Á síðastliðnum árum hefur töluvert verið fjallað um kennaraskort sem blasir við í leik- og grunnskólum landsins. Í kjölfarið hefur skapast nokkur umræða um kennarastarfið sjálft; virðingu stéttarinnar og hvernig hvetja megi fólk til þess að fara í kennaranám.
Í þessari umræðu eru margir sem hafa haft orð á því hvað kennarastarfið sé skemmtilegt og/eða gefandi. Það hefur lengi farið nokkuð fyrir brjóstið á mér þegar þessi orð eru notuð til þess að lýsa starfi kennara, því þau eru að mínu mati til marks um ákveðið virðingarleysi gagnvart kennurum. Ef starf lögfræðinga eða lækna væri til umræðu á ég erfitt með að ímynda mér að sú umræða sneri að því hversu skemmtilegt og gefandi það væri. Þegar fullyrt er að starf kennarans sé skemmtilegt og gefandi má líta svo á að það sé fyrst og fremst unnið í þágu kennarans sjálfs:
Kennarastarfið er svo skemmtilegt – fyrir kennarann.
Kennarastarfið er svo gefandi – fyrir kennarann.
Málflutningur sem þessi er hvorki til þess fallinn að auka hróður stéttarinnar né gefur hann rétta mynd af raunverulegum ástæðum kennara fyrir starfsvali sínu. Sá sem ætlaði að leggja fyrir sig starf með það efst í huga að það ætti að vera skemmtilegt og gefandi myndi væntanlega velja sér eitthvað annað en þá háskólamenntuðu starfsstétt sem glímir við hvað mestan kvíða, andlegt álag og vefjagigt. Ástæðan fyrir því að fólk leggur fyrir sig starf kennarans ristir dýpra en svo. Kennarastarfið er ekki bara „skemmtilegt og gefandi“, heldur svo miklu, miklu meira en það.
Hvað er kennarastarfið?
Starf kennarans er að undirbúa komandi kynslóðir fyrir framtíðina. Menntun er ein af grunnstoðum samfélagsins og gegnir lykilhlutverki í framþróun þess. Í því felst að tileinka nemendum skapandi og gagnrýna hugsun og kenna þeim að takast á við ófyrirsjáanlegar áskoranir framtíðarinnar á skapandi hátt. Á tímum veldisvaxtar í tækniframförum og yfirvofandi breytinga á loftslagi jarðar vegna hnattrænnar hlýnunar er samfélag okkar að taka hraðari breytingum en nokkru sinni fyrr. Það er erfitt að spá fyrir um hvaða áskoranir munu blasa við ungu fólki í dag þegar fram líða stundir. Þannig má færa rök fyrir því að kennarastarfið hafi sjaldan verið mikilvægara fyrir framtíðina en einmitt nú.
Starf kennarans er hlekkur í að viðhalda öflugu lýðræði í samfélaginu. Einn megintilgangur menntunar er að undirbúa einstaklinga til að verða virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi. Það felur í sér að rækta hjá nemendum lýðræðisleg gildi s.s. samábyrgð, samvinnu, samræðu, samkennd, gagnrýna hugsun og virkni í lýðræðislegu þjóðfélagi. Á tímum þar sem m.a. uppgangur þjóðernispopúlisma og dreifing falsfrétta ógnar lýðræðinu víðs vegar um heiminn má færa rök fyrir því að kennarastarfið hafi sjaldan verið mikilvægara lýðræðinu en einmitt nú.
Starf kennarans er krefjandi sérfræðingsstarf sem þarfnast sérfræðiþekkingar til þess að koma til móts við ólíkar þarfir fólks. Í því felst að koma til móts við einstaklingsbundnar þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska þeirra allra. Kennarinn þarf að hafa sérþekkingu á námi og kennslu til að geta skipulagt athafnir og verkefni sem efla hæfni nemenda og hvetja þá til frekari þekkingaröflunar. Samhliða því þarf að huga að ólíkum þörfum hvers einstaklings sem allir hafa ólíkan bakgrunn, þarfir og færni. Með tilkomu skóla án aðgreiningar og síauknum fjölbreytileika og fjölmenningu í nútíma samfélagi hefur þörf fyrir því að koma til móts við einstaklingsþarfir nemenda aukist til muna. Þannig má færa rök fyrir því að sérfræðiþekking kennara á námi og kennslu hafi sjaldan verið mikilvægari en einmitt nú.
Þetta er aðeins brot af því sem kennarastarfið snýst um enda ekki ætlunin að setja fram tæmandi lista yfir eðli þess. Orð eins og „skemmtilegt og gefandi“ gefa aftur á móti ekki rétta mynd af starfinu. Það er því nauðsynlegt í allri umræðu um kennarastarfið að benda á raunverulegt eðli þess og þá virðingu sem starfið á skilið.
Kennarastarfið er mikilvægt – fyrir framtíðina.
Kennarastarfið er mikilvægt – fyrir lýðræðið.
Kennarastarfið er mikilvægt – fyrir fjölbreytileikann.
Kennarastarfið er fyrst og fremst mikilvægt.
Höfundur er grunnskólakennari.