Nú er kolefnisjöfnun lausnarorðið, hver og einn getur nú lifað syndugu lífi að eigin geðþótta. Hann kaupir þá bara þjónustu hjá einkafyrirtækjum sem kolefnisjafnar fyrir hann, það sem hann hefur með leik sínum mengað andrúmsloftið.
Sum fyrirtækin selja slíku glæsifólki þjónustu við að planta niður trjáplöntum og önnur lofa því að moka ofan í skurði eftir landbúnaðinn. Landbúnaðurinn getur þá bara haldið áfram við að moka nýja skurði og gerir það óspart.
Allir verða bara að treysta þessum fyrirtækjum í blindni, enginn getur fylgst með því hvort aurarnir fari raunverulega í það sem lofað er. Í kringum þessa þjónustu byggist heilmikil yfirbygging og fjárfestingar ásamt miklum launakostnaði og í fjölbreyttan annan kostnað. Rétt eins og var með smjörbréfin á fyrri öldum.
Því þetta minnir mjög á fyrri alda vinnubrögð kaþólsku kirkjunnar sem seldi efna fólki aflátsbréf svo það lenti ekki í hreinsunareldinum. Smjörbréfin voru drjúg tekjulind er heldra fólk syndajafnaði og kirkjuhöfðingjum var bara treyst fyrir aflausninni enda stóðu þeir nær almættinu.
Ekki er rætt um að fólk minnki sína kolefnismengun með færri flugferðum eða með minni akstri bíla. Kannski verður farið að úthluta skömmtunarseðlum sem allir fá, fátækir geti þá selt sína skömmtunarseðla til efnafólks fyrir flugferðum eða fyrir að aka heimilisbílnum í 15 þúsund kílómetra á ári á réttum hraða.