Marga rak í rogastans þegar ég skrifaði greinar um ofbeldi í garð kennara. Margir þekkja og hafa heyrt af kennurum sem hafa orðið fyrir ofbeldi, hótunum og ógnandi hegðun af hálfu nemanda. Í einhverjum tilfellum af hendi foreldra líka. Sumt lítilvægilegt annað alvarlegra, ofbeldi engu að síður.
Innan margra grunnskóla þekkja menn vandann. Margir foreldrar fagna umræðunni með það fyrir augum að málflokkurinn verði rannsakaður og leitað lausna. Ofbeldi nemenda bitnar ekki bara á kennara heldur og öðrum nemendum eins og Kristbjörn Árnason nefndi í sinni grein. Foreldrar vilja aðgerðir ekki síður en kennarar. Málaflokkurinn er viðkvæmur og því stígur fólk ekki fram.
Vinnuumhverfisnefnd KÍ hefur áður rannsakað málaflokkinn (KÍ, 2017) en einhverra hluta vegna virðist ekkert hafa verið gert með þá niðurstöður, því miður. Niðurstaðan þá var sláandi og er enn. Nú er lag og virðast formenn KÍ og FG ekki ætla að láta sitt eftir liggja, sem er gott.
Formaður KÍ (þá starfandi kennari) skrifaði pistli um málefnið og í honum segir:
Það var fyrst árið 2010 sem ég man eftir fyrst því að opinberlega hafi verið fjallað um þá viðkvæmu stöðu sem kennarar eru í. Þeir eru beittir ofbeldi. Það er kerfislægt vandamál. Árið 2013 eða 14 man ég að það birtist frétt um að ofbeldi gegn kennurum væri að aukast. Fyrir örfáum vikum birtust svo niðurstöður rannsóknar sem benda til þess að nánast sé um faraldur að ræða – að mörg hundruð kennarar séu beittir ofbeldi á hverju ári. Þetta er bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi. Ein tegund ofbeldis hefur ekki verið rædd mikið upphátt. En það eru falskar ásakanir á hendur kennurum um ofbeldi eða áreitni (Ragnar Þór Pétursson, 2017).
Hér vitnar Ragnar Þór til könnun Vinnuumhverfisnefndar frá 2017 sem birti lýsandi niðurstöður. Í þeirri könnun kemur berlega í ljós að við erum engir eftirbátar norrænu þjóðanna í þessum málaflokki. Um 2200 grunnskólakennarar svöruðu könnuninni.
Það er eitt og hálft ár síðan Ragnari Þór þótti ástæða til að ræða málaflokkinn. Greinarhöfundur hefur vitnað til norrænna rannsókna í málflutningi sínum þar sem við eigum engar rannsóknir hér á landi (bara kannanir) og það segir Ragnar Þór líka í sínum pistli. Ofbeldið á Norðurlöndunum er í kringum 19% og hér bendir Rangar Þór á rannsókn frá Bretlandi.
Ég veit ekki um tíðni þessara mála hér á landi en í breskri rannsókn kom í ljós að rúmlega fimmtungur allra kennara þar í landi hefur orðið fyrir fölskum ásökunum um alvarlega áreitni eða ofbeldi. Þar í landi er þetta greint sem ein meginorsök þess að reynslumikið fólk hrökklast úr kennslu (Ragnar Þór Pétursson, 2017).
Í greinum mínum hef ég tekið dæmi erlendis frá en bent á að slík tilfelli finnist hér á landi líka. Tegund ofbeldis nefndi ég í síðustu grein byggt á samtölum við kennarar sem hafa orðið fyrir ofbeldi. Ragnar Þór (2017) virðist hafa sömu vitneskju og ég þegar hann skrifaði sinn pistil.
Þetta er stórkostlegt vandamál í íslensku skólakerfi líka. Og þetta er mál sem lúrir djúpt í feni þöggunar. Ég var staddur í níu manna hópi kennara um daginn þar sem þessi mál bar á góma. Fjórir höfðu verið ranglega bornir sökum – þar af allir karlarnir þrír. Fyrir ári hitti ég fjóra karlkennara á viðburði. Þeir höfðu allir orðið fyrir ásökunum sem síðan reyndust rangar. Þetta eru allskonar ásakanir.
Þegar kemur að foreldrum og samskiptum við kennara virðast þekking okkar Ragnars Þórs vera á sömu nótum. Í einni greininni skrifaði ég um ógnandi og hótandi foreldra sem er annað vandamál. Í pistli Ragnars Þórs má lesa:
Þá eru fjölmörg dæmi þess að kennarar séu lagðir í mjög harkalegt einelti af foreldrum. Einn var klagaður til skólastjóra og sagður vera umtalaður í nágrenninu fyrir að ofsækja börn og leggja í einelti. Kennarinn sætti ítarlegri rannsókn sem leiddi í ljós að um fullkomna lygi var að ræða.
Allar ofbeldistilkynningar á að rannsaka. Þar til bær yfirvöld vinna að málunum, líka þegar börn eiga í hlut. Vissulega munu saklausir einstaklingar lenda í rannsókn sem er fórnarkostnaðurinn þegar börn eiga í hlut. Verra er, að einstaklingur sem er hreinsaður af sök fær ekki þá viðurkenningu í samfélaginu.
Kennarar stíga ekki fram og segja frá ofbeldinu. Þeir óttast almenningsálitið því dómstóll götunnar er óvæginn. Kennarar upplifa skömm á því að hafa orðið fyrir ofbeldi, hótun eða ógnandi hegðun af hálfu nemenda, almenningi finnst það svo ólíklegt. Staðreyndin er samt sú. Eins og það er mikilvægt að ná til fólks sem fer illa með börn, hvort sem það er kennari, foreldri eða aðrir, verðum við að gæta þess að saklausir einstaklingar njóti réttar og fái viðeigandi aðstoð.
Formaður félags leikskólakennara, Haraldur F. Gíslason og Ingibjörg Kristleifsdóttir skrifa í Skólavörðunni (2013) að lífið væri línudans í tenglum við áhorf myndarinnar Jagten. Í þeirri mynd leiddi ímyndunarafl barns og röng fagleg nálgun til hörmunga fyrir karlkyns leikskólakennara og fjölskyldu. Í greininni segja þau engan dóm um kynferðislegt ofbeldi hafi fallið hér á landi, í tengslum við leikskólann, en við verðum að vera við öllu búin. Talað er um grun, slúður og dómstól götunnar í því samhengi (Haraldur F. Gíslason og Ingibjörg Krisleifsdóttir 2013:14).
Á 7. þingi Kennarasambands Íslands, haldið í apríl 2018, ræddi Þorgerður Diðriksdóttir formaður Félags grunnskólakennara um kennara sem hafa verið ásakaðir um ofbeldi sem á ekki við rök að styðjast. Kennarasambandið, sagði hún, þarf að standa við bakið á félagsmönnum verði þeir fyrir slíkum ásökunum og ítrekaði að málaflokkurinn hafi hangið yfir sambandinu eins og skuggi (Þorgerður L. Diðriksdóttir, 2018:35). Tek undir orð formanns FG og hvet hana til góðra verka í því samhengi. Löngu tímabært að létta þessum skugga af sambandinu með öllum tiltækum ráðum. Rannsóknin á haustdögum verður ábyggilega gagnleg í áframhaldandi umræðu og lausnaleit.
Rannsókn á málaflokknum er ákveðin í kjölfar forsögunnar og könnunar sem gerð var í apríl s.l. á vegum Vinnuumhverfisnefndar KÍ. Fram kom að rúmlega 800 grunnskólakennarar af 1600 sögðu frá ofbeldi af hálfu nemenda. Könnunin hafði þá annmarka að ekki var spurt um s.l. 24 mánuði eins og fyrri könnun og því er um kennsluferil grunnskólakennara að ræða. Það breytir ekki vandanum, hann er til staðar.
Hvet kennara og annað starfsfólk grunnskóla að tilkynna ofbeldi, andlegt sem líkamlegt, hótanir og ógnandi hegðun sem það verður fyrir. Talnagrunn þarf kennarastéttin að eiga sem og aðrar stéttir innan grunnskólans.
Höfundur er M.Sc. M.Ed. og starfar sem grunnskólakennari og situr í vinnuumhverfisnefnd KÍ fyrir hönd grunnskólakennara.
Heimildir:
- Haraldur F. Gíslason og Ingibjörg Kristleifsdóttir. (2013). Lífið er línudans. Kennarasamband Íslands. Skólavarðan 1. tbl., bls. 14. Sótt 25. júlí 2019
https://issuu.com/kennarasamband/docs/skolavardan_1tbl_13arg_2013
. - Kennarasamband Íslands. (2017). Könnun á einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað meðal félagsmanna KÍ. Sótt 25. júlí 2019.
- Ragnar Þór Péturson. (2017). Grunsamlega lítið hefnigjarn? Sótt 25. júlí 2019.
- Þorgerður Laufey Diðriksdóttir. (2018). Fundagerð 7. þing Kennarasambands Íslands, bls. 35. Sótt 25. júlí 2019.