1. Þáttur
Leikritið gerist á Íslandi á fyrri hluta 21. aldar. Efniviður er sóttur til fjölmiðla og í samfélagsumræðu sem fram fer víða s.s. í dagblöðum, ljósvakamiðlum og netheimum.
Persónur: Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, aðstoðarmenn og sérlegur gestur ríkisstjórnarfundar.
(Sviðið er Stjórnarráð Íslands, fundarherbergi með þrennum hliðardyrum og einu stóru borði með stólum, mynd af Jóni Sigurðssyni á vegg. Ríkisstjórnarfundur er að hefjast. Ráðherrar og aðstoðarmenn svingla um, beðið er eftir forsætisráðherra og formanni samtakanna „Björgum börnum“ sem er sérlegur gestur fundarins. Barnamálaráðherra stendur yst til vinstri og talar lágt en ákaft í gemsa, erfitt er að greina orðaskil fyrr en hann segir skyndilega mjög hátt og í uppnámi) Á að kenna mér um þetta?
(Viðstaddir líta upp en í sama bili ganga forsætisráðherra og gestur fundarins inn á sviðið. Hreyfing kemst á leikendur og forsætisráðherra klappar saman höndum, ráðherrar og gesturinn setjast við borðið en aðstoðarmenn hverfa út um hliðardyr.)
Forsætisráðh.: Ég býð ykkur velkomin á fundinn, aðeins eitt mál er á dagskrá. Það er gauragangurinn vegna hælisleitenda og Útlendingastofnunar. Við þessu verður að bregðast og ég vona að þið komið með góðar tillögur um hvernig slá má á undirölduna sem virðist risin í samfélaginu. Við verðum að bregðast hratt við því ekki kærum við okkur um önnur hrunmótmæli, eða hvað? (forsætisrh. brosir dauft út í annað og lítur til nýsköpunarráðherra og barnamálaráðherra.).
Nýsköpunarrh.: Ég er ekki mótfallin því að fólk komi hingað til lands í leit að betra lífi þó það komi frá öruggum löndum. Það verður þó að aðgreina frá umsóknum þeirra sem eru í neyð.
Auðlindarh.: (Tautar) hvað er neyð og hvað er ekki neyð? (Hærra) Vatnajökulsþjóðgarður er nú kominn á heimsminjaskrá.
(leikendur líta ráðvilltir upp)
Forsætisrh.: Ég get ekki tjá mig eða stigið inn í mál einstaklinga sem eru til umfjöllunar í fjölmiðlum. En það er skýr vilji til að auka fjármuni til málaflokksins, þannig að Útlendingastofnun og aðrar stofnanir sem fara með þessi mál geti sinnt því svo sómi sé að.
Nýsköpunarrh.: Ég má heldur ekki tjá mig um einstök mál eins og allir vita en ég er búin að breyta reglugerð til hagsbóta fyrir þess... sum börn að minnsta kosti.
Gestur fundarins: (Lágt en ákveðið) ég vil árétta að reglugerðarbreyting ein og sér kemur ekki í veg fyrir að börnum verði vísað úr landi, ef þau hafa fengið vernd einhversstaðar.
Nýsköpunarrh.: (Út í salinn) enginn getur ímyndað sér ringulreiðina í reglugerðunum hennar Siggu. (Yfir borðið) það er búið að ákveða að fresta brottvísun annarrar fjölskyldunnar.
Heilbrigðisrh.: Já, geðlæknir á bráðamóttöku barna sagði að ekki væri mögulegt að vísa ellefu ára dreng í fjölskyldunni úr landi þar sem hann væri svo alvarlega þjakaður af kvíða. Við verðum að hlusta á heilbrigðisstéttirnar (lítur sigri hrósandi í kringum sig).
Sveitarstjórnarrh.: Maður veit ekki hvað getur orðið til hjálpar, hvað með Sundabraut, hjálpar það ef hún kemst á koppinn?
(Efnahags- og barnamálaráðherrar flissa og bera samstundis hendur fyrir munn).
Gestur fundarins: Erum við að ræða þetta almennt, eða erum við að tala um þessi fjögur börn sem verið hafa í umræðunni? Það eru ekki bara fjögur börn á flótta í Evrópu, þau skipta þúsundum, við berum ábyrgð sem rík þjóð, ábyrgð á að gera eitthvað.
Menningarmálarh.: (Þekktur fyrir stálminni) eru allir búnir að gleyma gyðingunum sem Íslendingar ráku úr landi og beint í gasklefana? Um miðja síðustu öld?
Utanríkisrh.: Nei, nei, en þetta er þreytandi, það eru allir að væla um þetta, umboðsmaður barna, Rauði krossinn, Allsherjarnefnd, UNICEF, No Borders, Kvenfélagasambandið, Sjómannasambandið, bara nefnið það.
Nýsköpunarrh.: Ísland verður að horfa til annarra landa í málum flóttamanna og hælisleitenda. Reglugerðarbreytingin um útlendingamál var ekki unnin á sólarhring, þetta var afrakstur vinnu síðustu mánaða. (Andvarpar) það er mjög erfitt að hætta að senda börn til Grikklands.
Efnahagsrh.: Ég minni viðstadda á þá staðreynd að flóttamenn kosta, endurskoðuð fjármálaáætlun leit ekki vel út ef menn muna svo langt aftur.
Landbúnaðarrh.: (Hefur setið þögull en ræskir sig nú hraustlega, allir líta í átt til hans) hvað með mjólkina? Er ekki hægt að senda mjólk til Grikklands, já til allrar Evópu. Mjólkin flæðir á Íslandi, stórfjósin rísa hér um allt land. Við getum sent mjólk, jafnvel kýr, eða mannskap til að reisa stórfjós, við kunnum þetta.
Forsætisrh.: (Er orðin ókyrr, rís á fætur, lítur yfir svið og sal, léttari í bragði) ég heyri að allir eru sammála um að bjarga börnum, tillögur ykkar eru frábærar, Sundabraut og mjólk til Grikklands, frábært. Vatnajökull gerir kannski síður beint gang, maður veit þó aldrei. (Lítur á armbandsúr sitt).
Barnamálarh.: Algjörlega sammála forsætisráðherra.
Forsætisrh.: Ég verð því miður að slíta fundi, er að fara til Sómalíu á fund Mannréttindasamtaka Austur-Afríku. (Feimnislega) ég á að halda ræðu þar. Ég fresta fundi um einn mánuð, veit að þá verið þið komin með lausnina, kannski margar lausnir. (Brosir út í hitt og lyftir augabrúnum).
Auðlindarh.: (Fram í salinn) hver borgar kolefnissporið?
TJALDIÐ
2. Þáttur gerist mánuði síðar.