Félagsmálaráðherra hefur nú lagt fram frumvarp sem miðar að því að draga úr skerðingum á lífeyrisgreiðslum frá Tryggingarstofnun ríkisins. Þetta er stórt mál og flókið og ég get ekki annað en velt fyrir mér hvort það sé ekki svo að ráðherrann sé bara að viðra málið og hafi aldrei ætlað að ná því í gegn á þessu þingi. Af hverju? Nú, til dæmis vegna þess að ráðherrann leggur málið fram 31. maí þegar, samkvæmt starfsáætlun sem nú hefur reyndar verið numin út gildi, aðeins þrír dagar áttu að vera eftir að þinginu. Augljóslega þarf þetta stóra mál - sem sannarlega hefur verið beðið eftir - mun lengri og dýpri þinglega meðferð en möguleg er á þremur dögum.
Frumvarpið var til umfjöllunar í kvöldfréttum RÚV í gær, 3. júní. Þar sagði ráðherrann að tilgangur frumvarpsins væri meðal annars að auka atvinnuþátttöku öryrkja. Einhvern veginn efast ég um að sú leið sem hér er lögð fram sé vænleg til þess en meira um það síðar. Fréttamaðurinn, Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir, tók viðtal við ráðherrann, starfandi formann kjarahóps ÖBÍ og svo Ingu Sæland þingmann Flokks fólksins en eins og kunnugt er þekkja báðir þeir þingmenn sem enn starfa fyrir flokkinn veruleika öryrkja á eigin skinni. Viðtalið við Ingu fannst mér svo athyglisvert að ég ákvað að skrifað það hér upp öðrum til glöggvunar:
HDF: Ja Inga, félagsmálaráðherra sagði í fréttinni hér á undan að þetta væri jákvætt skref. Ertu sammála því?
IS: Öll skref eru jákvæð, að vísu en í þessu tilviki ætla ég nú að gera orð varaformanns Flokks fólksins að mínum og segja að í stað þess að sparka þrisvar í öyrkjann þá er verið að gera það tvisvar núna. Þetta er í rauninni pínulítið skref og það sem við höfum verið að berjast fyrir er að afnema algjörlega krónu á móti krónu. Það er nú það sem var boðað í síðustu kosningabaráttu held ég af flestum ef ekki öllum en nú sjáum við fram á það að það er alls ekki í boðinu og 65 aurar á móti krónu í skerðingar, ég veit ekki ... Það eina sem ég sé að er verulega jákvætt sem ég hef séð að er að koma fram í þessari þingsályktun (svo) frá ráðherra er að nú skuli í rauninni vera samtímareikningur þannig að skerðingadagurinn mikli sem var einu sinni á ári gagnvart almannatryggingaþegum, sem við höfum nú kallað sko skelfingadaginn mikla, nú verður þetta gert jafnóðum mánaðarlega, þannig að það er jákvætt en það lítur að þessu og þá er það vitað að fátækasti hópurinn eru öryrkjar, það eru einungis þeir sem eru vinnandi sem koma til með að nýta sér þessa örlitlu hungurlús í þessu fjárhagslega ofbeldi sem öryrkjar eru beittir, og aðeins, pínulítið, eitt enn: Allir hinir sem eru ekki að hafa möguleika á því að fara út á vinnumarkaðinn, þeir fá ekki eina einustu krónu í kjarabót og eru á 212.000 krónum útborgað eftir skatta.
HDF: En nú er viðsnúningur í hagkerfinu, hafið þið ekki skilning á því?
IS: Við höfum fullan skilning á því en við höfum gjarna boðað það að forgangsröðun fjármuna hér, í nákvæmlega því sem lítur að okkar fjármálum, okkur þykir sú forgangsröðun alröng og bitna á þeim sem síst skyldi.
(Leturbreytingar mínar).
Tvennt finnst mér ástæða til að gera að sérstöku umfjöllunarefni í þessu stutta viðtali. Í fyrsta lagi spurning fréttamannsins, Hólmfríðar Dagnýjar Friðjónsdóttur, um hvort öryrkjar hafi ekki skilning á því að það sé viðsnúningur í hagkerfinu. Í henni virðist það viðhorf falið að eðlilegt sé að öryrkjar lifi undir fátæktarmörkum og að þeir séu baggi á samfélaginu sem eigi ekki að gera of miklar kröfur. Hvorugt er sanngjarnt né rétt. Samkvæmt frumvarpi ráðherra eru greiðslur Tryggingarstofnunar til öryrkja nú 310.800 kr. hjá þeim sem fá greidda heimilisuppbót og 247.183 kr. fyrir þá sem ekki fá greidda heimilisuppbót. Skattleysismörk lífeyristekna eru hins vegar 152.807 og því greiða öryrkjar ekki bara tekjuskatt eins og aðrir, þeir greiða auðvitað líka virðisaukaskatt af vörum og þjónustu.
Það er hins vegar rétt hjá fréttamanni að nú eru blikur á lofti í hagkerfinu. Fjármálaráðherra segist enn stefna að hallalausum ríkisrekstri þótt nú sé búið að finna upp eitthvað sem heitir "óvissusvigrúm" og ráðherranum finnst hljóma betur en hallarekstur. Hugsanlega mætti benda ráðherranum á að gúggla John Maynard Keynes en sennilega myndi það ekki breyta neinu.
Þegar kreppir að halda þeir sem gjarna eiga peninga að sér höndunum (og já, þeir eru svo sannarlega til á Íslandi). Tekjur annarra skerðast og eyðsla þeirra minnkar sömuleiðis. Staða öryrkja er hins vegar sú að tekjur þeirra eru alltaf rýrar og duga vart fyrir framfærslu. Þegar stjórnvöld afnema auðlegðarskatt eða lækka veiðigjöldin sem kvótakóngarnir greiða fyrir afnot að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar fara auðmennirnir ekki oftar í Bónus, klippingu eða til tannlæknis. Þeir eiga bara meiri peninga, verða enn ríkari og eins og dæmin sanna hafa sumir þeirra reynt að koma fjármunum sínum undan í hin ýmsu skattaskjól.
Þegar tekjur öryrkja og annars fátæks fólks aukast fer aukningin hins vegar að mestu í daglega neyslu og í að borga fyrir hluti sem þeir hafa til þessa þurft að neita sér um. Það þýðir að ríkið fær virðisaukaskatt af hverri krónu sem fer til hárskerans, tannlæknisins eða er varðið til matarinnkaupa. Það þýðir líka að peningarnir halda ferð sinni um hagkerfið áfram og skapa veltu og þar með störf og það er mikilvægt, sérstaklega á samdráttartímum. Þeir stoppa ekki inni á feitum bankareikningum ríka fólksins. Það er því skynsamlegt að hækka greiðslur til þeirra sem minnst hafa, ekki bara af því að það er blettur á okkar ágæta samfélagi að halda fólki í fátæktargildrum, heldur vegna þess að einmitt núna þurfum við meiri veltu.
Hitt sem mér fannst sérlega athyglisvert er sú fullyrðing Ingu um að allir flokkar hafi fyrir síðustu kosningar barist fyrir algjöru afnámi skerðinga í lífeyriskerfinu. Nú var ég frambjóðandi fyrir síðustu kosningar og við í Samfylkingunni lofuðum aldrei að afnema allar skerðingar á lífeyrisgreiðslum, hvorki til aldraðara né öryrkja. Við lofuðum hins vegar sanngjarnara kerfi og tekjutengdum skerðingum. Yrðu allar skerðingar afnumdar myndu t.d. Inga Sæland sjálf, sem samkvæmt vef Alþingis er með kr. 1.651.791 í mánaðarlaun sem þingmaður og formaður stjórnmálaflokks líka fá lífeyrir frá Tryggingarstofnun ríkisins. Mitt mat er að hún þurfi ekki á þeim lífeyri að halda á meðan hún situr á þingi og ekki heldur hinn þingmaður Flokks fólksins Guðmundur Ingi Kristinsson sem er með kr. 1.101.194 í mánaðarlaun. Mér finnst það nefnilega alveg nóg laun og að greiða þeim lífeyri umfram þau væri óskynsamlegt bruðl af hálfu ríkisins.
Að auka tekjur öryrkja með minni áhrifum skerðinga er það hins vegar ekki. Frumvarp ráðherrans er hins vegar handónýtt drasl, vanhugsað og ekki líklegt til að auka atvinnuþátttöku lífeyrisþega hætishót. Öryrki sem myndi afla sér aukalega kr. 100.000 á mánuði umfram það frítekjumark sem nú er fengi kr. 35.000 af þeirri upphæð. Lægsta tímakaup Eflingar er nú kr. 1.658. Væri 100.000 kallinn afrakstur slíkrar tímavinnu hefði viðkomandi þurft að vinna í um 60 tíma í mánuðinum. Eftir skerðinguna er tímakaup viðkomandi kr. 583. Hér væri ágætt að hver og einn lesandi þessarar færslu veltu fyrir sér hvers konar starf þeir væru til í að vinna fyrir kr. 583 á tímann. Laun 10. bekkinga í unglingavinnunni í Reykjavík eru kr. 838.
Af þeim tekjum sem standa eftir hjá öryrkjanum eftir 65% skerðingu þarf hann svo að greiða skatt. Af kr. 35.000 þarf hann að borga kr. 12.929 í skatt. Eftir standa því bara kr. 22.071. Er sú upphæð líklega til að auka atvinnuþátttöku öryrkja verulega í því kerfi sem við búum við núna? Ég held ekki.
Virkni er öllum nauðsynleg. Við erum svo miklu betri og auðugri ef við högum samfélaginu þannig að allir fái notið sín. Atvinnuþátttaka öryrkja mun ekki aukast við þetta frumvarp, ekki bara vegna þess að fjárhagslegur ávinningur af aukinni vinnu er nánast enginn, heldur líka vegna þess að samfélagið býður ekki upp á næg atvinnutækifæri fyrir þá sem eru einhverra hluta vegna með skerta starfsgetu. Ástæður örorku eru allskonar. Það sem hentar einum virkar ekki endilega fyrir þann næsta. Sveigjanleikinn á vinnumarkaði þarf að vera svo miklu, miklu meiri og hvatinn til að láta til sín taka sömuleiðis.
Í mínum huga er það augljóst að sé markmiðið raunverulega að auka atvinnuþátttöku öryrkja þarf þetta frumvarp að vera allt öðruvísi. Eins og starfandi formaður kjarahóps ÖBÍ, Bergþór Heimir Þórðarson, bendir á hefði verið skynsamlegt að hafa hærra frítekjumark. Þá gætu öryrkjað aflað aukinna tekna án nokkurra skerðinga. Bergþór segir auk þess að lágmark hefði verið að miða við 50% skerðingarhlutfall. Ég er sammála honum um að það hefði verið skárra. Eðlilegra hefði mér þó þótt að hafa skerðingarhlutfallið tekjutengt. Þannig væri hægt að hafa það lágt af fyrstu tekjum umfram frítekjumark en hækka það svo með auknum tekjum þar til lífeyrisgreiðslurnar eru skertar að fullu. Tekjuháir öryrkjar, eins og Inga Sæland og Guðmundur Ingi, þurfa ekki greiðslur frá Tryggingarstofnun ríkisins.
Aukin virkni skilar sér líka í meiri lífsgæðum, betri heilsu og fjölbreyttara samfélagi. Allt er það dýrmætt fyrir okkur og - merkilegt nokk - líka fyrir fjárhag ríkisins. Það kostar okkur fáránlega mikið að halda fólki í fátæktargildru. Ég efa ekki að mun ódýrara er fyrir fjárhag ríkisins að hjálpa fólki upp úr henni. Þetta frumvarp gerir heldur ekki neitt fyrir þá sem ekki geta aflað aukatekna þótt þeir vildu.
Þótt ráðherrann sýnist brattur og mæli nú fyrir málinu sínu þá er (hugsanlega) stutt í þinglok. Ég hvet þingheim til að láta ráðherrann ekki komast upp með að rétt svo viðra þetta frumvarp korter í þinglok heldur taka við málinu, laga það og samþykkja svo sómi sé að. Það er ekki bara mannréttindamál heldur líka efnahagslega skynsamlegt.