Sögulegur árangur náðist í gær þegar framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins hafnaði beiðni um viðurkenningu flokkahóps þjóðernissinna í Evrópuráðsþinginu. Hópurinn samanstendur af þingmönnum Alternativ für Deutschland í Þýskalandi, Lega Nord á Ítalíu, Frelsisflokks Austurríkis, Volya í Búlgaríu, SPD í Tékklandi og Íhaldsflokks Eistlands, en þessir flokkar hafa allir talað opinberlega fyrir hatri og mismunun gegn útlendingum og öðrum minnihlutahópum.
Með viðurkenningu framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins á flokkahópi öðlast meðlimir hans aðgang að valdastöðum innan þingsins, fjármagn og starfsfólk, auk formlegrar viðurkenningar Evrópuráðsins á því að starfsemi þeirra samræmist grundvallargildum ráðsins um lýðræði, réttarríki og mannréttindi.
Ég er mjög stolt af því að hafa barist gegn viðurkenningu þessa hóps innan framkvæmdastjórnarinnar ásamt Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingkonu VG og formanns Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins.
Evrópuráðið og mikilvægi gilda þess
Evrópuráðið er alþjóðleg stofnun sem heldur utan um samstarf 47 Evrópuríkja um eflingu mannréttinda, lýðræðis og réttarríkisins. Ráðið vinnur að eflingu tjáningarfrelsis, jafnrétti og vernd minnihlutahópa. Það hefur meðal annars staðið fyrir herferðum varðandi réttindi barna, gegn hatursáróðri á internetinu og réttindi rómafólks. Ráðið styður aðildarríkin í baráttunni gegn spillingu og hryðjuverkum og við uppbyggingu réttarkerfisins.
Evrópuráðið berst fyrir mannréttindum með undirritun alþjóðlegra sáttmála um mannréttindi, svo sem Samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbul sáttmálinn), og Samnings um tölvubrot (e. cybercrime). Óhætt er að segja að helstu afrek Evrópuráðsins séu Mannréttindasáttmáli Evrópu og Mannréttindadómstóll Evrópu, óumdeilanlega virkustu verkfæri til verndar mannréttindum sem komið hefur verið á fót í heiminum. Það var því gríðarlega mikilvægt að koma í veg fyrir að hópar sem beinlínis vinna gegn mannréttindum og vernd minnihlutahópa fengju viðurkenningu og völd innan ráðsins. Hefur það nú tekist eftir margra mánaða vinnu, sér í lagi okkar Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur og góðri aðstoð Arndísar A. K. Gunnarsdóttur.
Evrópuráðsþingið er ein af lykilstofnunum Evrópuráðsins en það samanstendur af þingmönnum allra aðildarríkjanna (utan Rússlands um þessar mundir, en það er önnur saga og lengri), mismörgum eftir mannfjölda landanna. Stofnun flokkahóps eru ekki sjálfgefin réttindi heldur möguleiki fyrir hóp þingmanna sem uppfyllir ákveðin skilyrði.
Skilyrði fyrir myndun flokkahópa innan Evrópuráðsþingsins
Til þess að fá viðurkenningu þurfa flokkahópar að uppfylla tiltekin formsskilyrði auk þess sem þeir þurfa að virða framgang og útbreiðslu grunngilda Evrópuráðsins, samanber 19. gr. starfsreglna Evrópuráðsþingsins. Framkvæmdastjórnin hafnaði beiðni flokkahópsins þar sem hann var ekki talinn uppfylla skilyrðið um virðingu fyrir grunngildum ráðsins um mannréttindi, jafnrétti og vernd minnihlutahópa.
Flokkarnir sem um ræðir eru allir þekktir fyrir ítrekaða og mikla hatursorðræðu og hatursáróður, einkum í garð gyðinga, múslíma, flóttafólks og annarra innflytjenda, rómafólks, og fleiri minnihlutahópa. Á það bæði við um flokkana sjálfa og þá einstaklinga sem sitja í þeirra umboði á þingi Evrópuráðsins og óskuðu eftir viðurkenningu flokkahóps þjóðernissinna. Í kjölfar ítarlegrar skoðunar á stefnu og málflutningi hópsins, viðtala, funda og umfangsmikillar gagnaöflunar varð það því niðurstaða framkvæmdastjórnarinnar að hópurinn uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. starfsreglna þings Evrópuráðsins um virðingu við framgang og útbreiðslu grunngilda Evrópuráðsins.
Þess ber að geta að synjun framkvæmdastjórnarinnar kemur ekki í veg fyrir að viðkomandi þingmenn taki þátt í störfum Evrópuráðsþingsins sem þjóðkjörnir fulltrúar sinna landa. Þeir geta eftir sem áður tekið til máls, tekið þátt í störfum nefnda þingsins, greitt atkvæði um öll mál og kosið í öll þau embætti sem fulltrúar Evrópuráðsþingsins kjósa um. Framkvæmdastjórnin var einfaldlega ekki tilbúin að viðurkenna að þessi tiltekni hópur og þau gögn sem hann lagði til grundvallar ósk sinni um myndun formlegs flokkahóps, með öllum þeim auknu réttindum og fjármagni sem því fylgja, uppfylltu skilyrði starfsreglna þingsins.
Höfundur er þingflokksformaður Pírata og formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins.