Skúli Magnússon héraðsdómari og dósent við lagadeild HÍ ritaði á dögunum upplýsindi grein á þessum vettvangi sem nefnist „Enginn orkupakki, enginn sæstrengur?“ Í greininni hrekur Skúli þær hugmyndir að með samþykkt þriðja orkupakkans skapist skylda til að heimila lagningu sæstrengs til Íslands. Undirritaður vill taka undir með Skúla og benda á nokkur atriði til viðbótar sem styrkja röksemdir hans.
Alþjóðlegt regluverk fyrir sæstrengi
Í samræmi við tækniþróun á 19. öld skapaðist þörf til að setja reglur um sæstrengi utan lögsögu ríkja. Alþjóðlegt regluverk fyrir sæstrengi var fyrst komið á með alþjóðlegum samningi árið 1884 sem nefndur var á íslensku „Samningur um vernd á hraðfréttaþráðum er lagðir eru neðansævar“ (e. Convention on the Protection of Submarine Cables). Danir gerðust aðilar að samningnum og þar með varð Ísland bundið af honum.
Í þessu samhengi verður að hafa í huga að hið lögfræðilega landgrunnsheiti er annað en hið náttúruvísindalega. Þetta veldur talsverðum ruglingi. Landgrunnshugtakið í skilningi þjóðaréttar hefst utan landhelgi ríkja, þ.e. oftast 12 sjómílum frá svokölluðum grunnlínum. Frelsið að því varðar lagningu neðansjávarleiðslna og strengja á landgrunninu tekur ekki til landhelginnar.
Landhelgi - fullveldi
Í 4. mgr. 79. gr. hafréttarsamningsins kemur beinlínis fram að ekkert, í þeim hluta samningsins sem fjallar um landgrunnið, hafi áhrif á rétt strandríkisins til að setja skilyrði vegna strengja eða leiðslna, sem ná inn í land eða landhelgi þess. Fullveldi strandríkja í landhelginni er nær algjört. Er þetta í samræmi við samninginn frá 1884 en sá samningur gilti einvörðungu utan landhelgi aðildarríkja hans.
Öll aðildarríki EES-samningsins (sem og ESB sjálft) eru aðilar að hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Í hafréttarsamningnum er tekið fram að almennt skuli ákvæði annarra samninga, sem aðildarríki hafréttarsamningsins eiga aðild að, að vera í samræmi við hafréttarsamninginn.
Engin sæstrengjaskylda
Það er ekkert í reglum EES-samningsins eða sambærilegum reglum ESB-réttar sem felur í sér skyldu aðildarríkjanna til að heimila lagningu sæstrengs eins og Skúli Magnússon lýsir vel í grein sinni. Slík skylda fær heldur ekki stoð í helsta samningi þjóðaréttar um hafið, hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna, og á sér enga stoð í því alþjóðlega regluverki sem verið hefur við lýði síðan 1884 um sæstrengi. Réttur Íslands til að setja skilyrði vegna sæstrengja sem ná inn á íslenskt landsvæði eða landhelgi Íslands stendur óhaggaður hvað sem þriðja orkupakkanum líður.
Höfundur er prófessor við lagadeild HR.