Stjórnmálamenn sem velja að draga ekki línu í sandinn

Auglýsing

Almenningur á að geta gert ríkar kröfur til þeirra sem bjóða sig fram sem kjörnir fulltrúar. Þótt þeir geri slíkt fyrir hönd ákveðinna stjórnmálaflokka, og þar af leiðandi til að beita sér fyrir ákveðinni hugmyndafræði, þá eru mörg mál sem falla utan þess ramma.

Í þeim málum reynir á getu stjórnmálamanna að standa í lappirnar og taka rétta siðferðislega afstöðu. Að taka almannaheill fram yfir hagsmuni einstaklinga eða ákveðinna flokka og búa yfir nægilegum heilindum til að standa gegn hinu óboðlega þegar það lætur á sér kræla. Það getur verið í málum sem snúa að ógnum gagnvart grundvallarreglum lýðræðisins, þegar undir er rökstuddur grunur um misnotkun á almannafé eða þegar kjörnir þingmenn sýna af sér ósæmilega hegðun gagnvart borgurunum.

Kjörnir fulltrúar þurfa  að geta dregið línu í sandinn um hvað sé í lagi og hvað ekki. Í allt of mörgum málum sem upp hafa komið á þessu kjörtímabili, sem er þó ekki einu sinni hálfnað, hefur þeim mistekist hrapalega að gera slíkt.

1. Kosningasvindl og nafnlaus áróður

Í síðustu tveimur Alþingiskosningum var nafnlaus áróður mjög áberandi. Honum var beint að ákveðnum flokkum, ákveðnum einstaklingum og jafnvel ákveðnum fjölmiðlum. 

Auglýsing
Í mörgum tilvikum var hinn nafnlausi áróður vel fjármagnaður. Þ.e. á bak við síðurnar sem deildu honum var umtalsvert fjármagn, sem notað var til að kaupa birtingar á hinum ýmsu miðlum. Mest var þetta áberandi á Youtube þar sem áróður frá fyrirbæri sem kallaði sig „Kosningar 2017“, og var aðallega beint gegn helstu andstæðingum Sjálfstæðisflokksins, birtist miklum fjölda landsmanna vikum saman áður en þeir spiluðu myndband á þeim miðli.

Annað fyrirbæri, Kosningavaktin, var mun fyrirferðarminna en einbeitti sér að áróðri gegn flokkum á hægri væng stjórnmálanna. Það var alveg jafn nafnlaust og óboðlegt.

Lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda eru mjög skýr um að það sé óheimilt að veita viðtöku framlaga frá óþekktum gefendum. Augljóst er öllum með augu að nafnlausu kosningaáróðursvélarnar tóku við slíkum framlögum og notuðu til þess að reyna að hafa áhrif á niðurstöðu kosninga.

Til viðbótar voru tveir flokkar, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins, uppvísir af því að brjóta lög með því að senda á ólöglegan hátt tugi þúsunda SMS-skilaboða til kjósenda annars vegar daginn fyrir kjördag og hins vegar á kjördag. Báðir flokkar fengu meira upp úr kjörkössunum en síðustu skoðanakannanir höfðu gefið til kynna að þeir myndu fá.

Afleiðingar

Eðlilegast hefði verið að allt ofangreint hefði verið skoðað ítarlega af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og í kjölfarið hefði verið skipuð sérstök rannsóknarnefnd Alþingis, í ljósi þess að um rökstuddan grun um alvarlegt kosningasvindl var að ræða. Lögbrotum hefði svo átt að vísa til lögreglu.

Hvorugt var gert. Alþingi hefur með engum hætti brugðist við ólöglegum SMS-sendingum tveggja flokka sem þar eiga sæti utan þess að hækka framlög til þeirra feikilega mikið. Málið er ekki einu sinni rætt á þeim vettvangi.

Varðandi nafnlausa áróðurinn þá tóku framkvæmdastjórar allra flokka á þingi sig saman og sendu sameiginlega yfirlýsingu í apríl í fyrra þar sem þeir lýstu andúð sinni á óhróðri í kosningabaráttu. Yfirlýsingin var afar veik og virtist því marki brennd að samkomulag hefði náðst milli allra flokka um að gera ekkert varðandi það fikt í lýðræðinu sem átt hafði sér stað í síðustu kosningum, heldur horfa með óljósum hætti til framtíðar. Í júní 2018 birtist svo skýrsla forsætisráðherra um aðkomu og hlutdeild hulduaðila í kosningum til Alþingis. Skýrslan var heilar átta blaðsíður og niðurstaðan var að ekk­ert lægi fyrir hvort stjórn­mála­sam­tök sem lúta eft­ir­liti Rík­is­end­ur­skoð­unar hafi „staðið á bak við umræddar her­ferðir eða notið góðs af þeim þannig að slíks fram­lags bæri að geta í reikn­ingum stjórn­mála­sam­tak­anna eða ein­stakra fram­bjóð­enda.“ Þá væri vand­séð hvað stjórn­völd geti gert til að graf­ast fyrir um hverjir standi á bak við þær.

Ákveðið var að gera ekkert.

2. Meint sjálftaka úr opinberum sjóðum

Í upphafi árs 2018 var leynd loks svipt af því hvað Alþingismenn fengu í svokallaðar endurgreiðslur vegna aksturs á eigin bílum. Fjölmiðlar og ýmsir þingmenn höfðu reynt árangurslaust að fá þessar sjálfsögðu upplýsingar upp á borðið. Réttur þeirra þingmanna sem þáðu þessar greiðslur til að halda leynd yfir þeim var ríkari en réttur almennings til að vita hvað þeir fengu greitt úr almannasjóðum.

Það sem blasti við þegar upplýsingarnar voru loks gerðar opinberar var ekki fallegt. Mest stakk í augun að einn þingmaður hafði á árinu 2017 tekist að keyra 47.644 kílómetra. Fyrir það fékk hann 4,6 milljónir króna endurgreiddar vegna ferðakostnaðar, eða um 385 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Um 94 prósent þeirrar upphæðar var vegna ferða á eigin bifreið. Þetta var sérstaklega athyglisvert vegna þess að 2017 var skrýtið ár. Einungis 66 þingfundardaga voru haldnir og heilir 14 dagar teknir undir nefndarfundi.

Auglýsing
Stjórnarmyndunarviðræður vegna kosninganna 2016 höfðu nefnilega teygt sig vel inn í árið, þingið var vart byrjað þegar það fór í langt páskafrí og skömmu eftir það fóru þingmennirnir í mjög langt sumarfrí. Það tókst vart að kynna fjárlög í september áður en að þáverandi ríkisstjórn sprakk og boðað var til nýrra kosninga. Þegar búið var að mynda núverandi ríkisstjórn í lok nóvember var setið í nokkra daga og svo haldið í langt og gott jólafrí.

Þingmenn voru með öðrum orðum afar lítið í vinnunni árið 2017.

Síðar kom í ljós, þegar upplýsingar um aksturskostnað þingmanna voru birtar nokkur ár aftur í tímann, að sami þingmaður hafði fengið 23,4 milljónir króna í endurgreiddan aksturskostnað frá árinu 2013 og fram í nóvember 2018. Mest fékk hann 5,4 milljónir króna á árinu 2014.

Þótt umræddur þingmaður sé svæsnasta dæmið, þá er hann ekki einsdæmi. Greiddur kostnaður ýmissa annarra þingmanna, úr flokkum allstaðar að úr hinu pólitíska litrófi, var þess eðlis að full ástæða var til þess að kanna nánar réttmæti endurgreiðslna á honum.

Afleiðingar

Forsætisnefnd Alþingis tók mál þingmannsins til skoðunar og komst að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi gefið til kynna að „hátterni hans hafi verið andstætt siðareglum fyrir alþingismenn.“ Nefndin taldi heldur ekki að fram hefðu komið fram neinar upp­lýs­ingar eða gögn sem sýni að til staðar sé grunur um að refsi­verð hátt­semi hafi átt sér stað við fram settar kröfur um end­ur­greiðslur vegna akst­urs­kostn­aðar sem kæra beri sem meint brot til lög­reglu. Samt hafði þingmaðurinn ákveðið að endurgreiða skrifstofu Alþingis 178 þúsund krónur vegna ferða sem honum hafði verið endurgreiddar á árinu 2017. Þetta gerði hann vegna þess að honum hafði orðið það ljóst „að það gæti orkað tví­mælis að blanda saman ferðum mínum um kjör­dæmið og ferðum á sama tíma með töku­fólki ÍNN“.

Í janúar 2019 greindi Kjarninn svo frá því að þingmenn fái mun hærri endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar á þeim tímabilum þar sem kosningar fara fram en öðrum. Ekkert hefur verið gert til að kanna mögulega misnotkun á opinberum sjóðum á þeim tímabilum heldur.

Erfitt er að draga aðra ályktun af þessu en að ekkert þyki athugavert við það að þingmenn noti skattfé til að reka kosninga- eða prófkjörsbaráttu sína eða láta vilhallan fjölmiðil taka upp kynningarefni um sig á ferð um kjördæmið, jafnvel þótt viðkomandi hafi viðurkennt að hann hefði ekki átt að fá peninganna endurgreidda! Sú yfirburðarstaða sem aðgengi að opinberum sjóðum skapar þingmönnum umfram þá sem bjóða sig nýir fram, hvort sem er í þingkosningum eða prófkjörum, þykir ekki aðfinnsluverð. Í raun bara eðlileg.

Í samantekt Kjarnans, sem birtist í apríl 2019, kom skýrt fram að kostnaður almennings vegna endurgreidds ferðakostnaðar hefur minnkað umtalsvert eftir að upplýsingar um hann urðu opinberar og fjölmiðlar gátu fylgst með því sem menn rukkuðu. Þingmaðurinn sem keyrði mest 2017 fékk til að mynda einungis 684 þúsund krónur endurgreiddar í fyrra vegna aksturs á eigin bíl og leigði bílaleigubíla fyrir 1.166 þúsund krónur á því ári. Auk þess tók hann eldsneyti fyrir 633 þúsund krónur, flaug fyrir 79 þúsund krónur og keyrt í gegnum jarðgöng eða tók leigubíl fyrir alls sex þúsund krónur. Samanlagt var kostnaður skattgreiðenda vegna ferðakostnaðar hans innanlands í fyrra 42 prósent minni en árið áður. Þingmaðurinn hefur aldrei ferðast fyrir jafn lítinn pening innanlands frá því að hann var kjörinn á þing vorið 2013. Árið 2017 var raunar fyrsta heila árið sem maðurinn hefur setið á þingi þar sem ferðakostnaður hans innanlands, sem þingið borgaði, var undir fimm milljónum króna. 

Gagnsæið, umfjöllun fjölmiðla og viðbrögð almennings virðast að minnsta kosti hafa skilað því að betur er farið með sporsluféð. Það var því til einhvers unnið.

3. Óboðleg hegðun og athæfi

Undir lok síðasta árs komu upp mál sem snúa að hegðun og athæfi þingmanna. Annars vegar er um að ræða Klaustursmálið svokallaða, þar sem sex manna hópur þingmanna sem nú tilheyra allir Miðflokknum, talaði með jákvæðum formerkjum um spillingu og fyrirgreiðslu við embættisveitingar, töluðu með klámfengnum og  ömurlegum hætti um nafngreindar stjórnmálakonur og niðrandi um nafngreinda stjórnmálamenn. Þá urðu þessir þingmenn, sem eiga að vera fulltrúar allrar þjóðarinnar á Alþingi, sér til ævivarandi skammar með ummælum um fatlaða og samkynhneigðra. Í stað þess að iðrast og horfa inn á við hefur þessi hópur ofsótt fatlaða og samkynhneigða konu – sem ofbauð tal þeirra og tók tal þeirra upp – með brjáluðum samsæriskenningum og ásökunum.

Auglýsing
Hins vegar er um að ræða þingmann Samfylkingarinnar sem áreitti með kynferðislegum hætti blaðamann Kjarnans á hátt sem var niðrandi, óboðlegur og hafði víðtækar afleiðingar fyrir þann sem fyrir henni varð, bæði persónulega og faglega.

Afleiðingar

Alþingi hefur gjörsamlega mistekist að takast á við bæði þessi mál þannig að skýr skilaboð séu send út í samfélagið um hvað sé æskileg og umborin hegðun hjá kjörnum fulltrúum, og hvað ekki. Ein birtingarmynd þess er sú að traust til Alþingis hefur hrunið niður í 18 prósent og er nú minna en traust til bankakerfisins.

Allir þingmennirnir sem um ræðir sitja enn á þingi og iðrast mismikið gjörða sinna. En afleiðingar þeirra gjörða sitja allar eftir. Stjórnmálakonum sem hafa greint frá því að hafa upplifað klámfengin ummæli um sig sem ofbeldi þurfa að vinna með gerendunum. Fagfólk í  fötlunarfræðum, og ýmsir aðrir sem gæta hagsmuna fatlaðra eða annarra hópa sem þurfa að eiga við Alþingi til að sækja eða verja mannréttindi sín, þurfa annað hvort að gefa frá sér aðkomu að mikilvægum málum eða mæta fyrir nefndir sem í situr fólk sem níðir fatlaða og minnihlutahópa á opinberum vettvangi.

Blaðamaðurinn þarf að takast á við afleiðingar brotsins – bæði persónulega og faglega. Afleiðingar sem eru dæmigerðar fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Hún þarf jafnframt að setja sér fagleg mörk vegna veru gerandans á sviðinu sem hún starfar á. Um leið og ósæmileg hegðun er umborin og þannig samþykkt þarf þolandinn í þessu tilfelli að bregðast við breyttum aðstæðum en gerandinn ekki. 

Samandregið

Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína samkvæmt stjórnarskrá. Þeir geta því beitt sér fyrir að grundvallarreglur lýðræðisins séu virtar, að vel sé farið með opinbert fé og að girðingar séu reistar um hvað þingmenn geti sagt og gert án þess að það hafi áhrif hæfi þeirra til að sitja við Austurvöll.

Í öllum ofangreindum atvikum felst trúnaðarbrestur milli þings og þjóðar. Sá trúnaðarbrestur hefur svo verið endurtekin með aðgerðarleysi Alþingis í kjölfar atvikanna. Þingmönnum hefur mistekist hrapalega að takast á við siðferðislegar og lýðræðislegar áskoranir sem þeir standa ítrekað frammi fyrir.

Þvert á flokka hafa þeir ákveðið að gera annað hvort ekkert eða ekki nægjanlega mikið í mikilvægum málum sem snúa að trausti á stjórnmál, boðlegri stjórnsýslu, meðferð almannafjár, góðu siðferði og almennri sómakennd.

Þess í stað eru hagsmunir einstakra stjórnmálamanna, stjórnmálaflokka eða stjórnmálakerfisins settir ofar hagsmunum almennings. Þessi heilaga þrenning er mikilvægari en trúverðugleiki, virðing og traust gagnvart stofnuninni sem kjörnir fulltrúar starfa á.

Á þessu sviði er Ísland mikil eftirbátur samfélaga sem við berum okkur saman við.

Í Svíþjóð hafa stjórnmálamenn þurft að segja af sér vegna tengsla við dreifingu á falsfréttum.

Í Bretlandi sögðu fjölmargir þingmenn og ráðherrar af sér þegar fríðindahneykslið svokallaða var opinberað fyrir nokkrum árum. Nokkrir voru sóttir til saka og dæmdir til fangelsisvistar fyrir misnotkun á opinberu fé. Upphæðirnar þar voru í mörgum tilvikum mun lægri en þær sem endurgreiddar voru til íslenskra þingmanna árum saman vegna aksturs. 

Ofrukkaður ferðakostnaður varð til þess að þrír sænskir þingmenn sögðu annað hvort af sér eða buðu ekki aftur fram í síðustu kosningum þar í landi.

Í Noregi sagði ráðherra af sér í fyrravor eftir að hafa látið ummæli um annan flokk en þann sem hún situr á þingi fyrir falla á Facebook. Skömmu síðar sagði annar ráðherra, og varaformaður stjórnarflokks, af sér embætti og störfum vegna þess að hann notaði símann sinn erlendis í trássi við öryggisreglur.

Í Bandaríkjunum var fyrir einu og hálfu ári þrýst fast öldungadeildarþingmann, mest úr eigin flokki, til að segja af sér vegna ásakana um kynferðislegra áreitni, sem hann á endanum varð við. Sama hefur gerst með fulltrúadeildarþingmenn úr báðum flokkum bandarískra stjórnmála.

Og svo framvegis.

Það er hægt að bregðast rétt við siðferðislegum og lýðræðislegum áskorunum.

Enn sem komið er hafa íslenskir stjórnmálamenn valið að gera það ekki.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Jenný Ruth Hrafnsdóttir
Ísland - Finnland: 16 - 30
Kjarninn 23. júní 2021
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Engin smit út frá bólusettum með virkt smit – „Hver er þá áhættan? Mikil eða lítil?“
Ellefu bólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á landamærunum. Engin smit hafa hins vegar greinst út frá þeim. Sóttvarnalæknir segir enn óvíst hvort smithætta fylgi bólusettum með smit en að hún sé „alveg örugglega“ minni en frá óbólusettum.
Kjarninn 23. júní 2021
Benedikt Jóhannesson hefur veifað bless við framkvæmdastjórn flokksins sem hann var aðalhvatamaðurinn að því að stofna.
Benedikt hefur sagt sig úr framkvæmdastjórn og segir framgöngu formanns mestu vonbrigðin
Fyrrverandi formaður Viðreisnar telur að atburðarás hafi verið hönnuð til að koma ákveðnum einstaklingum í efstu sætin á lista flokksins á höfuðborgarsvæðinu og halda öðrum, meðal annars honum, frá þeim sætum.
Kjarninn 23. júní 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
ASÍ hvetur forsætisráðherra til að beita sér fyrir alþjóðlegum fyrirtækjaskatti
Verkalýðshreyfingin kallar eftir því að lagður verði á 25 prósent skattur á hagnað alþjóðlegra stórfyrirtækja þar sem hann verður til.
Kjarninn 23. júní 2021
Viðskipti hófust með bréf Íslandsbanka í gær.
20 fjárfestar keyptu rúmlega helminginn af því sem selt var í Íslandsbanka
Búið er að birta lista yfir stærstu eigendur Íslandsbanka. Auk ríkisins eiga lífeyrissjóðir og erlendir fjárfestingarsjóðir stærstu eignarhlutina. Margir einstaklingar leystu út hagnað af viðskiptunum í gær.
Kjarninn 23. júní 2021
Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um hvort og þá hvenær farið verður að bólusetja börn við COVID-19 á Íslandi.
Ráðleggja óbólusettum – einnig börnum – frá ónauðsynlegum ferðalögum
Sóttvarnarlæknir segir þær ráðleggingar embættisins að óbólusettir ferðist ekki til útlanda gildi einnig fyrir börn. Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um almenna bólusetningu barna.
Kjarninn 23. júní 2021
Miklar sveiiflur hafa verið á virði rafmyntarinnar Bitcoin síðasta sólarhringinn.
Kínverjar snúa baki við Bitcoin og verðið fellur
Verð rafmyntarinnar Bitcoin hefur lækkað umtalsvert á undanförnum dögum en náði sér aðeins á strik síðdegis í dag. Kínverjar hafa reynt að stemma stigu við viðskiptum með myntina þar í landi og nýlega var fjölda gagnavera sem grafa eftir myntinni lokað.
Kjarninn 22. júní 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka hringir hér inn fyrstu viðskipti í Íslandsbanka
73 prósent af viðskiptunum voru í Íslandsbanka
Alls námu viðskipti með hlutabréf Íslandsbanka 5,4 milljörðum króna eftir fyrsta viðskiptadag þeirra í Kauphöllinni í dag. Verð bréfanna er nú fimmtungi hærra en útboðsgengi þeirra.
Kjarninn 22. júní 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari