Kæra Katrín,
Greta Thunberg hefur síðastliðið ár breytt heiminum örlítið til hins betra. Hennar einlægni, rökfesta og sannfæringar kraftur hefur fengið miljónir til að feta í fótspor hennar og styðja við báráttuna. Umræða og viðhorf hafa breyst mikið á þessum tíma en fleira þarf að breytast, það þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Hvernig getum við hjálpað Gretu?
Við deilum færslum hennar á samfélagsmiðlum, það hjálpar. Við tölum um hana í ræðum og líkjum henni við barnið í sögunni um nýju föt keisarans eins og þú hefur gert, það hjálpar líka. Við þurfum að nota öll tækifæri sem við hvert og eitt höfum til að hjálpa henni. Og við þurfum ekki að vera hrædd við að vera róttæk í aðstoð okkar við Gretu, að taka á rótum vandans er nauðsynlegt.
Greta leitaði leiða til að taka þátt í loftslagsráðstefnu U.N. nú í september m.a. með fjarfundabúnaði, henni stóð til boða far með skipum Eimskips til N.Y. en valdi að lokum að leggja á sig tveggja vikna ferð með lítilli skútu til að komast á áfangastað án allrar kolefnislosunar. Takk Greta.
Öll getum við stutt baráttuna með okkar hætti, en þú ert í enn sterkari stöðu en við flest. Ef þú gerir eitthvað róttækt þá mun heimurinn taka eftir. Þú gætir sleppt flugi til N.Y. í september en tekið þátt með fjarfundabúnaði. Það væri mikill stuðningur við baráttu Gretu, ekki bara í orði heldur í verki.
Virðingarfyllst,
Gísli Sigurgeirsson