Á þessum tíma fyrir ári síðan stóðu yfir meirihlutaviðræður á milli Viðreisnar, Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna. Markmiðið var að ná saman um sáttmála þess efnis hverjar hinar pólitísku áherslur yrðu í höfuðborginni næstu fjögur árin. Kosningavorinu var lokið, niðurstaða kosninga ljós og sumarið blasti við. Viðreisn bauð fram í sveitarstjórnarkosningum í fyrsta sinn og varð strax þriðji stærsti flokkurinn í borginni.
Öll spjót beindust að okkur í Viðreisn sem höfðum gengið opin og óháð til kosninga. Viðræður flokkanna sem nú skipa borgarstjórnarmeirihlutann einkenndust af trausti og heiðarleika. Við gerðum það sem ekki hafði verið gert áður þegar ákveðið var að meirihlutaviðræður skyldu vera í takt við fjölskyldustefnu flokkanna. Þess vegna unnum við þétt alla virka daga kl. 9-17 en áttum svo kvöld og helgar með fjölskyldum og vinum sem var langþráð eftir annasama kosningabaráttu. Þetta gerðum við vegna þess að við treystum hvert öðru og ætluðum ekki að láta afvegaleiða okkur í samtalinu. Það voru málefnin sem réðu för en ekki gylliboð um stóla og stöður.
Þetta fyrirkomulag þótti mörgum bæði skrítið og áhættusamt. Það að taka frí frá samningaviðræðum á kvöldin í stað þess að sitja við þangað til verkefnið var klárað var eitthvað sem ekki hafði tíðkast áður og margir því eflaust haft efasemdir um ágæti þess. Okkur í Viðreisn er alvara þegar við segjumst vilja ný vinnubrögð, fjölskylduvænt umhverfi og jafnrétti og á þeim grundvelli lögðum við þetta fyrirkomulag til. Það þarf enginn að efast um að öll vorum við sammála um að gera þetta vel og yfirvegað. Á þessum góða grunni byggjum við enn heilu ári síðar. Á þeim góða grunni að hafa kafað vel saman ofan í málefnin, talað okkur niður á sameiginlegar áherslur og verið opin og heiðarleg varðandi það pólitíska litróf sem samstarfið spannar. Þess vegna stendur meirihlutinn þéttur og traustur, þrátt fyrir vetur ólgu og óvæntra tíðinda.
Það felast fjölmörg tækifæri í að breyta, bæta og gera betur. Þannig er það alltaf, alls staðar. Ekkert er fullkomið og það vitum við. Við sammæltumst um að gera góða borg betri og ætlum að byggja öflugt og þétt borgarlíf fyrir okkur öll. Á þeirri vegferð erum við og höldum ótrauð áfram þó stundum blási á móti. Meirihlutasamstarfið var mótað í rigningu en kynnt í sól og nú, ári síðar, skín sólin sem aldrei fyrr og meirihlutinn styrkist og dafnar í grænni, fallegri og lifandi borg.
En nóg um árs afmæli meirihlutans í borginni og að nokkrum af þeim fjölmörgu mála sem afgreidd voru á fundi borgarráðs í síðustu viku.
Fjölbreytt skólastarf - Hjallastefnan stækkar
Borgarráð hefur veitt Hjallastefnunni heimild til að hefja kennslu í 5. bekk við barnaskóla þeirra í Reykjavík frá og með næsta skólaári, þ.e. skólaárinu 2019-2020. Samþykktin er með fyrirvara um að samþykkt Menntamálastofnunar. Þessi fögnum við í Viðreisn að sjálfsögðu enda viljum við auka gæði og sveigjanleika í menntakerfinu og styðjum heilshugar fjölbreytt rekstrarform. Það verður gaman að fylgjast með þessari fjölgun í Barnaskóla Hjallastefnunnar og þeim jákvæðu áhrifum sem ég er sannfærð um að Hjallastefnan muni áfram hafa á íslenskt skólakerfi.
102 Reykjavík
Í janúar samþykkti borgarráð að senda erindi til póstnúmeranefndar Íslandspóst þess efnis að Vatnsmýrin fái póstnúmerið 102 eins og rætt hefur verið um síðustu 18 ár eða svo. Póstnúmeranefnd hefur nú veitt leyfi fyrir þessu og borgarráð samþykkti í síðustu viku að greiða þann kostnað sem breytingunni fylgir. Ákvörðunin um 102 Reykjavík hefur enn á ný varpað ljósi á langvarandi, djúpstæða klofning innan Sjálfstæðisflokksins en málið var samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa meirihlutans gegn atkvæði Mörtu Guðjónsdóttur en flokkssystur hennar, þær Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir, sátu hjá við afgreiðslu málsins.
Máli þessu er svo vísað í borgarstjórn Reykjavíkur til endanlegar afgreiðslu í samræmi við samþykktir um stjórn og fundarsköp borgarinnar. Það verður óneitanlega áhugavert að sjá hvernig Miðflokksarmur Sjálfstæðisflokksins kýs þá en oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, Eyþór Laxdal Arnalds, var einmitt einn af stofnfélögum samtakanna 102 Reykjavík sem börðust ötullega fyrir brotthvarfi Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni upp úr síðustu aldamótum.
Heilsa og vellíðan íbúa Reykjavíkur
Samþykkt hefur verið útgáfa 55 lýðheilsuvísa sem ætlað er að gefa vísbendingar um heilsu og vellíðan íbúa Reykjavíkur eftir fjölbreyttum þáttum. Þar er m.a. horft til andlegrar og líkamlegrar heilsu, efnahags, jöfnuðar, aðgengis að grænum svæðum og margra fleiri þátta. Vísarnir verða gefnir út á einblöðungi en einnig birtir á vef Reykjavíkurborgar.
Hér hefur einungis verið fjallað um þrjú af þeim 50 málum sem komu á inn á borð borgarráðs í síðustu viku en þau sem vilja fylgjast með helstu ákvörðunum borgarinnar geta gert það hér.
Höfundur er oddviti Viðreisnar og formaður borgarráðs.