Undanfarna daga hafa fjölmargir þóttafullir aðilar haft stór orð um þá ákvörðun stjórnar og fulltrúaráðs VR að skipta um fulltrúa í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Því er jafnvel haldið fram af hagsmunaaðilum tengdum atvinnurekendum að ákvörðun VR sé ólögleg. Þar hafa sig auðvitað mest í frammi hagsmunagæsluaðilar frá samtökum atvinnurekenda.
Látið er að því liggja að verkalýðsfélögin eigi ekki að hafa stefnu er varðar starfsemi og ákvarðanatöku stjórna lífeyrissjóðanna hverju sinni. Þ.e.a.s. stjórnarmenn sjóðanna eigi að vera ósnertanlega verur og eigi aðeins að þjóna ráðandi öflum í sjóðunum. Síðan má auðvitað spyrja hvaða öfl það eru sem eru ráðandi á þeim bæjum.
Árni Stefánsson fulltrúi atvinnurekenda í stjórn LV, skrifar 28.6.2019 í Vísi.is með mikilli vandlætingu um þá ákvörðun VR að skipta um fulltrúa í stjórn LV sem hafa vakið upp sterk flokkspólitísk viðbrögð og er andófinu haldi uppi af félögum í samtökum atvinnurekenda. Það er ekki eins og stjórnir í þessum lífeyrissjóði í gegnum tíðina hafi alltaf tekið réttar ákvarðanir. Launafólki er auðvitað í fersku minni stóru útlánatöpin sem komu í ljós við „hrunið“.
Þá fullyrðir þessi ágæti aðili að útlánsvextir í lánaflokknum um „breytilega vextir“ eigi að hækka um 0,5% sem er auðvitað rangt. Hið rétta er, að fyrirhuguð hækkun á að vera upp á um nærri 10% sem er engin smá hækkun á einu bretti á sama tíma og vextir fara almennt lækkandi í samfélaginu. Ef dæmið er reiknað með einföldum prósentureikningi.
Síðan er ruglað með ávöxtunarkröfur lífeyrissjóðanna sem blandað er inn í umræðuna og búið til dæmi um nær þriðjungs lækkun á ávöxtunarkröfum lífeyrissjóðanna sem hefði auðvitað mjög mikil áhrif. En er ekki hluti af þessari umræðu.
Ekki gengur að loka augunum fyrir þeirri staðreynd, að afkoma eftirlaunafólks ræðst af lífeyri úr sjóðunum en ræðst einnig af vaxtakjörum á húsnæðislánum. Eldra fólk býr í vaxandi mæli í leiguhúsnæði. Þá eru það vissulega eftirlaun frá TR, skattar og óeðlilegar skerðingar.
Vert væri í þessu sambandi að skoða hvernig áhrif útlánatapana hefur verið síðustu t.d. 12 árin á ávöxtun sjóðanna. Það er algjörlega nauðsynlegt að mati launafólks. Allt eru þetta atriði sem verkalýðsfélögin þurfa fyrir hönd umbjóðenda sinna að rannsaka nánar.
Einnig væri fræðandi að rannsaka hver áhrif samtaka atvinnurekenda hefur verið á fulltrúa sína í stjórnum lífeyrissjóðanna frá upphafi. Það vill svo til, að stefna atvinnurekenda um þessa sjóði er, að þeir eigi að vera fjárfestingalánasjóðir og þeir eigi jafnvel að lána til áhættufjárfestinga.
Svipuð stefna hefur iðulega verið borin uppi af fjölmörgum alþingismönnum í gegnum tíðina. Það á sér stað mikil miðstýring innan samtaka atvinnurekenda á öllum sviðum og einnig er varðar störf fulltrúa þeirra í stjórnum sjóðanna fyrir þeirra hönd.
Stefna launafólks er að sjóðirnir eigi einvörðungu að vera eftirlaunasjóðir fyrir fjölskyldur launafólks. Nokkuð sem sjóðirnir hafa staðið illa undir. Þá hefur ríkisvaldið alla tíð nartað í sjóðina og refsað sjóðsfélögum.