Sumt ofbeldi er svo hversdagslegt að við sjáum það ekki sem slíkt. Og stundum þegar manneskja, sem hefur orðið fyrir hinu hversdagslega ofbeldi biður um að hætt sé að sparka í sig, þá mætir henni stofnun sem segir: „Sorrí, við erum búin að leggja mat á hagsmuni þína og þér er fyrir bestu að vera áfram berskjölduð.“
Og þegar fólk stígur fram og bendir á að verið sé að sparka í liggjandi barn – barn sem biður ekki um annað en að fá að lifa manneskjulegu lífi – þá stígur æðsta yfirvaldið fram, ráðherrann sjálf, og segir: „Sorrí, svona eru reglurnar okkar og jafnræðisreglan bannar mér að gera sérstakar ráðstafanir fyrir ofbeldisþega eins og þig.“
Og þegar manneskjan – sem reyndar er ekki manneskja í bókum kerfisins heldur eitthvað annað – segir að hún sé bara barn sem hér hafi eignast góða vini, og að sig langi til að ganga í skóla, mennta sig, taka þátt í lífi samfélags, og bara yfirleitt að geta horft fram á eitthvað sem hún geti hugsað um sem „góða framtíð“, þá mætir henni bergmálið af fyrri höfnun: „Sorrí, við erum búin að leggja mat á hagsmuni þína og þér er fyrir bestu að vera áfram berskjölduð – vinir, menntun, öryggi og almenn væntumþykja eru ekki hagsmunir þínir.“
Yfirvaldið segist vinna málin faglega og á hlutlausan hátt. En ég spyr: Hvað er faglegt og hlutlaust við það að senda barn úr landi, taka það frá vinum sínum sem það hefur eignast í skólanum, og þurrka út þá litlu framtíðarsýn sem það hefur hægt og bítandi verið að gera sér vonir um?
Réttarríkið
Þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem er ráðherra dómsmála, segir að hún geti ekki stigið inn í einstök mál, þá er það alveg rétt hjá henni. Ráðherra á ekki að stíga inn í einstök mál. Kjölfestan í lýðræðinu er réttarríkið og þar er ekki stjórnað eftir duttlungum ráðherra heldur eftir lögum sem eru almenn og gilda jafnt fyrir alla.
En til að bregðast við því að til stendur að vísa tveimur afgönskum fjölskyldum úr landi – annars vegar einstæðum föður með tvo syni, 9 og 10 ára, hins vegar einstæðri móður með son og dóttur, 12 og 14 ára – þarf hún ekki að grípa inn í einstök mál. Hún getur hæglega sagt að það sé ekki svona sem við sem þjóð viljum koma fram við börn á flótta og því þurfi að endurskoða framkvæmd laganna. Og á meðan á þeirri endurskoðun stendur, þá verði engum börnum vísað úr landi.
Í réttarríki ganga lögin jafnt yfir alla. En stendur Ísland undir því að kallast réttarríki? Ganga lögin jafnt yfir alla? Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Íslandi 20 febrúar 2013. Það þýðir að samningurinn hefur lagagildi – það sem í honum stendur eru lög á Íslandi. Og sáttmálinn hefur í raun haft mikil áhrif á stöðu barna, fjöldi leikskóla hefur t.a.m. lagt ríka áherslu á að hlustað sé börn, að þeim sé gefið færi á að hafa áhrif á umhverfi sitt, að þau taki þátt í að meta hvað séu hagsmunir þeirra og hvað ekki, og að litið sé á þau sem borgara í ríkinu en ekki bara eitthvað sem hægt sé að ráðskast með þar til þau verði allt í einu borgarar við 18 ára aldurinn.
En þegar kemur að þeim hópi sem er hvað varnarlausastur þá bregst réttarríkið. Það lítur ekki á börn á flótta sem fullgilda borgara. Það lítur ekki á þau sem börn heldur sem ofbeldisþega. Í réttarríkinu er oft spurt: Hverjir eru hagsmunir barna? Og til að svara þykir eðlilegt að spyrja börnin sjálf og foreldra þeirra, skólana og fagfólk sem starfar á sviði uppeldis og menntun. En þegar barnið er á flótta mæta því aðrar stofnanir. Það þykir ekki lengur við hæfi að spyrja börnin sjálf, ekki heldur foreldrana og enn síður skólann þar sem þau hafa verið. Þegar foreldrar meta hagsmuni barnanna sinna, t.d. þegar til stendur að flytja um hverfi, þá þykir eðlilegt að spyrja börnin (þótt þeirra mat ráði kannski ekki ferðinni) og atriði eins og væntumþykja, vinir og vonir ráða ferðinni. Þegar um börn á flótta er að ræða virðast þessi atriði engu skipta – væntumþykja, vinir og vonir teljast ekki með.
Í Barnasáttmálanum segir að „það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn“ (3. gr., 1. tl.). Og í annarri grein sáttmálans er kveðið á um að börn hafi eitthvað um eigin örlög að segja: „Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska“ (12. gr., 1. tl.).
Í viðtali við RÚV segir sviðsstjóri verndarsviðs útlendingastofnunar að það sé „forsvaranlegt“ að senda börn til Grikklands. Hvað þýðir þetta? Gagnvart hverjum er hægt að forsvara það að vísa á brott barni sem verið hefur á flótta í mörg ár, loks fundið skjól og öryggi, eignast vini og kannski byrjað að gera sér væntingar um framtíð án hrakninga og ofbeldis? Er það forsvaranlegt gagnvart lögunum með tilliti réttarvenju og fordæma? Hverskonar réttarríki er það? Það er örugglega ekki forsvaranlegt gagnvart barninu sjálfu, ekki foreldrum þess og ekki heldur gagnvart 11.000 manns (4.7.2019) sem hafa skrifað undir áskorun um að Zainab Safari og fjölskyldu hennar verði veitt landvistarleyfi.
Er ekki mál að ráðherrann stígi inn og segi ekki bara „Sorrí“ heldur standi með gildum réttarríkisins, lýðræðisins – standi með mennskunni sjálfri – og segi: „Nei, þetta er ekki það réttlæti sem við viljum. Við viljum réttlæti þar sem litið er á börn á flótta sem börn – sem manneskjur sem njóta sömu réttinda og börn sem ekki eru á flótta.“
Ofbeldi gegn börnum
Stundum er ofbeldi líkamlegt, stundum andlegt, en oft reyndar hvort tveggja. Ofbeldi er alltaf slæmt en það aldrei grimmilegra en þegar það beinist gegn börnum. Eitt sinn tíðkaðist að flengja börn, en því var hætt og nú er það bannað vegna þess að það er ofbeldi. Á Íslandi hefur þrældómur barna að mestu verið aflagður vegna þess að hann er dæmi um ofbeldi – þótt við njótum reyndar ávaxtanna af barnaþrælkun í fjarlægum löndum. Að slíta börn frá vinum sínum, þegar engin nauðsyn kallar á, er ofbeldi. Það er líka ofbeldi að gefa barni von um framtíð og segja svo bara „sorrí, allt í plati“ og senda það aftur út í vonleysi. Að hafa pláss í skóla fyrir barn og senda það svo í burtu með þeim orðum að vonandi finni það annan skóla annars staðar, einhverntímann, er dæmi um ofbeldi.
Mikilvægasta hlutverk réttarríkisins er að vernda borgarana gegn ofbeldi. Þess vegna er það líka versta dæmi um ofbeldi, þegar sjálft réttarríkið beitir ofbeldi. Og þegar það beitir ofbeldi gegn börnum, hefur það náð botninum. Og hvað sem hver segir, þá er slíkt ofbeldi ekki forsvaranlegt.