Mikið er nú gaman að fylgjast með því hvernig alþjóðleg samtök um velferð dýra – í þessu tilviki mjaldra – leggja það á sig um fimm ára skeið með ærnum tilkostnaði að flytja blessaðar systurnar í bærilegri kví í Vestmannaeyjum, vegna þess að hlutskipti þeirra í Kína sæmir engum systrum.
Manni hlýnar eiginlega um hjartaræturnar. Ég á systur. Mér þykir mikið vænt um þær. Ég verð að segja að ef ég hefði vitað af þeim í þrælahaldi í Kína, þá vildi ég fremur sjá þær í rúmgóðri kví í Vestmannaeyjum. Það má einu gilda hvernig þær eru skyldar mér. Mér dugar að þetta eru systur og spendýr. Mér þykir líka mikið vænt um Vestmannaeyjar.
Margvíslegur vitnisburður hefur nú þegar komið fram um ágæti þessa flutninga frá t.a.m. ýmsum „frumkvöðlum innan ferðamennskunnar“ sem hyggja sér gott til glóðarinnar. Einnig frá bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum, sem og sjávarvistfræðingum af sama kyni og systurnar, sem geta haldið langar ræður í útvarpi allra landsmanna um ágæti þess að landsmenn og ferðamenn átti sig á því hvað mjaldrar eru í raun og veru merkilegir. Og að það sé frábært að þessi dýr eru nú flutt til Vestmannaeyja.
Það mætti ætla að allir græði eitthvað á þessum hlægilega sýndarleik. Gott og vel. Guð láti á gott vita og svo framvegis.
Á sama tíma berast þær fregnir að tugir, ef ekki hundruð hvala rekur upp á strendur víðsvegar um heiminn um þessar mundir. Það eru vísindalega ásættanlegar fregnir af þessu. Meira að segja staðfestar af sjávarlíffræðingum af báðum kynjum. Einnig vita sjávarlíffræðingar af báðum kynjum, jafnvel systur eða bræður, að sú tala (þ.e. hundruðir hvala) er líkast til aðeins smávægilegt brot af þeim hvölum sem deyja. Líklega telur hvaladauði á hverju ári svo langtum meira. Mögulega tugþúsundir dýra. Flestir hvalir dauðir hvalir falla jú til botns, eðli málsins vegna. Þetta vita allir sæmilega viti bornir sjómenn til sjávar og sveita.
Hér á árum áður þótti það miklum og góðum tíðindum sæta ef hval rak upp á strendur hjá okkur Íslendingum. Svelti forfeðra okkar var slíkt að menn skirrðust ekki við að drepa náungann til að tryggja sér og sínum sæmilegt viðurværi. Einkum var það spik hvala sem þótti eftirsóknarvert. Núna er allt sneisafullt af fitu.
En þetta eru engir „hvalrekar“ lengur hjá okkur Íslendingum. Þvert á móti þá þarf núna að biðja landeigendur hér og þar nærri ströndum þar sem hvalir deyja, að gefa leyfi sitt fyrir því að hræin fái að rotna í friði, þrátt fyrir klögumál nágranna sem eðlilega kunna ekki við fnykinn.
Það er ekki vitað hvað hefur orðið þessum mikilfenglegu skepnum að aldurtila. Það hafa samt fundist kögglar af plasti í iðrum margra hvala. Þetta ætti að vera alkunna hér á landi.
Í þessum efnum erum við Íslendingar komnir að ákveðnum kjarna málsins að mínu viti. Það er vitanlega ánægjulegt að veita mjaldrasystrunum skjól í hremmingum þeirra. Ég vona að þær lifi góðu lífi allt þar til þær deyja. Þess sama óska ég öllum landsmönnum. Jafnvel ráðamönnum af öllum kynjum.
En viðlíka viðhorf eru náttúrulega ekkert annað en stórkostlegt dæmi um makalausa hræsni.
Íslendingar hafa um áratuga skeið gefið leyfi fyrir milljarðamæringinn Kristján Loftsson að elta uppi langreyðar (sem eru langtum stærri og tilkomumeiri en mjaldrasysturnar) og kvittað uppá það að hann megi skjóta í dýrin sprengiskutlum. Sumar kýrnar hafa verið með kálfa, og það eru meira að segja dæmi þessi að Kristján Loftsson hafi skotið sprengjum sínum í blendinga steypireyða og langreyða.
Sem ætti fyrir öllum sæmilega þenkjandi sjávarlíffræðingum – svo maður tali nú ekki um „hvalasérfræðinga“ hjá Hafró – að vera alger viðurstyggð. Sú hefur ekki verið raunin. Þar á bæ æmta hvorki menn (hér er átt við konur og menn) né skræmta.
En Kristjáni Loftssyni er skítsama. Íslendingum er líka skítsama. Kristján Loftsson hefur verið dyggur stuðningsmaður ráðherra Sjálfstæðisflokksins um áratugaskeið, lagt sitt af mörkum til flokksins og getur beðið ráðherra um að ganga á svig við reglugerðir svo hann geti sprengt rúmmetra af holdi hvalakúa, jafnvel blendinga fágætra tegunda hvala og gert að dýrunum á opnu plani, þar sem mávar sækja að og skíta endrum og sinnum í „matvælin“. Eins og dæmin sanna.
Kristján Loftsson hugðist m.a.s. nýverið nýta sprengiskutla sína, sem ganga inn í holdið á mjög stórum spendýrum og springa þar, til að búa til heilsubótarefni fyrir manneskjur.
Heilsubótarefni!
Nánar tiltekið hefur hann haft mikla trú á því að það mætti sjóða úr holdgrauti mikilfenglegustu spendýra sem við þekkjum nokkurn slatta af járni, sem fæðubótarefni.
Því miður fyrir hann voru stjórnvöld svo seinvirk við að veita honum leyfi þetta árið að hann getur ekki sprengt upp glæsileg sjávarspendýr í ár.
Bættur sé skaðinn.
En vitanlega er okkur sæmra að fylgjast með örlögum mjaldrasystranna. Þær eru langtum áhugaverðari en Kardashian-systurnar.
Við erum jú sannir Íslendingar og afkomendur Jóns Sigurðarson forseta.