Á 17. júní, þessum mikla sjálfstæðisdegi þessa þjóðarkrílis, varð mér hugsað til okkar góðu venslaþjóðar á Írlandi, sem háði sína sjálfstæðisbaráttu með blóði og ljóðum. Hér gátum við látið okkur nægja ljóðin og grúskið í gömlum samningum, nudd og þjark. Samband okkar við Dani var ekki heilbrigt og okkur ekki til gæfu en það var hátíð hjá því sem Írar máttu búa við þar sem Englendingar voru (eða Englismenn eins og Jón Sigurðsson, afmælisbarn dagsins nefndi þá í ritgerðinni sinni frábæru um Verslun á Íslandi sem birtist í Nýjum félagsritum 1843 og hægt er að lesa á timarit.is).
Írum var bannað að nota eigið tungumál; skólakerfið var markvisst notað til að útrýma því. Menningu þjóðarinnar var haldið niðri af harðýðgi – en Danir litu aftur á móti á íslensku tungu sem frumnorrænu og Íslendinga sem varðveislumenn norræns menningararfs og verðmæta. þeir lítu á sjálfstæðishetju Íslendinga Jón Sigurðsson, fyrst og fremst sem skjalavörð og grúskara og höfðu hann beinlínis á launum sem slíkan.
Englendingar börðu niður af fádæma grimmd alla sjálfstæðistilburði kúgaðrar alþýðu á Írlandi en Danir létu íslenskum stórbændum að mestu eftir að kúga og arðræna íslenska alþýðu.
Englendingar vöktu óslökkvandi þrá eftir frelsinu hjá írsku þjóðinni, hatur og vanmátt. Danir vöktu ólund og kergju með Íslendingum, en kannski fyrst og fremst doða; stjórn þeirra á landinu var langvinnt svefnþorn.
Hér er svo ráðgátan: Írar una sér vel innan ESB en Englendingar engjast þar af vanlíðan yfir því að þurfa að lúta sömu reglum og aðrar þjóðir, og ætla út þaðan til að gerast á ný heimsveldi, þótt ekki blasi nú við hvar þeir hyggja helst á landvinninga.
Enn hafa Írar ekki frétt að þeir séu ófrjáls þjóð innan ESB – þeir líta þvert á móti svo á að það sé til marks um að þeir séu fullvalda þjóð meðal þjóða, að taka fullan þátt í að móta sameiginlegar reglur á sameiginlegum vettvangi. Íslendingar telja sig margir þeim mun frjálsari sem þeir eru fjær slíkum ákvarðanatökum.
Hitt vitum við, að sameiginlegt regluverk, skýrar reglur og lög þar sem eitt þarf yfir alla að ganga, gagnast ævinlega smáþjóðum og þeim sem fremur þurfa að treysta á hugkvæmni sína og dugnað en forréttindastöðu og frekju. Losarabragur á regluverki og lögleysa hentar hinum vel sem vanir eru að beita aflsmun í samskiptum; gömlum nýlenduveldum sem auðguðust með yfirgangi og ránskap.
Við eigum að taka okkur Íra til fyrirmyndar – ekki Englendinga.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.