og aðrir þingmenn útskýrðu hvernig þeir munu þá bregðast við. Ekki væri væri verra að gauka að Frökkum og öðrum í hliðstæðri stöðu, ráðum um hvernig þeir gætu komist úr því neti sem um þá hefur verið spunnið. Er svarið þar kannski bara málshátturinn „Í upphafi skyldi endirinn skoða“ ?
Skylda Alþingismanna
Óumdeilt er að bálkarnir um landsreglara og Landsreglarastofu Evrópusambandsins fela í sér valdaframsal. Fyrirvarar hafa ríka tilhneigingu til að þynnast og hverfa og allt vísar í þá átt að fyrirvarar í þessu orkubálksmáli séu fyrst og fremst til heimabrúks. Það er ekki gæfulegt fyrir Íslendinga að koma sér í þá stöðu, fullkomlega að nauðsynjalausu, að þurfa að „mæta því með rökum og vörnum“ ef ESA úrskurðar að fyrirvari gangi ekki upp, svo vísað sé í orð Ara Trausta. Það er ein helsta skylda Ara Trausta og annarra Alþingismanna að standa á þann hátt vörð um auðlindir Íslands að ekki komi til þess að verja þurfi þær fyrir erlendum dómurum gegn ásælni erlendra aðila, með allri þeirri áhættu og óvissu sem slíku fylgir.
Já, Ari Trausti, orkan er okkar, að minnsta kosti enn sem komið er. Það er okkar að binda svo um hnúta að hún verði það um ókomna tíð. Það gerum við í dag með því að hafna því að færa valdheimildir í orkumálum til erlends ríkjasambands og afþakka þriðja orkulagabálkinn. Það er ekki flóknara.
Höfundur er formaður Heimssýnar og einn stofnenda hreyfingarinnar Orkan okkar.