Að eigna sér land

Auglýsing

Mánu­dag­inn 24. júní sendu land­eig­endur í Dranga­vík á Ströndum inn kæru til Úrskurð­ar­nefndar umhverf­is- og auð­linda­mála vegna deiliskipu­lags og fram­kvæmda­leyfis fyrsta áfanga Hval­ár­virkj­unar sem hrepps­nefnd Árnes­hrepps hafði sam­þykkt um miðjan júní. Í þessum fyrsta áfanga Hval­ár­virkj­unar á meðal ann­ars að leggja virkj­ana­vegi og fram­kvæma umfangs­mikla rann­sókn­ar­vinnu í landi Dranga­víkur og nágrenni jarð­ar­inn­ar, en virkj­un­ar­að­ilar hafa aldrei óskað eft­ir, hvað þá feng­ið, leyfi þess­ara land­eig­enda til fram­kvæmd­anna. Um þetta mál hefur verið tölu­vert fjallað í fréttum auk þess sem grein­ar­höf­undur rakti það í grein hér á Kjarn­anum fyrir rúmum tveimur vikum síð­an.

Ekki verður skorið úr því í kæru­máli til Úrskurð­ar­nefndar hver hin rétta túlkun á landa­merkjum jarð­anna er, það er hlut­verk sýslu­manns og dóm­stóla. Eign­ar­haldið skiptir því í sjálfu sér engu máli fyrir efn­is­nið­ur­stöðu kæru­máls­ins. Kæru­málið fjallar nefni­lega fyrst og fremst um umhverf­is­mál og hafa land­eig­end­urnir í Dranga­vík lýst því að þau vilji leggja sitt af mörkum til þeirra. Fern umhverf­is­vernd­ar­sam­tök hafa nú lagst á sveif með þeim og því er ljóst að málið fær efn­is­með­ferð, þótt sumir haldi ef til vill annað.

Margir hafa hins­vegar velt því fyrir sér af þessu til­efni hvernig á því stendur að virkj­ana­að­ilar gengu ekki úr skugga um landa­merki á svæð­inu áður en ráð­ist var í skipu­lag og und­ir­bún­ing Hval­ár­virkj­un­ar, sem þegar hefur að sögn kostað virkj­ana­fyr­ir­tækið HS Orku hund­ruð millj­óna króna. Að sama skapi hafa margir velt því fyrir sér hvað sé raun­veru­lega satt og logið í sam­bandi við jarða­mörkin á svæð­inu.

Auglýsing

Fyrri spurn­ing­unni getur eng­inn svarað nema virkj­ana­fyr­ir­tækin sem standa að Hval­ár­virkj­un. Þau bera ábyrgð á því að kanna rétt jarða­mörk á svæð­inu og gera samn­inga við alla vatns­rétt­ar­hafa áður en virkjað er. Þeirra er ábyrgðin og geta þau ekki velt henni yfir á neina aðra. Síð­ari spurn­ing­unni sem teng­ist jarða­mörk­unum verður hins vegar svarað hér að neð­an.

Einka­land eða þjóð­lenda

Mest af óbyggðum víð­ernum á Íslandi er eign þjóð­ar­innar sjálfr­ar, svokölluð þjóð­lenda. Ákveðnar reglur gilda um hvernig þjóð­lenda er ákveðin og er það hlut­verk Óbyggða­nefndar að úrskurða um hana. Nýhafin er máls­með­ferð um mörk milli þjóð­lendna og einka­lands í Stranda­sýslu og stendur nú sem hæst rann­sókn Þjóð­skjala­safns á vegum Óbyggða­nefndar og á að ljúka í haust.

Athygli vakti að fjár­mála­ráð­herra gerði ekki kröfu um að neitt af virkj­ana­svæði Hval­ár­virkj­unar yrði þjóð­lenda, en þetta eru gríð­ar­lega umfangs­mikil óbyggð víð­erni. Þá varð ljóst að vörslu­maður eigna rík­is­ins telur þessi víð­erni öll í einka­eigu. Hann gerir hins­vegar kröfu um að Dranga­jök­ull sjálfur verði lýstur þjóð­lenda. Úrskurðar Óbyggða­nefndar er að vænta fyrir árs­lok en hlut­verk nefnd­ar­innar er hins­vegar ekki að úrskurða á neinn hátt um landa­merki milli jarða. Gagna­öfl­unin sem nú stendur yfir leiðir hins­vegar í ljós öll þau gögn sem varða jarð­irnar sem liggja að jökl­in­um. Meðal þeirra er jörðin Dranga­vík.

En hvernig eru þá landa­merki milli jarða ákveð­in?

Hvað eru landa­merki?

Fyrst er ágætt að ræða hug­takið „landa­merki“. Landa­merki eru laga­legt hug­tak, mörk eign­ar­réttar eig­enda jarða. Fyrir tíma nákvæmra landa­korta þurfti aug­ljós­lega að not­ast við annað en línur á kortum til að skil­greina mörk á milli jarða lands­ins. Frá upp­hafi byggðar hafa jarða­mörk yfir­leitt mið­ast við kenni­leiti í lands­lagi, sem marka þannig landa­merki jarða. Landa­merki geta bæði mið­ast við nátt­úru­leg kenni­leiti eins og til dæmis vötn, ár eða læki, þúf­ur, gil­skorn­inga, nes eða fjalls­brún­ir, og mann­gerð (ef fátt er um nátt­úru­leg mörk) svo sem skurði, vörð­ur, garða og girð­ing­ar. Mann­gerð landa­merki sýna glögg­lega jarða­mörk en á milli nátt­úru­legra kenni­leita er yfir­leitt dregin ímynduð lína eftir sjón­línu, eða eins og það er oft orð­að, „sjón­hend­ing“ tekin á milli kenni­leita og ráða þau gildum jarða­mörk­um. Eng­inn hefur rétt eða skyldu til að setja þessi merki nema eig­endur eða for­ráða­menn jarða. Þessu er lýst svo á vef Þjóð­skrár: „Gild landa­merki jarða á Íslandi fara eftir þing­lýstum heim­ildum hvers­kon­ar. Í til­felli meiri­hluta þeirra eru gild landa­merki sam­kvæmt þing­lesnum land­merkja­lýs­ing­um“.

Árið 1882 voru lög sett á Alþingi sem skyld­uðu alla jarð­eig­endur til að sam­mæl­ast við nágranna sína um rétt landa­merki á milli jarða sinna. Þessa merkja­lýs­ingu skyldu jarð­eig­endur rita niður í sam­ein­ingu og þing­lýsa, svo fram­vegis væri sátt um rétt mörk milli jarða. Þetta var gert fyrir Stranda­sýslu árin 1884–1892 og var landa­merkjum milli jarða í norð­an­verðum Árnes­hreppi þing­lýst þann 2. júlí 1890 í Árnesi. Undir landa­merkja­skrá skyldu rita eig­endur hverrar jarðar fyrir sig, auk eig­enda nágranna­jarð­anna. Landa­merkja­skrá, eða „landa­merkja­bréf“ eins og það er kallað í almennu tali, er samn­ingur eig­enda jarða sem liggja saman um legu landa­merkja. Undir landa­merkja­bréf jarð­ar­innar Engja­ness ritar þannig eig­andi hennar auk eig­enda nágranna­jarð­anna Ófeigs­fjarðar og Dranga­vík­ur. Hins­vegar rit­uðu eig­endur Dranga ekki undir landa­merkja­bréf Engja­ness.

Þessi landa­merkja­bréf voru skráð í landa­merkja­bók Stranda­sýslu sem hefur verið skönnuð ásamt öllum landa­merkja­bókum lands­ins og eru þær aðgengi­legar almenn­ingi á Jarða­vef Þjóð­skjala­safns­ins. Les­endum til hægð­ar­auka má hér lesa hin þing­lýstu landa­merki jarð­anna þriggja sem Hval­ár­virkjun tekur til, eins og Þjóð­skjala­safn hefur skrifað þær upp fyrir Óbyggða­nefnd, og hefur grein­ar­höf­undur feit­letrað þær setn­ingar sem skipta höf­uð­máli í skiln­ingi á landa­merkj­un­um:

  • Ófeigs­fjörð­ur: „No 90. Landa­merki fyrir jörð­inni Ófeigs­firði í Árnes­hreppi innan Stranda­sýslu. Land jarð­ar­innar er frá Helgafljóti og nordur að Eyvinda­fjarð­ará og eru þar skír landa­merki, fram til fjalls á Ófeigs­fjör­dur svo langt sem vötnum hallar að Ófeigs­fjarð­ar­landi og liggur því undir Ófeigs­fjörð allur Húsa­dalur og allur Sýrár­dalur út á Selja­nes­múla ad vör­dum þeim, sem skilja milli Ófeigs­fjardar og Selja­nes­lands. Á sjó á Ófeigs­fjör­dur út þang­að­til Helga­skjól er ad bera í landa­merkja­vör­du, sem þar er uppi á múl­an­um, þ.e. Ófeigs­fjörður á nokkuð lengra á sjó úteptir en á landi. [...]“
  • Engja­nes: „No 94. Landa­merkja­skrá fyrir eyði­jör­dina Engja­nes í Árnes­hreppi. Horn­mark milli Engja­nes og Dranga­víkur er Þrælsk­leif, þadan beint til fjalls, svo eptir hæstu fjalls­brún ad Eyvind­ar­fjardará en hún ræður merkjum til sjóar milli Engja­ness og Ófeigs­fjardar.“
  • Dranga­vík: „No 96. Landa­merkja­skrá fyrir jör­dina Dranga­vík í Árnes­hreppi. Milli Dranga er Dranga­tangi við sjó­inn sjón­hend­ing af lægsta Skar­datind­inum á vördu þá sem er á Klett­inum skammt fyrir ofan sjó­inn og svo eptir þeirri línu til sjó­ar. En milli Dranga­víkur og Engja­nes er Þrælsk­leif og nor­dan­verdu kúp­óttur klettur og varda beint upp af hon­um. Kál­hólmar 3 með Ædar­varpi“

Rétt dregin jarða­mörk

Ofan­greind landa­merki, sem þing­lýst var árið 1890, hafa ekki verið umdeild á þessu svæði og eru þar enda engin önnur landa­merki til. Landa­merkin hafa hins vegar ekki verið hnit­sett, sem þýðir ein­fald­lega að þau hafa enn ekki verið dregin upp á korti sem allir hlut­að­eig­andi sam­þykkja og er síðan þing­lýst fyrir við­kom­andi jarð­ir. Með öðrum orð­um, það er ekk­ert opin­bert, þing­lýst kort til af landa­merkjum jarð­anna. Þetta hefur fáum þótt vanda­mál hingað til, fæstar jarðir á land­inu eru raunar hnit­settar og þykir ekk­ert til­töku­mál. Núna skiptir það hins vegar aug­ljós­lega máli þegar virkj­un­ar­að­ilar eru teknir að ásæl­ast land í eigu ann­arra og afstaða fjár­mála­ráð­herra fyrir hönd íslenska rík­is­ins í yfir­stand­andi þjóð­lendu­máli er að ekki sé um þjóð­lendu að ræða, heldur einka­land.

Í júní síð­ast­liðnum fengu land­eig­endur Dranga­víkur (eig­endur 70,5% jarð­ar­inn­ar) Sig­ur­geir Skúla­son land­fræð­ing til að draga upp landa­merki Dranga­víkur gagn­vart nágranna­jörð­unum Dröng­um, Engja­nesi og Ófeigs­firði á loft­mynd í sam­ræmi við hina þing­lýstu landa­merkja­lýs­ingu jarð­anna frá 1890 (mynd 1). Eins og áður sagði hafa þau ekki farið dult með and­stöðu sína við virkj­un­ar­hug­myndir á svæð­inu, frekar en eig­endur Dranga og Selja­ness auk eig­enda lóða og mann­virkja að Eyri en þetta eru allt næstu land­ar­eignir við þær sem afsalað hafa sér vatns­rétt­ind­um.

Mynd 1. Landamerki Dranga, Drangavíkur og Engjaness, Sigurgeir Skúlason.

Vinnu sína byggði Sig­ur­geir á frum­heim­ildum ýmiss kon­ar. Hafa land­eig­end­urnir byggt á nið­ur­stöðu hans í kæru sinni tengdri ákvörð­unum Árnes­hrepps í sam­bandi við Hval­ár­virkj­un, fyrst og fremst til að útskýra lögvarða hags­muni sína, en einnig áður gagn­vart Óbyggða­nefnd og seinna Lands­neti. Athygli skal vakin á því að engar efn­is­legar athuga­semdir hafa enn komið fram við upp­drátt Sig­ur­geirs af landa­merkj­unum og bíður það sjálf­sagt dóm­stóla í fram­tíð­ar­dóms­málum að fjalla um mörk jarða eins og þau birt­ast þar eða eins og aðrir eig­endur jarða kunna að láta draga þau upp fyrir sig. Úr því verður hins­vegar ekki skorið á vett­vangi þeirra mála sem nefnd voru fyrr.

Upp­drátt­ur­inn sem gerður var fyrir eig­endur meiriparts Dranga­víkur byggir aðal­lega á tveimur máls­greinum sem und­ir­strik­aðar eru í landa­merkja­lýs­ing­unum hér að ofan frá 1890. Les­endum aftur til hægð­ar­auka hefur grein­ar­höf­undur dregið landa­merki eins og þau eru túlkuð af Sig­ur­geiri Skúla­syni inn á með­fylgj­andi kort (mynd 2) og jafn­framt merkt til­tekin atriði í landa­merkja­lýs­ing­unni inn á kort­ið:

Mynd 2. Landamerki, skýringar.

  1. „Mörk milli Engja­ness og Dranga­víkur liggja um Þrælsk­leif (1a), þaðan beint til fjalls, svo eftir hæstu fjalls­brún (1b)Eyvind­ar­fjarð­ará (1c) en hún ræður merkjum til sjóar milli Engja­ness og Ófeigs­fjarðar (1d).“ Af þessu sést að Engja­nes var aðeins brot af landi Dranga­vík­ur. Frá sjó ræður merkjum fjalls­brún á milli Dranga­víkur og Eyvind­ar­fjarðar og svo frá henni í Eyvind­ar­fjarð­ará. Ómögu­legt er að túlka orð merkja­lýs­ing­ar­innar á nokkurn annan hátt en að landa­merki Engja­ness liggi frá fjalls­brún niður í Eyvind­ar­fjarðarána og niður með henni að sjó, en um 6–7 kíló­metra leið er frá Eyvind­ar­fjarð­ar­vatni að árós­um. Sig­ur­geir Skúla­son sem dró upp landa­merkin hefur opin­ber­lega sagt að landa­merkja­lýs­ingin þýði að land Engja­ness nái aðeins upp að Eyvind­ar­fjarð­ar­vatni, áin sem renni úr vatn­inu sé Eyvind­ar­fjarð­ará en ár sem renni í vatnið hafi engin nöfn. Það er líka í fullu sam­ræmi við skiln­ing þeirra heima­manna sem á nágranna­jörð­unum hafa lifað og starf­að.
  2. „Fram til fjalla á Ófeigs­fjörður svo langt sem vötnum hallar að Ófeigs­fjarð­ar­land­i“, sem þýðir ein­fald­lega að jörðin Ófeigs­fjörður á þau lönd upp til fjalla þar sem vötn falla til Ófeigs­fjarð­ar. Sem sagt, vatna­svið þeirra vatns­falla sem liggja til suð­aust­urs í Ófeigs­fjörð til­heyra Ófeigs­fjarð­ar­jörð­inni (2a), en þau sem falla til norð­aust­urs til Eyvind­ar­fjarð­ar­vatns til­heyra Dranga­vík­ur­jörð­inni (2b). Vatna­skil ráða hér sem sé merkjum miðað við túlkun Sig­ur­geirs á merkja­lýs­ing­un­um.

Von­andi verður þessi lýs­ing auk skýr­ing­ar­korta grein­ar­höf­undar til þess að skýra málin betur fyrir les­endum og afbrengla umræð­una um landa­merki og jarða­mörk á því svæði sem Hval­ár­virkjun nær til.

Hvað með jarða­mörkin hjá virkj­un­ar­að­il­un­um?

En jarða­mörkin á korti virkj­un­ar­að­il­anna líta vissu­lega allt öðru­vísi út (mynd 3). Hvernig stendur á því og hvaðan koma þau? Geta þau ekki verið jafn­gild landa­merkj­unum sem Sig­ur­geir Skúla­son túlk­aði fyrir land­eig­endur Dranga­vík­ur?

Mynd 3. Hvalárvirkjun, jarðamörk.

Á vef Þjóð­skrár birt­ist grein 26. júní s.l. Þar seg­ir:

  • „Í vefsjá land­eigna má einnig skoða gögn sem unnin voru árið 2006 í tengslum við Nytja­lands­verk­efn­ið. Línur voru þar dregnar upp á áætl­uðum mörkum jarða eftir mis­áreið­an­legum heim­ildum í þeim til­gangi að meta gæði lands og umfang. Þær línur hafa þó enga laga­lega þýð­ingu og ber aðeins að taka sem vís­bend­ingu fyrir frek­ari heim­ilda­öflun um landa­merki. Nán­ari upp­lýs­ingar um landa­merki má nálg­ast á vef Þjóð­skrár Íslands og í vefsjá land­eigna undir upp­lýs­ingum um hverja gagna­þekju.“

Sem sagt, árin upp úr síð­ustu alda­mótum var í gangi verk­efni sem kall­að­ist Nytja­land og var þar gerð til­raun til að draga upp áætluð jarða­mörk á kortum þó það væri raunar alls ekki til­gangur verk­efn­is­ins þar sem það tengd­ist land­bún­aði og land­nýt­ingu. Þessi gögn um jarða­mörk voru aldrei unnin áfram og voru aðeins hugsuð sem vís­bend­ingar fyrir frek­ari heim­ilda­öflun um landa­merki. Þjóð­skrá tók við grunn­inum 2006 en hefur ekki skyldað land­eig­endur til að hnit­setja mörk jarða sinna.

Þessi óvís­inda­legu og laga­lega ómark­tæku mörk hafa virkj­un­ar­ar­að­ilar og Árnes­hreppur af ein­hverjum ástæðum stuðst við ein­hliða í und­ir­bún­ingi Hval­ár­virkj­unar fram til þessa og ekki hefur komið fram að þeir hafi gert neina sjálf­stæða könnun á landa­merkjum í frum­gögnum eða hjá við­kom­andi land­eig­endum ef ráða má við­brögð þeirra. Eins og kemur skýrt fram hjá Þjóð­skrá eru þessi mörk án nokk­urrar laga­legrar þýð­ingar. Það ætti að vera öllum ljóst sem vinna með grunn­inn og ekki síst er full ástæða til var­færni ef um er að ræða mikla fjár­hags­lega hags­muni.

Eva Sig­­ur­­björns­dótt­ir, odd­viti hrepps­­nefnd­ar Árnes­hrepps, hefur látið hafa eftir sér að landa­merkin sem Sig­ur­geir Skúla­son túlk­aði fyrir land­eig­endur Dranga­víkur „stang­ist á við öll önn­ur kort af svæð­inu“. Það er auð­vitað ekki furða í ljósi ofan­greinds því „öll önnur kort“ af svæð­inu eiga nefni­lega sama óáreið­an­lega upp­runann, sem er fyrr­nefndur korta­grunnur Nytja­lands frá upp­hafi ald­ar­inn­ar. Það er því algjör mark­leysa að vísa í önnur kort af jarða­mörkum á Hval­ár­virkj­un­ar­svæð­inu því þau hafa enga merk­ingu í þessu sam­hengi. Þau sýna öll ein­fald­lega áætluð jarða­mörk en ekki landa­merki með laga­lega stöðu.

Í við­tali við Birnu Lár­us­dóttur fjöl­miðla­full­trúa Vest­ur­verks í Morg­un­vakt­inni 4. júlí kemur reyndar jafn­framt fram að sjálfir virkj­un­ar­að­il­arnir hangi enn á þessum mörkum og vilja frekar trúa gögnum sem sjálf Þjóð­skrá segir óáreið­an­leg og án laga­legrar þýð­ing­ar. Það er nú þegar ljóst að grunnur Hval­ár­virkj­unar hefur alla tíð verið veik­ur, en það er óskilj­an­legt að virkj­un­ar­fyr­ir­tækin haldi því ennþá fram fullum fetum að byggj­andi sé á hinum áætl­uðu og laga­lega ómark­tæku mörkum úr Nytja­lands­grunn­in­um.

Vís­vit­andi þekk­ing­ar­leysi eða hand­vömm?

Eftir situr kannski spurn­ing­in: Hvernig áttu virkj­un­ar­að­ilar og stjórn­sýslan að vita að upp­drátt­ur­inn í tengslum við Nytja­lands­verk­efnið væri óáreið­an­leg­ur?

Eins og fyrr segir var Nytja­lands­upp­drátt­ur­inn strax í upp­hafi hugs­aður sem yfir­lit­skort yfir land­nytjar á Íslandi, en það var alls ekki hug­myndin að grunn­ur­inn hefði laga­lega þýð­ingu eða að hann sýndi hnit­sett landa­merki. Þannig segir í grein Fann­eyjar Óskar Gísla­dóttur og Björns Trausta­sonar frá 2003 um jarða­mörkin í Nytja­lands­grunn­in­um:

  • „Jarða­mar­ka­upp­drátt­ur­inn hefur enga bind­andi eða laga­lega þýð­ingu, sem er mik­il­vægt að hafa í huga. Ella væri verk­efnið óvinn­andi sökum kröfu um nákvæmni og hugs­an­legra deilna, enda eru mörg jarða­mörk heldur óskýr.“

Þetta mik­il­væga atriði, að jarða­mörk (ekki landa­merki með laga­lega stöðu) fengin úr Nytja­lands­grunn­inum eru dregin upp án ábyrgð­ar, kemur skýrt fram í öllum upp­dráttum í tengslum við skipu­lag á svæð­inu eftir 2006. Þetta má til að mynda sjá á korti sem fjár­mála­ráð­herra lagði í októ­ber 2018 fram fyrir Óbyggða­nefnd (mynd 4) og á sjálfum aðal­skipu­lags­upp­drætti Árnes­hrepps frá 2014, breytt 2018 (­mynd 5), sem er þar að auki í það minnsta tví­vegis sýndur í sjálfri mats­skýrslu virkj­un­ar­að­ila um umhverf­is­á­hrif Hval­ár­virkj­un­ar. Alltaf eru þessi kort með fyr­ir­vara, enda eru þetta ekki landa­merki með laga­lega stöðu heldur aðeins áætluð og óná­kvæm jarða­mörk. Getur verið að virkj­un­ar­að­ilar og hönn­uðir virkj­un­ar­innar hafi ekki skoðað betur aðal­skipu­lags­upp­drátt­inn í sinni eigin umhverf­is­mats­skýrslu? Hverjum er um að kenna ef þeir hafa ekki kynnt sér málin betur en þetta?

Mynd 4. Kort fjármálaráðherra, sent Óbyggðanefnd.

Mynd 5. Aðalskipulagsuppdráttur Árneshrepps, breyting 2018.

Raunin er sú að virkj­un­ar­að­ilar höfðu nákvæm­lega sömu mögu­leika og allir aðrir til að grand­skoða hina þing­lýstu landa­merkja­lýs­ingu frá 1890 í landa­merkja­bók Stranda­sýslu og þá vænt­an­lega í sam­starfi við land­eig­endur sem höfðu gefið þeim alls­konar leyfi. Þau gögn eru öllum aðgengi­leg. Raunar hefðu virkj­un­ar­að­ilar af aug­ljósum ástæðum haft mun veiga­meiri ástæðu heldur en nokkur annar hlut­að­eig­andi til að hafa frum­kvæði að því að láta full­kanna landa­merkin og leit­ast við að draga upp rétt jarða­mörk strax í upp­hafi virkj­un­ar­skipu­lags­ins, hvenær sem það var. Nógur var tím­inn, virkj­unin hefur verið í und­ir­bún­ingi í meira en ára­tug og rann­sókn­ar­leyfið kom ekki fyrr en 2015, en þá reyndar bara á vatna­sviði Hvalár og Rjúkanda.

Mögu­lega hefðu ein­hverjir jafn­framt talið það skyn­sam­legt af land­eig­end­um, sem afsöl­uðu vatns­rétt­indum til 60 ára með und­ir­ritun samn­inga árin 2008 og 2009, að gera slíkt ekki fyrr en gild landa­merki gagn­vart nágrönnum væru full­ljós og hnit­sett. Reyndar er fyr­ir­vari í samn­ing­unum um vatns­rétt­indin þar sem kemur fram að fram­sal vatns­rétt­inda sé háð „sam­þykki ann­arra eig­enda vatns­rétt­inda Eyvinda­fjarð­ar” (svo).

Lær­dómur máls­ins

Þing­lýst landa­merkja­bréf hafa legið fyrir í um 130 ár. Það var á ábyrgð virkj­un­ar­að­ila að fara yfir þau gögn og sann­reyna áður en lagt var í þá virkj­ana­veg­ferð sem nú virð­ist stefna hrað­byri í að fá annan endi en for­víg­is­menn Hval­ár­virkj­unar ætl­uðu, mörgum árum og ein­hverjum hund­ruðum millj­óna króna síð­ar. Grein­ar­höf­undur hefur sagt það áður og ítrekar hér að þetta landa­merkja­fúsk virkj­un­ar­að­ila hlýtur að vera eitt versta skipu­lags­klúður í fram­kvæmda­sögu lands­ins. Með þessu væri rétt­ast fyrir alla hlut­að­eig­andi að ganga frá borði og hætta við Hval­ár­virkjun í eitt skipti fyrir öll, þótt lík­leg­ast sé borin von að það verði gert hljóða­laust eða án kostn­aðar fyrir nokkurn aðila máls.

Þótt þetta sé án efa eitt allra versta dæmið um slæ­leg vinnu­brögð í virkj­un­arund­ir­bún­ingi á Íslandi er þetta því miður ekki úr takti við almennt verk­lag í þeim geira. Ósk­andi væri að allir aðilar innan virkjana­geirans tækju þetta klúður til sín, upp­færðu vinnu­brögðin og gerðu gang­skör að því að starfa í sátt við nátt­úru og sam­fé­lag. Ef almenn­ingur á að öðl­ast aftur traust til orku­fyr­ir­tækja og yfir­valda í þessum málum þarf að vinna af vand­virkni úr þessu máli en ekki böðl­ast áfram eins og raunin virð­ist ætla að verða hjá málsvörum Hval­ár­virkj­un­ar.

Höf­undur er jarð­fræð­ing­­­ur, höf­undur bók­­­ar­innar Veg­­­vísir um jarð­fræði Íslands, stjórn­­­­­ar­­­maður í Hinu íslenska nátt­úru­fræð­i­­­fé­lagi, Hag­þenki, og í sam­tök­unum ÓFEIGU nátt­úru­vernd, sem vinna að verndun víð­ern­anna á Ófeigs­fjarð­­­ar­heiði. Höf­undur hefur komið fram sem tals­maður meiri­hluta land­eig­enda í Dranga­vík.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiÁlit
None