Það er alþekkt í allskyns klíkum að fólk sem vill inngöngu í hópinn þarf að sanna sig. Klíkurnar hleypa ekki hverjum sem er inn og stundum eru skilyrðin sem þarf að uppfylla fremur undarleg og jafnvel ógeðsleg. Hver man ekki eftir breska forsætisráðherranum sem átti að hafa þurft að setja viðkvæmasta hluta líkama síns upp í kjaftinn á dauðu svíni til að fá inngöngu í fínimannaklúbb á háskólaárum sínum? Oftar en ekki eru þó skilyrðin óskráð og breytileg og aðeins sýnileg kunnugum.
Ein helsta valdaklíka íslenska lýðveldisins heitir Sjálfstæðisflokkurinn. Flokkurinn og forverar hans hafa ráðið næstum öllu á þessu skeri síðan elstu menn muna, oftast þó í samstarfi við aðra sem hafa verið tilkippilegir á hverjum tíma. Og einu hefur flokkurinn gætt að missa helst aldrei völdin yfir, síðustu áratugi þegar hann hefur verið í ríkisstjórn á annað borð (sem er næstum alltaf), og það er ráðuneyti dómsmála.
Dómsmálaráðuneytið er í raun bara pínulítið ráðuneyti og alla jafna, þegar ekki er verið að klúðrað því að setja á stofn millidómsstig, þá held ég að það sé fremur rólegt þar. Það er nefnilega sjaldnast verið að breyta neinu í dómskerfinu okkar. Sannarlega eru undantekningar á því, t.d. eftir hrun þegar ýmislegu var breytt í löggjöf um gjaldþrot og úrvinnslu þeirra mála og svo auðvitað núna, eftir að frú Sigríði Á Andersen tókst að rústa Landsdómi. Ráðuneytið er raunar svo lítið að þegar aðrir réðu þar þótti upplagt að sameina það öðrum ráðuneytum í svokallað innanríkisráðuneyti.
En þarna eru náttúrulega spottar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur viljað halda í og því miður tekist alltof oft. Það er dómsmálaráðherra sem hefur ráðið dómara og í slíku vali felast mikil völd eins og raunar er mun greinilegra í öðrum ríkjum, t.d. í hæstarétti Bandaríkjanna þar sem breytt skipun dómara gæti til að mynda breytt rétti kvenna til þungunarrofs eða samkynhneigðra til að giftast þeim sem þeir elska. Og svo heyra málefni hælisleitenda og Útlendingastofnun undir dómsmálaráðherra.
Við erum mörg sem höfum velt fyrir okkur hvers vegna framganga Útlendingastofnunar er með þeim hætti sem raun bera vitni. Jafnvel þegar yfirlýst markmið nýrrar löggjafar er mannúðlegri nálgun á málaflokkinn virðist framkvæmdin enn harkalegri og ljótari. Og við skulum alveg gera okkur grein fyrir því að þessi stofnun hefur orðið til og þróast með þeim hætti sem raun ber vitni undir ásjónu þeirra fjölmörgu ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem hafa vermt þá skrifstofu síðustu áratugi. Mér hefur stundum dottið í hug að seta þar og samþykkt á ýmsu sem gerst hefur í málefnum útlendinga sé eins konar ógeðsdrykkur sem ráðherrann hverju sinni hefur þurft að kyngja til að sanna sig fyrir hópnum. Sanna að hann sé sko laus við alla tilfinningasemi og geti tekið erfiðar ákvarðanir ef honum sýnist svo. Sanna að hann sé karl í krapinu, áræðinn og óhagganlegur, jafnvel þegar hagsmunir einstaklinga í veikri stöðu eru í húfi, áður en honum er treyst í önnur verkefni.
En nú er ný kona í brúnni og ég var örugglega ekki ein um að binda vonir við að hún væri sæmileg manneskja. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ber sannarlega af sér góðan þokka. Og nú reynir á hana á ýmsum vígstöðvum.
Það á að vísa tveimur barnafjölskyldum úr landi og fólk er almennt brjálað yfir því. Ráðamenn kalla gjarna eftir "aukinni skilvirkni" í málefnum hælisleitenda sem er fagmál yfir að vísa fólki úr landi án þess að við hin tökum mikið eftir því. Það klikkaði algjörlega núna. Okkur, almennum borgurum, þykir nefnilega orðið svo undurvænt um þessa krakka. Hana Zainab Safari sem samnemendur hennar í Hagaskóla hafa haldið svo fallega utan um og bróðir hennar og Sawari-bræðurna sem þjást af kvíða vegna yfirvofandi brottvísunar. Okkur "góða fólkinu" finnst sjálfsagt mál að þau og foreldrar þeirra fái að vera hérna áfram. Í þetta sinn eru heldur ekki bara örfáir aktivistar að berjast fyrir nafnlaust fólk. Nú hefur myndast almenn samstaða um að verja þessar fjölskyldur eins og mikil þátttaka í mótmælagöngu í gær sýndi. Við viljum leyfa þeim að vera og við viljum ekki að börnum sé vísað út í óvissuna. Almennilegt fólk skilur nefnilega ekki svoleiðis mannvonsku.
Á sama tíma er sótt að Þórdísi Kolbrúnu ráðherra úr hörðum kjarna í hennar eigin flokki. Við sem lesum stundum Moggann fylgjumst hissa með árásum gamallar valdaklíku flokksins og leiðtoga á þessa stjórnmálakonu sem ætti að geta átt framtíðina fyrir sér og látið gott af sér leiða. Hún er kölluð "skjáta", "fagri ferðamálaráðherrann með mörgu nöfnin“, sögð óskýr í hugsun, ung og óreynd. Þessi kona er þó varaformaður flokksins. Sú umræða hefur að töluverðu leyti snúist um orkupakka en ekki hælisleitendur og tilheyra þessi mál sitthvoru ráðuneytinu. Á þeim er þó snertiflötur sem snýr að því hvort Ísland eigi að vera frjálslyndur og virkur þátttakandi í alþjóðasamstarfi eða ekki.
Viðhorf og væntingar þessara tveggja hópa sem nú banka á dyrnar hjá Þórdísi Kolbrúnu eru ósamrýmanlegir pólar og hún mun aldrei geta gert báðum þessum hópum til geðs. Hún er að vinna annað málið með skýrum og staðreyndamiðuðum málflutningi og upplýsingagjöf um alla heimsins orkupakka en hún er að skíttapa í málum fjölskyldnanna tveggja. Það var ljóst daginn sem krakkarnir í Hagaskóla fjölmenntu með skólasystur sinni niður í ráðuneyti í vor.
Þórdís Kolbrún hefur um tvennt að velja. Hún getur gert ekki neitt og ekki látið ná í sig næstu daga þar til fjölskyldunum tveimur hefur verið vísað úr landi eða hún getur kippt í einhvern þeirra fjölmörgu spotta sem liggja úr dómsmálaráðuneytinu í Útlendingastofnun og stöðvað brottfluttninginn. Fyrir það mun hún örugglega verða kölluð niðrandi nöfnum á síðum Moggans en hún ætti að vera orðin vön því. Ef hún fer fyrri leiðina missir hún hins vegar tiltrú almennings. Það verður ógjörningur fyrir okkur sem vildum trúa að hún væri almennileg manneskju að halda það áfram. Velji hún að líta undan á meðan börnunum er vísað úr landi getur vel verið að harði kjarninn hætti að kalla hana "skjátu" og taki það jafnvel upp hjá sjálfum sér að læra nafnið hennar og nota það og treysti henni fyrir frekari embættum. Leyfi hún hjartanu að ráða (sem ég vona enn að leynist einhvers staðar þarna innan í henni) og fúlsi við manndómsvígsluógeðsdrykknum og tryggi að Safari- og Sawari-fjölskyldurnar fái að vera áfram á Íslandi þar sem börnin hafa eignast vini, gengið í skóla og lifað því sem við köllum eðlilegu lífi í fyrsta sinn á æfinni, gæti vel verið að hún þyrfti jafnvel að fylgja dæmi fyrrum varaformanns Sjálfstæðisflokksins og fara í Viðreisn.
En er það ekki skárri félagsskapur hvort sem er?