Stytting námstíma eða breyting á námskipan? Skoðum málið

Magnús Þorkelsson, skólameistara Flensborgarskóla, skrifar um styttingu námstíma til stúdentsprófs.

Auglýsing

Stytt­ing náms­tíma til stúd­ents­prófs er mjög til umræðu í sam­fé­lag­inu. Þar hafa ýmis sjón­ar­mið komið fram sem rædd hafa ver­ið, aðal­lega á annan veg­inn þar sem dregin er upp mynd af upp­gefn­um, þung­lyndum fram­halds­skóla­nema sem er u.þ.b. að drukkna. Hér koma nokkur dæmi um atriði sem gott er að hafa svör við þegar umræðan er tek­in.

Hvað er átt við með því að tala um „ís­lenska fram­halds­skól­ann“?

Fyrsta heild­ar­lög­gjöfin um fram­halds­skóla var ekki sett fyrr en 1988. Þá var átt við að undir þessa einu lög­gjöf féllu allir skólar sem tóku við nem­endum í fram­haldi skóla­skyldu og áttu að skila þessum sömu nem­endum sem hæfum til að fara í háskóla eða ljúka starfs­rétt­ind­um. Fyrsta lög­gjöfin var sett í kjöl­far þess að fram­halds­skóla­stigið hafði bók­staf­lega sprungið út og nýir skól­ar, fjöl­brauta­skól­ar, orðið til. Stjórn­endur og kenn­arar þess­ara skóla höfðu mótað „nýtt“ skóla­kerfi sem stóð miklu stærri hópum opið en áður var. Fram að þess­ari lög­gjöf hafði hug­takið fram­halds­skóli sem sam­heiti verið að mót­ast.

Auglýsing
Draga má fram­halds­skóla í nokkra dilka, þó sumir skarist milli flokka.

Einn flokk­ur­inn er verk­náms­skólar eins og iðn­skól­arnir og verk­mennta­skólar sem nán­ast ein­göngu útskrifa nem­endur með starfs­rétt­indi, s.s. iðn­menntað fólk með sveins­próf. Með­al­aldur nem­enda þeirra er frekar hár því nem­endur sækja gjarnan í tækni­skóla/iðn­skóla eftir að hafa verið um tíma á vinnu­mark­aði.

Annar flokkur er þá fram­halds­skólar og fjöl­brauta­skólar sem geta verið bland­aðir verk- og bók­náms­skólar (t.d. FS og FSS), eða þá nán­ast hreinir bók­náms­skólar (Flens­borg, ME, FG o.fl.).

Þriðji flokk­ur­inn er þá gömlu mennta­skól­arnir sem hafa haldið sínu formi að miklu leyti, það er verið með bók­nám til stúd­ents­prófs þó svo inn­tak skól­ans hafi vita­skuld breyst. Þetta eru t.d. MR, ML, MA, MS og loks MH þó hann sé með áfanga­kerfi.

Þessi flokkun stenst vel tím­ans tönn.

Í fram­halds­skólum sem falla í flokk tvö útskrif­að­ist um það bil þriðj­ungur á þremur eða þremur og hálfu ári í fjög­urra ára kerfi. Og til­finn­ing margra stjórn­enda var sú að sú tala myndi hækka. Þannig var mjög sveigj­an­legt kerfi í þessum skólum og má segja að hægt hafi ver­ið, tækni­lega, að útskrif­ast eftir tvö og hálft ár, sem var sjald­gæft eða verið lengur en fjögur ár ef þess þurfti.

Eiga allir að ljúka stúd­ents­prófi á þremur árum?

„Gert skal ráð fyrir mislöngum náms­ferli innan hverrar náms­braut­ar...“ segir í reglu­gerð um Flens­borg­ar­skól­ann frá 1976. Og það er enn gert. Þannig ljúka nem­endur núna námi sínu á tveimur og hálfu ári eða leng­ur.

Það er ein versta vit­leysan í þess­ari umræðu að tala ein­göngu um stytt­ingu náms eða þriggja ára stúd­ents­próf. Það eru sára­fáir skólar af þeim þrjá­tíu eða svo sem til­heyra fram­halds­skóla­stig­inu sem eru með þriggja ára stúd­ents­próf. Aðrir skólar eru með stúd­ents­próf og tímara­mm­inn er sveigj­an­leg­ur, eins og gert var ráð fyrir í reglu­gerð­inni hér að ofan.

Eitt af því besta við þróun fram­halds­skóla­stigs­ins frá 2008-2015 var að skól­arnir fengu frelsi til að móta námskrár sín­ar. Kostur hefði verið ef sam­starf margra þeirra hefði verið betur aug­lýst og ef stjórn­völd hefðu, með skólafor­yst­unni, gefið sér tíma til að móta sam­fé­lags­lega sýn. Þess ber þó að gæta að breyt­ingar á skóla­starfi og umgjörð þess hafa verið meiri síð­asta ára­tug en lík­lega næstu fjóra ára­tug­ina þar á und­an.

Vanda­málið liggur ekki í því að nám­skipan til stúd­ents­próf var breytt heldur í því hvernig henni var breytt í sumum skól­um.

Hin nýja skipan skaðar íþrótta­líf, félags­líf og fleira í starfi nem­enda?

Fram­halds­skólar eru ekki allir eins og veita mjög ólíka þjón­ustu.

Sama gildir þegar full­yrt er að afrek­s­í­þrótta­menn geti ekki gefið ekki kost á sér í lands­lið, nem­endur taki ekki þátt í félags­lífi eða lista­starf logn­ist út af í fram­halds­skól­um. Það kann að vera lík­legra að það eigi við í skólum þar sem nán­ast er búið að koma fjög­urra ára náms­efni og skipu­lagi inn í þriggja ára pakka.

Ég velti fyrir mér í umræðu um stytt­ingu vinnu­vik­unnar hvað yrði sagt ef hinn almenni borg­ari ætti að skila verki sem tekur 53 klst. að vinna en hefði til þess 40 klst?

Hvenær átti breyt­ingin að fara fram?

Í frum­varp­inu frá 2007, sem varð að lögum 2008, var aldrei talað um stytt­ingu heldur breytta náms­skip­an. Einn skóla­meist­ari greip þennan bolta strax, Ingi­björg Guð­munds­dóttir í Kvenna­skól­anum í Reykja­vík og stuttu síðar komu tveir nýir fram­halds­skól­ar, - í Borg­ar­nesi og á Trölla­skaga sem fóru beint í þetta nýja kerfi.

Svo kom krepp­an.

Breyttri náms­skipan var frestað til árs­ins 2015. Það var svo ákvörðun þáver­andi mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra (lík­lega 2013) að frest­ur­inn yrði ekki lengdur og allir fram­halds­skólar skyldu hrinda nýrri náms­skipan í fram­kvæmd haustið 2015.

Auglýsing
Tveir skólar fengu heim­ild til að fram­kvæma breyt­ing­una haustið 2016.

Það að ein­hverjir skólar þurftu að vinna verkið í flýti frá 2013-2015 var vegna þess að full­trúar þeirra höfðu reynt að leiða umræð­una hjá sér.

Var málið afgreitt með flýti?

Umræðan um stytt­ingu náms­tíma til stúd­ents­prófs hófst með skýrslu til mennta­mála­ráð­herra sem hét „Nefnd um mótun mennta­stefnu“ árið 1994. Í ágúst 2004 birt­ist svo skýrsla sem nefnd­ist „Breytt nám­skipan til stúd­ents­prófs“ þar sem þessi breyt­ing er teiknuð upp frá mörgum sjón­ar­hól­um.

Í kjöl­farið skip­aði þáver­andi mennta­mála­ráð­herra vinnu­hópa. Frá þeim komu m.a. þrjú frum­vörp sem sátt var um (um leik­skóla, grunn­skóla og lög­verndun starfs­heita kenn­ara) en fjórði vinnu­hóp­ur­inn klofn­aði og sagði KÍ sig frá honum vegna breyt­inga á stúd­ents­próf­in­u. 

Þessi klofn­ingur varð haustið 2007, eða þegar umræðan hafði staðið í þrettán ár (og lengur ef við tökum starfs­tíma fyrr­greindrar nefndar með). Frum­vörpin fjögur voru sam­þykkt í þing­lok árið 2008. Þannig lá fyrir vorið 2008 að breyt­ingin hafði verið sam­þykkt af Alþingi. Það átti því ekki að koma neinum á óvart.   

Var hægt að sleppa ein­hverju úr stúd­ents­próf­inu?

Svarið við spurn­ing­unni er já. Það hefði einnig mátt bæta við grein­um.  Há­skól­arnir voru t.d. ekki mjög vissir um hvaða kröfur ætti að gera.

Gamla stúd­ents­próf­ið, umreiknað í nýja ein­inga­kerfið hefði verið 240 ein­ing­ar. Ef eitt ár er klippt þar af þá sam­svarar það 60 ein­ingum eða (al­gengt við­mið) 12 fimm ein­inga áföng­um. Það eru í sjálfu sér ígildi þriggja fullra kennslu­starfa á önn.

Stjórn­völd ákváðu að setja lág­mark. Stúd­ents­próf yrði að lág­marki 200 ein­ing­ar, sem þannig sam­svarar sjö hefð­bundnum önnum eða þremur og hálfu ári.

Skól­arnir byggðu svo upp náms­brautir sem eru frá því að vera 200 ein­ingar upp í 220 ein­ingar og gáfust þannig upp á umræð­unni enda flók­in, per­sónu­leg og jafn­vel milli gró­inna vina.

Af hverju eru sumar náms­greinar bundnar í aðal­námskrá en ekki all­ar?

Þegar und­ir­bún­ingur aðal­námskrár hófst í kjöl­far laga­setn­ing­ar­innar frá 2008 voru þrjár náms­greinar bundnar í kjarna. Það voru enska, íslenska og stærð­fræði. Vita­skuld voru uppi sjón­ar­mið um það að fleiri greinar mætti binda. Að lokum var ákveðið að skylt væri að hafa dönsku,  íþróttir og þriðja tungu­málið (franska, spænska, þýska) á öllum brautum til stúd­ents­prófs. Allar svona ákvarð­anir eru umdeildar og færa má rök með og á móti í öllum til­fell­um.

Er þörf fyrir sam­ræm­ingu stúd­ents­prófa milli skóla?

Frá því að lögin voru sett 1996 og námskrár þar í kjöl­farið má segja að það hafi verið stefnt að eins­konar sam­ræmdu stúd­ents­prófi. Við­leitni í þá átt var að halda sam­ræmd próf í íslensku, ensku og stærð­fræði. Sú til­raun varð enda­slepp þegar þáver­andi ráð­herra gaf eftir undan gríð­ar­legum þrýst­ingi þings og þjóð­ar. Þetta sam­ræmda eða staðl­aða stúd­ents­próf átti að vera eins­konar gæða­kvarði á lyk­il­grein­ar. Nem­endur áttu að taka það sam­hliða loka­prófum sín­um.

Auglýsing
Fyrir lög­gjöf­ina 1988 og frá þeim tíma urðu til, í meg­in­at­rið­um, náms­brautir sem síðan þá hafa stýrt umræð­unni. Um er að ræða félags­fræð­i-, raun­greina-, tungu­mála- og við­skipta­braut­ir. Núna eru til í námskrár­grunni stjórn­valda tugir ef ekki hund­ruð náms­brauta, sem falla í meg­in­at­riðum í þessa fjóra flokka. Und­an­tekn­ingin er opin braut sem nokkrir skólar hafa þró­að.

Lögin og námskráin frá alda­mót­unum síð­ustu lögðu mjög skýrar regl­ur. Í fyrsta lagi var stúd­ents­próf ein­göngu tekið af þremur braut­um. Um var að ræða félags­fræð­i-, mála- og nátt­úru­fræði­braut­ir. Innan hverrar var kjör­svið sem skól­inn gat stýrt með náms­fram­boði eða nem­endur gerðu það með því hvernig þeir völdu sér áfanga.

Til stóð að leggja stöðluð loka­próf fyrir verð­andi stúd­enta, skv. lög­unum frá 2008 en af því hefur ekki orð­ið.

Er verið að gjald­fella stúd­ents­próf­ið?

Það er ekki  til staðar eitt staðlað stúd­ents­próf, lög­gilt og sam­þykkt. Stúd­ents­prófið er og hefur alltaf verið sam­tín­ingur náms­greina, eftir því um hvaða náms­leið eða braut er tal­að. Í meg­in­at­riðum má segja að ann­ars vegar séu áfanga­skól­arnir þar sem nem­endur safna ein­ingum eftir ákveðnu mynstri og útskrif­ast svo. Hinu megin á kvarð­anum eru skólar með umfangs­mikil loka­próf en í sjálfu sér sömu hugs­un. Nokkur jafn­gild afbrigði eru til. Náms­fram­boðið er keim­líkt milli skóla en síðan eru til ýmis kennslu­kerfi til við­bótar við venju­lega skóla­skip­an.

  • Starfs­mennta­skólar og reyndar margir bók­náms­skólar buðu um tíma upp á við­bót­ar­nám til stúd­ents­prófs.
  • Fjar­nám er vin­sælt. Þar geta nem­endur lokið námi til stúd­ents­prófs þannig að einu sam­skipti nem­anda og kenn­ara eru í gegnum tölvu.
  • Öld­unga­deild­ir, en þá er náms­efnið það sama og í venju­legum skóla  en kennt á styttri tíma.
  • Sama gildir um sum­ar­skóla en þar er sama náms­efni og í venju­legum skóla, en kennslan fer fram á mun styttri tíma.
  • Að auki er einn skóli með alþjóð­legt stúd­ents­próf (MH) sem er þriggja ára.
  • Síðan var einn skóli með tveggja ára kerfi (MHr) en það hefur lagst af.

Af þessu má ráða að það er ekki ein­falt að finna út úr gjald­fell­ing­unni, því skipu­lagið að baki hverrar útgáfu var ólíkt.

Eru aðgangs­próf HÍ tengd hinni breyttu náms­skip­an?

Inn­töku­próf í lækna­deild HÍ og raunar fleiri deildir var tekið upp 2003. Svokölluð A-próf, eins og nú tíðkast, voru komin í umræðu þó nokkrum árum fyrir 2015. Þau komu til fram­kvæmda það ár. Þá var ekki verið að mæla nem­endur úr nýja kerf­inu heldur því gamla.

Umræðan um A-próf HÍ er því mun eldri en svo að þau geti verið við­bragð við breyttri náms­skip­an. Innan skamms förum við að sjá hversu vel stúd­entar skv. nýja kerf­inu eru und­ir­búnir miðað við stúd­enta af því gamla.

Af hverju var ekki stytt niður í grunn­skól­ann?

Það eru mörg rök sem hníga að þessu. Ein­fald­ast er að deila breyt­ing­unni milli grunn- og fram­halds­skóla. T.d. með þeim rökum að náms­tími til stúd­ents­prófs, frá uppafi skóla­skyldu hefur lengst um tvö ár frá 1996. Þetta er vegna þess að ann­ars vegar voru sex ára börn gerð skóla­skyld og þá bætt­ist ár við grunn­skól­ann. Hins vegar hefur skóla­árið verið lengt á báðum skóla­stig­um. Þannig hefur náms­tími til stúd­ents­prófs í raun lengst um tvö ár. Þessu hefur aldrei verið opin­ber­lega mætt af stjórn­völdum eða í námskrár­vinnu.

Málið er hins vegar flókn­ara.

Til dæmis fór hluti breyt­ing­ar­innar þannig fram, að sögn, áfanga­lýs­ingar í fyrstu áföngum fram­halds­skóla í íslensku, ensku, dönsku og stærð­fræði voru bornar saman við lýs­ingar á náms­efni 10. bekkj­ar. Nið­ur­staðan var sú að um sama efni væri að ræða og því voru því við­eig­andi áfangar felldir út fram­halds­skóla­meg­in.

Auglýsing
Ef við viljum skoða eða bera saman eldra kerfið og yngra þá er vand­inn sá að hvorki eru til sam­ræmdir mæli­kvarðar fyrir nem­endur í 10. bekk og í fram­halds­skóla. Þeir hurfu með sam­ræmdu próf­un­um.

Vita­skuld hefði vel mátt hugsa sér að útbúa eins konar áfanga­kerfi í tíunda bekk (jafn­vel níunda líka) og tengja það við nær­liggj­andi fram­halds­skóla þannig að auð­veld­ara væri að hleypa ham­hleypum og hrað­skreiðum nem­endum hraðar í gegn, en bjóða hinum að fara hægar sem þess þurftu. Slíkt sam­starf hefur gengið vel t.d. í Hafn­ar­firði, Garðabæ og Kópa­vogi, sem og víða um land þar sem aðstæður háttar svo til að góð tengsl eru milli grunn­skóla og við­töku­fram­halds­skóla.  

Það sem ég er að segja er að:

  1. Fram­halds­skólar eru ekki allir sömu gerðar eða með sama skipu­lag. Ef skóli er starf­andi í mjög form­föstu kerfi þar sem lítið er gefið eftir þá er við þann skóla að sakast – ekki skóla­kerf­ið.  
  2. Umræðan er búin að standa frá 1990 og það er búið að setja alla vega tvær námskrár sem í raun hafa mið­ast við að þetta myndi ger­ast.
  3. Það að  tala alltaf um þriggja ára stúd­ents­próf er ekki rétt fram­setn­ing. Það eru kannski fimm skólar sem það á sér­stak­lega við um. Nær allir aðrir skólar breyttu náms­skipan og aðlög­uðu sig að breyttu kerfi. Þeir sinna auk þess miklu fjöl­breytt­ari nem­enda­hópi
  4. Gera verður ráð fyrir að um helm­ingur árgangs ljúki á þremur árum. Stærsti hluti þess hóps mun koma úr fáum skól­um.

Und­ir­rit­aður er stað­fastur í þeirri trú að breyt­ing á náms­skipan hafi verið af hinu góða. Fram­kvæmdin var ekki góð og hana þarf að skoða. Nú þarf að leysa tækni­legar lausnir sem nýja kerfið býr til.

Að lokum vil ég nefna að þeir sem eru í for­ystu innan fram­halds­skól­ans, kenn­arar sem stjórn­end­ur, eru víða að vinna ótrú­leg afrek miðað við þá kápu sem skól­unum er saum­uð. Það væri ráð að fjöl­miðlar settu sig inn í þau mál.  

Kanntu vel við Kjarnann?

Frjáls framlög lesenda eru mikilvægur þáttur í rekstri Kjarnans. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni á vitrænan hátt og greina kjarnann frá hisminu fyrir lesendur. 

Kjarninn er fjölmiðill sem leggur sig fram við að upplýsa og skýra út það sem á sér stað í samfélaginu með áherslu á gæði og dýpt. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari. 

Ef þú kannt vel við það efni sem þú lest á Kjarnanum viljum við hvetja þig til að styrkja okkur. Þinn styrkur er okkar styrkur.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar