Siðamál þingmanna hafa fengið mikið vægi í umræðunni síðustu misserin. Siðareglur þingmanna voru settar árið 2016. Þær voru lengi í smíðum en árið 2011 var gerð breyting á þingsköpum sem kvað á um siðareglur. Krafa um siðareglur kom bæði frá almenningi á Íslandi, þingmönnum sjálfum en ekki síður frá alþjóðastofnunum enda mikil krafa um það á síðustu misserum að auka gagnsæi í þjóðþingum og alþjóðastofnunum. Allt er þetta skiljanlegt og gott. En hvað eru siðareglur? Hvernig er hægt að skrifa í reglur hvað er siðsamlegt og hvað ekki? Siðfræðingar hafa svarað því á þá leið að þetta sé mikilvægt tól til að hópur manna geti komið sér saman um ákveðinn ramma en auðvitað verður aldrei hægt að tiltaka alla þætti í svo óáþreifanlegum hlut sem siðferði er. En hvað svo? Eitt er að þingheimur komi sér saman um siðareglur. Annað er svo að velta fyrir sér hverskonar ferli á að taka á mögulegum brotum á siðareglum.
Staða þingmanna er sérstök að mörgu leyti þar sem um þjóðkjörna fulltrúa er að ræða. Alþingismenn vinna drengskaparheit að stjórnarskránni og þeir eru eingöngu bundnir við sína sannfæringu. Þannig getur enginn vikið þingmanni frá störfum nema þjóðin sjálf í næstu kosningum. Því munu siðareglur aldrei breyta. Í umfjöllun um siðareglurnar á sínum tíma segir í nefndaráliti; „Nefndin telur mikilvægt að sjálfræði þingmanna í starfi sé virt og að setning siðareglna eigi ekki að breyta þeirri staðreynd. Nefndin telur að setning siðareglna sé mikilvægur liður í að efla traust almennings á störfum Alþingis, m.a. þar sem gert er ráð fyrir að upplýsingar um hagsmunatengsl þingmanna verði aðgengilegar. Nefndin leggur áherslu á að það er grundvallaratriði að vel takist til með framkvæmd reglnanna.“
Klaustursmálið flóðgátt siðamála
Það er óhætt að segja að í kjölfar svokallaðs Klaustursmáls hafi opnast flóðgáttir inn í forsætisnefnd fyrir ásakanir um brot á siðareglum. Nú þegar þetta er ritað hafa tvö mál farið fyrir siðanefnd og eitt bíður afgreiðslu. Annað málið snýr að grófu kynferðislegu áreiti en hitt snýr að orðræðu og því að þjófkenna annan þingmann. Siðanefnd taldi sér ekki fært að leggja mat á áltiaefni málsins hvað kynferðislegt áreiti varðar þar sem sá sem lagði fram erindið var ekki aðili máls. Forsætisnefnd gerði þá niðurstöðu ráðgefandi siðanefndar að sinni og hyggst ekki aðhafast frekar en bókaði þó að um alvarlegan áfellisdóm um hátterni væri að ræða. Hitt málið snéri að því að þingmaður sagði opinberlega að uppi væri rökstuddur grunur um að annar þingmaður hefði dregið sér fé. Í því tilfelli komst siðanefnd að þeirri niðurstöðu ummælin brjóti gegn siðareglum. Það mál er enn á borði forsætisnefndar og málinu því ólokið, en vandséð annað en að forsætisnefnd geri það sama og geri niðurstöðu siðanefndar að sinni.
Það sem mér þykir hvað athyglisverðast í þessum málum er að þeir sem hafa talað hvað hæst um mikilvægi þess að utanaðkomandi sérfræðingar, siðanefndin, leggi mat á það hvort siðareglur hafi verið brotnar hafa gagnrýnt þessar tvær niðurstöður hvað harðast. Finnst þeim þá helst að það fari ekki vel á því að forsætisnefnd sem er pólitískt kjörin hafi eitthvað ákvörðunarvald. Ég skil vel að þessar niðurstöður kunni að valda deilum og að ekki séu allir sammála en ég hygg að svo verði alltaf. Annað hvort höfum við utanaðkomandi aðila til að aðstoða okkur eða ekki, það er varla hægt að velja hvenær það hentar og hvenær ekki að láta úrskurði þeirra gilda.
En að því sögðu velti ég því hreinlega fyrir mér hvort ástæða sé til að hafa sérstaka siðanefnd. Hvort einhver annar en þingmaðurinn sjálfur og kjósendur hans ættu að koma að því að meta siðferði viðkomandi þingmanns.