Í greinum mínum um ofbeldi í garð kennara hef ég vitnað til norrænu landanna. Því miður eru engar rannsóknir til hér á landi og því ekki vitað hve víðtækur vandinn er. Eins og við gerum gjarnan þá berum við okkur saman við hin Norðurlöndin séu rannsóknir ekki til um málaflokkinn. Í fyrstu grein minni benti ég á könnun Vinnuumhverfisnefndar KÍ meðal grunnskólakennara í apríl s.l. sem gefur tilefni til frekari rannsóknar.
Á samtölum mínum við kennara má heyra að margir hafa áhyggjur af ástandi mála. Kennarar tala líka um að kryfja þurfi vandann til að finna út hvað veldur að nemandi velji ofbeldi fremur er samræður. Kennarar sem sagt hafa frá ofbeldi nefna að nemandi hafi stungið blýanti í handarbak, kastað hlut eftir viðkomandi, sparkað í fót, rekið blýant í höfuðið, sparkað í kvið, lamið í upphandlegg, tekið utan um kennara og haldið, bitið, námsgögnum samnema rutt af borðum, hurð skellt, borðum og stólum velt o.fl. Munnlegt ofbeldi tíðkast líka og ekki minnka áhyggur kennara vegna þessa. Mörg ljót orð eru látin falla um kennara, hann er tussa, mella, helvítis gömul kerling, fábjáni, fífl, trunta, „fucking“ frekja, o.s.frv. Læt vera að nefna ljótustu orðin.
Rannsókn og skýrsla danska vinnueftirlitsins frá 2018 sýnir að ofbeldi í garð kennara er staðreynd. Þeir gerðu rannsókn í nokkrum skólum í Danaveldi. Ofbeldið hefur tíðkast og jókst milli rannsókna. Frá 2012 hefur ofbeldið aukist um 6. 3% frá 13% upp í 19.3% og kennarar sem hafa upplifað hótun af hálfu nemanda er tæp 23%. Sömu sögu er að segja um tilkynningar um ofbeldi og hótanir, aukning.
Í umfjöllun HRS (Human rigths service) kemur fram að í Svíþjóð eiga mörg hundruð kennara við svefnleysi og streitu að stríða. Ástæðan er rekin til ofbeldis nemenda í garð kennara. Fjölmiðlar hafa ekki gefið málefninu gaum en þegar þeir fengu rannsókn sænsku kennarasamtakanna í hendurnar sáu þeir það svart á hvítu. HRS segir: „For i denne undersøkelsen var det påfallende mange lærere som opplyste at de rett og slett er blitt mishandlet av sine elever.“
Norðmenn hafa áhyggjur rétt eins og Danir. Norska vinnueftirlitið hefur áhyggjur af fáum tilkynningum um ofbeldi í garð kennara. Þeir hafa líka áhyggjur af bjargarleysi kennara þegar þeir mæta ofbeldisfullum nemendum í skólunum. Vinnueftirlitið mun í samvinnu við skóla vinna með ofbeldið og bjargráð. Samvinna milli stjórnenda og kennara er gott og menn eru sammála um að taka þurfi á ofbeldinu og hótunum í garð kennara.
Í janúar 2017 komu nýjar reglur sem leggur á herðar vinnuveitenda í Noregi að koma í veg fyrir ofbeldi og hótanir. Reglunar gera líka ráð fyrir að vinnuveitandi kenni og þjálfi kennara í að takast á við ofbeldi sem og lesa í aðstæður. Samkvæmt tölfræði norska vinnueftirlitsins svöruðu 14% grunnskólakennara að þeir hefðu mátt þola ofbeldi og hótanir frá nemendum.
Respons Analyse gerði rannsókn fyrir norsku kennarasamtökin, árið 2017, um ofbeldi og hótanir í garð kennara. Um 35% grunnskólakennara, yngri barna, segjast hafa orðið fyrir ofbeldi síðast liðið ár, 7% í unglingadeildum (ungdomsskole) og 1% í framhaldsskóla. Meðaltalið er 19%. Í 99% tilfella er um einn nemanda að ræða sem beitir ofbeldinu. Um 27% af kennurunum telja ofbeldið alvarlegt eða mjög alvarlegt. Um 4% af kennurunum í rannsókninni sögðust hafa lent fimm sinnum eða oftar í ofbeldi.
Þegar upplýsingar sem þessar liggja fyrir er ljóst að rannsaka þarf málaflokkinn hér á landi. Kennarasamtökin eiga að hysja upp um sig buxurnar, þó fyrr hefði verið og rannsaka málaflokki, greina ástæður og ekki síður finna lausnir. Tek hattinn ofan fyrir danska menntamálaráðherranum sem fór í málið, hún sætti sig ekki við að kennarar landsin byggju við ofbeldi. Kennarasamtök hinna Norðurlandanna virðst hafa sýnt málaflokknum áhuga undanfarin ár og leitað lausna, annað er hér á landi. Þöggun um ofbeldi.
Full ástæða er til að minna kennara á að tilkynna ofbeldi og þannig safna í tölfræðibankann. Vinnuerftilitið tekur við tilkynningum og gætið ykkur kennarar það er ekki bara á herðum stjórnenda að skrá tilvikið. Reynslan hefur sýnt að tilkynningaskyldan er ekki virt.
Umræða um ofbeldisgreinar mínar hafa vissulega komið mörgum í opna skjöldu. Einhver fer í meðvirknisgírinn og skýtur sendiboðann, mig. Mér hefur verið bent á að fá mér annað starf, ég beri út óhróður um börn og ég er vondur kennara, allt ummæli sem dæma sig sjálf af þeim sem láta svona út úr sér. Viðbrögð eins og hringja í skólastjórann minn og kvarta, jafnvel að fá mig rekna hjálpar umræðunni ekkert og enn síður þeim kennurum sem hafa lent í ofbeldi. Vandinn hverfur ekki við að ég þagni. Löngu tímabært að kennarar, kennaraforystan og samfélagið í heild vinni að lausn, vandamálið er til staðar, það sanna frásagnir kennara, rétt eins og á hinum Norðurlöndunum.
Höfum hugfast að góð lausn hefst á því að taka skynsama ákvörun um að gera það sem er rétt í óeigingjörnum aðstæðum. Leggjum þeim kennurum lið sem hafa mátt þola ofbeldi, finnum lausn í stað þess að moka vandanum, smáum eða stórum, undir teppið. Sýnum þessum kennurum samstöðu og að okkur sé annt um að þeir haldi heilsu og starfi sínu. Tökum þá að okkur þegar þeir fá vindinn í fangið, sem samstarfsmenn, yfirmenn og kennaraforysta.
Höfundur er M.Sc. M.Ed. og starfar sem grunnskólakennari og situr í vinnuumhverfisnefnd KÍ fyrir hönd grunnskólakennara.
Heimildir:
- Det Nationale Forskningscenter for Arbejdsmiljø. (e.d.). Undersøgelse af chikane, trusler om vold og fysisk vold rettet mod undervisningspersonale i udvalgte folkeskoler. Sótt 10. maí 2019 af http://nfa.dk/da/Forskning/Projekt?docId=27ef2dac-dbbf-4821-a3b9-02a514063a06
- Arbeidstilsynet. (e.d.). Må jobbe bedre med å forebygge vold og trusler. Sótt 10. maí 2019 af https://www.arbeidstilsynet.no/nyheter/ma-jobbe-bedre-med-a-forebygge-vold-og-trusler/
- HRS. (e.d.). Sjokkerende forhold i svensk skole: Vold og drapstrusler mot lærerne er utbredt. Sótt 10. maí 2019 af https://www.rights.no/2018/01/sjokkerende-forhold-i-svensk-skole-vold-og-drapstrusler-mot-laererne-er-utbredt/