Kæri forsætisráðherra, kæri dómsmálaráðherra, kæri félags- og barnamálaráðherra og aðrir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands,
það hefur varla farið fram hjá ykkur að við stöndum frammi fyrir einni stærstu mannúðarkrísu sögunnar sem einkennist af því að aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum en nú. Í lok árs 2018 voru 70.8 milljónir einstaklinga á flótta um allan heim undan stríði, ofsóknum, átökum og ofbeldi og fátt bendir til annars en að fólki á flótta muni halda áfram að fjölga á næstu árum.
Rúmlega helmingur þeirra sem voru á flótta árið 2018 voru börn yngri en 18 ára. Það þýðir að meira en 35 milljónir barna voru á flótta í lok árs 2018. Þeirra á meðal eru fylgdarlaus börn sem eru börn yngri en 18 ára sem eru aðskilinn frá báðum foreldrum sínum og eru ekki í umsjá fullorðins einstaklings sem samkvæmt lögum eða venjum ber skylda til þess að sjá um barnið.
Að vera barn á flótta er einhver skelfilegasta lífsreynsla sem hægt er að upplifa og um er að ræða sérstaklega viðkvæman hóp flóttafólks. Það velur ekkert barn að vera á flótta og það leggur ekkert foreldri það á barnið sitt að gera það að flóttabarni nema það sé lífsnauðsynlegt og enginn annar valkostur er til staðar.
Börn á flótta þurfa að takast á við erfiðar áskoranir, jafnt andlegar sem og líkamlegar. Mörg eiga þau að baki hættulegt ferðalag, þau hafa upplifað stríð og átök, dauða fjölskyldumeðlima, ofsóknir, ofbeldi, misnotkun, þrælahald, þvingaðan hernað og kynferðislegt ofbeldi. Börnin ganga í gegnum slík áföll á mikilvægum tíma í þroskaferli þeirra og það getur haft langvarandi áhrif á þroska þeirra, heilsu og velferð ef ekki er staðið að móttöku og umönnun þeirra á réttan hátt.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að börn á flótta upplifa mikinn kvíða og álag og þjást meðal annars af áfallastreitu og þunglyndi vegna þess sem þau upplifa á flóttanum. Í viðtölum lýsa flóttabörn meðal annars sorg, hræðslu og mikilli neyð. Geðheilsa flóttabarna og velferð þeirra er því í hættu og líkur eru á að þau þrói með sér alvarleg geðræn og/eða sálræn vandamál sem geta fylgt þeim allt þeirra líf ef þau fá ekki aðstoð við að vinna úr þeirri erfiðu lífsreynslu sem þau hafa gengið í gegnum á flóttanum, ef þau fá ekki skjól, vernd og öryggi.
Þar skiptir sköpum hvernig staðið er að umönnun og móttöku barna á flótta í þeim ríkjum sem þau sækja um vernd í. Sú reynsla getur annað hvort ýtt undir eða dregið úr velferð barnanna, allt eftir því hvort móttökurnar eru góðar eða slæmar, hvort réttindi barnsins eru tryggð og grunnþörfum þeirra sinnt, hvort barnið hafi aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu, hvort það fái tækifæri til þess að þroskast, hvort það upplifi öryggi eða óvissu, hvort það fái vernd og skjól í því ríki sem það er statt í eða er sent aftur á flótta.
Á tímabilinu 13. mars 2013 – 10. apríl 2019 var 317 börnum neitað um alþjóðlega vernd á Íslandi og þeim gert að yfirgefa landið. Með öðrum orðum voru þau send aftur á flótta. Þau voru ekki öll í fylgd með foreldrum sínum. Samkvæmt tölfræði Útlendingastofnunar hefur 75 börnum verið neitað um vernd á Íslandi árið 2019. Gera má ráð fyrir því að þau séu flest komin aftur á flótta eða eigi von á því að vera send úr landi og aftur á flótta á næstu dögum og búi nú við ofsakvíða og óttann sem fylgir því að vera rifin úr því öryggi og skjóli sem þau hafa fundið hér.
Mahdi, Ali, Zainab og Amir eru fjögur af þeim börnum sem nú bíða þess að vera send úr landi og aftur á flótta. Það sem þau hafa gert til þess að eiga það skilið, samkvæmt niðurstöðu málsmeðferðar þeirra hjá Útlendingastofnun og Kærunefnd Útlendingamála, er að hafa fengið vernd á Grikklandi.
Grikkland er fyrsti áfangastaður margra sem eru á flótta vegna landfræðilegrar legu þess. Vegna þess sækja þúsundir einstaklinga um vernd þar í landi í hverjum mánuði. Það hefur orðið til þess að kerfið sem heldur utan um móttöku og umönnun fólks á flótta á Grikklandi er sprungið vegna álags. Fyrir flóttafólk á Grikklandi þýðir það meðal annars heimilisleysi, atvinnuleysi, skort á félagslegri þjónustu, skort á heilbrigðisþjónustu, og fyrir flóttabörn, skort á menntun. Það þýðir líf á götunni, hungur, svefnleysi og óöryggi og það getur þýtt vændi, mansal og annað ofbeldi til þess að eiga fyrir mat.
Ísland er aðili að Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna frá árinu 1951 sem og Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Samkvæmt þessum samningum skal Ísland meðal annars tryggja að börn njóti umönnunar, öryggis, verndar og skjóls, hafi aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu, fái tækifæri til þess að þroskast, fái að tjá skoðanir sínar og hafi tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem það varðar.
Eitt af grundvallaratriðunum í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins er að „það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“ Það er nauðsynlegt að það sé haft að leiðarljósi þegar kemur að ákvarðanatöku í málefnum barna á flótta. Því miður virðist það þó einkenna mál flestra barna á flótta sem sækja um vernd hér á landi að þessi mikilvæga grein í Barnasáttmálanum nái ekki lengra en að það sé talið barni fyrir bestu að fylgja foreldri sínu sem neitað hefur verið um vernd úr landi og aftur á flótta. Við slíka ákvarðanatöku er ekki tekið tillit til þess hvaða aðstæður það eru sem bíða barnsins á næsta áfangastað, hvað það þýði fyrir barnið að vera sent aftur á flótta.
Það lýsir sér meðal annars í því að það er ekki með nokkru móti hægt að færa rök fyrir því að lífið á götunni á Grikklandi og allt sem því fylgir sé Mahdi, Ali, Zainab og Amir, eða nokkru öðru barni fyrir bestu, þegar hinn valmöguleikinn er skjól, friður, skólaganga og tækifæri til þess að eiga framtíð hér landi. Framtíð sem þau eru þegar farin að byggja upp á þeim mánuðum sem þau hafa verið hér með því að læra tungumálið, ganga í skóla hér, eignast vini og upplifa von. Því miður virðast hagsmunir þessara og margra annarra flóttabarna víkja fyrir hagsmunum íslenska ríkisins sem vill hafa stjórn á fólksflutningum til landsins. Það lýsir sér meðal annars í því að í þau fáu skipti sem fjallað er um hvað er barninu fyrir bestu í málefnum barna á flótta sem sótt hafa um vernd hér á landi er það til þess að réttlæta það að neita barninu um alþjóðlega vernd og senda það úr landi og aftur á flótta. Það er með öllu óásættanlegt.
Kæru ráðherrar,
framlag Íslands til einnar stærstu mannúðarkrísu sögunnar getur verið mun betra en það er núna. Íslenskt samfélag hefur upp á margt að bjóða og skortir fátt. Slíkt samfélag getur án erfiðleika veitt þeim fáu flóttabörnum sem hingað koma skjól, vernd og framtíð. Það eina sem skortir er vilji stjórnvalda.
Við erum að tala um börn.
Ég hvet ykkur til þess að beita ykkur fyrir því að þau börn sem eru á flótta og koma hingað í leit að skjóli fái hér vernd, að við uppfyllum lagalegar og siðferðislegar skyldur okkar og veitum þessum börnum tækifæri til þess að fá að vera börn. Ég hvet ykkur til þess að beita ykkur fyrir því að þau börn sem eru hér nú þegar verði ekki vísað úr landi og send aftur á flótta. Við getum ekki sem samfélag verið ábyrg fyrir því að heilsa og velferð þessara barna fari versnandi vegna ótta þeirra um að vera send á nýjan leik út í óöryggið og óvissuna þegar það eina sem þarf til þess að koma í veg fyrir það er pólitískur vilji. Við getum ekki sem samfélag verið ábyrg fyrir því að svipta börn öryggi og skjóli og halda þeim á flótta um ókomna tíð.
Ég bið ykkur um að vernda börnin og gera það sem þeim er fyrir bestu. Það er ávallt að senda þau ekki aftur á flótta heldur veita þeim vernd hér á landi.