Árið 2013 samþykkti Alþingi 2. áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða en markmið hennar er sjálfbær nýting orkulinda Íslands. Hafði málefnið þá verið til umræðu á Alþingi í nær þrjá áratugi eða allt frá árinu 1985. Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum er í nýtingarflokki áætlunarinnar. Jafnframt var virkjunin í stækkaðri mynd samþykkt af verkefnisstjórn um 3. áfanga áætlunarinnar sumarið 2015.
Um það leyti sem rammaáætlun var að taka á sig mynd fyrir sex árum hafði þjóðþekktur baráttumaður fyrir náttúruvernd á orði að með áætluninni skapaðist „vitrænn og skipulegur farvegur“ til skoðanaskipta sem væri „grundvöllur siðaðs lýðræðisþjóðfélags“.
Þessi orð rifjast upp í þeirri miklu og óvægnu orrahríð sem nú er háð gegn uppbyggingu Hvalárvirkjunar og þeim sem að henni standa.
Atlaga gegn Vestfjörðum
Mikilvægi Hvalárvirkjunar fyrir uppbyggingu raforkukerfis Vestfjarða er óumdeilt meðal sérfræðinga á sviði orkumála. Um það vitnar hver ný skýrslan á fætur annarri. Baráttan gegn Hvalárvirkjun er því um leið atlaga gegn brýnni innviðauppbyggingu á Vestfjörðum. Því er meðal annars lýst yfir af náttúruverndarsamtökum að einskis verði látið ófreistað til að stöðva virkjunaráformin. Helgar tilgangurinn mögulega öll meðul – bæði lögmæt og ólögmæt?
Fylgja athafnir orðum Landverndar?
Aðferðafræði þeirra sem hæst láta felst í skæðadrífu órökstuddra fullyrðinga og aðdróttana sem dynja á verkefninu og framkvæmdaaðilum þess – fyllyrðingar sem síðan er ítrekað vitnað til sem algildra sanninda með tilheyrandi tilfinningahita. Slíkur hamagangur getur komið róti á hug margra en verður seint talinn farsæll farvegur fyrir skoðanaskipti. Hin ríkisstyrktu samtök Landvernd, sem harðast hafa barist gegn Hvalárvirkjun, ganga svo langt að saka VesturVerk og aðra aðstandendur virkjunarinnar um lögbrot. Það eru alvarlegar ásakanir og ef sannfæring og vissa fylgir málflutningi samtakanna ættu þau sem fyrst að leita til dómstóla með ásakanir sínar.
Grænt ljós á öllum stigum máls
Með skipan í orkunýtingarflokk fæst heimild til þess að hefja undirbúning og rannsóknir fyrir verkefni en ekki er þar með sagt að leyfi fáist til framkvæmda. Þau koma á síðari stigum. Það ætti ekki að vera hægt að líta fram hjá því í umræðunni að Hvalárvirkjun fór í gegnum lögformlegt umhverfismat árið 2016. Samt er sneitt hjá því. Einnig vill gleymast að engir lögbundnir umsagnaraðilar, sem Skipulagsstofnun kallaði til, gerðu athugasemdir við mat virkjunaraðila á umhverfisáhrifum virkjunarinnar. Þess utan hafa sveitarstjórn Árneshrepps og Skipulagsstofnun staðfest alla áfanga verkefnisins til þessa og sveitarstjórnin jafnframt veitt framkvæmdaleyfi fyrir undirbúningi rannsókna.
Óvenjulítið fótspor
Frá því að umhverfismatið fór fram hefur hönnun virkjunarinnar tekið umtalsverðum breytingum og hafa þær allar miðað að því að draga verulega úr umhverfisáhrifum hennar. Ekki verður hróflað við náttúruperlum á borð við fossa, gil og árfarvegi þótt vissulega muni rennsli minnka í þeim á ákveðnum tímum árs, eins og reyndar gerist einnig af náttúrulegum ástæðum. Þrjú uppistöðulón á háheiðinni ásamt stíflumannvirkjum verða helstu sjáanlegu ummerki virkjunarinnar, sem verður að öðru leyti öll neðanjarðar. Helstu sérfræðingar landsins á sviði vatnsaflsvirkjana telja leitun að virkjun sem fellur jafn vel að umhverfi sínu og Hvalárvirkjun.
Hin mikilvæga vernd
Rammaáætlun er málamiðlun þar sem saman eru vegnir heildarhagsmunir með landið allt undir smásjánni. Slíkum málamiðlunum getur verið erfitt að una en þær eru engu að síður grundvöllur í siðuðu lýðræðisþjóðfélagi. Pólitíkin getur kollvarpað þeim og sett nýjar leikreglur en á meðan það er ekki gert ber okkur öllum skylda til að hlíta þeim leikreglum sem hafa verið settar.
Þeir sem hamast mest gegn Hvalárvirkjun um þessar mundir mættu hafa það í huga að sé nýtingarflokkur rammaáætlunar að engu hafður er líklegt að hin mikilvæga vernd, sem í henni felst, komist einnig í uppnám. Viljum við virkilega fara aftur á byrjunarreit í þessum efnum?
Höfundur er upplýsingafulltrúi Vesturverks.