Á Íslandi eru fimm einmennings flugvellir, þ.e.a.s. flugvellir með einn starfsmann í vinnu. Litlir flugvellir með lítið af flugumferð sem gegna þó gríðarlega mikilvægu hlutverki í nærsamfélagi þeirra. Hagnaðurinn af þessum völlum er ekki mældur í peningum heldur mannslífum.
Þó flugumferð sé ekki mikil um þessa velli þá eru þessir fimm einstaklingar sem á þeim vinna, svo að segja alltaf í vinnunni. Því hvert geta einstaklingar farið eða hvað geta þeir leyft sér í sínum frítíma þegar sú staða gæti komið upp hvenær sem er, að flytja gæti þurft einhvern úr þeirra samfélagi með sjúkraflugi?
Félag flugmálastarfsmanna ríkisins skorar á samgönguráðherra að bæta þarna úr. Veita meira fé á þessa velli þannig að einmennings flugvellir á Íslandi tilheyri fortíðinni. Kostnaðurinn er ekki mikill, rétt um 50 milljónir á ári.
Fólk á að geta stimplað sig úr vinnu og gert það sem því dettur í hug í sínum frítíma. Við hljótum öll að vera sammála um þá lágmarks kröfu.
Höfnudur er formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins.