Mánudaginn 24. júní sendu landeigendur í Drangavík á Ströndum inn kæru til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna deiliskipulags og framkvæmdaleyfis fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar sem hreppsnefnd Árneshrepps hafði samþykkt um miðjan júní. Í þessum fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar á meðal annars að leggja virkjanavegi og framkvæma umfangsmikla rannsóknarvinnu í landi Drangavíkur og nágrenni jarðarinnar, en virkjunaraðilar hafa aldrei óskað eftir, hvað þá fengið, leyfi þessara landeigenda til framkvæmdanna. Um þetta mál hefur verið töluvert fjallað í fréttum auk þess sem greinarhöfundur rakti það í grein hér á Kjarnanum fyrir rúmum tveimur vikum síðan.
Ekki verður skorið úr því í kærumáli til Úrskurðarnefndar hver hin rétta túlkun á landamerkjum jarðanna er, það er hlutverk sýslumanns og dómstóla. Eignarhaldið skiptir því í sjálfu sér engu máli fyrir efnisniðurstöðu kærumálsins. Kærumálið fjallar nefnilega fyrst og fremst um umhverfismál og hafa landeigendurnir í Drangavík lýst því að þau vilji leggja sitt af mörkum til þeirra. Fern umhverfisverndarsamtök hafa nú lagst á sveif með þeim og því er ljóst að málið fær efnismeðferð, þótt sumir haldi ef til vill annað.
Margir hafa hinsvegar velt því fyrir sér af þessu tilefni hvernig á því stendur að virkjanaaðilar gengu ekki úr skugga um landamerki á svæðinu áður en ráðist var í skipulag og undirbúning Hvalárvirkjunar, sem þegar hefur að sögn kostað virkjanafyrirtækið HS Orku hundruð milljóna króna. Að sama skapi hafa margir velt því fyrir sér hvað sé raunverulega satt og logið í sambandi við jarðamörkin á svæðinu.
Fyrri spurningunni getur enginn svarað nema virkjanafyrirtækin sem standa að Hvalárvirkjun. Þau bera ábyrgð á því að kanna rétt jarðamörk á svæðinu og gera samninga við alla vatnsréttarhafa áður en virkjað er. Þeirra er ábyrgðin og geta þau ekki velt henni yfir á neina aðra. Síðari spurningunni sem tengist jarðamörkunum verður hins vegar svarað hér að neðan.
Einkaland eða þjóðlenda
Mest af óbyggðum víðernum á Íslandi er eign þjóðarinnar sjálfrar, svokölluð þjóðlenda. Ákveðnar reglur gilda um hvernig þjóðlenda er ákveðin og er það hlutverk Óbyggðanefndar að úrskurða um hana. Nýhafin er málsmeðferð um mörk milli þjóðlendna og einkalands í Strandasýslu og stendur nú sem hæst rannsókn Þjóðskjalasafns á vegum Óbyggðanefndar og á að ljúka í haust.
Athygli vakti að fjármálaráðherra gerði ekki kröfu um að neitt af virkjanasvæði Hvalárvirkjunar yrði þjóðlenda, en þetta eru gríðarlega umfangsmikil óbyggð víðerni. Þá varð ljóst að vörslumaður eigna ríkisins telur þessi víðerni öll í einkaeigu. Hann gerir hinsvegar kröfu um að Drangajökull sjálfur verði lýstur þjóðlenda. Úrskurðar Óbyggðanefndar er að vænta fyrir árslok en hlutverk nefndarinnar er hinsvegar ekki að úrskurða á neinn hátt um landamerki milli jarða. Gagnaöflunin sem nú stendur yfir leiðir hinsvegar í ljós öll þau gögn sem varða jarðirnar sem liggja að jöklinum. Meðal þeirra er jörðin Drangavík.
En hvernig eru þá landamerki milli jarða ákveðin?
Hvað eru landamerki?
Fyrst er ágætt að ræða hugtakið „landamerki“. Landamerki eru lagalegt hugtak, mörk eignarréttar eigenda jarða. Fyrir tíma nákvæmra landakorta þurfti augljóslega að notast við annað en línur á kortum til að skilgreina mörk á milli jarða landsins. Frá upphafi byggðar hafa jarðamörk yfirleitt miðast við kennileiti í landslagi, sem marka þannig landamerki jarða. Landamerki geta bæði miðast við náttúruleg kennileiti eins og til dæmis vötn, ár eða læki, þúfur, gilskorninga, nes eða fjallsbrúnir, og manngerð (ef fátt er um náttúruleg mörk) svo sem skurði, vörður, garða og girðingar. Manngerð landamerki sýna glögglega jarðamörk en á milli náttúrulegra kennileita er yfirleitt dregin ímynduð lína eftir sjónlínu, eða eins og það er oft orðað, „sjónhending“ tekin á milli kennileita og ráða þau gildum jarðamörkum. Enginn hefur rétt eða skyldu til að setja þessi merki nema eigendur eða forráðamenn jarða. Þessu er lýst svo á vef Þjóðskrár: „Gild landamerki jarða á Íslandi fara eftir þinglýstum heimildum hverskonar. Í tilfelli meirihluta þeirra eru gild landamerki samkvæmt þinglesnum landmerkjalýsingum“.
Árið 1882 voru lög sett á Alþingi sem skylduðu alla jarðeigendur til að sammælast við nágranna sína um rétt landamerki á milli jarða sinna. Þessa merkjalýsingu skyldu jarðeigendur rita niður í sameiningu og þinglýsa, svo framvegis væri sátt um rétt mörk milli jarða. Þetta var gert fyrir Strandasýslu árin 1884–1892 og var landamerkjum milli jarða í norðanverðum Árneshreppi þinglýst þann 2. júlí 1890 í Árnesi. Undir landamerkjaskrá skyldu rita eigendur hverrar jarðar fyrir sig, auk eigenda nágrannajarðanna. Landamerkjaskrá, eða „landamerkjabréf“ eins og það er kallað í almennu tali, er samningur eigenda jarða sem liggja saman um legu landamerkja. Undir landamerkjabréf jarðarinnar Engjaness ritar þannig eigandi hennar auk eigenda nágrannajarðanna Ófeigsfjarðar og Drangavíkur. Hinsvegar rituðu eigendur Dranga ekki undir landamerkjabréf Engjaness.
Þessi landamerkjabréf voru skráð í landamerkjabók Strandasýslu sem hefur verið skönnuð ásamt öllum landamerkjabókum landsins og eru þær aðgengilegar almenningi á Jarðavef Þjóðskjalasafnsins. Lesendum til hægðarauka má hér lesa hin þinglýstu landamerki jarðanna þriggja sem Hvalárvirkjun tekur til, eins og Þjóðskjalasafn hefur skrifað þær upp fyrir Óbyggðanefnd, og hefur greinarhöfundur feitletrað þær setningar sem skipta höfuðmáli í skilningi á landamerkjunum:
- Ófeigsfjörður: „No 90. Landamerki fyrir jörðinni Ófeigsfirði í Árneshreppi innan Strandasýslu. Land jarðarinnar er frá Helgafljóti og nordur að Eyvindafjarðará og eru þar skír landamerki, fram til fjalls á Ófeigsfjördur svo langt sem vötnum hallar að Ófeigsfjarðarlandi og liggur því undir Ófeigsfjörð allur Húsadalur og allur Sýrárdalur út á Seljanesmúla ad vördum þeim, sem skilja milli Ófeigsfjardar og Seljaneslands. Á sjó á Ófeigsfjördur út þangaðtil Helgaskjól er ad bera í landamerkjavördu, sem þar er uppi á múlanum, þ.e. Ófeigsfjörður á nokkuð lengra á sjó úteptir en á landi. [...]“
- Engjanes: „No 94. Landamerkjaskrá fyrir eyðijördina Engjanes í Árneshreppi. Hornmark milli Engjanes og Drangavíkur er Þrælskleif, þadan beint til fjalls, svo eptir hæstu fjallsbrún ad Eyvindarfjardará en hún ræður merkjum til sjóar milli Engjaness og Ófeigsfjardar.“
- Drangavík: „No 96. Landamerkjaskrá fyrir jördina Drangavík í Árneshreppi. Milli Dranga er Drangatangi við sjóinn sjónhending af lægsta Skardatindinum á vördu þá sem er á Klettinum skammt fyrir ofan sjóinn og svo eptir þeirri línu til sjóar. En milli Drangavíkur og Engjanes er Þrælskleif og nordanverdu kúpóttur klettur og varda beint upp af honum. Kálhólmar 3 með Ædarvarpi“
Rétt dregin jarðamörk
Ofangreind landamerki, sem þinglýst var árið 1890, hafa ekki verið umdeild á þessu svæði og eru þar enda engin önnur landamerki til. Landamerkin hafa hins vegar ekki verið hnitsett, sem þýðir einfaldlega að þau hafa enn ekki verið dregin upp á korti sem allir hlutaðeigandi samþykkja og er síðan þinglýst fyrir viðkomandi jarðir. Með öðrum orðum, það er ekkert opinbert, þinglýst kort til af landamerkjum jarðanna. Þetta hefur fáum þótt vandamál hingað til, fæstar jarðir á landinu eru raunar hnitsettar og þykir ekkert tiltökumál. Núna skiptir það hins vegar augljóslega máli þegar virkjunaraðilar eru teknir að ásælast land í eigu annarra og afstaða fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins í yfirstandandi þjóðlendumáli er að ekki sé um þjóðlendu að ræða, heldur einkaland.
Í júní síðastliðnum fengu landeigendur Drangavíkur (eigendur 70,5% jarðarinnar) Sigurgeir Skúlason landfræðing til að draga upp landamerki Drangavíkur gagnvart nágrannajörðunum Dröngum, Engjanesi og Ófeigsfirði á loftmynd í samræmi við hina þinglýstu landamerkjalýsingu jarðanna frá 1890 (mynd 1). Eins og áður sagði hafa þau ekki farið dult með andstöðu sína við virkjunarhugmyndir á svæðinu, frekar en eigendur Dranga og Seljaness auk eigenda lóða og mannvirkja að Eyri en þetta eru allt næstu landareignir við þær sem afsalað hafa sér vatnsréttindum.
Vinnu sína byggði Sigurgeir á frumheimildum ýmiss konar. Hafa landeigendurnir byggt á niðurstöðu hans í kæru sinni tengdri ákvörðunum Árneshrepps í sambandi við Hvalárvirkjun, fyrst og fremst til að útskýra lögvarða hagsmuni sína, en einnig áður gagnvart Óbyggðanefnd og seinna Landsneti. Athygli skal vakin á því að engar efnislegar athugasemdir hafa enn komið fram við uppdrátt Sigurgeirs af landamerkjunum og bíður það sjálfsagt dómstóla í framtíðardómsmálum að fjalla um mörk jarða eins og þau birtast þar eða eins og aðrir eigendur jarða kunna að láta draga þau upp fyrir sig. Úr því verður hinsvegar ekki skorið á vettvangi þeirra mála sem nefnd voru fyrr.
Uppdrátturinn sem gerður var fyrir eigendur meiriparts Drangavíkur byggir aðallega á tveimur málsgreinum sem undirstrikaðar eru í landamerkjalýsingunum hér að ofan frá 1890. Lesendum aftur til hægðarauka hefur greinarhöfundur dregið landamerki eins og þau eru túlkuð af Sigurgeiri Skúlasyni inn á meðfylgjandi kort (mynd 2) og jafnframt merkt tiltekin atriði í landamerkjalýsingunni inn á kortið:
- „Mörk milli Engjaness og Drangavíkur liggja um Þrælskleif (1a), þaðan beint til fjalls, svo eftir hæstu fjallsbrún (1b) að Eyvindarfjarðará (1c) en hún ræður merkjum til sjóar milli Engjaness og Ófeigsfjarðar (1d).“ Af þessu sést að Engjanes var aðeins brot af landi Drangavíkur. Frá sjó ræður merkjum fjallsbrún á milli Drangavíkur og Eyvindarfjarðar og svo frá henni í Eyvindarfjarðará. Ómögulegt er að túlka orð merkjalýsingarinnar á nokkurn annan hátt en að landamerki Engjaness liggi frá fjallsbrún niður í Eyvindarfjarðarána og niður með henni að sjó, en um 6–7 kílómetra leið er frá Eyvindarfjarðarvatni að árósum. Sigurgeir Skúlason sem dró upp landamerkin hefur opinberlega sagt að landamerkjalýsingin þýði að land Engjaness nái aðeins upp að Eyvindarfjarðarvatni, áin sem renni úr vatninu sé Eyvindarfjarðará en ár sem renni í vatnið hafi engin nöfn. Það er líka í fullu samræmi við skilning þeirra heimamanna sem á nágrannajörðunum hafa lifað og starfað.
- „Fram til fjalla á Ófeigsfjörður svo langt sem vötnum hallar að Ófeigsfjarðarlandi“, sem þýðir einfaldlega að jörðin Ófeigsfjörður á þau lönd upp til fjalla þar sem vötn falla til Ófeigsfjarðar. Sem sagt, vatnasvið þeirra vatnsfalla sem liggja til suðausturs í Ófeigsfjörð tilheyra Ófeigsfjarðarjörðinni (2a), en þau sem falla til norðausturs til Eyvindarfjarðarvatns tilheyra Drangavíkurjörðinni (2b). Vatnaskil ráða hér sem sé merkjum miðað við túlkun Sigurgeirs á merkjalýsingunum.
Vonandi verður þessi lýsing auk skýringarkorta greinarhöfundar til þess að skýra málin betur fyrir lesendum og afbrengla umræðuna um landamerki og jarðamörk á því svæði sem Hvalárvirkjun nær til.
Hvað með jarðamörkin hjá virkjunaraðilunum?
En jarðamörkin á korti virkjunaraðilanna líta vissulega allt öðruvísi út (mynd 3). Hvernig stendur á því og hvaðan koma þau? Geta þau ekki verið jafngild landamerkjunum sem Sigurgeir Skúlason túlkaði fyrir landeigendur Drangavíkur?
Á vef Þjóðskrár birtist grein 26. júní s.l. Þar segir:
- „Í vefsjá landeigna má einnig skoða gögn sem unnin voru árið 2006 í tengslum við Nytjalandsverkefnið. Línur voru þar dregnar upp á áætluðum mörkum jarða eftir misáreiðanlegum heimildum í þeim tilgangi að meta gæði lands og umfang. Þær línur hafa þó enga lagalega þýðingu og ber aðeins að taka sem vísbendingu fyrir frekari heimildaöflun um landamerki. Nánari upplýsingar um landamerki má nálgast á vef Þjóðskrár Íslands og í vefsjá landeigna undir upplýsingum um hverja gagnaþekju.“
Sem sagt, árin upp úr síðustu aldamótum var í gangi verkefni sem kallaðist Nytjaland og var þar gerð tilraun til að draga upp áætluð jarðamörk á kortum þó það væri raunar alls ekki tilgangur verkefnisins þar sem það tengdist landbúnaði og landnýtingu. Þessi gögn um jarðamörk voru aldrei unnin áfram og voru aðeins hugsuð sem vísbendingar fyrir frekari heimildaöflun um landamerki. Þjóðskrá tók við grunninum 2006 en hefur ekki skyldað landeigendur til að hnitsetja mörk jarða sinna.
Þessi óvísindalegu og lagalega ómarktæku mörk hafa virkjunararaðilar og Árneshreppur af einhverjum ástæðum stuðst við einhliða í undirbúningi Hvalárvirkjunar fram til þessa og ekki hefur komið fram að þeir hafi gert neina sjálfstæða könnun á landamerkjum í frumgögnum eða hjá viðkomandi landeigendum ef ráða má viðbrögð þeirra. Eins og kemur skýrt fram hjá Þjóðskrá eru þessi mörk án nokkurrar lagalegrar þýðingar. Það ætti að vera öllum ljóst sem vinna með grunninn og ekki síst er full ástæða til varfærni ef um er að ræða mikla fjárhagslega hagsmuni.
Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti hreppsnefndar Árneshrepps, hefur látið hafa eftir sér að landamerkin sem Sigurgeir Skúlason túlkaði fyrir landeigendur Drangavíkur „stangist á við öll önnur kort af svæðinu“. Það er auðvitað ekki furða í ljósi ofangreinds því „öll önnur kort“ af svæðinu eiga nefnilega sama óáreiðanlega upprunann, sem er fyrrnefndur kortagrunnur Nytjalands frá upphafi aldarinnar. Það er því algjör markleysa að vísa í önnur kort af jarðamörkum á Hvalárvirkjunarsvæðinu því þau hafa enga merkingu í þessu samhengi. Þau sýna öll einfaldlega áætluð jarðamörk en ekki landamerki með lagalega stöðu.
Í viðtali við Birnu Lárusdóttur fjölmiðlafulltrúa Vesturverks í Morgunvaktinni 4. júlí kemur reyndar jafnframt fram að sjálfir virkjunaraðilarnir hangi enn á þessum mörkum og vilja frekar trúa gögnum sem sjálf Þjóðskrá segir óáreiðanleg og án lagalegrar þýðingar. Það er nú þegar ljóst að grunnur Hvalárvirkjunar hefur alla tíð verið veikur, en það er óskiljanlegt að virkjunarfyrirtækin haldi því ennþá fram fullum fetum að byggjandi sé á hinum áætluðu og lagalega ómarktæku mörkum úr Nytjalandsgrunninum.
Vísvitandi þekkingarleysi eða handvömm?
Eftir situr kannski spurningin: Hvernig áttu virkjunaraðilar og stjórnsýslan að vita að uppdrátturinn í tengslum við Nytjalandsverkefnið væri óáreiðanlegur?
Eins og fyrr segir var Nytjalandsuppdrátturinn strax í upphafi hugsaður sem yfirlitskort yfir landnytjar á Íslandi, en það var alls ekki hugmyndin að grunnurinn hefði lagalega þýðingu eða að hann sýndi hnitsett landamerki. Þannig segir í grein Fanneyjar Óskar Gísladóttur og Björns Traustasonar frá 2003 um jarðamörkin í Nytjalandsgrunninum:
- „Jarðamarkauppdrátturinn hefur enga bindandi eða lagalega þýðingu, sem er mikilvægt að hafa í huga. Ella væri verkefnið óvinnandi sökum kröfu um nákvæmni og hugsanlegra deilna, enda eru mörg jarðamörk heldur óskýr.“
Þetta mikilvæga atriði, að jarðamörk (ekki landamerki með lagalega stöðu) fengin úr Nytjalandsgrunninum eru dregin upp án ábyrgðar, kemur skýrt fram í öllum uppdráttum í tengslum við skipulag á svæðinu eftir 2006. Þetta má til að mynda sjá á korti sem fjármálaráðherra lagði í október 2018 fram fyrir Óbyggðanefnd (mynd 4) og á sjálfum aðalskipulagsuppdrætti Árneshrepps frá 2014, breytt 2018 (mynd 5), sem er þar að auki í það minnsta tvívegis sýndur í sjálfri matsskýrslu virkjunaraðila um umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar. Alltaf eru þessi kort með fyrirvara, enda eru þetta ekki landamerki með lagalega stöðu heldur aðeins áætluð og ónákvæm jarðamörk. Getur verið að virkjunaraðilar og hönnuðir virkjunarinnar hafi ekki skoðað betur aðalskipulagsuppdráttinn í sinni eigin umhverfismatsskýrslu? Hverjum er um að kenna ef þeir hafa ekki kynnt sér málin betur en þetta?
Raunin er sú að virkjunaraðilar höfðu nákvæmlega sömu möguleika og allir aðrir til að grandskoða hina þinglýstu landamerkjalýsingu frá 1890 í landamerkjabók Strandasýslu og þá væntanlega í samstarfi við landeigendur sem höfðu gefið þeim allskonar leyfi. Þau gögn eru öllum aðgengileg. Raunar hefðu virkjunaraðilar af augljósum ástæðum haft mun veigameiri ástæðu heldur en nokkur annar hlutaðeigandi til að hafa frumkvæði að því að láta fullkanna landamerkin og leitast við að draga upp rétt jarðamörk strax í upphafi virkjunarskipulagsins, hvenær sem það var. Nógur var tíminn, virkjunin hefur verið í undirbúningi í meira en áratug og rannsóknarleyfið kom ekki fyrr en 2015, en þá reyndar bara á vatnasviði Hvalár og Rjúkanda.
Mögulega hefðu einhverjir jafnframt talið það skynsamlegt af landeigendum, sem afsöluðu vatnsréttindum til 60 ára með undirritun samninga árin 2008 og 2009, að gera slíkt ekki fyrr en gild landamerki gagnvart nágrönnum væru fullljós og hnitsett. Reyndar er fyrirvari í samningunum um vatnsréttindin þar sem kemur fram að framsal vatnsréttinda sé háð „samþykki annarra eigenda vatnsréttinda Eyvindafjarðar” (svo).
Lærdómur málsins
Þinglýst landamerkjabréf hafa legið fyrir í um 130 ár. Það var á ábyrgð virkjunaraðila að fara yfir þau gögn og sannreyna áður en lagt var í þá virkjanavegferð sem nú virðist stefna hraðbyri í að fá annan endi en forvígismenn Hvalárvirkjunar ætluðu, mörgum árum og einhverjum hundruðum milljóna króna síðar. Greinarhöfundur hefur sagt það áður og ítrekar hér að þetta landamerkjafúsk virkjunaraðila hlýtur að vera eitt versta skipulagsklúður í framkvæmdasögu landsins. Með þessu væri réttast fyrir alla hlutaðeigandi að ganga frá borði og hætta við Hvalárvirkjun í eitt skipti fyrir öll, þótt líklegast sé borin von að það verði gert hljóðalaust eða án kostnaðar fyrir nokkurn aðila máls.
Þótt þetta sé án efa eitt allra versta dæmið um slæleg vinnubrögð í virkjunarundirbúningi á Íslandi er þetta því miður ekki úr takti við almennt verklag í þeim geira. Óskandi væri að allir aðilar innan virkjanageirans tækju þetta klúður til sín, uppfærðu vinnubrögðin og gerðu gangskör að því að starfa í sátt við náttúru og samfélag. Ef almenningur á að öðlast aftur traust til orkufyrirtækja og yfirvalda í þessum málum þarf að vinna af vandvirkni úr þessu máli en ekki böðlast áfram eins og raunin virðist ætla að verða hjá málsvörum Hvalárvirkjunar.
Höfundur er jarðfræðingur, höfundur bókarinnar Vegvísir um jarðfræði Íslands, stjórnarmaður í Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Hagþenki, og í samtökunum ÓFEIGU náttúruvernd, sem vinna að verndun víðernanna á Ófeigsfjarðarheiði. Höfundur hefur komið fram sem talsmaður meirihluta landeigenda í Drangavík.