Ég hef þá bjargföstu trú að stofnun Evrópusambandsins sé af hinu góða og að Ísland ætti að vera þar fullgildur aðili. Ég hef ekki farið leynt með þessa skoðun og af þeim sökum oft lent í samræðum eða jafnvel deilum þegar þessi mál hafa borið á góma. Þessi afstaða mín mótaðist fyrir mörgum árum þegar það rann upp fyrir mér í hvaða tilgangi þetta samband var stofnað og sú hugsjón sem lá þar að baki.
Nú ætti ekki að þurfa rifja upp þá sögu því allir ættu að vita þetta sem komnir eru til vits og ára. En því miður virðist ekki vera vanþörf á því vegna þess að margir Íslendingar virðast finnast þetta frekar léttvægt í umræðunni. Nú má vel vera að skynjun fólks á seinni heimsstyrjöldinni sé mismunandi en mín skoðun er sú að annar eins hryllingur meigi aldrei endurtaka sig. Þessi ófriður sem geisaði í Evrópu fyrir tæplega áttatíu árum síðan er næstum því ólýsanlegur harmleikur og ótrúlegt að mannlegar verur hafi komið þessu af stað. Milljónir manna voru drepin á allan þann hugsanlegan máta sem hægt er að ímynda sér. Fólk lét lífið í húsarústum sem sprengdar voru í loftárásum. Aðrir lágu sundurskotnir í forarleðjunni á vígvellinum. Svo var líka reynt að afmá heila þjóð með því að setja á stofn verksmiðjur sem höfðu það hlutverk eitt að slátra fólki á eins fljótvirkan hátt og hugsast gat. Þetta finnst mér vera aðalástæðan fyrir því að Evrópusambandið var stofnað. Það er að segja til þess að reyna að koma í veg fyrir að svona atburðir geti endurtekið sig.
Einn er sá maður sem hafði sterk áhrif á mig og mótaði þessa skoðun mína á Evrópusambandinu. Hann heitir Jón Baldvin Hannibalsson og var á þeim tíma formaður Alþýðuflokksins stærsta krataflokksins á Íslandi. Nú ætla ég ekki að halda því fram að Jón Baldvin hafi einhvern tímann fullyrt að stofnun Evrópusambandsins hafi verið hugsjón í hans huga. En á þeim tíma þegar ég hreifst af málflutningi Jóns var ég ekki í vafa um að svo væri. En svo bregðast krosstré sem önnur tré. Allt í einu fór ég að heyra eftir Jóni Baldvin að við Íslendingar hefðum ekkert að gera með það að hætta okkur inn í brennandi hús. Hann átti víst við með þessum orðum að við hefðum ekkert að gera með að fara inn í Evrópusambandið eins og ástandið væri þessa stundina á þeim bænum. Sem sagt maðurinn sem mér hafði alltaf fundist hafa yfirburðaþekkingu og skilning á tilgangi þessa sambands var einn af þeim fyrstu sem sneri baki við þeim vegna þess að það gekk ekki vel þessa stundina að hans dómi. Honum datt ekki í hug að leggja þeim lið með því að reyna slökkva þá elda sem honum fannst vera byrjaðir að loga á þeim bænum. Nei, það fyrsta sem honum datt í hug þegar ekki var eins hagstætt fjárhagslega að ganga þarna inn var að gefa þeim puttann og segja að við hefðum ekkert með það að gera að ganga í Evrópusambandið.
Málflutningurinn hefur jafnvel verið svo geggjaður að sumir af þeim sem hringt hafa þarna inn í símatíma hafa haldið því fram í fullri alvöru að þarna sé á ferðinni blautir draumar Hitlers um heimsyfirráð. Svona málflutningur og önnur svipuð þvæla hefur fengið að flæða á þessum vettvangi án þess að því hafi verið mótmælt af hálfu stjórnenda. Og símatímarnir á Útvarpi Sögu fyrst ég er farin að minnast á þá, eru í raun stórmerkilegt fyrirbæri. Þar hafa safnast fyrir tíu til tólf persónur sem skiptast á því að hringja inn á stöðina á símatíma dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár. Alltaf sama fólkið með sömu þvæluna og stjórnendur kalla þetta málefnalegar umræður þar sem þjóðinn tjáir sig. Og þarna, einmitt þarna á þessari útvarpsstöð ákvað Jón Baldvin að tala um þennan viðsnúning sinn á Evrópusambandinu og hvers vegna Íslendingar ættu ekki að koma nálægt því. Skildi hann vita af því að þetta virkaði eins og súrefni fyrir mannvitsbrekkurnar tólf sem hringja inn á Útvarp Sögu. Þar koma þeir í vel skipulagðri röð Jón Valur, Viðar Guðjohnsen og Guðjón svo ég nefni einhverja af þessum tólf spekingum og vitna reglulega í Jón Baldvin sem sá ljósið og hve hræðilegt þetta samband er eins og þeir hafa alltaf haldið fram í gegn um árin.
Nú verð ég að taka fram að ég hlustaði ekki á þetta umrædda viðtal sem Jón Baldvin átti við Útvarp Sögu og vissi þess vegna ekki alveg hvaða ástæður hann gaf fyrir þessum viðsnúningi. En svo kom hann á aðra útvarpsstöð þar sem hann var spurður og ég hlustaði með athygli á það viðtal. Og jú ekki stóð á svari frá Jóni eins og honum er einum lagið og hann byrjaði á því að segja. Þegar efnahagshrunið gekk yfir árið tvö þúsund og átta kom í ljós að þau lönd sem gengið höfðu í Evrópusambandið og tekið upp Evru voru miklu ver stödd í sínum skuldamálum heldur en Ísland. Það er að segja þau lönd sem höfðu tekið óábyrg lán upp í rjáfur og nefndi Jón Grikkland í þessu sambandi. Hann lét reyndar þess getið að í því landi væri gjörspillt yfirstétt sem ætti ekki hvað síst sök á því hvernig komið væri fyrir þeim. En svo komu furðulegar útskýringar frá honum hvers vegna það hafði verið svo mikið lán fyrir okkur að vera utan Evrópusambandsins og ekki með Evru. Við vorum nefnilega svo einstaklega heppinn að eiga heimsins bestu fjármáladrullusokka sem tókst að koma okkur svo kyrfilega á hausinn í okkar lokaða hagkerfi að önnur eins dæmi eru ekki til. Þegar þessir erlendu bankar og fjármálasjóðir stóðu frami fyrir svona risavöxnu fjármálasukki þá einfaldlega féllust þeim hendur og komust strax að því að það væri eins gott að gleyma öllum innheimtuaðgerðum. Skuldirnar voru einfaldlega of stórar.
Það var einmitt í þessu sem Jón sagði að heppnin hefði legið. Við áttum sem sagt heimsmeistara í drullusokkshætti og í því var happ okkar fólgið. Jón sleppti því í þessum málflutningi að minnast á yfirstéttina á Íslandi og hvort einhver spilling leyndist þar eins og á Grikklandi. Það var leiðinlegt og ég verð að bæta úr því. En það hefur alltaf verið vitað að elítan, það er að segja fólkið sem hefur hvað sterkust tengsl við fjármálaöfl og stjórnmálaöfl sem mestu hafa ráðið á Íslandi séu gjörspillt. Við þurfum ekkert að fara í djúpar pælingar til þess að rifja upp hugtök eins og sölur á ríkiseignum til vildarvina, eða innherjaviðskipti þar sem útvaldir björguðu fjármunum sínum út úr bönkum sem fóru á syngjandi hausinn daginn eftir. En ég þarf sosum ekkert að vera tína þetta til því allir Íslendingar vita þetta sem hafa eitthvað á milli eyrnanna. Og en þann dag í dag þrátt fyrir einhver sýndarréttarhöld með sérstökum saksóknara eru þeir menn sem lengst gengu í fjármálasukkinu einhverjir þeir ríkustu í Íslensku þjóðfélagi í dag. Og ekki nóg með það, þeim var boðið sérstaklega til baka með gróðann sem setti fjöldann allan af Íslenskum fjölskyldum á hausinn á sérstökum afslætti. Allir snúnir til baka með fullar hendur fjár til þess að taka þátt partýinu á nýjan leik. Jafnvel fangelsisdómarnir sem þessir menn voru dæmdir í voru ekki trúverðugir. Eða hafið þið heyrt um einhvern dópistasjúkling sem er í afplánun með ökklaband hafi farið í útsýnisflug á þyrlunni sinni upp á Nesjavelli, eða skroppið á fótboltaleik í London. En það voru einmitt svona fréttir sem maður heyrði af einum þessara manna sem áttu að vera á skilorði.
Já við Íslendingar erum einstaklega heppnir að vera utan Evrópusambandsins og ekki með evru, segir Jón Baldvin Hannibalsson. Og ekki nóg með það. Þessa daganna leggst þessi maður á sveif með gömlum uppvakningum um einhverja sjúklega ímyndun á því hvort þetta samband geti hugsanlega í einhverri framtíð náð einhverju tangarhaldi á orkuauðlindum Íslands. Og í þessu draugagengi eru einstaklingar sem eru þekktir fyrir taumlaust hatur á Evrópusambandinu og hafa bullað um það árum saman hve hættulegt það væri fyrir Íslenska þjóð að koma nálægt því fyrirbæri. Jafnvel eru þess dæmi að innan þessa hóps eru menn sem hafa haldið því fram í fullri alvöru að það sé stórhættulegt að borða matinn sem kemur þaðan. (Reyndar er það enn merkilegra að það séu til einhverjir bjánar sem trúa því, en það er önnur saga). Því miður hef ég enga trú á því að þessir þröngsýnu afturhaldsseggir sem skipa þennan hóp sem þeir kalla „Orkuna okkar“ séu að hugsa um hag hins almenna Íslendings með þessu brölti. Ég hef frekar trú á að þeir hafi einfaldlega komið auga á tækifæri til þess að fóðra hatur sitt á Evrópusambandinu og fá aðra til þess sama. Eða finnst ykkur það líklegt að þessi hópur sem þykist vera svona annt um að hinn venjulegi Íslendingur glati auðlindum sínum stofni hóp af einskærri hugsjón sem bæri nafnið. „Auðlindirnar okkar.“
Já, segir Jón Baldvin á Útvarpi Sögu. Við Íslendingar erum einstaklega heppnir að vera utan Evrópusambandsins og með okkar krónu. Enda orðin þjóðleg hefð að Íslendingar búi í hagkerfi sem margir hafa kallað hagkerfi andskotans. Þeir þurfa líka að leggja töluvert meira á sig við það að koma sér upp þaki yfir höfuðið eða borga meira fyrir matvöru heldur en fólk í löndum Evrópu. Eða eins og ein afturgangan í hópnum „Orkan okkar“ sagði einhvern tímann. „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag. “Og við skulum sameinast í því og leggja okkar síðustu krafta í því að breyta því aldrei.
Ég þekkti einu sinni fyrir mörgum árum kerlingu sem átt heima í sveit norður í landi. Hún sagði mér að hún hefði aldrei komið til Reykjavíkur og þangað myndi hún aldrei fara vegna þess að þar yrði hún bæði rænd og drepin. Ég gat ekki annað en brosað og benti henni á þá staðreynd að ég væri þar uppalin og væri tiltölulega óskaddaður eftir þá raun. Og svarið sem ég fékk var á þann veg að við þessa konu væri gagnslaust að eiga nokkrar vitrænar samræður. Hún hvessti á mig augun og spurði hvort ég læsi engar fréttir eða hlustaði aldrei á útvarp. Það furðulega er að mér hefur oft dottið kerlingin í hug þegar ég hef hlustað á Útvarp Sögu.
Endir.