Hver ber ábyrgð á skóla án aðgreiningar?

Dr. Gunnlaugur Magnússon fjallar um skóla án aðgreiningar í aðsendri grein. Hann segir að ekki sé hægt að nálgast skóla án aðgreiningar sem einangraðan vanda sem hægt sé að lagfæra til hliðar við skólakerfið.

Auglýsing

Reglu­lega er gagn­rýni beint að því hvernig hug­myndin um skóla án aðgrein­ingar er fram­kvæmd. Þessi gagn­rýni berst helst frá hags­muna­sam­tökum for­eldra sem telja þörfum barna sinna ekki sinnt sem skyldi, sett fram af kenn­urum sem hafa ekki undan verk­efnum sínum og loks af stjórn­mála­fólki. Skóli án aðgrein­ingar er hins vegar óljóst hug­tak og því er ekki sjálf­sagt að við séum öll að tala um sama hlut­inn. Hug­takið skóli án aðgrein­ingar (e: inclusive education) er helst notað á þremur svið­um; það er í skóla­rann­sókn­um, í skóla­stefnu og í dag­legu skóla­starfi. Á öllum þessum sviðum má finna mis­mun­andi skil­grein­ingar á hug­tak­inu sem veldur ákveðnum vanda þegar kemur að umræðum um skipu­lag þess­arar hug­mynda­fræði. Í þess­ari grein ætla ég að varpa ljósi á hvernig mis­mun­andi birt­ing­ar­myndir hug­taks­ins skóli án aðgrein­ingar flækja umræður um mennta­mál.

Ætla mætti að það væri til sam­eig­in­leg nálgun á merk­ingu hug­taks­ins í þeim rann­sóknum sem fjalla um skóla án aðgrein­ing­ar. Engu að síður hefur nýleg grein­ing sýnt fram á að í rann­sóknum eru not­aðar fjórar mis­mun­andi skil­grein­ingar á hug­tak­inu. Skil­grein­ing­arnar eru í stig­vax­andi röð sem merkir að skil­grein­ing a), oft kölluð stað­setn­ing­ar­skil­grein­ing­in, er sú ein­faldasta, eins konar grund­vall­ar­at­riði og hver þeirra skil­grein­inga sem á eftir fylgja fela í sér þá næstu þar á und­an.

Mynd: AðsendSam­nefn­ari þess­ara skil­grein­inga er vilj­inn til að forð­ast handa­hófs­kennda aðgrein­ingu ein­stakra nem­enda frá jafn­öldrum sínum og jafn­vel að tryggja að þeir fái þjón­ustu í skólum sem þeir myndu ganga í ef þeir til­heyrðu hinu breiða normi nem­enda. Það er þó munur milli skil­grein­ing­anna hvað varðar ann­ars vegar mik­il­vægi þess hvar nem­end­anum er skipað í náms­hóp/bekk og þess hvernig félags­legri hlut­deild þeirra og náms­þörfum er sinnt. Því má segja að skóli án aðgrein­ingar sé fyrst og fremst kennslu­fræði­legt (frekar en sér­kennslu­fræði­legt) verk­efni sem snýst um grund­vall­ar­spurn­ingar kennslu: Hvernig er kennsla ákveð­inna nem­enda­hópa skipu­lögð, hvað varðar efni­við, mark­mið, þát­töku og hlut­deild?

Það hvernig fjallað er um hvernig nem­enda­hóp­ur­inn er aðgreindur frá öðrum hópum innan skóla án aðgrein­ingar er einnig mjög mis­mun­andi í umfjöllun ein­stakra rann­sak­enda. Sumir ein­blína á nem­endur með þarfir fyrir stuðn­ing og/eða nem­endur með fatl­an­ir, það eru þó marg­breyti­legir hópar og langt frá því að vera eins­leit­ir. Aðrir vilja fremur fjalla um „alla nem­end­ur“, en áhættan með því er að við missum sjónar á nem­enda­hópum sem þurfa á sér­stakri aðstoð eða sér­stöku náms­efni að halda. Það má líka benda á að fjöldi rann­sókna hefur sýnt fram á að það er mun algeng­ara að börn sem koma úr fjöl­skyldum með lága félags­lega stöðu og/eða veikan efna­hags­legan bak­grunn eða börn inn­flytj­enda séu talin þurfa á sér­stökum stuðn­ingi að halda. Það kemur í ljós við skil­grein­ingar á nem­endum sem falla utan við normið í skóla­kerf­inu að staða þeirra sé háð valda­hlut­föllum í sam­fé­lag­inu all­mennt.

Þetta þýðir að þegar fjallað er um skóla án aðgrein­ingar er hætta á að við séum ekki endi­lega að fjalla um eða rann­saka nákvæm­lega sömu hlut­ina, hvorki hvað varðar nem­enda­hóp­inn né skóla­starf­ið.

Auglýsing

Mennta­stefnu­skjöl eru ekki mikið skýr­ari hvað þetta varðar því þar má sjá að það eru mjög mis­mun­andi túlk­anir á hug­tak­inu skóli án aðgrein­ing­ar. Út frá Salamanca yfir­lýs­ing­unni, en það er grund­vall­ar­skjal hug­mynda­fræð­innar um skóla án aðgrein­ing­ar, má túlka hug­takið sem svo að það snú­ist um að skapa fram­tíð­ar­sam­fé­lag fjöl­breytn­innar (d), það að mæta þörfum allra nem­enda (c) en einnig að lögð sé áhersla á stöðu nem­enda með sér­þarfir og að þeim sé gert mögu­legt að vera í venju­legum náms­hóp­um/bekkjum (a). Salamanca yfir­lýs­ingin er alþjóð­legt stefnu­skjal með það að mark­miði að breyta starf­semi og mennta­kerfum fjöl­margra landa og því er þessi skortur á skýr­leika kannski skilj­an­legur (ann­ars skrifar eng­inn und­ir). Vand­inn er að hann smitar einnig í laga­bálka og reglu­gerðir hinna ýmsu landa, þar með er Ísland talið. Skipu­lag dag­legs skóla­starfs í dreif­stýrðu skóla­kerfi með mis­mikil úræði geta þar af leið­andi orðið mjög ólík hvað þetta varð­ar.

Hvað varðar dag­legt skóla­starf og hug­takið skóli án aðgrein­ingar má benda á að hlut­verk sér­kennslu­fræða í skóla­starfi er ekki alltaf skýrt. Innan sér­kennslu­fræða­sviðs­ins má finna mis­mun­andi áherslur sem tóna mis­mikið við hug­mynd­ina um skóla án aðgrein­ing­ar. Ann­ars vegar má finna hug­mynd­ina um sér­kennslu sem verk­færi til að sinna ákveðnum nem­endum þar sem verk­færum er beitt til að „normalisera“ nem­endur sem ekki ná að fylgja hópnum eða sem trufla kennslu. Hins vegar má sjá hyg­mynd­ina um að sér­kennsla eigi fyrst og fremst að vera fyr­ir­byggj­andi og upp­byggj­andi starf­semi sem kemur í veg fyrir vanda­mál með því að stuðla að þróun stofn­un­ar­innar og kennslu. Rann­sóknir t.d. í Sví­þjóð benda til þess að á meðan seinni hug­myndin um sér­kennslu sé eitt­hvað sem nem­endur í sér­kennslu­fræðum og vís­inda­fólk innan sviðs­ins aðhyllast, virð­ist fyrri hug­myndin vera ráð­andi í skóla­starf bæði hvað varðar hvernig vandamál eru útskýrð (þ.e. fyrst og fremst þáttum í fari nem­end­ans) og hvaða aðferðum er beitt (sér­stakir hópar eða sér­kennsla fyrir ein­stak­ling­inn). Póli­tísk útspil þar sem skóli án aðgrein­ingar er véfengdur á óskýrðum for­sendum eru lík­legt til að hlaða undir þess háttar hug­myndir og starf­semi.

Mörg þess­ara útspila nálg­ast skóla án aðgrein­ingar til dæmis út frá stað­setn­ing­ar­skil­grein­ingu (a), þar sem stað­setn­ing nem­enda með sér­þarfir í venju­legum bekk er aðal­mark­mið og merki um vel heppn­aða starf­semi. Þótt þetta þyki almennt ófull­nægj­andi skil­grein­ing er gagn­rýn­inni beint að þess háttar skipu­lagi og eft­ir­far­andi rökum oft beitt: 1) nem­endur með sér­þarfir trufla aðra nem­endur og hafa nei­kvæð árif á náms­ár­angur þeirra, 2) þeir krefj­ist of mik­ils af kenn­urum sem eru þegar undir of miklu álagi og 3) það væri betra fyrir þessa nem­endur ef þeim væri sinnt af starfs­fólki sem hefur til þess kunn­áttu og hæfni og þá í minni hópum eða sér­skól­um. Þessi rök­færsla er þó ýmsum vand­kvæðum bund­in.

Hvað varðar fyrstu rök­in, þá eru þar lögð að jöfnu þarfir fyrir sér­stakan stuðn­ing, grein­ing­ar, fatl­anir og trufl­andi hegð­un­ar. Sú aðferð er ósköp ein­fald­lega ekki rétt. Þar að auki má benda á að við­brögð við trufl­andi hegðun eru ekki endi­lega sótt í verk­færa­tösku hefð­bund­innar sér­kennslu. Hvað varðar önnur rökin sem hér voru nefnd þá má benda á að aukið starfs­á­lag kenn­ara sé að vissu leiti útskýr­an­legt með fjöl­breytt­ari nem­enda­hóp, en það má ekki gleyma öllum kerf­is­bundnu útskýr­ing­unum sem eru á ábyrgð þeirra sem skipu­leggja og fjár­magna mennta­kerf­ið. Hér má nefna sem dæmi skort á mennt­uðum kenn­ur­um, auk­inni papp­írs­vinnu, hlut­falls­lega lægri fjár­fram­lögum og auknum sparn­að­ar­kröfum innan sveit­ar­fé­laga á sama tíma og gerðar eru kröfur um aukna „fram­leiðni“ svo ekki sé undan skilin nei­kvæð umræða um kenn­ara og skóla. Það að kröfur til kenn­ara séu stig­vax­andi án þess að þeim fylgi tími eða fjár­hags­leg úrræði svo ekki sé talað um orð­ræð­una um kreppu mennta­kerf­is­ins er þó ekki ein­göngu bundið við Ísland. Ef við ætlum að leggja ábyrgð­ina á kreppu mennta­kerf­is­ins á skóla án aðgrein­ingar erum við að leggja hana á þá er síst skyldi.

Hvað varðar þriðju rök­in, má benda á að minni náms­hópar koma ekki ein­göngu nem­endum með sér­þarfir vel. Stærð bekkja setur starfi kenn­ara skorður og hefur hún fyrir vikið áhrif á árangur og vellíðan nem­enda. Það væri þá væn­legra til árang­urs að krefj­ast úrræða sem gefa tæki­færi til end­ur­skipu­lags skóla­starfs­ins svo það komi öllum nem­endum til gagns. Að auki má benda á að nem­endur innan sömu grein­inga­flokka þurfa ekki alltaf á sams­konar úrræðum að halda þar sem þau glíma ekki endi­lega við sömu vanda­mál. Þessi rök gera þar með ráð fyrir meiri eins­leitni innan nem­enda­hópa en er rétt­læt­an­legt.

Á hinn bóg­inn er rétt að upp­lifun nem­enda af því að vera í venju­legum bekk getur verið gríð­ar­leg, ekki síst ef félags­legum þröfum og náms­ár­angri þeirra er ekki sinnt sem skyldi. Þá getur það að flytj­ast í minni hóp verið mik­ill létt­ir. Þetta er enn ein vís­bend­ingin um að bekkj­ar­skipan sé hvorki nægi­legur né nauð­syn­legur mæli­kvarði á skóla án aðgrein­ing­ar. Það eru til staðar góð rök fyrir því að leyfa fleiri skipu­lags­form fyrir kennslu þar sem gengið er út frá þörfum ein­stak­ling­anna fremur en handa­hófs­kenndum skil­grein­ing­um. Þegar hug­myndin um skóla án aðgrein­ingar er smækkuð í að snú­ast um bekkj­ar­skipan á kostnað þarfa ein­stak­ling­anna erum við fremur að tala um skrifræð­is­legar sparn­að­ar­að­gerðir en mennta­fræði­lega hug­mynda­fræði. Það hlut­verk skóla, að mennta alla nem­end­ur, með til­liti til þeirrar fjöl­breytni sem hver hópur ber með sér, er bæði bundið í íslenska laga­setn­ingu sem og alþjóð­lega sátt­mála. Það væri við hæfi að krefja stjórn­mála­fólk, ríki og sveit­ar­fé­lög um þau úrræði sem þarf til að upp­fylla þetta hlut­verk fremur en sætta sig við skipu­lagið eins og það er og byrja svo að sortera þá nem­endur út sem ekki passa inn í rammana.

Það má líka nálg­ast efa­semdir hvað varðar hug­mynd­ina um skóla án aðgrein­ing­ar. Auk þess eru kröfur um fleiri smá­hópa og hverslags sér­tæk úrræði út frá grein­ingu á hag­kvæmni þeirra lausna sem stungið er uppá. Það er langvar­andi kenn­ara­skortur á Íslandi og hann er lík­legur til að versna í ljósi fjölda þeirra kenn­ara sem fara á eft­ir­laun á næstu árum. Það má einnig benda á að sér­kenn­arar eru skort­vara víða um land og að með þeim eru reyndir kenn­arar að hverfa frá bekkj­ar­kennslu til að sinna minni hópum fyrir hærri laun (í bestu til­fell­um) og kosta því skóla­kerfið hlut­falls­lega meira.

Auglýsing

Hróp eftir fleiri sér­tækum úrræðum eiga sér stað innan ramma þess­ara efna­hags­legu stað­reynda: Kenn­ara­skorts, nið­ur­skurðar og hag­kvæmn­iskrafna. Það er því lík­legt að kenn­arar muni ekki standa frammi fyrir minni bekkjum ef ákveðnum nem­enda­hópum væri kippt út heldur muni verða bætt við í bekk­ina eða útbúnar færri og stærri ein­ingar og þar með lausnir sem ekki munu auð­velda kenn­urum líf­ið. Þar að auki er lík­legt að fleiri sér­tæk skipu­lags­úr­ræði kalli eftir fleira fólki innan kerfis sem ekki stendur undir þeim kröfum eins og er. Allt þetta er því lík­legt til að auka á kenn­ara­skort og ýta undir fyr­ir­komu­lag þar sem ómennt­aður starfs­kraftur sinnir hlut­verki kenn­ara.

Mennta­mál eins og skóli án aðgrein­ingar eru felld inn í kerf­is­skipu­lag og hug­mynda­fræði­legt sam­hengi. Það er því ekki hægt að nálg­ast skóla án aðgrein­ingar sem ein­angr­aðan vanda sem hægt sé að lag­færa til hliðar við kerf­ið. Slík umræða er dæmd til að leggja fram ein­fald­aðar lausnir, póli­tískan leik­ara­skap og fram­lengja kerf­is­lægan vanda frekar en að breyta hlut­unum til hins betra fyrir kenn­ara og nem­end­ur. ­Skóla án aðgrein­ingar er iðu­lega lýst sem „fal­legri hug­mynd“ sem „virki ekki“. Hug­myndin er þó með ræt­urnar kyrfi­lega stað­settar í lýð­ræð­is­legri hug­mynda­fræði um mann­rétt­indi allra barna þar sem fjöl­breytni er bæði álitin mark­mið í sjálfri sér og verk­færi til að móta fram­tíð­ar­sam­fé­lag­ið. Þetta eru hug­myndir sem flestir þeirra styðja sem fjalla um mennta­mál, hvort sem um er að ræða stjórn­mála­fólk, for­sprakka hags­muna­hópa, kenn­ara eða rann­sak­end­ur. Á tímum póli­tískra von­brigða þar sem pólitískar öfga­hreyf­ingar fá aukið fylgi og þar sem fólk er dregið í dilka eftir trú, bak­grunni, tungu og húð­lit, er því miklu frekar ástæða til að standa vörð um og gefa skóla án aðgrein­ingar ærlegt tæki­færi. Það krefst þess hins­vegar að metn­aður þeirra sem ráða sé til stað­ar.

Höf­undur er lektor við Háskól­ann í Upp­söl­um, Sví­þjóð.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Eimskip staðfestir að félagið hafi verið kært til héraðssaksóknara
Eimskip hafnar ásökunum um að hafa brotið lög í tengslum við endurvinnslu tveggja skipa félagsins í Indlandi. Eimskip segist ekki hafa komið að ákvörðun um endurvinnslu skipanna tveggja.
Kjarninn 25. september 2020
Eftir að ferðamönnum tók að hríðfækka hérlendis vegna kórónuveirufaraldursins hefur atvinnuleysi vaxið hratt.
Almenna atvinnuleysið stefnir í að verða jafn mikið og eftir bankahrunið
Almennt atvinnuleysið verður komið í 9,3 prósent í lok október gangi spá Vinnumálastofnunar eftir. Það yrði jafn mikið atvinnuleysi og mest var snemma á árinu 2010. Heildaratvinnuleysið, að hlutabótaleiðinni meðtalinni, verður 10,2 prósent í lok október.
Kjarninn 25. september 2020
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Telur rétt að skoða Félagsdómsmál ef Samtök atvinnulífsins segja upp lífskjarasamningnum
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir að Samtök atvinnulífsins grípi til tæknilegra útúrsnúninga þegar þau segi forsendur lífskjarasamninga brostnar og telur rétt að skoða að vísa uppsögn samninga til Félagsdóms, ef af þeim verður.
Kjarninn 25. september 2020
45 ný smit – 369 greinst með COVID-19 á tíu dögum
Fjörutíu og fimm manns greindust með COVID-19 hér á landi í gær. Nýgengi innanlandssmita er nú komið yfir 100 á hverja 100 þúsund íbúa.
Kjarninn 25. september 2020
Pottersen
Pottersen
Pottersen – 43. þáttur: Sögulok
Kjarninn 25. september 2020
Skipulagsferli virkjunar í einu yngsta árgljúfri heims er hafið
Hún er ekki stór að afli, aðeins 9,3 MW, en mun rjúfa einstaka landslagsheild sem nýtur verndar í lögum og skal ekki raska nema brýna nauðsyn beri til. Sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur samþykkt að hefja skipulagsgerð vegna virkjunar í Hverfisfljóti.
Kjarninn 25. september 2020
Mögulegt lögbrot vegna niðurrifs skipa Eimskips á Indlandi á borði stjórnvalda
Tvö skip Eimskips voru rifin í skipakirkjugarði í Indlandi þar sem umhverfisáhrif niðurrifsins, og starfsaðstæður þeirra sem vinna við það, uppfylla ekki evrópska staðla.
Kjarninn 24. september 2020
Khedr-fjölskyldan hefur fengið dvalarleyfi
Egypska fjölskyldan sem hefur verið í felum í rúma viku fær dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. „Réttlætið sigrar stundum,“ segir lögfræðingur fjölskyldunnar.
Kjarninn 24. september 2020
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar