Ísland tekur á móti forsætisráðherrum Norðurlanda til sumarfundar þessa dagana sem formennskuland Norrænu ráðherranefndarinnar. Á fundinum á m.a. að ræða um stefnu fyrir norrænt samstarf til lengri tíma.
Norræna ráðherranefndin, sem forsætisráðherrarnir fara fyrir, og Norðurlandaráð eru lífæðin í opinberu norrænu samstarfi. Mest heyrist af samstarfi Norðurlanda þegar árlegum verðlaunum er úthlutað fyrir bókmenntir, kvikmyndir, tónlist og framtak í umhverfisvernd, eða þegar forsætisráðherrar landanna koma saman og eiga sameiginlega fund með fyrirmönnum stórþjóða, eins og Merkel er nú dæmi um. Ekki skortir þá á yfirlýsingar um mikilvægi samstarfsins og vissulega er hægt að finna mörg dæmi um ágætan árangur þess. Sýnilegasta tákn samstarfsins á Íslandi er Norræna húsið sem Norðurlöndin komu sér saman um að byggja fyrir liðlega 50 árum til að vega upp á móti meintum vaxandi menningarlegum áhrifum Bandaríkjanna á Íslandi. Ýmsar mikilvægar framkvæmdir hafa notið liðstyrks Norræna fjárfestingarbankans og Norræna eldfjallastöðin sem rekin er af Háskóla Íslands hefur verið sýnilegt tákn um gagnsemi samstarfsins.
Þrátt fyrir margar og fjölgandi yfirlýsingar um mikilvægi norræna samstarfsins er ástæða til að hafa áhyggjur af framtíð þess. Fjárframlög Norðurlanda til samstarfsins hafa farið hríðlækkandi undanfarna tvo áratugi. Í hlutfalli við landsframleiðslu Norðurlanda og ríkisútgjöld almennt er samstarfið aðeins um hálfdrættingur í samanburði við það sem það var fyrir um 30 árum síðan. Á saman tíma og löndin hafa sjálf aukið fjárframlög til menningarmála hefur dregið úr því fjármagni sem veitt er í sameiginlegrar menningarsamstarf Norðurlanda. Þrátt fyrir afar mikla aukningu á fjármagni sem veitt er til rannsókna á sviði orkumála hefur starfsemi Norræna orkusjóðsins ekki verið efld í sama mæli. Öll rök lúta þó að því að mikil samlegðaráhrif séu af sameiginlegum rannsóknum. Ekki hefur náðst samkomulag um að viðhalda og styrkja vel heppnað samstarf í Norrænu þróunarsamvinnustofnuninni NDF og fleiri af ríkjunum hafa gert atlögu að samstarfsstofnunum á borð við Norrænu eldfjallastöðina. Þrátt fyrir að Norðurlöndin séu öll undir verulegum áhrifum ákvarðana sem teknar eru í Evrópusambandinu hefur lítið miðað í þá átt efla samstarf um Evrópumálefni til að auka áhrifin á þeim vettvangi.
Undanfarin ár hafa komið fram fjölmargar skýrslur sem með rökstuðningi lýsa hvernig má efla samstarfið á hinum ýmsu sviðum. En er alltof lítið hefur orðið úr eftirfylgni. Ekkert ríkjanna dregur í efa mikilvægi þekkingarsköpunar og skoðanaskipta, en erfitt er að framfylgja hugmyndum um meira skuldbindandi samstarf þó dæmin sanni að það er árangursríkt.
Hver vegna? Íhaldssemi og tregða til breytinga. Einnig ótti einstakra ríkja við að missa spón úr aski sínum við að leggja fé í sameininglega sjóði og aðgerðir. Þetta eru mannleg viðbrögð, en ekki skynsamleg þar sem hvert um sig eru Norðurlöndin smá og samstarfi fylgir stærðahagkvæmni og frekari alþjóðleg áhrif.
Íslendingar hafa óneitanlega haft mikið gagn af norrænu samstarfi. Að vera í forsvari fyrir samstarfinu er tækifæri sem gefst á fimm ára fresti. Það er tímabær spurning hvernig efla má samstarfið með því að veita því fjármagn í hlutfallslega sambærilegu mæli og var fyrir þrjátíu árum síðan. Fögur orð um samstarfið eru til lítils ef þau leiða ekki til styrkja frekar það sem vel hefur tekist og til nýsköpunar í takt við þarfir nútímans.
Ég hvet forsætisráðherra að glugga í þær mörgu skýrslur sem fram hafa komið á undanförnum árum um umbætur á norrænu samstarfi og kalli eftir tillögum sem geta eflt samstarfið, og tala fyrir því að orðum um áherslur í norrænu samstarf verði fylgt eftir með sambærilegum fjárframlögum og þegar best lét.
Höfundur er hagfræðingur og hefur starfað sem sérfræðingur og skrifstofustjóri hjá Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni.