Það var nóg að gera í borginni í Eurovision-vikunni. Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 var samþykktur á aukafundi borgarstjórnar á þriðjudag, rétt í tæka tíð áður en fyrri undankeppni söngvakeppninnar hófst. Ég ætla nú ekki að halda því fram að samþykkt þessa góða ársreiknings hafi haft sérstök áhrif á frammistöðu Hatara en í öllu falli voru þarna tvö fagnaðarefni á sama deginum. Áfram hélt svo vikan með tilheyrandi fundum í nefndum, ráðum og stjórnum. Nóg að gera alls staðar og víða verið að undirbúa sumarið sem maður finnur hreinlega á lyktinni að er rétt handan við hornið. Á fimmtudaginn var venju samkvæmt fundur í borgarráði þar sem fjöldi mála lá fyrir en hér ætla ég að tæpa stuttlega á nokkrum þeirra.
Nýjar áherslur á Secret Solstice í Laugardal
Samningur vegna Secret Solstice var samþykktur og verður hátíðin haldin í Laugardalnum í júní. Hátíðin hefur verið mikið í fréttum að undanförnu og líklega hægt að fullyrða að ekki hafi öll sjónarmið komist að þar. Í nýjum samningi er kveðið á um ýmsar breytingar frá fyrri árum en við gerð hans var tekið tillit til fjölda umsagna og tillagna. Meðal annars er gert ráð fyrir stórauknu forvarnarstarfi, betra eftirliti, fjölskylduvænni dagskrá og betri umgengni.
Þá styttist hátíðin um einn dag auk þess sem dagskrá hvers dags er stytt. Einnig var samþykkt tillaga þess efnis að skóla- og frístundasviði, velferðarsviði og íþrótta- og tómstundasviði verði falið að gera tillögu um forvarnarstarf og viðbúnað borgarinnar, m.a. í tengslum við viðburði í borginni í sumar. Þar er meðal annars lagt til að í tengslum við viðburði verði útfært samstarf við foreldra, grasrótarsamtök og lögreglu. Það er von okkar í borgarráði að með þessu móti náum við að efla hátíða- og viðburðaborgina Reykjavík og taka tillit til nærumhverfisins en stór hópur íbúa í Laugardalnum kallaði einmitt eftir því að Secret Solstice yrði áfram í hverfinu.
Nýjasta tjörnin í Reykjavík
Í borgarráði var einnig samþykkt að hefja framkvæmdir við gerð útivistarsvæðis og landmótun við Leirtjörn í Úlfarsárdal sem þýðir að nú er ný tjörn í mótun í Reykjavík. Tjörn verður mótuð með vatnsrásum, gróðursetningu og gerðir vera útivistarstígar. Þarna trúi ég að verði til sannkölluð útivistarperla í borginni. Grjótkantur verður við suðurhluta tjarnarinnar, votlendisgróður við bakka hennar og lagður stígur umhverfis hana. Þegar landmótun verður lokið mun Leirtjörnin í Úlfarsárdal kallast á við hina tjörnina okkar, Reykjavíkurtjörn í miðborginni.
Mér finnst afar ánægjulegt til þess að vita að þessi nýja perla sé í mótun og er sannfærð um að hún verði mikið notuð af borgarbúum og öðrum sem vilja njóta útivistar í fallegu umhverfi. Ég þekki það sjálf hvað náttúran er mikið aðdráttarafl enda bý ég í Árbænum og við hér upp í fjöllum erum afar ánægð með nálægð okkar við Elliðaárdalinn og þá náttúruperlu sem hann er.
Loftslagsskógar Reykjavíkur
Á næstunni munu allir áhugasamir hafa möguleika á að gróðursetja tré til að kolefnisjafna ferðalög eða annan útblástur. Þetta kemur til með samþykkt borgarráðs á tillögu um sérstaka loftslagsskóga í Reykjavík. Skógarnir munu auka skjól og draga úr vindi á Kjalarnesi og í Grafarvogi, með gróðursetningu í Esjuhlíðum og á Geldinganesi.
Tillagan gengur út á samstarf Reykjavíkurborgar og Skógræktarfélags Reykjavíkur sem munu í sameiningu gefa einstaklingum, fjölskyldum, fyrirtækjum og stofnunum kost á því að gróðursetja tré og kolefnisjafna þannig fyrir flugferðum, ferðalögum eða jafnvel öllum rekstri sínum í þessum nýju loftslagsskógum. Við hjá Reykjavíkurborg munum að sjálfsögðu ganga á undan með góðu fordæmi og gróðursetja til að kolefnisjafna ferðir okkar og starfsemi. Tillagan var samþykkt einróma í borgarráði og er hluti af aðgerðaráætlun borgarinnar í loftslagsmálum. Sjálf er ég skógarbóndi norður í landi þannig að ég mun fylgjast spennt með þessari þróun í borgarlandinu.
42 mál voru fyrir fundinum og marg fleira afar áhugavert á dagskrá s.s. rýmingaráætlun höfuðborgarsvæðisins, skipulag á Héðinsreit og fleira. Fjölmargt er því ónefnt en þau sem vilja fylgjast með helstu ákvörðunum borgarinnar geta gert það hér.
Höfundur er oddviti Viðreisnar og formaður borgarráðs.