Fyrirtíðaspenna í fullveldinu

Auður Jónsdóttir rithöfundur veltir fyrir sér tíðarandanum á Íslandi, óttanum og samskiptaörðugleikunum. Til þess að fá skýrari mynd af ástandinu þá spjallar hún við Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmann Vinstri grænna.

Auglýsing

Í síbylju síðustu missera hafa pælingar um fullveldi Íslands í ýmsu samhengi verið áberandi. Í kjölfar hátíðarfundarins á Þingvöllum vegna afmælis fullveldisins blossuðu upp umræður um hvað þætti viðeigandi á slíkum viðburði, ekki síst vegna komu Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins sem hefur leitt áberandi þjóðernissinnaðan flokk, Danska þjóðarflokkinn, til valda og áhrifa í Danmörku, flokk sem hefur með ýmsu móti þanið út mörk hatursorðræðu í garð innflytjenda og hælisleitenda þar í landi.

Upp á síðkastið hefur maður líka heyrt suma velta fyrir sér hvort innleiðing þriðja orkupakkans vegi að fullveldi Íslands og á sama tíma hafa einhverjir velt fyrir sér hvort dómur Mannréttindadómstóls Evrópu, vegna skipan dómara við Landsrétt af hendi þáverandi dómsmálaráðherra Sigríðar Andersen, hafi hrist stoðir fullveldis Íslands, en téð Sigríður hefur orð á sér fyrir að vera svo harðvítug í málefnum hælisleitenda að það hvarflar að manni að þær Pia gætu haldið gott tepartí saman.

Og svo eru þeir auðvitað alltaf til, einhver staðar, sem óttast að koma hælisleitenda til Íslands vegi að eins konar ímynd um fullveldi Íslands. 

Auglýsing

Einhvern veginn fannst manni frægt atvik á fundi Sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi og Garðabæ um þriðja orkupakkann, þann 27. apríl síðastliðinn, afhjúpa undirliggjandi togstreitu og spennu í samfélaginu, atvikið var skáldleg táknmynd fyrir tíðaranda í samfélagi sem tvístígur leitandi í samtali við alþjóðasamfélagið.  

Útlendingurinn með bakpoka

Á fundinum biðluðu hælisleitendur af tilfinningaþrungnum ákafa til núverandi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Íslands, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, flokkssystur Sigríðar sem starfar nú sem dómsmálaráðherra í hennar stað, að fá að tjá sig um og ræða stöðu hælisleitenda. Óþarfi kannski að tíunda atburðina á fundinum sem rötuðu í flesta fjölmiðla í kjölfarið, uppákomuna þegar óeinkennisklæddir menn gengu í hlutverk the police og reyndu að koma mönnunum út.

Skömmu eftir uppákomuna mátti lesa viðtal Jóhanns Páls Jóhannssonar, blaðamanns á Stundinni, við Sigurð Sigurbjörnsson, formann Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Þar kom fram að fólk á staðnum hefði haft áhyggjur af því að hælisleitendur væru með bakpoka meðferðis. En forvitnilegt er að lesa þennan hluta viðtalsins:

Aðspurður hvers vegna fólk hafi haft áhyggjur af því að manneskja væri með bakpoka segir Sigurður: 

„Menn hugsa ýmsa hluti og það fór slatti af fólki út úr salnum þegar þetta gerðist. Fólk hafði áhyggjur af ástandinu sem myndaðist þarna. Það var reynt að fá þá [hælisleitendurna] til að róa sig og þeim bent á að þetta væri hvorki staður né stund til að taka þessa umræðu. Þetta truflaði mannskapinn og fólk varð hrætt. Þessi einstaklingur var eitt, en svo voru hróp og köll annars staðar frá.“

Hann heldur áfram: „Við erum nýbúin að hlusta á fréttir frá Sri Lanka um að ein af sprengjunum hafi komið frá bakpoka. Það gerðist í Boston-maraþoninu fyrir örfáum árum. Ég hugsaði þetta ekki sjálfur. En þetta heyrðist eitthvað aðeins, pískur um þennan bakpoka.“ 

En heldurðu að sams konar áhyggjur hefðu komið upp ef hvítur Íslendingur væri með bakpoka á fundinum? 

„Hefurðu heyrt um einhvern Íslending með bakpoka sem sprengir sig upp?“ 

Nei, en maður hefur heldur ekki heyrt af hælisleitanda á Íslandi með bakpoka sem sprengir sig upp. 

„Nei, en við vitum heldur ekki alltaf hverjir þessir hælisleitendur eru. Á meðan þeir koma með fölsuð skilríki, þá vitum við ekki hverjir þeir eru og þá er ekki hægt að kanna það.“

Anders Breivik þurfti engin fölsuð skilríki ... þú skilur hvað ég er að fara?

„Já, ég skil það alveg og þú sérð hvað gerðist á Nýja Sjálandi. Við erum með ofsafengna brjálæðinga sem eru hvítir öfgahægrimenn. Við höfum séð hvernig andúðin og öfgarnar blossa upp í okkar samfélagi miðað við hvernig menn skrifa og orðræðan er.“ 

Hvernig tíðarandi?

Fyrsta sem manni dettur í hug við að lesa viðtalið er ótti. Órökréttur ótti fólks við allt framandi, í samfélagi sem þangað til ekki fyrir svo löngu síðan var jafnvel hættulega einsleitt í einangruðu fámenni. Fólki í einsleitu umhverfi hættir til að óttast frekar innflytjendur og fólk frá öðruvísi menningarheimum en þeir sem hafa þrifist í fjölmenningarlegum samfélögum.

Ísland hrærist núna á einhvers konar flekaskilum umbreytinga. Það tengist sífellt meira umheiminum og umheimurinn því. Undirliggjandi þessum jarðhræringum kraumar spenna í slíkum mæli að fólk finnur til ótta um að hugmyndin um íslenskan veruleika hrynji eins og illa byggð blokk við að komast í of nána snertingu við samfélag þjóðanna, þannig að hagsmunir landans, sérkenni og forréttindi týnist undir rústunum.

„Íslenskt samfélag er ekki lengur hið erkiíslenska samfélag sem ól svo mörg okkar af sér.“ Mynd: Bára Huld Beck

Hvernig tíðarandi er þetta? spyr kona sig af því að nokkrum tímum eftir að hún skrifar þetta á hún að taka þátt í málþingi Félags áhugamanna – eða fólks! – um heimspeki um umdeilda notkun orðsins maður í íslensku. Eru konur menn? 

Já, ætlar hún að segja og reyna að rökstyðja það, samt opin fyrir rökum annarra, allavega nógsamlega til að spyrja sig í kvenkyni. Því í þessum tíðaranda leysist merking svo margs upp, líka hugtök í tungumálinu inngróin í vitund okkar, jafnvel svo að þau snúast upp í andstæðu sína þegar við greinum inntak þeirra.

Valdið sem býr í tungumálinu, rétt eins og valdið sem býr í ríkisborgararétti, færir okkur óumbeðna getu til að útskúfa öðrum.

Þetta er jú flæðandi tíðarandi. Svo flæðandi að á hverjum degi dreitlar merkingin úr gömlum táknum. Hún flöktir. Íslenskt samfélag er ekki lengur hið erkiíslenska samfélag sem ól svo mörg okkar af sér. Það er fullveldi í alþjóðasamfélagi, fullveldi í stöðugu samtali við umheiminn. Kannski að helsta ógnin sem steðji að því, í stöðugum örum umbreytingum, sé að taka ekki nógsamlega djúpan og margþættan þátt í því samtali. En kannski að ótti fólks leiti í ákveðinn farveg, birtingarmyndin ótti við umheiminn, meðan hann stafar kannski frekar af óöryggi vegna örra breytinga á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar svo fólk óttast um stöðu sína og efnahagslega afkomu. Snýst þetta kannski allt um ótta um afkomu og öryggi?

Tölum saman

Kona velti því fyrir sér en hugur hennar er álíka takmarkaður í einrúmi og samfélag utan alþjóðasamskipta svo hún bað stjórnmálakonu, áberandi sjálfstætt þenkjandi, að ræða þetta ábyrgðarlaust við sig.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður ríkisstjórnarflokksins VG, hefur tjáð sig töluvert um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu, auk þess sem hún hefur látið sig varða málefni hælisleitenda. Svo það er ekki úr vegi að spyrja: Hvernig skynjar þú tíðarandann?

„Tíðarandinn núna er svolítið margslunginn og marglaga og ég skynja almennt einhverja undirliggjandi spennu í samfélagi okkar,“ segir Rósa og bætir við að þessa spennu megi skynja víðar.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir Mynd: Birgir Þór

„Hér hjá okkur finnst mér ég hafa skynjað spennu tengda óáþreifanlega óvissu í efnahagslífinu – sem allir eru einhvern veginn hræddir við. Á einhvern hátt snýst þessi spenna um átök um að deila með öðrum. Deila húsnæði, gæðum, kjörum og orku og auðlindum með öðrum. Lágfargjaldaflugfélag rekið af sjálfumglöðum karli fór lóðrétt á hausinn og fólk varð hrætt við atvinnuleysi, að festast á Íslandi, meðan verkföll vomuðu yfir okkur. Svo tók eiginlega steininn úr – eða kannski má segja að einhvers konar spennulosun hafi átt sér stað þegar lögreglan spreyjaði hælisleitendur á Austurvelli. Í fyrsta sinn sem sprey er notað síðan í búsáhaldabyltingunni fyrir áratug,“ veltir hún hugsi fyrir sér en beinir svo talinu að hræðslu og ótta við þriðja orkupakkann sem valdi fólki líka óöryggi og sé raunar spennuvaldandi.

„En svo er eiginlega ekki almennileg innistæða fyrir neinu af þessari spennu; er um raunverulega óvissu að ræða í efnahagslífinu? Miðað við hvað?“ spyr hún í óræðum tón og rökstyður það með að ennþá séu til dæmis fimmtán til tuttugu og fimm flugfélög að fljúga til og frá landinu og þó svo að 1400 manns hafi misst vinnuna – og það sé slæmt – þá hafi samt raunin verið sú að atvinnuleysisstigið hefur ekki rokið upp.

„Verkföllin urðu ekki langlíf og úr þeirri deilu leystist. Hælisleitendur ógna ekki tilveru okkar hér á Íslandi á nokkurn hátt. Og orkupakkinn ... blessaður orkupakkinn sem er notaður í einhverri óttapólitík. En við erum að upplifa og í allar áttir – helst í pólaríserandi  áttir – sem er slæmt. Gamlir andspænis ungum, landsbyggð andspænis höfuðborgarsvæðinu, konur andspænis körlum – eins og í þingumræðum um þungunarrof sem ég var að koma út. En aðallega upplifi ég þetta eins og mótstöðu gagnvart einangrun. Alþjóðasamstarf og alþjóðasamvinna gagnvart einangrunarhyggju. Í sjálfu sér er það ógnun við fullveldið okkar því fullveldið okkar er ekki virkt eða aktíft nema í alþjóðasamstarfi við aðrar þjóðir og alþjóðastofnanir.“

Kona drekkur jurtamjólkurkaffi sitt hugsi á góðborgarakaffihúsinu Vest meðan þingkonan pælir út og suður. Úti flöktir tíðarandinn, fyrirtíðaspenna í fullveldinu. Og þær velta fyrir sér af hverju stjórnendur á téðum flokksfundi um Orkupakkann fögnuðu ekki tækifærinu til alþjóðlegs samtals. Svo maður vitni í ökuþórinn Ásmund Friðriksson: Þurfum við ekki að taka umræðuna?

Snýst ekki allt um samtal? Það frábæra tæki tungumálsins sem flöktir sjálft til að leiða okkur áfram til skilnings. Tungumálið ljáði okkur næga sérstöðu til að öðlast fullveldi sem okkur hefði þó tæpast tekist, ef ekki væri fyrir áhrif frá öðrum þjóðum. Kona er á því að við hlúum best að fullveldinu með því að pæla í tungumálinu okkar í stöðugu, opnu samtali við umheiminn. Kannski niðurstaða beggja yfir jurtakaffinu og avókadósalatinu. Þær eru sammála um það og líka að í þessu verndaða umhverfi ráðafólks á fundi Sjálfstæðisfélaganna um orkupakkann – þar sem sat æðsti yfirmaður dómsmála og málefna hælisleitenda og æðsti yfirmaður utanríkismála og alþjóðastarfs – já, fundi þessa fólks sem telst vera fullgildir borgarar fullveldisins, með öllum þeim réttindum sem því fylgir, hefði verið svo fallega mennskt að gefa sér smá stund og tala við örvæntingarfullar manneskjur í ólíkt verri stöðu. Segja: Tölum saman!


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit