Það styttist í „að duga eða drepast“ – stundina í breskum stjórnmálum, sem Boris Johnson hefur kallað svo, „do or die“ eins og hann segir sjálfur. Að sjálfsögðu er verið að tala um 31.október, þegar breska ríkisstjórnin ætlar að fara með allt Stóra-Bretland; England, Wales, Skotland og Norður-Írland, út úr Evrópusambandinu. Án samnings ef þörf krefur.
Bretar hafa verið í ESB (og forvera þess) frá árinu 1973, en landið hafði sótt um aðild 12 árum áður, en Frakkar stóðu lengi vel í vegi fyrir aðild. En að lokum fengu Bretar inngöngu og þá breyttist Bretland. Nú er ætlunin að breyta því til baka.
Það er samdóma álit nær allra að aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu og síðar Evrópusambandinu hafi gagnast Bretlandi mjög vel og aukið lífsgæði bresku þjóðarinnar. Landið hefur í krafti aðildar breyst frá frekar stöðnuðu og (á mörgum sviðum) á stundum illa reknu samfélagi yfir í að vera nútímavætt og samkeppnishæft samfélag, þar sem frjáls markaður og nánast haftalaust aðgengi að Innri markaði ESB hafa skipt lykilmáli.
Breskt samfélag er dýnamískt samfélag, þar sem flutningur og frjáls för verkafólks og vinnuafls hefur skipt gríðarlegu máli. Nær allar rannsóknir sem gerðar hafa verið, benda til þess að innflutt vinnuafl hafi aðeins gert bresku samfélagi gott. Til dæmis „pólski píparinn“ og fleiri. Innflytjendur leggja meira til breska samfélagsins en þeir fá frá því. Þeir vinna störf sem annars væri erfitt að manna. Sama þar og hér á Íslandi.
London miðstöð fjármála
London er ein helsta og nútímalegasta mistöð fjármála í heiminum og það er meðal annars vegna aðildar Bretlands að ESB. Fjármálastarfsemin þar er gríðar stór þáttur í efnahagslífi landsins. Í vor kom út skýrsla frá hugveitunni New Financial þar sem fram kom að hátt í 300 fjármálafyrirtæki hefðu flutt starfsemi sína frá London og að fleiri væri á leiðinni að fara. Flest sem höfðu farið fluttu sig til Dublin á Írlandi. Árið 2018 var starfsemi fjármálafyrirtækja um 7% af þjóðarframleiðslu Breta og um helmingurinn af því varð til í London einni. Árið 2017 fluttu Bretar út „fjármálaafurðir“ fyrir um 60 milljarða punda, en inn fyrir 15, þ.e.a.s. plús upp á 45 milljarða punda! Þetta segir í upplýsingum frá breska þinginu, „House of Commons.“
Sennilega hagstæðasti aðildarsamningur nokkurs ESB ríkis
Fáar þjóðir hafa fengið jafn hagstæðan aðildarsamning og Bretland; þeir sömdu um ríkulegan afslátt að aðildargjaldi ESB (allt að um 65% afslátt), þeir hafa ekki þurft að nota og taka upp evruna (enn með sitt breska pund) og þeir fengu undanþágu frá Schengen-landamærasamtarfi ESB, en nota engu að síður það sem þeim hentar úr því. Bretar hafa því fulla stjórn á því hverjir mega koma til Bretlands og hverjir ekki, en eitt af helstu slagorðum Brexit-sinna vara einmitt „take back control“ – eða „tökum aftur stjórnina“.
Bretland hefur í gegnum aðild sína að ESB fengið fullan aðgang að um 40 fríverslunarsamningum við öll helstu viðskiptasvæði heims, meira að segja Færeyjar, þar sem ESB er nánast stöðugt í samningum við önnur svæði heimsins um verslun og viðskipti. Langstærstur hluti viðskipta Bretlands er við önnur ESB-ríki, en um 35-40% af öllum innflutningi til Bretlands eru vörur frá öðrum ESB-ríkjum. Um 50% af útflutningi Breta til 15 helstu útflutningslanda fer til ESB-ríkja og Bretar flytja mun meira af vörum bara til Þýskalands og Frakklands, en til Bandaríkjanna, en aðeins um 19% útflutnings Breta fer þangað.
Til hvers var þá farið í þessa vegferð? Ástæða hennar er gamaldag þjóðernishyggja og „nostalgískir“ draumar um einskonar enduvakningu/endurlífgun á breska heimsveldinu. Draumar um einhverskonar afturhvarf til glæstari tíma heimsveldis, „þar sem sólin settist aldrei“ eins og gjarnan var sagt. En þeir tímar eru liðnir og koma aldrei aftur.
Látið undan duttlungum lýðskrumara
Í raun var verið að láta undan duttlungum manna á borð við Nigel Farage, fyrrum formanns UKIP-flokksins, sem hefur gagnrýnt harðlega ESB og það sem hann hefur kallað „elítur“ (valdkjarna/yfirstétt) ESB. David Cameron, forsætisráðherra Breta frá 2010-2016 gerði það og lofaði kosningum um ESB. Dropinn hafði holað steininn. Það kaldhæðna er þó hinsvegar að Farage er sjálfur (og hefur verið) hluti af þessari yfirstétt, en hann hefur setið á Evrópuþinginu í um 20 ár, en hverfur nú þaðan. Það má því segja að hann hafi verið að berjast fyrir því að segja sjálfum sér upp vinnunni. UKIP er jaðarflokkur í breskum stjórnmálum og svokallaður lýðhyggjuflokkur, en þeir flokkar sem ástunda það sem kallað er lýðhyggja (enska;„populism“).
Slíkir flokkar höfða til kjósenda með einföldum boðskap og einföldum lausnum á flóknum vandamálum. Til dæmis að reka innflytjendur á brott af því þeir séu fyrir og hleypa ekki flóttamönnum inn af því þeir séu hættulegir. Allir vita að þetta er hinsvegar ekki rétt. Innflytjendur eru hvorki fyrir, né hættulegri en annað fólk. Þeir eru einfaldlega venjulegt fólk sem vill hafa vinnu og tekjur og búa í friði og ró með öðru fólki.
Erfiðu landamærin
Eitt af erfiðustu deilumálum Brexit er skipulag mála á Írlandi, sem skiptist í lýðveldið Írland og svo N-Írland, sem tilheyrir Bretlandi. Á N-Írlandi geisaði borgarastríð frá 1969-1998, þegar samið var um frið. Grunnur deilunnar var einmitt hvort N-Írland ætti að tilheyra Bretlandi eða sameinast Írlandi. Í þessum átökum létust um 3000 manns að minnsta kosti.
Þegar Bretland fer út úr ESB getur því skapast vandamál; „hörð landamæri“, en eins og staðan er núna þá flæðir allt (vörur, fjármagn, vinnuafl og þjónusta) nánast frítt á milli svæðanna, þar sem þau eru bæði í ESB. Sérstök lausn hefur verið fundin á þessu sem kallast „Backstop“ en í henni felst í raun að halda málum óbreyttum þar til önnur varanlegri framtíðarlausn finnst. Þetta er málamiðlun. Með hörðum landamærum“ myndu hinsvegar skapast veruleg vandræði.
Boris Johnson hefur lýst þessari lausn sem and-lýðræðislegri. En hvað er and-lýðræðislegt við það að passa upp á að allt fari ekki aftur í bál og brand á N-Írlandi? Ekkert! Er Johnson reiðubúinn að fórna þeim friði á einhverju Brexit-báli? Það verður hreinlega að gera allt til þess að friður haldist. Og enn sem komið er er ekkert útlit fyrir að ESB bakki í sinni afstöðu til hinna rúmlega 500 kílómetra löngu landamæra ríkjanna. Hér er verið að verja gríðarlega mikilvæga hagsmuni.
Lygar og rangtúlkanir
Brexit er afurð einnar lúalegustu stjórnmálaherferðar seinni tíma. Kjósendur voru mataðir með misvísandi og jafnvel röngum upplýsingum, bæði í hefðbundnum fjölmiðlum, sem og á samfélagsmiðlum. Þar voru að verki þeir sem ég vil kalla „seiðkarla samfélagsmiðlanna“ – menn á borð við Dominc Cummings, en hann var kosningastjóri útgöngusinna.
Dæmi um þetta eru til dæmis fullyrðingar útgöngumanna um að Tyrkland sé á leiðinni inni í ESB. Reyndar sagði Boris Johnson í ræðu árið 2003 að hann væri fylgjandi bæði aðild Tyrklands að sambandinu og eins sagði hann að ef ESB væri ekki til, þá myndi slíkt fyrirbæri verða fundið upp. Reyndar er mjög merkilegt að lesa þessa ræðu Johnsons.
Nánast engar líkur eru nú á því að ESB sleppi Tyrklandi inn fyrir dyrnar, sér í lagi í ljósi þeirrar mjög svo neikvæðu þróunar í mannréttinda og lýðræðismálum í landinu undanfarin misseri. Sem er gott, því gildi ESB samræmast alls ekki þeim gildum sem nú eru í gangi í Tyrklandi.
Einnig fullyrtu Brexit-sinnar að ESB væri sífellt að „rúlla yfir Bretland“ í lagasetningum (traðka á Bretlandi), en hið rétta er að á Bretland hefur hallað í mjög miklum minnihluta þeirrar löggjafar sem sett hefur veriðí ESB síðan 1999.
Frægasta dæmið um misvísandi notkun á tölum og staðreyndum er hins vegar sú fullyrðing útgöngusinna um að við útgöngu myndi Bretland geta fengið til baka um 350 milljónir punda á viku frá ESB, sem ætti að nota til heilbrigðismála. Talan 350 er hins vegar „heildartala“ þar sem afslættir og annað slíkt (sem rætt er hér að ofan) er ekki tekið með. Hin raunverulega tala er því mun lægri. Þetta kallast að slá ryki í augu kjósenda. Þetta var hins vegar eitt helsta slagorð útgöngusinna, þ.e.a.s. að ESB væri að mergsjúga Bretland á peningum sem ættu annars að fara til heilbrigðismála. Allt þetta var hræðsluáróður á hæsta stigi.
Brexit er Brexit, eða hvað það nú er
Eins og Theresa May, fyrrum forsætisráðherra (sem var fórnað á Brexit-altarinu), sagði; „Brexit þýðir Brexit“! En enginn hefur almennilega skilið þennan frasa eða hvað hann felur í sér, einfaldlega vegna þess að enginn veit nákvæmlega hvað gerist þegar Bretar segja skilið við ESB! Allra síst þeir sem settu málið í gang.
Þetta er því ein alræmdasta óvissuferð sem menn hafa lagt í og hún virðist hafa fyrst og fremst hafa verið byggð á þrá eftir gömlum tímum og tilfinningum, en ekki á rökum eða skynsemi. Hvað þá á því hvað væri best fyrir breskan almenning. Hér er því um að ræða afturvirka breytingu (enska;„reactionary“). Þeir sem stuðluðu að Brexit hafa ekkert í höndunum og vita ekkert í raun hvað þeir fá í staðinn. Sem og breska þjóðin. En Bretar kusu út og út munu þeir fara.
Höfundur er MA í stjórnmálafræði