Eftir sögulegt hagvaxtarskeið íslensku þjóðarinnar er hagkerfið okkar að lenda og stóra áskorunin er, eins og áskorun allra flugstjóra, mjúk lending. Allt virðist benda til þess að við séum að ná einmitt því, mjúkri lendingu. Óhætt er að segja að gjaldþrot WOW hafi ollið töluverðri hræðslu og ótta hjá mörgum. Hvaða áhrif hefur það þegar stórt félag, samfélagslega mikilvægt, fer í þrot? Starfsmenn missa vinnu sína og ruðningsáhrifin sem orðið geta. Hvað með öll hótelin, afþreyingarfyrirtækin, veitingastaðina, kaffihúsin, bílstjórana, landsbyggðina og svo mætti lengi telja? Nú er næsta öruggt að gjaldþrot WOW hefur áhrif á alla þessa aðila og fleiri til, spurningin er samt hversu mikil áhrif og hvernig tekst þessum aðilum að snúa vörn í sókn.
Mikið hefur verið fjallað um samdrátt í ferðaþjónustu og nýverið birtust upplýsingar um hagnað Bláa lónsins. Forstjórinn sagði að fyrir mörgum árum hefði Bláa lónið breytt stefnu sinni og væri núna fyrst og fremst að vinna með að auka „virði“ hvers ferðamanns í stað þess að einblína á fjölda þeirra. En það er einmitt það sem Ísland á að gera og hefði kannski alltaf átt að leggja áherslu á í stað þess að keppast við að fá sem flesta.
Kannski er það að takast núna en samkvæmt nýjustu greiningu Arion banka á ferðaþjónustunni þá er íslenska ferðaþjónustan að vinna varnarsigur. Þrátt fyrir miklar fréttir um ferðaþjónustufyrirtæki í kröggum þá virðast tölur um kortaveltu benda til þess að ferðamaðurinn eyði meira en áður og róðurinn kannski ekki jafn þungur og margir óttuðust. Kortavelta eykst sem skýrist líklega af lengri dvalartíma. Þannig dróst heildarkortavelta erlendra ferðamanna aðeins saman um 0,7% í maí en ferðamönnum fækkaði um 23,6% á sama tíma.Tölur aprílmánaðar benda til hins sama. Að því gefnu að þetta séu áreiðanlegar tölur virðist ferðaþjónustan vera að taka við sér og auka framboð sitt þannig að ferðamaðurinn kýs að dvelja lengur og eða eyða meiru, sem er frábært.
Næsti ferðamaður sem syndir inn í landhelgina
Eftir bankahrun er óhætt að segja að straumur fólks og nýrra fiskitegunda hafi hjálpað til við að ná þeim ótrúlega árangri sem íslenskt atvinnulíf og efnahagslíf hefur upplifað á síðustu árum. Þarna á ég auðvitað við fádæma vöxt í ferðaþjónustu og makrílveiðar. Það er þó ekki svo að þetta hafi bara komið upp í hendurnar á okkur. Heldur er sá ótrúlegi efnahagsbati til kominn vegna þess að tækifærin voru nýtt. Frumkvöðlakraftur Íslendinga var þess valdandi að fólk og fyrirtæki gripu tækifærin - stofnuðu ný fyrirtæki, veiddu nýja stofna, þróuðu nýja þjónustu, byggðu ný hótel, keyptu skip o.s.frv. Umhverfið var þannig að þetta var hægt, lög, reglur og stjórnvaldsaðgerðir ýttu undir möguleikana sem varð þess valdandi að við upplifðum einstakt hagvaxtarskeið.
Tækifærin eru víða, það er einstaklinganna að finna þau og nota en stjórnvalda að sjá til þess að það sé gerlegt, stuðla að og hjálpa til við að láta tækifærin verða að auknum lífsgæðum. Sögulega hefur Ísland verið auðlindadrifið hagkerfi. Það er ekki alslæmt en á því verður ekki byggt til allrar framtíðar. Verkefni næstu ára er að hvetja til og byggja upp hugvitsdrifið hagkerfi. Eldri atvinnugreinar okkar sem byggja á auðlindum eiga að sjálfsögðu að fá að blómstra áfram með áherslu á nýsköpun og sjálfbæra auðlindanýtingu en vöxturinn þarf að vera í hugvitsdrifnum atvinnugreinum.
Framtíðin eða framtíðirnar verða til með nýsköpun.