Hinsegin dagar, dagar fjölbreytileika, kærleika og umhyggju. Kæru Íslendingar til hamingju með þessa fallegu hinsegin daga, daga fjölbreytileikans, daga kærleikans. Þó að víða sé pottur brotinn í mannréttindamálum hjá okkur Íslendingum getum verið stolt af því hvert við erum komin hvað varðar mannréttindi svonefndra jaðarhópa miðað við margar aðrar þjóðir. Kannski er okkur hægt og bítandi að lærast að við erum öll hvert öðru tengd, að við erum öll partur af sama líkama. Félagslegt réttlæti ætti og á að vera fyrsta verkefni okkar allra og því ætti að vera hægt að ná ef við fyllum okkur og umhverfi okkar af anda kærleikans. Kærleikans í garð náunga okkar, án tillits til kynþáttar, litarháttar, trúar eða kynhneigðar.
Það hefur ekki farið framhjá neinum sem fylgist með því sem er að gerast í heiminum að hatri, fordómum og sundrungu hefur vaxið ásmegin á síðustu misserum. Það helgast að einhverju leyti af því að í mörgum löndum hafa til forustu valist menn sem sá fræjum tortryggni og sundrungar milli ólíkra hópa samfélagsins. Einn slíkur ku vera á leið hingað til lands í boði ríkisstjórnarinnar og illu heilli finnast þannig stjórnmálamenn hér á landi líka. Menn sem virðast ekki skeyta um eða þekkja ekki söguna um afleiðingar þannig stjórnarhátta, dæmin eru svo óteljandi og nægir bara að nefna seinni heimstyrjöldina því til sönnunar. Höfnum slíkum mönnum.
Sá merki maður Dalai Lama sagði eitt sinn að eini trausti grunnur alheimsábyrgðar væru kærleikur og samhygð og að þau væru hin fullkomna uppspretta gleði og hamingju. Þegar okkur lærðist að þekkja gildi þeirra og reyndum sjálf að þróa þessa eiginleika með okkur kæmu margir aðrir góðir eiginleikar í ljós. Eiginleikar eins og miskunnsemi, umburðarlyndi o.fl sem myndi vinna bug á ótta og öryggisleysi og væru okkur nauðsynlegir til þess að okkur takist að skapa betri, hamingjuríkari, öruggari og siðmenntaðri heim.
Mikið er ég sammála honum.
Elskum fjölbreytileikann.
Elskum hvert annað.
Elskum lífið
Höfundur er kennari, bæjarfulltrúi og varaþingmaður Samfylkingarinnar.