Samkvæmt óundirrituðu „samkomulagi" sem svo ekki var fallist á átti þingstörfum víst að ljúka í dag. Það gerist ekki. Þess í stað var þingið sent heim í helgarfrí og kemur aftur saman á þriðjudaginn.
Staðan núna er undarleg enda búið að semja um þinglok við fjóra stjórnarandstöðuflokka af fimm en samningar náðust ekki við Miðflokkinn og svo voru stjórnarflokkarnir víst ekki heldur sammála um hvernig samkomulagið ætti að líta út.
Málþóf er stundum sagt eina vopn stjórnarandstöðunnar en það er ekki gott vopn og einn helsti ókosturinn kemur í ljós nú - lítill hópur þingmanna getur tekið þingið í gíslingu. Og það sem meira er að aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar eru vopnlausir á meðan og það er nákvæmlega ekkert lýðræðislegt við það.
Þessi staða er ekki tilkomin upp úr þurru. Þessi valdataka Miðflokksins var bæði fyrirsjáanleg og er algjörlega á ábyrgð Alþingis sem hefur klúðrað málum enn og aftur svo eftir hefur verið tekið.
Þann 28. nóvember hófu fjölmiðlar að birta fréttir af upptökum af fyllirísrausi þingmanna Miðflokksins á Klausturbarnum. Síðan þá er liðið næstum hálft ár án þess að það mál hafi haft beinar afleiðingar fyrir fullu dónana sem þar voru gripnir, m.a. við að stæra sig af pólitískri spillingu, þótt ýmsir aðrir hafi þurft að gjalda þess með fjölbreyttum hætti. Alþingi hefur hins vegar ekki gert neitt sem hönd á festir. Jú, það er alveg sniðugt að hafa siðanefnd og verkferla en svona mál getur ekki tekið marga mánuði í vinnslu. Bara alls ekki.
Stjórnarmeirihlutinn hefur líka gert ýmis mistök sem festa völd Klaustursdónanna í sessi. Eitt af því var t.d. að kjósa gegn tillögu minnihlutans um formennsku í nefndum. Og þrátt fyrir fyrirheit Lilju Alfreðsdótturs, sem er ein þeirra sem urðu fyrir orðavaðli dónafólksins, um að ofbeldismenn eigi ekki að hafa dagskrárvaldið hjá okkur þá er það nú samt einmitt það sem hefur gerst. Klausturdónarnir eru með dagskrárvaldið á Alþingi og stjórnarflokkarnir leyfa þeim að hafa það.
Rætur málsins liggja þó mun dýpra og þar hljóta Framsóknarmenn að bera töluverða ábyrgð á stöðu mála. Sigmundur Davíð var ekki að stíga sín fyrstu spor sem popúlískur stjórnmálamaður sem fiskar atkvæði í drullupollum og sorphaugum þegar hann stofnaði Miðflokkinn. Hann var nefnilega byrjaður á því löngu fyrr á meðan hann var enn formaður Framsóknarflokksins. Í stjórnmálum, ólíkt daglega lífinu, er þögn sama og samþykki. Og tilefnin til að segja eitthvað þegar Framsóknarflokkurinn sveigðist meira og meira í átt að útlendingaandúð og popúlisma voru því miður fjölmörg.
Strax árið 2011 lagði Sigmundur Davíð fram fyrirspurnir um útlendinga í íslenskum fangelsum og skipulögð innbrot útlendinga á Íslandi. Þá fundust reyndar Framsóknarmenn sem stóðu í lappirnar. Aðalfundur fulltrúaráðs framsóknarfélaganna í Kópavogi samþykkti ályktun sem fól í sér áskorun til formanns flokksins um að láta af orðræðu þar sem útlendingar væru tengdir við afbrot og sjúkdóma. Í ályktuninni segir meðal annars:
„Fyrirspurnir eða orðræða sem tengir saman glæpi og útlendinga og sjúkdóma og útlendinga eru til þess fallnar að auka á fordóma í samfélaginu og draga úr umburðarlyndi og samhug.“
Þá varar fundurinn við því að:
„… alið sé á umræðu á þjóðernislegum nótum og úlfúð í garð þeirra samborgara okkar sem eru af erlendu bergi brotnir og þess sem erlent er. Það mun ekki skila samfélaginu fram á veg. Fáar þjóðir eiga jafn mikið undir góðum samskiptum við aðrar þjóðir og Íslendingar og við eigum að eiga samstarf við aðrar þjóðir á jafnréttisgrundvelli og taka vel á móti þeim sem hingað leita yfir lengri eða skemmri tíma, rétt eins og vel er tekið á móti Íslendingum erlendis."
Eftir þetta heyrðist lítið í Framsóknarmönnum þótt tilefnin væru ærin. Ásamt Sigmundi ruddi Vigdís Hauksdóttir brautina, meðal annars með því að spyrja um öklabönd á hælisleitendur, lýsa yfir yfirburðum kristinnar trúar og ýmislegt fleira. Stóra tilraunin til atkvæðaveiða í drullupollum var hins vegar í borgarstjórnarkosningunum 2014 þegar Framsóknarflokkur Sigmundar Davíðs bauð fram áróður gegn múslimum undir merkjum Framsóknar og flugvallarvina. Þetta var áhlaup eftir töluvert klúður við skipun á lista flokksins sem mældist vart í skoðanakönnunum. Tilraunin heppnaðist hins vegar fullkomlega. Popúlistarnir flugu inn í borgarstjórn Reykjavíkur og fengu tvo borgarfulltrúa. Og enginn sagði neitt.
Í aðdraganda kosninganna kallaði ég eftir viðbrögðum Framsóknarmanna á opinberum vettvangi, forsvarsmönnum flokksins og oddvitum annarra kjördæma. Það gerði ég í greinum sem birtust á Eyjunni og hafa nú verið teknar niður en má nálgast á vefsafni Landsbókasafns:
Slagurinn sem við verðum alltaf að taka
Opið bréf til Birkis Jóns Jónssonar
Eftir dúk og disk svaraði Birkir Jón, oddviti flokksins í Kópavogi mér á Faccebook og sagði „Ég virði trúfrelsi og mannréttindi fólks til trúariðkunar. Það er mín grundvallarafstaða í lífinu."
Þetta voru einu svör forystuflokks í Framsóknarflokknum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2014 og hvergi voru settar fram neinar mótbárur svo eftir yrði tekið. Ráðherrar flokksins, m.a. núverandi formaður Sigurður Ingi Jóhannsson, þögðu.
Það má velta því fyrir sér hvort staðan væri önnur nú ef Framsóknarfólk hefði haft manndóm í sér til að mótmæla popúlískri tilraunastarfsemi Sigmundar Davíðs fyrir fimm árum þegar hann henti út stóru beitunni? Vondir hlutir gerast nefnilega þegar gott fólk gerir ekkert.