Guðmundur Andri Thorsson skrifar þó nokkuð góða grein um áfengi og framlagt frumvarp um sölu þess í Kjarnann nýlega. Í greininni fer GAT ágætlega yfir málið en hann telur fram kosti frelsisins og þess sem hann kallar umhyggju. GAT gerir einnig lýðheilsusjónarmiðinu ágæt skil í nokkuð loðnum texta.
Í einu atriði ber þó skáldgyðjan alþingismanninn ofurliði. Hann dregur nafn mitt inn í umræðuna og segir mig hafa bent á það í ræðum að ég „telji afnám bjórbanns hafa verið mikið óheillaskref á sínum tíma og að [ég] vildi helst banna bjór aftur væri það hægt“.
Þarna snýr þingmaðurinn öfugt á skáldfáknum. Ég hef aldrei lagt til að bjórbann yrði tekið upp að nýju, þvert á móti hef ég sagt í ræðum að slíkt sé ekki valkostur. Hins vegar hef ég bent á að frá því að sala bjórs var leyfð árið 1989 og til ársins 2012 jókst neysla landsmanna á hreinum vínanda á ári úr 4,7 ltr. í rúma sjö. Nýjustu tölur herma drykku á allt að 8,5 ltr. af hreinum vínanda á mann á ári. Væntanlega eiga túristar nokkurn skammt þar í.
Ég hef haldið því fram í ræðum að við eigum að læra af reynslunni af sölu áfengs öls sem var reyndar fyrirséð í upphafi því aukið aðgengi að áfengi eykur drykkju. Mikill hluti þeirrar aukningar í drykkju sem orðið hefur á þessum árum hefur átt sér stað á veitingahúsum en þeim hefur fjölgað með áður óþekktum hætti á tímabilinu (og nei, ég vill ekki setja skorður við fjölda veitingahúsa með hertri löggjöf).
Fjölgun útsölustaða ÁTVR á tímabilinu hefur einkum orðið á landsbyggðinni þar sem áfengisútsala hefur í mörgum tilfellum komið í stað pósthúss sem áður var helsta dreifingarstöð áfengis en þeim hefur fækkað mjög undanfarin ár.
Í grundvallaratriðum tel ég að við Guðmundur Andri Thorsson séum sammála í afstöðu til áfengis og dreifingu þess. Ég tel að við tökum báðir undir orð Salómós að „hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta“. Ég tel að við séum einnig sammála álitri flestra stofnana sem koma að betra heilbrigði um að aukið framboð, aukinn sýnileiki áfengis eykur drykkju.
Samkvæmt könnunum og reiknilíkönum sem liggja fyrir má ætla að með samþykkt fyrirliggjandi frumvarps myndi árleg neysla hreins vínanda á mann aukast í um 11 lítra á ári. Slíkri neysluaukningu myndu fylgja stóraukning krabbameinstilfella, skorpulifrar, hjarta- og æðasjúkdóma að ógleymdum geðröskunum og mikla aukningu í þörf fyrir áfengismeðferð.
Ég tel að við Guðmundur Andri Thorsson séum einnig sammála því að markaðsvæðing áfengissölu sé óæskileg. Ég held að við séum báðir hugsi yfir því að eymd eins skapi auð annars. Ég vona því að ræður mínar sem GAT hefur misheyrt svona illa verði ekki til þess að hann líti ellefta (eða því sem næst) frumvarpið um sölu áfengis í almennum verslunum hýrari augum.
Að því sögðu bið ég þingmanninn að hafa það sem sannara reynist því eins og hann veit eru ræður okkar varðveittar á vef Alþingis og hægur vandi öllum sem áhuga hafa að kynna sér þær.
Höfundur er þingmaður Miðflokksins.