Reglulega er gagnrýni beint að því hvernig hugmyndin um skóla án aðgreiningar er framkvæmd. Þessi gagnrýni berst helst frá hagsmunasamtökum foreldra sem telja þörfum barna sinna ekki sinnt sem skyldi, sett fram af kennurum sem hafa ekki undan verkefnum sínum og loks af stjórnmálafólki. Skóli án aðgreiningar er hins vegar óljóst hugtak og því er ekki sjálfsagt að við séum öll að tala um sama hlutinn. Hugtakið skóli án aðgreiningar (e: inclusive education) er helst notað á þremur sviðum; það er í skólarannsóknum, í skólastefnu og í daglegu skólastarfi. Á öllum þessum sviðum má finna mismunandi skilgreiningar á hugtakinu sem veldur ákveðnum vanda þegar kemur að umræðum um skipulag þessarar hugmyndafræði. Í þessari grein ætla ég að varpa ljósi á hvernig mismunandi birtingarmyndir hugtaksins skóli án aðgreiningar flækja umræður um menntamál.
Ætla mætti að það væri til sameiginleg nálgun á merkingu hugtaksins í þeim rannsóknum sem fjalla um skóla án aðgreiningar. Engu að síður hefur nýleg greining sýnt fram á að í rannsóknum eru notaðar fjórar mismunandi skilgreiningar á hugtakinu. Skilgreiningarnar eru í stigvaxandi röð sem merkir að skilgreining a), oft kölluð staðsetningarskilgreiningin, er sú einfaldasta, eins konar grundvallaratriði og hver þeirra skilgreininga sem á eftir fylgja fela í sér þá næstu þar á undan.
Samnefnari þessara skilgreininga er viljinn til að forðast handahófskennda aðgreiningu einstakra nemenda frá jafnöldrum sínum og jafnvel að tryggja að þeir fái þjónustu í skólum sem þeir myndu ganga í ef þeir tilheyrðu hinu breiða normi nemenda. Það er þó munur milli skilgreininganna hvað varðar annars vegar mikilvægi þess hvar nemendanum er skipað í námshóp/bekk og þess hvernig félagslegri hlutdeild þeirra og námsþörfum er sinnt. Því má segja að skóli án aðgreiningar sé fyrst og fremst kennslufræðilegt (frekar en sérkennslufræðilegt) verkefni sem snýst um grundvallarspurningar kennslu: Hvernig er kennsla ákveðinna nemendahópa skipulögð, hvað varðar efnivið, markmið, þáttöku og hlutdeild?
Það hvernig fjallað er um hvernig nemendahópurinn er aðgreindur frá öðrum hópum innan skóla án aðgreiningar er einnig mjög mismunandi í umfjöllun einstakra rannsakenda. Sumir einblína á nemendur með þarfir fyrir stuðning og/eða nemendur með fatlanir, það eru þó margbreytilegir hópar og langt frá því að vera einsleitir. Aðrir vilja fremur fjalla um „alla nemendur“, en áhættan með því er að við missum sjónar á nemendahópum sem þurfa á sérstakri aðstoð eða sérstöku námsefni að halda. Það má líka benda á að fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að það er mun algengara að börn sem koma úr fjölskyldum með lága félagslega stöðu og/eða veikan efnahagslegan bakgrunn eða börn innflytjenda séu talin þurfa á sérstökum stuðningi að halda. Það kemur í ljós við skilgreiningar á nemendum sem falla utan við normið í skólakerfinu að staða þeirra sé háð valdahlutföllum í samfélaginu allmennt.
Þetta þýðir að þegar fjallað er um skóla án aðgreiningar er hætta á að við séum ekki endilega að fjalla um eða rannsaka nákvæmlega sömu hlutina, hvorki hvað varðar nemendahópinn né skólastarfið.
Menntastefnuskjöl eru ekki mikið skýrari hvað þetta varðar því þar má sjá að það eru mjög mismunandi túlkanir á hugtakinu skóli án aðgreiningar. Út frá Salamanca yfirlýsingunni, en það er grundvallarskjal hugmyndafræðinnar um skóla án aðgreiningar, má túlka hugtakið sem svo að það snúist um að skapa framtíðarsamfélag fjölbreytninnar (d), það að mæta þörfum allra nemenda (c) en einnig að lögð sé áhersla á stöðu nemenda með sérþarfir og að þeim sé gert mögulegt að vera í venjulegum námshópum/bekkjum (a). Salamanca yfirlýsingin er alþjóðlegt stefnuskjal með það að markmiði að breyta starfsemi og menntakerfum fjölmargra landa og því er þessi skortur á skýrleika kannski skiljanlegur (annars skrifar enginn undir). Vandinn er að hann smitar einnig í lagabálka og reglugerðir hinna ýmsu landa, þar með er Ísland talið. Skipulag daglegs skólastarfs í dreifstýrðu skólakerfi með mismikil úræði geta þar af leiðandi orðið mjög ólík hvað þetta varðar.
Hvað varðar daglegt skólastarf og hugtakið skóli án aðgreiningar má benda á að hlutverk sérkennslufræða í skólastarfi er ekki alltaf skýrt. Innan sérkennslufræðasviðsins má finna mismunandi áherslur sem tóna mismikið við hugmyndina um skóla án aðgreiningar. Annars vegar má finna hugmyndina um sérkennslu sem verkfæri til að sinna ákveðnum nemendum þar sem verkfærum er beitt til að „normalisera“ nemendur sem ekki ná að fylgja hópnum eða sem trufla kennslu. Hins vegar má sjá hygmyndina um að sérkennsla eigi fyrst og fremst að vera fyrirbyggjandi og uppbyggjandi starfsemi sem kemur í veg fyrir vandamál með því að stuðla að þróun stofnunarinnar og kennslu. Rannsóknir t.d. í Svíþjóð benda til þess að á meðan seinni hugmyndin um sérkennslu sé eitthvað sem nemendur í sérkennslufræðum og vísindafólk innan sviðsins aðhyllast, virðist fyrri hugmyndin vera ráðandi í skólastarf bæði hvað varðar hvernig vandamál eru útskýrð (þ.e. fyrst og fremst þáttum í fari nemendans) og hvaða aðferðum er beitt (sérstakir hópar eða sérkennsla fyrir einstaklinginn). Pólitísk útspil þar sem skóli án aðgreiningar er véfengdur á óskýrðum forsendum eru líklegt til að hlaða undir þess háttar hugmyndir og starfsemi.
Mörg þessara útspila nálgast skóla án aðgreiningar til dæmis út frá staðsetningarskilgreiningu (a), þar sem staðsetning nemenda með sérþarfir í venjulegum bekk er aðalmarkmið og merki um vel heppnaða starfsemi. Þótt þetta þyki almennt ófullnægjandi skilgreining er gagnrýninni beint að þess háttar skipulagi og eftirfarandi rökum oft beitt: 1) nemendur með sérþarfir trufla aðra nemendur og hafa neikvæð árif á námsárangur þeirra, 2) þeir krefjist of mikils af kennurum sem eru þegar undir of miklu álagi og 3) það væri betra fyrir þessa nemendur ef þeim væri sinnt af starfsfólki sem hefur til þess kunnáttu og hæfni og þá í minni hópum eða sérskólum. Þessi rökfærsla er þó ýmsum vandkvæðum bundin.
Hvað varðar fyrstu rökin, þá eru þar lögð að jöfnu þarfir fyrir sérstakan stuðning, greiningar, fatlanir og truflandi hegðunar. Sú aðferð er ósköp einfaldlega ekki rétt. Þar að auki má benda á að viðbrögð við truflandi hegðun eru ekki endilega sótt í verkfæratösku hefðbundinnar sérkennslu. Hvað varðar önnur rökin sem hér voru nefnd þá má benda á að aukið starfsálag kennara sé að vissu leiti útskýranlegt með fjölbreyttari nemendahóp, en það má ekki gleyma öllum kerfisbundnu útskýringunum sem eru á ábyrgð þeirra sem skipuleggja og fjármagna menntakerfið. Hér má nefna sem dæmi skort á menntuðum kennurum, aukinni pappírsvinnu, hlutfallslega lægri fjárframlögum og auknum sparnaðarkröfum innan sveitarfélaga á sama tíma og gerðar eru kröfur um aukna „framleiðni“ svo ekki sé undan skilin neikvæð umræða um kennara og skóla. Það að kröfur til kennara séu stigvaxandi án þess að þeim fylgi tími eða fjárhagsleg úrræði svo ekki sé talað um orðræðuna um kreppu menntakerfisins er þó ekki eingöngu bundið við Ísland. Ef við ætlum að leggja ábyrgðina á kreppu menntakerfisins á skóla án aðgreiningar erum við að leggja hana á þá er síst skyldi.
Hvað varðar þriðju rökin, má benda á að minni námshópar koma ekki eingöngu nemendum með sérþarfir vel. Stærð bekkja setur starfi kennara skorður og hefur hún fyrir vikið áhrif á árangur og vellíðan nemenda. Það væri þá vænlegra til árangurs að krefjast úrræða sem gefa tækifæri til endurskipulags skólastarfsins svo það komi öllum nemendum til gagns. Að auki má benda á að nemendur innan sömu greiningaflokka þurfa ekki alltaf á samskonar úrræðum að halda þar sem þau glíma ekki endilega við sömu vandamál. Þessi rök gera þar með ráð fyrir meiri einsleitni innan nemendahópa en er réttlætanlegt.
Á hinn bóginn er rétt að upplifun nemenda af því að vera í venjulegum bekk getur verið gríðarleg, ekki síst ef félagslegum þröfum og námsárangri þeirra er ekki sinnt sem skyldi. Þá getur það að flytjast í minni hóp verið mikill léttir. Þetta er enn ein vísbendingin um að bekkjarskipan sé hvorki nægilegur né nauðsynlegur mælikvarði á skóla án aðgreiningar. Það eru til staðar góð rök fyrir því að leyfa fleiri skipulagsform fyrir kennslu þar sem gengið er út frá þörfum einstaklinganna fremur en handahófskenndum skilgreiningum. Þegar hugmyndin um skóla án aðgreiningar er smækkuð í að snúast um bekkjarskipan á kostnað þarfa einstaklinganna erum við fremur að tala um skrifræðislegar sparnaðaraðgerðir en menntafræðilega hugmyndafræði. Það hlutverk skóla, að mennta alla nemendur, með tilliti til þeirrar fjölbreytni sem hver hópur ber með sér, er bæði bundið í íslenska lagasetningu sem og alþjóðlega sáttmála. Það væri við hæfi að krefja stjórnmálafólk, ríki og sveitarfélög um þau úrræði sem þarf til að uppfylla þetta hlutverk fremur en sætta sig við skipulagið eins og það er og byrja svo að sortera þá nemendur út sem ekki passa inn í rammana.
Það má líka nálgast efasemdir hvað varðar hugmyndina um skóla án aðgreiningar. Auk þess eru kröfur um fleiri smáhópa og hverslags sértæk úrræði út frá greiningu á hagkvæmni þeirra lausna sem stungið er uppá. Það er langvarandi kennaraskortur á Íslandi og hann er líklegur til að versna í ljósi fjölda þeirra kennara sem fara á eftirlaun á næstu árum. Það má einnig benda á að sérkennarar eru skortvara víða um land og að með þeim eru reyndir kennarar að hverfa frá bekkjarkennslu til að sinna minni hópum fyrir hærri laun (í bestu tilfellum) og kosta því skólakerfið hlutfallslega meira.
Hróp eftir fleiri sértækum úrræðum eiga sér stað innan ramma þessara efnahagslegu staðreynda: Kennaraskorts, niðurskurðar og hagkvæmniskrafna. Það er því líklegt að kennarar muni ekki standa frammi fyrir minni bekkjum ef ákveðnum nemendahópum væri kippt út heldur muni verða bætt við í bekkina eða útbúnar færri og stærri einingar og þar með lausnir sem ekki munu auðvelda kennurum lífið. Þar að auki er líklegt að fleiri sértæk skipulagsúrræði kalli eftir fleira fólki innan kerfis sem ekki stendur undir þeim kröfum eins og er. Allt þetta er því líklegt til að auka á kennaraskort og ýta undir fyrirkomulag þar sem ómenntaður starfskraftur sinnir hlutverki kennara.
Menntamál eins og skóli án aðgreiningar eru felld inn í kerfisskipulag og hugmyndafræðilegt samhengi. Það er því ekki hægt að nálgast skóla án aðgreiningar sem einangraðan vanda sem hægt sé að lagfæra til hliðar við kerfið. Slík umræða er dæmd til að leggja fram einfaldaðar lausnir, pólitískan leikaraskap og framlengja kerfislægan vanda frekar en að breyta hlutunum til hins betra fyrir kennara og nemendur. Skóla án aðgreiningar er iðulega lýst sem „fallegri hugmynd“ sem „virki ekki“. Hugmyndin er þó með ræturnar kyrfilega staðsettar í lýðræðislegri hugmyndafræði um mannréttindi allra barna þar sem fjölbreytni er bæði álitin markmið í sjálfri sér og verkfæri til að móta framtíðarsamfélagið. Þetta eru hugmyndir sem flestir þeirra styðja sem fjalla um menntamál, hvort sem um er að ræða stjórnmálafólk, forsprakka hagsmunahópa, kennara eða rannsakendur. Á tímum pólitískra vonbrigða þar sem pólitískar öfgahreyfingar fá aukið fylgi og þar sem fólk er dregið í dilka eftir trú, bakgrunni, tungu og húðlit, er því miklu frekar ástæða til að standa vörð um og gefa skóla án aðgreiningar ærlegt tækifæri. Það krefst þess hinsvegar að metnaður þeirra sem ráða sé til staðar.
Höfundur er lektor við Háskólann í Uppsölum, Svíþjóð.