Stjórnmálamenn sem velja að draga ekki línu í sandinn

Auglýsing

Almenn­ingur á að geta gert ríkar kröfur til þeirra sem bjóða sig fram sem kjörnir full­trú­ar. Þótt þeir geri slíkt fyrir hönd ákveð­inna stjórn­mála­flokka, og þar af leið­andi til að beita sér fyrir ákveð­inni hug­mynda­fræði, þá eru mörg mál sem falla utan þess ramma.

Í þeim málum reynir á getu stjórn­mála­manna að standa í lapp­irnar og taka rétta sið­ferð­is­lega afstöðu. Að taka almanna­heill fram yfir hags­muni ein­stak­linga eða ákveð­inna flokka og búa yfir nægi­legum heil­indum til að standa gegn hinu óboð­lega þegar það lætur á sér kræla. Það getur verið í málum sem snúa að ógnum gagn­vart grund­vall­ar­reglum lýð­ræð­is­ins, þegar undir er rök­studdur grunur um mis­notkun á almannafé eða þegar kjörnir þing­menn sýna af sér ósæmi­lega hegðun gagn­vart borg­ur­un­um.

Kjörnir full­trúar þurfa  að geta dregið línu í sand­inn um hvað sé í lagi og hvað ekki. Í allt of mörgum málum sem upp hafa komið á þessu kjör­tíma­bili, sem er þó ekki einu sinni hálfn­að, hefur þeim mis­tek­ist hrapa­lega að gera slíkt.

1. Kosn­inga­svindl og nafn­laus áróður

Í síð­ustu tveimur Alþing­is­kosn­ingum var nafn­laus áróður mjög áber­andi. Honum var beint að ákveðnum flokk­um, ákveðnum ein­stak­lingum og jafn­vel ákveðnum fjöl­miðl­u­m. 

Auglýsing
Í mörgum til­vikum var hinn nafn­lausi áróður vel fjár­magn­að­ur. Þ.e. á bak við síð­urnar sem deildu honum var umtals­vert fjár­magn, sem notað var til að kaupa birt­ingar á hinum ýmsu miðl­um. Mest var þetta áber­andi á Youtube þar sem áróður frá fyr­ir­bæri sem kall­aði sig „Kosn­ingar 2017“, og var aðal­lega beint gegn helstu and­stæð­ingum Sjálf­stæð­is­flokks­ins, birt­ist miklum fjölda lands­manna vikum saman áður en þeir spil­uðu mynd­band á þeim miðli.

Annað fyr­ir­bæri, Kosn­inga­vakt­in, var mun fyr­ir­ferð­ar­m­inna en ein­beitti sér að áróðri gegn flokkum á hægri væng stjórn­mál­anna. Það var alveg jafn nafn­laust og óboð­legt.

Lög um fjár­mál stjórn­mála­sam­taka og fram­bjóð­enda eru mjög skýr um að það sé óheim­ilt að veita við­töku fram­laga frá óþekktum gef­end­um. Aug­ljóst er öllum með augu að nafn­lausu kosn­inga­á­róð­urs­vél­arnar tóku við slíkum fram­lögum og not­uðu til þess að reyna að hafa áhrif á nið­ur­stöðu kosn­inga.

Til við­bótar voru tveir flokk­ar, Mið­flokk­ur­inn og Flokkur fólks­ins, upp­vísir af því að brjóta lög með því að senda á ólög­legan hátt tugi þús­unda SMS-skila­boða til kjós­enda ann­ars vegar dag­inn fyrir kjör­dag og hins vegar á kjör­dag. Báðir flokkar fengu meira upp úr kjör­köss­unum en síð­ustu skoð­ana­kann­anir höfðu gefið til kynna að þeir myndu fá.

Afleið­ingar

Eðli­leg­ast hefði verið að allt ofan­greint hefði verið skoðað ítar­lega af stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd og í kjöl­farið hefði verið skipuð sér­stök rann­sókn­ar­nefnd Alþing­is, í ljósi þess að um rök­studdan grun um alvar­legt kosn­inga­svindl var að ræða. Lög­brotum hefði svo átt að vísa til lög­reglu.

Hvor­ugt var gert. Alþingi hefur með engum hætti brugð­ist við ólög­legum SMS-­send­ingum tveggja flokka sem þar eiga sæti utan þess að hækka fram­lög til þeirra feiki­lega mik­ið. Málið er ekki einu sinni rætt á þeim vett­vangi.

Varð­andi nafn­lausa áróð­ur­inn þá tóku fram­kvæmda­stjórar allra flokka á þingi sig saman og sendu sam­eig­in­lega yfir­lýs­ingu í apríl í fyrra þar sem þeir lýstu andúð sinni á óhróðri í kosn­inga­bar­áttu. Yfir­lýs­ingin var afar veik og virt­ist því marki brennd að sam­komu­lag hefði náðst milli allra flokka um að gera ekk­ert varð­andi það fikt í lýð­ræð­inu sem átt hafði sér stað í síð­ustu kosn­ing­um, heldur horfa með óljósum hætti til fram­tíð­ar. Í júní 2018 birt­ist svo skýrsla for­sæt­is­ráð­herra um aðkomu og hlut­deild huldu­að­ila í kosn­ingum til Alþing­is. Skýrslan var heilar átta blað­síður og nið­ur­staðan var að ekk­ert lægi fyrir hvort stjórn­­­mála­­sam­tök sem lúta eft­ir­liti Rík­­is­end­­ur­­skoð­unar hafi „staðið á bak við umræddar her­­ferðir eða notið góðs af þeim þannig að slíks fram­lags bæri að geta í reikn­ingum stjórn­­­mála­­sam­tak­anna eða ein­stakra fram­­bjóð­enda.“ Þá væri vand­­séð hvað stjórn­­völd geti gert til að graf­­ast fyrir um hverjir standi á bak við þær.

Ákveðið var að gera ekk­ert.

2. Meint sjálf­taka úr opin­berum sjóðum

Í upp­hafi árs 2018 var leynd loks svipt af því hvað Alþing­is­menn fengu í svo­kall­aðar end­ur­greiðslur vegna akst­urs á eigin bíl­um. Fjöl­miðlar og ýmsir þing­menn höfðu reynt árang­urs­laust að fá þessar sjálf­sögðu upp­lýs­ingar upp á borð­ið. Réttur þeirra þing­manna sem þáðu þessar greiðslur til að halda leynd yfir þeim var rík­ari en réttur almenn­ings til að vita hvað þeir fengu greitt úr almanna­sjóð­um.

Það sem blasti við þegar upp­lýs­ing­arnar voru loks gerðar opin­berar var ekki fal­legt. Mest stakk í augun að einn þing­maður hafði á árinu 2017 tek­ist að keyra 47.644 kíló­metra. Fyrir það fékk hann 4,6 millj­ónir króna end­ur­greiddar vegna ferða­kostn­að­ar, eða um 385 þús­und krónur að með­al­tali á mán­uði. Um 94 pró­sent þeirrar upp­hæðar var vegna ferða á eigin bif­reið. Þetta var sér­stak­lega athygl­is­vert vegna þess að 2017 var skrýtið ár. Ein­ungis 66 þing­fund­ar­daga voru haldnir og heilir 14 dagar teknir undir nefnd­ar­fundi.

Auglýsing
Stjórnarmyndunarviðræður vegna kosn­ing­anna 2016 höfðu nefni­lega teygt sig vel inn í árið, þingið var vart byrjað þegar það fór í langt páska­frí og skömmu eftir það fóru þing­menn­irnir í mjög langt sum­ar­frí. Það tókst vart að kynna fjár­lög í sept­em­ber áður en að þáver­andi rík­is­stjórn sprakk og boðað var til nýrra kosn­inga. Þegar búið var að mynda núver­andi rík­is­stjórn í lok nóv­em­ber var setið í nokkra daga og svo haldið í langt og gott jóla­frí.

Þing­menn voru með öðrum orðum afar lítið í vinn­unni árið 2017.

Síðar kom í ljós, þegar upp­lýs­ingar um akst­urs­kostnað þing­manna voru birtar nokkur ár aftur í tím­ann, að sami þing­maður hafði fengið 23,4 millj­ónir króna í end­ur­greiddan akst­urs­kostnað frá árinu 2013 og fram í nóv­em­ber 2018. Mest fékk hann 5,4 millj­ónir króna á árinu 2014.

Þótt umræddur þing­maður sé svæsn­asta dæm­ið, þá er hann ekki eins­dæmi. Greiddur kostn­aður ýmissa ann­arra þing­manna, úr flokkum all­staðar að úr hinu póli­tíska lit­rófi, var þess eðlis að full ástæða var til þess að kanna nánar rétt­mæti end­ur­greiðslna á hon­um.

Afleið­ingar

For­sætis­nefnd Alþingis tók mál þing­manns­ins til skoð­unar og komst að þeirri nið­ur­stöðu að ekk­ert hafi gefið til kynna að „hátt­erni hans hafi verið and­stætt siða­reglum fyrir alþing­is­menn.“ Nefndin taldi heldur ekki að fram hefðu komið fram neinar upp­­lýs­ingar eða gögn sem sýni að til staðar sé grunur um að refsi­verð hátt­­semi hafi átt sér stað við fram settar kröfur um end­­ur­greiðslur vegna akst­­ur­s­­kostn­aðar sem kæra beri sem meint brot til lög­­­reglu. Samt hafði þing­mað­ur­inn ákveðið að end­ur­greiða skrif­stofu Alþingis 178 þús­und krónur vegna ferða sem honum hafði verið end­ur­greiddar á árinu 2017. Þetta gerði hann vegna þess að honum hafði orðið það ljóst „að það gæti orkað tví­­­mælis að blanda saman ferðum mínum um kjör­­dæmið og ferðum á sama tíma með töku­­fólki ÍNN“.

Í jan­úar 2019 greindi Kjarn­inn svo frá því að þing­menn fái mun hærri end­ur­greiðslur vegna akst­urs­kostn­aðar á þeim tíma­bilum þar sem kosn­ingar fara fram en öðr­um. Ekk­ert hefur verið gert til að kanna mögu­lega mis­notkun á opin­berum sjóðum á þeim tíma­bilum held­ur.

Erfitt er að draga aðra ályktun af þessu en að ekk­ert þyki athuga­vert við það að þing­menn noti skattfé til að reka kosn­inga- eða próf­kjörs­bar­áttu sína eða láta vil­hallan fjöl­miðil taka upp kynn­ing­ar­efni um sig á ferð um kjör­dæm­ið, jafn­vel þótt við­kom­andi hafi við­ur­kennt að hann hefði ekki átt að fá pen­ing­anna end­ur­greidda! Sú yfir­burð­ar­staða sem aðgengi að opin­berum sjóðum skapar þing­mönnum umfram þá sem bjóða sig nýir fram, hvort sem er í þing­kosn­ingum eða próf­kjörum, þykir ekki aðfinnslu­verð. Í raun bara eðli­leg.

Í sam­an­tekt Kjarn­ans, sem birt­ist í apríl 2019, kom skýrt fram að kostn­aður almenn­ings vegna end­ur­greidds ferða­kostn­aðar hefur minnkað umtals­vert eftir að upp­lýs­ingar um hann urðu opin­berar og fjöl­miðlar gátu fylgst með því sem menn rukk­uðu. Þing­mað­ur­inn sem keyrði mest 2017 fékk til að mynda ein­ungis 684 þús­und krónur end­ur­greiddar í fyrra vegna akst­urs á eigin bíl og leigði bíla­leigu­bíla fyrir 1.166 þús­und krónur á því ári. Auk þess tók hann elds­neyti fyrir 633 þús­und krón­ur, flaug fyrir 79 þús­und krónur og keyrt í gegnum jarð­göng eða tók leigu­bíl fyrir alls sex þús­und krón­ur. Sam­an­lagt var kostn­aður skatt­greið­enda vegna ferða­kostn­aðar hans inn­an­lands í fyrra 42 pró­sent minni en árið áður. Þing­mað­ur­inn hefur aldrei ferð­ast fyrir jafn lít­inn pen­ing inn­an­lands frá því að hann var kjör­inn á þing vorið 2013. Árið 2017 var raunar fyrsta heila árið sem mað­ur­inn hefur setið á þingi þar sem ferða­kostn­aður hans inn­an­lands, sem þingið borg­aði, var undir fimm millj­ónum króna. 

Gagn­sæ­ið, umfjöllun fjöl­miðla og við­brögð almenn­ings virð­ast að minnsta kosti hafa skilað því að betur er farið með sporslu­féð. Það var því til ein­hvers unn­ið.

3. Óboð­leg hegðun og athæfi

Undir lok síð­asta árs komu upp mál sem snúa að hegðun og athæfi þing­manna. Ann­ars vegar er um að ræða Klaust­urs­málið svo­kall­aða, þar sem sex manna hópur þing­manna sem nú til­heyra allir Mið­flokkn­um, tal­aði með jákvæðum for­merkjum um spill­ingu og fyr­ir­greiðslu við emb­ætt­is­veit­ing­ar, töl­uðu með klám­fengnum og  öm­ur­legum hætti um nafn­greindar stjórn­mála­konur og niðr­andi um nafn­greinda stjórn­mála­menn. Þá urðu þessir þing­menn, sem eiga að vera full­trúar allrar þjóð­ar­innar á Alþingi, sér til ævi­var­andi skammar með ummælum um fatl­aða og sam­kyn­hneigðra. Í stað þess að iðr­ast og horfa inn á við hefur þessi hópur ofsótt fatl­aða og sam­kyn­hneigða konu – sem ofbauð tal þeirra og tók tal þeirra upp – með brjál­uðum sam­sær­is­kenn­ingum og ásök­un­um.

Auglýsing
Hins vegar er um að ræða þing­mann Sam­fylk­ing­ar­innar sem áreitti með kyn­ferð­is­legum hætti blaða­mann Kjarn­ans á hátt sem var niðr­andi, óboð­legur og hafði víð­tækar afleið­ingar fyrir þann sem fyrir henni varð, bæði per­sónu­lega og fag­lega.

Afleið­ingar

Alþingi hefur gjör­sam­lega mis­tek­ist að takast á við bæði þessi mál þannig að skýr skila­boð séu send út í sam­fé­lagið um hvað sé æski­leg og umborin hegðun hjá kjörnum full­trú­um, og hvað ekki. Ein birt­ing­ar­mynd þess er sú að traust til Alþingis hefur hrunið niður í 18 pró­sent og er nú minna en traust til banka­kerf­is­ins.

Allir þing­menn­irnir sem um ræðir sitja enn á þingi og iðr­ast mis­mikið gjörða sinna. En afleið­ingar þeirra gjörða sitja allar eft­ir. Stjórn­mála­konum sem hafa greint frá því að hafa upp­lifað klám­fengin ummæli um sig sem ofbeldi þurfa að vinna með ger­end­un­um. Fag­fólk í  fötl­un­ar­fræð­um, og ýmsir aðrir sem gæta hags­muna fatl­aðra eða ann­arra hópa sem þurfa að eiga við Alþingi til að sækja eða verja mann­rétt­indi sín, þurfa annað hvort að gefa frá sér aðkomu að mik­il­vægum málum eða mæta fyrir nefndir sem í situr fólk sem níðir fatl­aða og minni­hluta­hópa á opin­berum vett­vangi.

Blaða­mað­ur­inn þarf að takast á við afleið­ingar brots­ins – bæði per­sónu­lega og fag­lega. Afleið­ingar sem eru dæmi­gerðar fyrir þolendur kyn­ferð­is­of­beld­is. Hún þarf jafn­framt að setja sér fag­leg mörk vegna veru ger­and­ans á svið­inu sem hún starfar á. Um leið og ósæmi­leg hegðun er umborin og þannig sam­þykkt þarf þol­and­inn í þessu til­felli að bregð­ast við breyttum aðstæðum en ger­and­inn ekki. 

Sam­an­dregið

Alþing­is­menn eru ein­göngu bundnir við sann­fær­ingu sína sam­kvæmt stjórn­ar­skrá. Þeir geta því beitt sér fyrir að grund­vall­ar­reglur lýð­ræð­is­ins séu virt­ar, að vel sé farið með opin­bert fé og að girð­ingar séu reistar um hvað þing­menn geti sagt og gert án þess að það hafi áhrif hæfi þeirra til að sitja við Aust­ur­völl.

Í öllum ofan­greindum atvikum felst trún­að­ar­brestur milli þings og þjóð­ar. Sá trún­að­ar­brestur hefur svo verið end­ur­tekin með aðgerð­ar­leysi Alþingis í kjöl­far atvikanna. Þing­mönnum hefur mis­tek­ist hrapa­lega að takast á við sið­ferð­is­legar og lýð­ræð­is­legar áskor­anir sem þeir standa ítrekað frammi fyr­ir.

Þvert á flokka hafa þeir ákveðið að gera annað hvort ekk­ert eða ekki nægj­an­lega mikið í mik­il­vægum málum sem snúa að trausti á stjórn­mál, boð­legri stjórn­sýslu, með­ferð almanna­fjár, góðu sið­ferði og almennri sóma­kennd.

Þess í stað eru hags­munir ein­stakra stjórn­mála­manna, stjórn­mála­flokka eða stjórn­mála­kerf­is­ins settir ofar hags­munum almenn­ings. Þessi heilaga þrenn­ing er mik­il­væg­ari en trú­verð­ug­leiki, virð­ing og traust gagn­vart stofn­un­inni sem kjörnir full­trúar starfa á.

Á þessu sviði er Ísland mikil eft­ir­bátur sam­fé­laga sem við berum okkur saman við.

Í Sví­þjóð hafa stjórn­mála­menn þurft að segja af sér vegna tengsla við dreif­ingu á fals­frétt­um.

Í Bret­landi sögðu fjöl­margir þing­menn og ráð­herrar af sér þegar fríð­inda­hneykslið svo­kall­aða var opin­berað fyrir nokkrum árum. Nokkrir voru sóttir til saka og dæmdir til fang­els­is­vistar fyrir mis­notkun á opin­beru fé. Upp­hæð­irnar þar voru í mörgum til­vikum mun lægri en þær sem end­ur­greiddar voru til íslenskra þing­manna árum saman vegna akst­ur­s. 

Ofrukk­aður ferða­kostn­aður varð til þess að þrír sænskir þing­menn sögðu annað hvort af sér eða buðu ekki aftur fram í síð­ustu kosn­ingum þar í landi.

Í Nor­egi sagði ráð­herra af sér í fyrra­vor eftir að hafa látið ummæli um annan flokk en þann sem hún situr á þingi fyrir falla á Face­book. Skömmu síðar sagði annar ráð­herra, og vara­for­maður stjórn­ar­flokks, af sér emb­ætti og störfum vegna þess að hann not­aði sím­ann sinn erlendis í trássi við örygg­is­regl­ur.

Í Banda­ríkj­unum var fyrir einu og hálfu ári þrýst fast öld­unga­deild­ar­þing­mann, mest úr eigin flokki, til að segja af sér vegna ásak­ana um kyn­ferð­is­legra áreitni, sem hann á end­anum varð við. Sama hefur gerst með full­trúa­deild­ar­þing­menn úr báðum flokkum banda­rískra stjórn­mála.

Og svo fram­veg­is.

Það er hægt að bregð­ast rétt við sið­ferð­is­legum og lýð­ræð­is­legum áskor­un­um.

Enn sem komið er hafa íslenskir stjórn­mála­menn valið að gera það ekki.

Meira úr sama flokkiLeiðari