Fólk spyr: Af hverju eruð þið í Samfylkingunni ekki meira eins og dönsku kratarnir og fáið 30 prósenta fylgi, til dæmis með því að taka upp harðari stefnu gegn innflytjendum?
Því er til að svara að sú stefna er ómannúðleg og fer í bága við grundvallarlífssýn sósíaldemókratismans; og raunar umdeildanlegt hversu mikið kratarnir græddu á þessum sinnaskiptum; þeir fengu vissulega atkvæði frá Þjóðarflokknum danska en misstu jafn mikið til flokka með mannúðlegri stefnu, SF og Radikale venstre (sem samkvæmt dönskum pólitískum nafnahefðum eru hvorki róttækir né vinstri sinnaðir heldur markaðssinnaðir og frjálslyndir úrbanistar).
En fleira kemur til.
Eins og annars staðar á Norðurlöndum eru kratarnir kjölfestan í dönskum stjórnmálum, stærsti flokkurinn, líkt og Sjallarnir hér, sá flokkur sem meira hefur mótað samfélagið en aðrir flokkar – þar voru tengsl flokks og verkalýðshreyfingar ekki rofin snemma eins og hér á landi og þar hafði því flokkurinn tvöfalt afl til að móta samfélagið til jafnaðar. Hér á landi náðu stéttastjórnmál aldrei alveg að leysa af hólmi sjálfstæðisstjórnmálin; hreyfing kommúnista og seinna sovéthollra vinstri sósíalista varð hér sterkari en annars staðar á Norðurlöndum vegna úbreiddrar óánægju með aðild að Nató og veru bandaríska hersins hér á landi. Ágreiningur um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna mótaði miklu meira vinstri hreyfinguna hér á landi en annars staðar.
Á meðan mótuðu Sjálfstæðismenn samfélagið.
Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að búa til stóran flokk um lífsviðhorf og hugsjónir jafnaðarstefnunnar, þar sem saman kemur fólk úr alls konar ólíkum áttum og fylkir sér saman um jöfnuð, umhverfisvernd, kvenfrelsi og réttlæti. Þetta tókst með Samfylkingunni sem á sér rætur í fjórflokknum sem þá var á vinstri kantinum: A-flokkunum tveimur, Kvennalistanum og Þjóðvaka, sem þá var hinn hefðbundinn flokkur krata sem hvergi fundu sig. Þetta er auðvitað óttalegt strögl á köflum því að það vilja ekkert allir vera með alltaf; því veldur rótgróin klofningshefð. Og svo hitt: Reglulega koma nýir sérleiðahafar á vinstri kantinum og segjast vera „betri“ og „réttari“ jafnaðarmenn en við hin.
Mætti kannski kalla þá „Betra fólkið“.
Hitt vitum við. Þegar Samfylkingin er sterk aukast líkur á vinstri stjórn – þegar hún veikist getur allt gerst, eins og dæmin sanna, og Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínum völdum.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.