Nýverið birtust fréttir þess efnis að börn í Vinnuskóla Reykjavíkur hefðu dag einn lagt niður störf til að taka þátt í mótmælum eftir fræðslu og hvatningu til þess frá yfirboðurum sínum. Samskonar hvatning til stjórnmálaþátttöku fyrir ákveðna hugmyndafræði á sér stað í kynjafræðikennslu grunnskóla. Þetta varð efni þess að ég ákvað að senda erindi til UmboðsmannsBarna. Því ég hef áhyggjur af því að þetta sé óheillavænleg þróun, að innleiða svokallaðan aktívisma í skólastarf. Með þessu sé verið að troða á réttindum barna til að mynda og tjá sínar eigin skoðanir.
Almennt hef ég fengið mjög góð viðbrögð við þessum hugleiðingum þvert á allar pólitískar línur. Þó að Umboðsmaður Barna hafi enn ekki svarað athugasemdum mínum. Hins vegar var eitthvað um að menn misskildu hvað átt væri við með þessari gagnrýni. Einhverjir héldu að þetta snerist um umhverfismál. Aðrir töldu að mótmæli í kjölfar fræðslu um hverju ætti að mótmæla væru í rauninni kennsla í gagnrýnni hugsun. En hvort tveggja er víðs fjarri sanni. Þessi misskilningur og hugarholan sem menn grófu sjálfa sig ofan í með honum krefst svo sem engra sérstakra svara. En ég taldi rétt að útskýra nánar hvað ég á við með því að setja mig á móti kennsluaðferðum sem hvetja til pólitískra aðgerða hjá börnum. Skoðum fyrst muninn á menntun og innrætingu:
Menntun felur í sér:
- Opnar hugann.
- Kennir aðferðafræði frekar en rétthugsun. Til að undirbúa viðtakandann undir að takast á við og greina mismunandi sjónarmið.
- Segir ekki viðtakandanum hvað hann eigi að hugsa eða hvernig hann eigi að vera.
- Hvetur til gagnrýni og efasemda.
- Hjálpar viðtakandanum að leggja frá sér hvers kyns fordóma eða „gleraugu”. Þar sem rörsýni getur hæglega komið í veg fyrir að heildarmynd sannleikans sjáist.
Innræting felur í sér:
- Lokar huganum.
- Setur lokatakmarkið framar aðferðafræðinni. Markmiðið sé svo göfugt að það réttlæti aðferðir sem myndu ekki þykja réttlætanlegar til að kenna annan og óæðri boðskap.
- Er ætlað að breyta hegðun og hugsun viðkomandi þannig að það falli að ákveðinni pólitískri sýn eða hugmyndafræði.
- Ætlast til að viðtakandinn samþykki lærdóminn án þess að spyrja gagnrýninna spurninga.
- Þjálfar viðtakandann í að horfa gegnum einskonar linsu eða gleraugu til að sjá heiminn þeim litum sem hugmyndafræðin boðar. Sumir innrætendur fara ekki einu sinni leynt með þessa aðferð og tala tam. um „kynjagleraugu“.
Vinnuskóla dæmið
Hvernig falla aðferðir sem notaðar eru í Vinnuskólanum að þessu? Börnunum er sagt hvað þeim á að finnast. Síðan er búið að undirbúa að þau skrifi á skilti hvað þeim á að finnast og marsera því næst með skiltin niður í Umhverfisráðuneyti. Hvar í þessu ferli var gefið færi á gagnrýninni hugsun? Skólastjóri vinnuskólans hvítþvær hendur sínar varðandi þennan þátt með að segja að börnin hafi fengið val um að taka ekki þátt í fræðslunni. Rauna segir hann: „Við erum alls ekki að hvetja alla til að taka þátt í þessu.“ Sem er auðsjáanlega ekki rétt, þegar nemendum Vinnuskólans er kynntur sá kostur að fá að skreppa frá hefðbundnum störfum þennan dag á fullum launum til að taka þátt í þessu stjórnmálastarfi. Hvernig getur það talist annað en hvatning? Hvað annað hefði verið boðið upp á að skreppa frá vinnu til að gera á fullum launum, án þess að verið sé að hvetja til þess?
Valkvæði sannar innri efasemdir
Að þátttaka í skiltagerð og mótmælagöngu hafi verið valkvæð sannar raunar að stjórnendur Vinnuskólans vissu vel að ekki var um hefðbundna fræðslu í gagnrýninni hugsun að ræða. Að bakdyrnar hafi verið skildar eftir opnar til að þeim sem ekki vilja bendla sig við pólitíska hugmyndafræði sé ekki gert að taka þátt, sýnir einmitt hvernig í pottinn er búið og er sönnun þess að hér átti ekki að fara fram menntun, heldur innræting. Hvenær annars hefur nemendum verið gefið það frjálst að taka þátt í fræðslu nema þegar fræðslan er á gráu svæði með að virða lífsskoðanir fólks og fjölbreytileika mannlífsins? Er valfrjálst að mæta í stærðfræðitíma? Nei, slíkt valfrelsi er aðeins í boði í trúarbragðafræðslu, sem dæmi.
Umhverfisfræðsla er til góðs
Nú vil ég ítreka aftur að mín gagnrýni snýr ekki að efni kennslunnar. Heldur aðferðinni. Umhverfisfræðsla er góð og á alveg eins heima í Vinnuskólanum. En þá hlýtur sú kennsla að fara fram eins og hver önnur kennsla. Stærðfræði er mjög mikilvæg og sönn fræði. En það þætti undarlegt að senda börn með mótmælaspjöld til fara fram á aðgerðir stjórnvalda í þágu stærðfræðigreiningar. Það er ekki hlutverk barna að taka þátt í stjórnmálum, sama hversu góður málstaður kann að vera að baki. Það að einhver fræðsla sé talin svo mikilvæg að það megi brjóta grundvallarreglur fyrir hana, ætti að hringja viðvörunarbjöllum. Að mögulega sé þessi fræðsla komin út í öfgar. Öfgar sem kæfa gagnrýna hugsun. Enda er það lífsskoðun margra að taka ekki þátt í öfgum. Þá lífsskoðun ber að virða.
Trúarbrögð og lífsskoðanir eiga ekki heima í opinberum skólum
Í Aðalnámsskrá Grunnskólanna er komið inn á þann þátt sem
snýr að virðingu fyrir lífsskoðunum. En þar segir: „Grunnskólar skulu leitast
við að haga störfum sínum þannig að nemendur þurfi ekki að fá undanþágu frá
ákveðnum þáttum skólastarfs vegna trúar- og lífsskoðana sinna.“
Jafnframt hefur verið lögð rík áhersla á að aðgreina ekki nemendur í sundur
sökum: þjóðernis, tungumála, trúarbragða eða lífsskoðana. „. Leggja skal áherslu á skóla án
aðgreiningar í öllu skólastarfinu.“
Ljóst er að fræðsla sem er framkvæmd á þann hátt að kennarar sjá ekki sóma sinn í öðru en að hafa hana valkvæða, er andstæð þessum sjónarmiðum um skóla án aðgreiningar og virðingu fyrir mismunandi lífsskoðunum. Börn eiga betra skilið en að vera sett í þá stöðu að vera útilokuð vegna skoðana sinna ef ske kynni að þær væru ekki í samræmi við pólitískt réttar skoðanir þeirra sem sjá um kennsluna. Þetta er algjört prinsipp mál sem nær yfir allar lífsskoðanir og ætti að vera hafið yfir pólitík.