Stytting námstíma til stúdentsprófs er mjög til umræðu í samfélaginu. Þar hafa ýmis sjónarmið komið fram sem rædd hafa verið, aðallega á annan veginn þar sem dregin er upp mynd af uppgefnum, þunglyndum framhaldsskólanema sem er u.þ.b. að drukkna. Hér koma nokkur dæmi um atriði sem gott er að hafa svör við þegar umræðan er tekin.
Hvað er átt við með því að tala um „íslenska framhaldsskólann“?
Fyrsta heildarlöggjöfin um framhaldsskóla var ekki sett fyrr en 1988. Þá var átt við að undir þessa einu löggjöf féllu allir skólar sem tóku við nemendum í framhaldi skólaskyldu og áttu að skila þessum sömu nemendum sem hæfum til að fara í háskóla eða ljúka starfsréttindum. Fyrsta löggjöfin var sett í kjölfar þess að framhaldsskólastigið hafði bókstaflega sprungið út og nýir skólar, fjölbrautaskólar, orðið til. Stjórnendur og kennarar þessara skóla höfðu mótað „nýtt“ skólakerfi sem stóð miklu stærri hópum opið en áður var. Fram að þessari löggjöf hafði hugtakið framhaldsskóli sem samheiti verið að mótast.
Einn flokkurinn er verknámsskólar eins og iðnskólarnir og verkmenntaskólar sem nánast eingöngu útskrifa nemendur með starfsréttindi, s.s. iðnmenntað fólk með sveinspróf. Meðalaldur nemenda þeirra er frekar hár því nemendur sækja gjarnan í tækniskóla/iðnskóla eftir að hafa verið um tíma á vinnumarkaði.
Annar flokkur er þá framhaldsskólar og fjölbrautaskólar sem geta verið blandaðir verk- og bóknámsskólar (t.d. FS og FSS), eða þá nánast hreinir bóknámsskólar (Flensborg, ME, FG o.fl.).
Þriðji flokkurinn er þá gömlu menntaskólarnir sem hafa haldið sínu formi að miklu leyti, það er verið með bóknám til stúdentsprófs þó svo inntak skólans hafi vitaskuld breyst. Þetta eru t.d. MR, ML, MA, MS og loks MH þó hann sé með áfangakerfi.
Þessi flokkun stenst vel tímans tönn.
Í framhaldsskólum sem falla í flokk tvö útskrifaðist um það bil þriðjungur á þremur eða þremur og hálfu ári í fjögurra ára kerfi. Og tilfinning margra stjórnenda var sú að sú tala myndi hækka. Þannig var mjög sveigjanlegt kerfi í þessum skólum og má segja að hægt hafi verið, tæknilega, að útskrifast eftir tvö og hálft ár, sem var sjaldgæft eða verið lengur en fjögur ár ef þess þurfti.
Eiga allir að ljúka stúdentsprófi á þremur árum?
„Gert skal ráð fyrir mislöngum námsferli innan hverrar námsbrautar...“ segir í reglugerð um Flensborgarskólann frá 1976. Og það er enn gert. Þannig ljúka nemendur núna námi sínu á tveimur og hálfu ári eða lengur.
Það er ein versta vitleysan í þessari umræðu að tala eingöngu um styttingu náms eða þriggja ára stúdentspróf. Það eru sárafáir skólar af þeim þrjátíu eða svo sem tilheyra framhaldsskólastiginu sem eru með þriggja ára stúdentspróf. Aðrir skólar eru með stúdentspróf og tímaramminn er sveigjanlegur, eins og gert var ráð fyrir í reglugerðinni hér að ofan.
Eitt af því besta við þróun framhaldsskólastigsins frá 2008-2015 var að skólarnir fengu frelsi til að móta námskrár sínar. Kostur hefði verið ef samstarf margra þeirra hefði verið betur auglýst og ef stjórnvöld hefðu, með skólaforystunni, gefið sér tíma til að móta samfélagslega sýn. Þess ber þó að gæta að breytingar á skólastarfi og umgjörð þess hafa verið meiri síðasta áratug en líklega næstu fjóra áratugina þar á undan.
Vandamálið liggur ekki í því að námskipan til stúdentspróf var breytt heldur í því hvernig henni var breytt í sumum skólum.
Hin nýja skipan skaðar íþróttalíf, félagslíf og fleira í starfi nemenda?
Framhaldsskólar eru ekki allir eins og veita mjög ólíka þjónustu.
Sama gildir þegar fullyrt er að afreksíþróttamenn geti ekki gefið ekki kost á sér í landslið, nemendur taki ekki þátt í félagslífi eða listastarf lognist út af í framhaldsskólum. Það kann að vera líklegra að það eigi við í skólum þar sem nánast er búið að koma fjögurra ára námsefni og skipulagi inn í þriggja ára pakka.
Ég velti fyrir mér í umræðu um styttingu vinnuvikunnar hvað yrði sagt ef hinn almenni borgari ætti að skila verki sem tekur 53 klst. að vinna en hefði til þess 40 klst?
Hvenær átti breytingin að fara fram?
Í frumvarpinu frá 2007, sem varð að lögum 2008, var aldrei talað um styttingu heldur breytta námsskipan. Einn skólameistari greip þennan bolta strax, Ingibjörg Guðmundsdóttir í Kvennaskólanum í Reykjavík og stuttu síðar komu tveir nýir framhaldsskólar, - í Borgarnesi og á Tröllaskaga sem fóru beint í þetta nýja kerfi.
Svo kom kreppan.
Breyttri námsskipan var frestað til ársins 2015. Það var svo ákvörðun þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra (líklega 2013) að fresturinn yrði ekki lengdur og allir framhaldsskólar skyldu hrinda nýrri námsskipan í framkvæmd haustið 2015.
Það að einhverjir skólar þurftu að vinna verkið í flýti frá 2013-2015 var vegna þess að fulltrúar þeirra höfðu reynt að leiða umræðuna hjá sér.
Var málið afgreitt með flýti?
Umræðan um styttingu námstíma til stúdentsprófs hófst með skýrslu til menntamálaráðherra sem hét „Nefnd um mótun menntastefnu“ árið 1994. Í ágúst 2004 birtist svo skýrsla sem nefndist „Breytt námskipan til stúdentsprófs“ þar sem þessi breyting er teiknuð upp frá mörgum sjónarhólum.
Í kjölfarið skipaði þáverandi menntamálaráðherra vinnuhópa. Frá þeim komu m.a. þrjú frumvörp sem sátt var um (um leikskóla, grunnskóla og lögverndun starfsheita kennara) en fjórði vinnuhópurinn klofnaði og sagði KÍ sig frá honum vegna breytinga á stúdentsprófinu.
Þessi klofningur varð haustið 2007, eða þegar umræðan hafði staðið í þrettán ár (og lengur ef við tökum starfstíma fyrrgreindrar nefndar með). Frumvörpin fjögur voru samþykkt í þinglok árið 2008. Þannig lá fyrir vorið 2008 að breytingin hafði verið samþykkt af Alþingi. Það átti því ekki að koma neinum á óvart.
Var hægt að sleppa einhverju úr stúdentsprófinu?
Svarið við spurningunni er já. Það hefði einnig mátt bæta við greinum. Háskólarnir voru t.d. ekki mjög vissir um hvaða kröfur ætti að gera.
Gamla stúdentsprófið, umreiknað í nýja einingakerfið hefði verið 240 einingar. Ef eitt ár er klippt þar af þá samsvarar það 60 einingum eða (algengt viðmið) 12 fimm eininga áföngum. Það eru í sjálfu sér ígildi þriggja fullra kennslustarfa á önn.
Stjórnvöld ákváðu að setja lágmark. Stúdentspróf yrði að lágmarki 200 einingar, sem þannig samsvarar sjö hefðbundnum önnum eða þremur og hálfu ári.
Skólarnir byggðu svo upp námsbrautir sem eru frá því að vera 200 einingar upp í 220 einingar og gáfust þannig upp á umræðunni enda flókin, persónuleg og jafnvel milli gróinna vina.
Af hverju eru sumar námsgreinar bundnar í aðalnámskrá en ekki allar?
Þegar undirbúningur aðalnámskrár hófst í kjölfar lagasetningarinnar frá 2008 voru þrjár námsgreinar bundnar í kjarna. Það voru enska, íslenska og stærðfræði. Vitaskuld voru uppi sjónarmið um það að fleiri greinar mætti binda. Að lokum var ákveðið að skylt væri að hafa dönsku, íþróttir og þriðja tungumálið (franska, spænska, þýska) á öllum brautum til stúdentsprófs. Allar svona ákvarðanir eru umdeildar og færa má rök með og á móti í öllum tilfellum.
Er þörf fyrir samræmingu stúdentsprófa milli skóla?
Frá því að lögin voru sett 1996 og námskrár þar í kjölfarið má segja að það hafi verið stefnt að einskonar samræmdu stúdentsprófi. Viðleitni í þá átt var að halda samræmd próf í íslensku, ensku og stærðfræði. Sú tilraun varð endaslepp þegar þáverandi ráðherra gaf eftir undan gríðarlegum þrýstingi þings og þjóðar. Þetta samræmda eða staðlaða stúdentspróf átti að vera einskonar gæðakvarði á lykilgreinar. Nemendur áttu að taka það samhliða lokaprófum sínum.
Lögin og námskráin frá aldamótunum síðustu lögðu mjög skýrar reglur. Í fyrsta lagi var stúdentspróf eingöngu tekið af þremur brautum. Um var að ræða félagsfræði-, mála- og náttúrufræðibrautir. Innan hverrar var kjörsvið sem skólinn gat stýrt með námsframboði eða nemendur gerðu það með því hvernig þeir völdu sér áfanga.
Til stóð að leggja stöðluð lokapróf fyrir verðandi stúdenta, skv. lögunum frá 2008 en af því hefur ekki orðið.
Er verið að gjaldfella stúdentsprófið?
Það er ekki til staðar eitt staðlað stúdentspróf, löggilt og samþykkt. Stúdentsprófið er og hefur alltaf verið samtíningur námsgreina, eftir því um hvaða námsleið eða braut er talað. Í meginatriðum má segja að annars vegar séu áfangaskólarnir þar sem nemendur safna einingum eftir ákveðnu mynstri og útskrifast svo. Hinu megin á kvarðanum eru skólar með umfangsmikil lokapróf en í sjálfu sér sömu hugsun. Nokkur jafngild afbrigði eru til. Námsframboðið er keimlíkt milli skóla en síðan eru til ýmis kennslukerfi til viðbótar við venjulega skólaskipan.
- Starfsmenntaskólar og reyndar margir bóknámsskólar buðu um tíma upp á viðbótarnám til stúdentsprófs.
- Fjarnám er vinsælt. Þar geta nemendur lokið námi til stúdentsprófs þannig að einu samskipti nemanda og kennara eru í gegnum tölvu.
- Öldungadeildir, en þá er námsefnið það sama og í venjulegum skóla en kennt á styttri tíma.
- Sama gildir um sumarskóla en þar er sama námsefni og í venjulegum skóla, en kennslan fer fram á mun styttri tíma.
- Að auki er einn skóli með alþjóðlegt stúdentspróf (MH) sem er þriggja ára.
- Síðan var einn skóli með tveggja ára kerfi (MHr) en það hefur lagst af.
Af þessu má ráða að það er ekki einfalt að finna út úr gjaldfellingunni, því skipulagið að baki hverrar útgáfu var ólíkt.
Eru aðgangspróf HÍ tengd hinni breyttu námsskipan?
Inntökupróf í læknadeild HÍ og raunar fleiri deildir var tekið upp 2003. Svokölluð A-próf, eins og nú tíðkast, voru komin í umræðu þó nokkrum árum fyrir 2015. Þau komu til framkvæmda það ár. Þá var ekki verið að mæla nemendur úr nýja kerfinu heldur því gamla.
Umræðan um A-próf HÍ er því mun eldri en svo að þau geti verið viðbragð við breyttri námsskipan. Innan skamms förum við að sjá hversu vel stúdentar skv. nýja kerfinu eru undirbúnir miðað við stúdenta af því gamla.
Af hverju var ekki stytt niður í grunnskólann?
Það eru mörg rök sem hníga að þessu. Einfaldast er að deila breytingunni milli grunn- og framhaldsskóla. T.d. með þeim rökum að námstími til stúdentsprófs, frá uppafi skólaskyldu hefur lengst um tvö ár frá 1996. Þetta er vegna þess að annars vegar voru sex ára börn gerð skólaskyld og þá bættist ár við grunnskólann. Hins vegar hefur skólaárið verið lengt á báðum skólastigum. Þannig hefur námstími til stúdentsprófs í raun lengst um tvö ár. Þessu hefur aldrei verið opinberlega mætt af stjórnvöldum eða í námskrárvinnu.
Málið er hins vegar flóknara.
Til dæmis fór hluti breytingarinnar þannig fram, að sögn, áfangalýsingar í fyrstu áföngum framhaldsskóla í íslensku, ensku, dönsku og stærðfræði voru bornar saman við lýsingar á námsefni 10. bekkjar. Niðurstaðan var sú að um sama efni væri að ræða og því voru því viðeigandi áfangar felldir út framhaldsskólamegin.
Vitaskuld hefði vel mátt hugsa sér að útbúa eins konar áfangakerfi í tíunda bekk (jafnvel níunda líka) og tengja það við nærliggjandi framhaldsskóla þannig að auðveldara væri að hleypa hamhleypum og hraðskreiðum nemendum hraðar í gegn, en bjóða hinum að fara hægar sem þess þurftu. Slíkt samstarf hefur gengið vel t.d. í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi, sem og víða um land þar sem aðstæður háttar svo til að góð tengsl eru milli grunnskóla og viðtökuframhaldsskóla.
Það sem ég er að segja er að:
- Framhaldsskólar eru ekki allir sömu gerðar eða með sama skipulag. Ef skóli er starfandi í mjög formföstu kerfi þar sem lítið er gefið eftir þá er við þann skóla að sakast – ekki skólakerfið.
- Umræðan er búin að standa frá 1990 og það er búið að setja alla vega tvær námskrár sem í raun hafa miðast við að þetta myndi gerast.
- Það að tala alltaf um þriggja ára stúdentspróf er ekki rétt framsetning. Það eru kannski fimm skólar sem það á sérstaklega við um. Nær allir aðrir skólar breyttu námsskipan og aðlöguðu sig að breyttu kerfi. Þeir sinna auk þess miklu fjölbreyttari nemendahópi
- Gera verður ráð fyrir að um helmingur árgangs ljúki á þremur árum. Stærsti hluti þess hóps mun koma úr fáum skólum.
Undirritaður er staðfastur í þeirri trú að breyting á námsskipan hafi verið af hinu góða. Framkvæmdin var ekki góð og hana þarf að skoða. Nú þarf að leysa tæknilegar lausnir sem nýja kerfið býr til.
Að lokum vil ég nefna að þeir sem eru í forystu innan framhaldsskólans, kennarar sem stjórnendur, eru víða að vinna ótrúleg afrek miðað við þá kápu sem skólunum er saumuð. Það væri ráð að fjölmiðlar settu sig inn í þau mál.