Á síðustu tveimur árum hafa komið fréttir um að nýskráning bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði bönnuð árið 2030. Ég er hlynntur rafbílavæðingu á Íslandi og væri ekkert á móti því ef bannið tæki gildi fyrr, jafnvel árið 2025. Þetta á að vera ein af þeim aðgerðum til að koma í veg fyrir frekari hlýnun jarðar og losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Þegar fréttirnar komu út voru skoðanir fólks misjafnar, eins og við mátti búast. En samkvæmt lítilli könnun sem Viðskiptablaðið birti á síðu sinni í byrjun árs 2018 kom fram að meirihluti þátttakenda væri andvígur þessum aðgerðum eða um 44%, á móti 39% sem voru hlynnt þessu og 17% voru hlutlaus.
Það voru um 800 borgarbúar sem tóku þátt í könnuninni, sem er ekki stór hópur en sýnir samt hverjar skoðanir fólks eru almennt gagnvart banninu. Það eru margir sem eru mjög hlynntir þessu en einnig mjög margir sem vilja ekki horfast í augu við loftslagsbreytingarnar eða „skilja þær ekki“. Þetta bann hefur örugglega komið mörgu fólki í opna skjöldu um hversu alvarlegt málið er og að það er ekki hægt að bregðast við á morgun heldur þarf að gera það strax, helst í gær. Ég hef sjálfur heyrt í fólki í kringum mig, þá sérstaklega eldra fólki, sem heldur að það sé svo lítil reynsla komin á rafbíla og hefur sagt „hvað ef allt verður rafmagnslaust á Íslandi og ekki hægt að hlaða” eða komið með aðrar afsakanir til að þurfa ekki að horfast í augu við vandamálið. Það hefur orðið rafmagnslaust í einstaka hverfum í óveðrum eða ef bilun hefur orðið, en ég man ekki eftir að allt Ísland hafi orðið rafmagnslaust á sama tíma.
Að mínu mati er alveg næg reynsla komin á rafmagnsbíla hér á landi. Frá 2014 hefur fjöldi raf- og tvinntengibíla stóraukist. Þá sérstaklega eftir komu hraðhleðslustöðva frá ON víðs vegar um landið. Þegar fyrstu stöðvarnar komu voru um 100 raf- og tvinntengibílar á landinu. En núna í maí á þessu ári eru þeir orðnir tæpir 10.000 og var yfir helmingur nýrra bíla árið 2017 rafbílar.
Hvað er þá við að eiga? Þetta er bara bíll, nema hann gengur fyrir öðrum orkugjafa. Ég væri að minnsta kosti mjög ánægður að heyra einu hljóði minna þegar ég er að keyra. Það er alveg nóg að heyra vind- og götuhljóð, þá þarf ekki vélarhljóðið líka að bætast í hópinn. Það er auðvitað margt sem getur þó spilað inn í að fólk sé ekki búið undir þessar breytingar. Flest hús eru með bílskúr þar sem hægt væri að setja upp hleðslustöð og mörg fjölbýlishús með bílskýli. En svo eru mörg önnur fjölbýlishús eða íbúðir sem ekki fylgir bílskýli eða önnur aðstaða til að setja upp hleðslustöðvar. Ef það á að banna nýskráningu bensín- og dísilbíla þarf að finna lausn á þessu. Svo er kostnaður. Rafbílar eru margir hverjir örlítið dýrari en „venjulegir“ bílar en þar á móti kemur enginn eldsneytiskostnaður sem getur hlaupið á tugum þúsunda á mánuði og verið kominn upp í hundruðir þúsunda á ári. En fyrir fólk sem á ekki mikinn pening til að eyða í bíl er auðvelt að finna bensín- eða dísilbíl á 500 þúsund krónur en ódýrasti notaði rafbílinn sem ég fann, þegar þessi texti var skrifaður, var settur á tæpa 1,4 milljón.
Þetta er samt breyting sem fólk þarf að sætta sig við hvort sem því líkar það betur eða verr. Það ætti ekki að gera mikið mál úr því, þetta er bara bíll. Hann kemur þér á milli staða, aðallega innanbæjar en stundum út á land.
Höfundur er nemandi í Menntaskólanum við Sund.