Hvað á fyrirtæki að gera þegar það hefur of mikið af peningum? Þessi spurning hefur blasað við stjórnendum á Íslandi undanfarin ár.
Það er ekki gott að borga arð, því arður er eitthvað sem ríkt fólk fær og borgar lítinn skatt af. Starfsfólkinu, sem vann fyrir þessum pening, gæti sárnað það. Eðlilegast væri auðvitað að gefa starfsfólkinu pening fyrir dugnaðinn, eða fjárfesta í framtíð fyrirtækisins. Eða kaupa eitthvað fallegt fyrir samfélagið.
En hvers vegna að gera það, þegar er hægt að henda peningunum út um gluggann?
Á árunum 2015-2018 keyptu fyrirtæki skráð í Kauphöll Íslands eigin hlutabréf fyrir meira en 53 milljarða króna. Það mætti segja að þau hafi tekið möntruna „fjárfestu í sjálfum þér“ alla leið, nema að þau fjárfestu auðvitað ekki í neinu – þau fluttu peningana í hendurnar á hluthöfum sem voru til í að selja sig úr fyrirtækinu.
Einhverjir samsæriskenningasmiðir hafa sagt að þetta séu bara dulbúnar arðgreiðslur. Einn þeirra er framkvæmdastjóri fjármálasviðs Skeljungs hf., sem lét hafa eftir sér að „Það er viðkvæmara að greiða stórar upphæðir til hluthafa í formi arðs en í formi endurkaupa“. Skeljungur hefur undanfarin ár dælt hundruðum milljóna króna úr fyrirtækinu með þessari aðferð.
Tvennt gerist þegar fyrirtæki kaupir eigin hlutabréf: handhafar bréfanna sem eru keypt fá peninga og eftirstandandi bréf hækka í verði. Til langs tíma hefur þetta svipuð áhrif á fyrirtæki eins og það hefur á manneskju að borða á sér fótinn. Fyrst er það seðjandi, næringarríkt og bragðgott. En með tímanum verður erfitt að halda áfram að labba. Hrun í fjárfestingum á Vesturlöndum síðustu áratugi má að hluta rekja til þessara vinnubragða – forgangsatriðið hefur verið að setja krem á köku fjárfesta, frekar en að byggja upp framtíðina.
Þann fyrsta nóvember 2018 keypti stjórnarmaður í Marel hlutabréf í fyrirtækinu fyrir 100 milljónir króna. Þremur vikum síðar samþykkti hluthafafundur Marel endurkaupaáætlun sem keypti hluti í félaginu fyrir 6,6 milljarða króna fram til 5. mars 2019. Hókus pókus, nú voru hlutir stjórnarmannsins orðnir 130 milljón króna virði.
Auðvitað er ekki öll hækkun bréfanna á þessu tímabili vegna endurkaupa. Marel er fínt fyrirtæki í mikilli uppbyggingu. En sjötta hvert hlutabréf Marel sem var keypt frá nóvemberlokum 2018 til marsbyrjunar 2019 var keypt af fyrirtækinu sjálfu.
Greiningaraðilinn Fortuna Advisors hefur lagt mat á það hvernig fyrirtækjum gengur ef þau ákveða að kaupa eigin hlutabréf, frekar en eitthvað nytsamlegt. Viti menn, þannig fyrirtæki drógust aftur úr öðrum til lengri tíma litið. Þetta þarf auðvitað ekki að koma á óvart. Það að sjúga peninga úr fyrirtækjum með arðgreiðslum og endurkaupum gerir þau veikari, á kostnað starfsfólks og framtíðarinnar, í þágu skammtímagróða hluthafa. En það er ekki sama hvort peningarnir fari út með arðgreiðslum eða endurkaupum. Einn hópur fólks græðir meira á endurkaupum, sem kann að útskýra hvers vegna sú aðferð hefur orðið vinsælli undanfarið. Sá hópur er háttsettir stjórnendur í viðkomandi fyrirtækjum.
Nú til dags fá „lykilstarfsmenn“ oft, til viðbótar við laun, rétt til að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu á föstu verði, sama þótt verðið hækki í millitíðinni. Hugmyndin er að þetta hvetji þá til að vera duglegir að gera fyrirtækið verðmætara. Þetta má einnig gera með fjárfestingu og uppbyggingu, en hún er óviss og tekur tíma. Fljótvinnari leið er að kaupa bara bréf í fyrirtækinu sjálfu. Verðið rýkur upp – til skamms tíma, að minnsta kosti. Nú kaupir stjórnandinn hlutabréf á loforðsverðinu, selur strax aftur á hærra verðinu og hefur með því að lyfta litlafingri grætt haug af peningum.
Og hver veit nema fleiri geti grætt á svona kaupum? Íslensk elíta er ástrík og umhyggjusöm, og full af alúð gagnvart vinum og vandamönnum. „Markaðurinn hérna heima, hann hefur oft verið pínu sérstakur,“ segir fjármálastjóri Haga. „Það virðast allir vita allt ... allt pjakkar sem voru saman í skóla eða í fótbolta svo verðið gæti hafa breyst löngu áður.“ Innherjaviðskipti heita þetta. Sum lögleg, sum ólögleg, öll full af kunningjakærleik.
Þetta gerist auðvitað bara ef ekki er haft náið auga með fyrirtækinu. Til dæmis ef eigandi fyrirtækisins er ekki árvökull kapítalisti, heldur óvirkur fjárfestir – eins og lífeyrissjóður. Fyrir nokkrum árum sagði stjórnaformaður Gildis – lífeyrissjóðs að sjóðirnir þyrftu að auka árvekni sína, annars myndu smærri og harðskeyttari fjárfestar, eða framkvæmdastjórnin, taka yfir alla stjórn. „Það gefur ótrúlega litlu hlutafé vægi ef [lífeyrissjóðirnir] hafa engin afskipti af stefnumótun eða stjórnum fyrirtækja,“ sagði hann. Sannast sagna.
Á síðustu vikum var tilkynnt um endurkaup hlutabréfa í Sjóvá, Símanum, Origo, Eik fasteignafélagi, Heimavöllum, VÍS, Högum, Eimskipum og Regin. Milljónatugir fylgja milljónatugum á leið sinni – ekki beint út um gluggann, heldur í vasann á bröskurum og „pjökkum sem voru saman í fótbolta“. Það mætti jafnvel segja að það væri samfélagslega betra að henda peningum bókstaflega út um gluggann. Þá myndi fólkið á götunni allavega fá hann í hendurnar.