Kæri Umboðsmaður:
Nú voru að berast fréttir þess efnis að börnum í Vinnuskóla Reykjavíkur hafi verið boðið að taka þátt í einskonar aktívistakennslu þar sem umhverfismál voru höfð að leiðarljósi.
(sjá: https://www.frettabladid.is/frettir/vinnuskolakrakkar-motmaela-i-hadeginu/)
"Nemendum Vinnuskóla Reykjavíkur býðst að taka þátt í umhverfisráði í Borgartúni á morgun. Þar munu þau læra um getu til aðgerða, fara í leiki tengda umhverfismálum og lýðræði og búa til mótmælaskilti. Í hádeginu munu nemendurnir fara ásamt grænum fræðsluleiðbeinendum úr Borgartúninu að Hallgrímskirkju og taka þátt í verkfalli ungmenna gegn aðgerðarleysi í loftslagsmálum.
Þeir sem taka þátt fá greitt samkvæmt taxta skólans, þeir sem taka ekki þátt halda áfram í hefðbundnum störfum."
Í kennslu þessari er börnunum uppálagt að nota aðferðir sem oft eru kenndar við vinstrisinnaða róttæklinga. Það er að búa til og veifa mótmælaskiltum með skilaboðum í upphrópunarstíl. Alveg óháð því hvaða málstað um ræðir, þá hlýtur þetta að orka tvímælis að börnum sé stillt svona fram í pólitískri umræðu.
Í 14. gr. Barnasáttmálans segir:
"1. Aðildarríki skulu virða rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar. "
Þar sem börnum er "boðið" að taka þátt í þessari róttæklingaþjálfun er þeim í raun stillt upp við vegg. Þau eigi annað hvort að taka þátt í þessum stjórnmálagjörningi, eða opinbera skoðun sína sem umhverfisslóða, eða eitthvað slíkt. Sem sagt opinbera það fyrir jafnöldrum sínum að hafa pólitískt rangar skoðanir. Sem verður að segjast eins og er að er etv. ekki mikið val fyrir óharðnaða unglinga sem hafa ekki nógu sterka sjálfsmynd til að brjóta normið og standa fyrir eigin sannfæringu.
Sá sem sér um róttæklingaþjálfun þessa er þá væntanlega líka dómari fyrir börnunum um hvers konar skoðanir séu réttar til að setja á þessi mótmælaspjöld. Enda er þarna um að ræða yfirmenn barnanna eða staðgengil þeirra. Hvaða barn hefur nógu sterka sannfæringu til að mótmæla nokkru sem slíkur aðili segir þeim að sé rétt? Þarna er mikið valdamisræmi og þar sem slíkt er, þá er réttilega hægt að tala um ofbeldi.
Ég velti fyrir mér hvort þetta gæti flokkast undir einhverskonar brot á barnaverndarlögum eða hið minnsta brot á Barnasáttmálanum um að leyfa börnum ekki að vera frjáls skoðana sinna og þurfa ekki að vera niðurlægð fyrir þær?
Róttæklingaþjálfun einnig komin í grunnskóla
Þá hef ég einnig heyrt af því að samskonar aktivistaþjálfun fari fram í lífsleiknitímum grunnskóla þar sem kennd eru kynjafræðisjónarmið. En í námsefni sem titlað er: 'Jafnréttisbaráttan kennsluefni fyrir eldri nemendur í grunnskóla' er að finna leiðbeiningar og verkefni sem fela í sér að nemendur geri kröfuspjöld, t.d. í anda Kvennafrídagsins.
(sjá hér: http://grunnskoli.kvenrettindafelag.is/wp-content/uploads/2015/09/n%C3%A1msb%C3%B3k_kvennasaga1.pdf)
Með sama hætti og í Vinnuskóladæminu á undan, er þarna verið að ýta börnum út í að opinbera "réttar" pólitískar skoðanir frammi fyrir öðrum börnum. Sem um leið felur í sér að þeim er gert erfitt um vik að mynda sér sínar eigin skoðanir. En þarna eru kenndar mjög umdeildar skoðanir líkt og óumdeildar staðreyndir væri að ræða.
Spurning er: er þetta boðlegt fyrir börn? Stenst þetta frelsi til hugsana og skoðana að mögulega niðurlægja börn eða búa til ótta hjá þeim við að mynda sér eigin skoðun á málefnum frammi fyrir jafningjum sínum? Hvar á svo að draga mörkin í hvers konar aktívistakennsla eða starf sem jafnan er stundað af stjórnmálasamtökum fullorðinna er hægt að ýta börnum út í að taka þátt í?
Bestu þakkir fyrir að hugleiða þetta.
kv. Viðar Freyr.