Það er athyglisvert að hlusta á meðrök og mótrök sérfræðinga við innleiðingu OP3.
Öll rök sérfræðinganna eru vönduð, þakkarverð og mikilvæg innlegg í þroskaða umræðu, annars vanþroska lýðræðis. En lítum aðeins til lokakaflans, hins eiginlega lokatakmarks upphafsásetningsins.
Upphafsásetningur þeirra afla sem vilja innleiða OP3 virðist vera að hagnast á sæstreng og afleiddum viðskiptum, m.a. arði af uppkeyptu jarðnæði, vatnsföllum og virkjanaréttindum þó megin fjáruppsprettan verði þessi:
Það einkaframtak sem verður í lykilaðstöðu með eignarétt yfir sæstreng, verður áskrifandi í einokunaraðstöðu að útflutningshluta orkuauðlindar þjóðarinnar. Ísland framleiðir græna orku sem er eftirsótt og selst gegn háu og hækkandi verði. Arðsemi sæstrengs getur skilað eigendum sínum slíkum arði að það yrði hörð samkeppni milli fjármálastofnana heimsins að fá að lána til þessa verkefnis á bestu kjörum.
Fleiri hliðar og afleiðingar þessa máls hef ég lýst í grein minni í Kjarnanum, Vísdómur eða Völd.
Ósvaraðar spurningar
Hvaða atriði benda til að einkahagsmunir fárra séu í fyrirrúmi hagsmuna þjóðar?
A) Sæstrengsáætlanir eru langt á veg komnar. Af hverju er upplýsingum haldið frá þjóð?
B) Pólitískt tengdir aðilar eru að kaupa upp ár, sprænur og réttindi til virkjunar út um koppagrundir hér og þar. Af hverju og hvers vegna er leynd yfir þessum aðgerðum?
C) Baráttumenn OP3 vilja innleiða án þess að vísa fyrst til EES nefndarinnar með eðlilegum fyrirvörum. Af hverju ekki fyrirvara?
D) Pólitísk baráttu öfl véla innleiðingu OP3 í gegn með valdefli og tímapressu í stað upplýstrar lýðræðislegrar umræðu þar sem álit þjóðar er virt. Af hverju má ekki taka tíma til upplýstrar umræðu um jafn mikilvægt mál og orkuauðlind þjóðar?
Hrópandi mótsögn felst í því að ætla að samþykkja þriðja orkupakka Evrópusambandsins, sem gengur út á að tryggja sameiginlegan raforkumarkað innan Evrópu, en standa síðan í vegi fyrir því að sæstrengur geti nokkurn tímann verið lagður hingað til lands.
Hvar er rökhugsun, hins bláeyga hluta, þingheims í þessu máli?
Mergur málsins
Öll meðferð þessa máls gefur sterklega til kynna að bak við innleiðingu séu sérhagsmunatengd pólitísk áhrifaöfl. Sé svo, er þessi hraðkeyrsla OP3 í gegnum Alþingi auðvitað brot á siðferði stjórnmálanna og lýðræðisrétti þjóðar. Kjörnum fulltrúum er óheimilt að hagnýta sér og tengdum aðilum í meðförum mála fyrir þingi. Þetta er skýrt í siðareglum þingmanna. Ferlið allt slær við kunnuglegan tón og við þekkjum hliðstæður úr fortíð þar sem Alþingi var notað sérhagsmunum til framdráttar sem fóru ekki saman með þjóðarhag.
Ábyrgð og skyldur þingmanna
Megininntak lýðræðisins, sem við búum við samkvæmt stjórnarskránni frá 1944, er að pólitískir fulltrúar þjóni þegnunum enda kjörnir fulltrúar þeirra. Uppspretta valds liggur hjá þjóð, um það er enginn vafi. Ákveðin öfl stjórnmálanna virðast hins vegar telja sig þess umkomin að mega hygla sérhagsmunum sínum og sinna gegnum pólitískar valdastöður og Alþingi landsmanna. Þessi veruleiki, að Alþingi þjóðarinnar hafi ítrekað verið notað í sérhagsmuna tengdum viðskiptum, er miður. Um þetta vitna mistök fortíðar. Nú er lýðræðisvitund okkar þegnanna hins vegar opnari og upplýstari og ekkert þol gagnvart slíkum leikþáttum kjörinna fulltrúa. Það er ekki ósanngjörn krafa þegna þessa lands að algjört gegnsæi ríki í meðförum stjórnvalda í jafn mikilvægu máli sem þessu.
Þegar hugað er að siðferði er ljóst að hugarfarsbreyting þarf að verða innan íslenskrar stjórnsýslu en alvarlega spillingu er þar að finna samkvæmt ítarlegri skýrslu RNA og GRECO. Hvað veldur því að spilling mælist umtalsvert meiri á Íslandi en öðrum Norðurlöndum Evrópu væri forvitnilegt að fá svör við. Samkvæmt skýrslu RNA og úttekt GRECO er um að ræða mikla nálægð og frændhygli sem ástæðu, þó megin undirliggjandi orsök sé auðvitað fégirnd sem elur af sér óheiðarleika.
GRECO:
„According to GRECO's evaluation report 2013, the Icelandic political system was weakened by potential neopotism, close personal relationships between public officials and business and political patronage.“
Siðareglur alþingismanna voru settar af illri nauðsyn í kjölfar bankahrunsins. Niðurstaða sem grundvallaðist á margítrekuðum hagsmuna árekstrum við þjóð samkvæmt skýrslu RNA og GRECO.
Að gefnu tilefni, skoðum aðeins siðareglur Alþingis sem settar voru þingmönnum árið 2016 til aðhalds í störfum þeirra í þágu okkar þegnana.
En fyrst þessi spurning:
Hvaða stjórnmálamenn í meðförum OP3 kynnu nú að vera á hálum ís þegar skoðaðar eru þessar siðareglur?
Vek sérstaklega athygli á eftirfarandi:
1.gr., 2.gr., 5.gr., liðum a,b,d,e,f., 6.gr., 8.gr.,9.gr.,10.gr.,11.gr., og 12.gr.
Í 5. gr. hátternisreglnanna er að finna meginreglur um hátterni alþingismanna. Þar segir í a-lið 1. mgr. að alþingismenn skuli sem þjóðkjörnir fulltrúar rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika. Athyglisvert er að heiðarleiki er sérstaklega nefndur í ákvæðinu. Það bendir til þess að ætlunin sé að leggja áherslu á það að alþingismenn séu heiðarlegir, þ.e. komi hreint fram og segi sannleikann. Því mætti halda fram að siðareglurnar innihaldi óbeint bann við lygum á Alþingi. Í stuttu máli eru hagsmunatengd stjórnmál bönnuð og taka siðareglurnar af allan vafa um slíkt.
Siðareglur Alþingismanna
Tilgangur.
1. gr.
Siðareglur þessar taka til alþingismanna og starfa þeirra og fela í sér viðmið um hátterni þeirra sem þjóðkjörinna fulltrúa. Tilgangur þeirra er að efla gagnsæi í störfum alþingismanna og ábyrgðarskyldu þeirra, svo og tiltrú og traust almennings á Alþingi.
Gildissvið.
2. gr.
Reglur þessar gilda um alþingismenn við opinbera framgöngu þeirra og snerta skyldur þeirra sem þjóðkjörinna fulltrúa.
Meginreglur um hátterni.
5. gr.
Alþingismenn skulu sem þjóðkjörnir fulltrúar:
a. rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika,
b. taka ákvarðanir í almannaþágu,
c. ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni,
d. nýta þá aðstöðu sem þeim er veitt við störf sín með ábyrgum hætti,
e. ekki nýta opinbera stöðu sína til persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðra,
f. greina frá öllum hagsmunum sem máli skipta og varða opinbert starf þeirra og leggja sig fram um að leysa úr árekstrum sem upp kunna að koma með almannahag að leiðarljósi,
6. gr.
Meginreglur skv. 1. mgr. 5. gr. koma til sérstakrar athugunar þegar erindi berst um brot á siðareglum þessum.
8. gr.
Þingmenn skulu við störf sín forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða annarra persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar. Takist þingmanni ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá.
9. gr.
Þingmenn skulu, þar sem við á, vekja athygli á persónulegum hagsmunum sínum sem máli skipta við meðferð þingmála.
10. gr.
Þingmenn skulu ekki fara fram á eða taka við neinu endurgjaldi, launum eða umbun sem hefur þann tilgang að hafa áhrif á athafnir þeirra sem alþingismanna, einkum ákvarðanir þeirra um að styðja eða beita sér gegn þingmáli í umræðum á Alþingi eða í nefndum þess. Þingmenn skulu forðast hagsmunaárekstra í starfi sínu og ekki taka við óviðeigandi greiðslu eða gjöf.
11. gr.
Þingmenn skulu ekki nota aðstöðu sína sem alþingismenn til þess að vinna að eigin hagsmunum eða hagsmunum annars aðila þannig að ekki samrýmist siðareglum þessum.
12. gr.
Alþingismenn skulu sýna varfærni við meðferð upplýsinga, ef við á, og þeir skulu ekki nýta sér upplýsingar sem þeir fá í trúnaði við störf sín til persónulegs ávinnings.
Framangreindar siðareglur þingmanna eru hluti af fáum en mikilvægum úrbótum þingsins á eigin störfum sem lögleidd hafa verið eftir hrun og grundvallast á alvarlegri gagnrýni RNA á störf þingmanna og ráðherra. GRECO vildi ganga svo langt að brot þingmanna í starfi lyti almennum hegningarlögum eins og gildir um aðra þegna þjóðfélagsins en það hafa þingmenn ekki samþykkt sem er auðvitað í hrópandi andstöðu við almenn siðferðisviðmið.
Hvað er GRECO?
Ísland er meðlimur í Greco (Group of states against Corruption) samtökum innan Evrópuráðsins, sem er hópur ríkja sem berst gegn spillingu. Stofnunin fyrirskipar tillögur um úrbætur, sem eiga að styrkja varnir gegn spillingu og setur tímamörk um innleiðingu úrbóta.
Hvernig þjóðfélag viljum við Íslendingar búa börnum okkar og afkomendum?
Fyrir einungis 10 árum síðan hrundi samfélag okkar til grunna sem afleiðing pólitískt sérhagsmunatengdra viðskipta. Þjóð var svikin og sett var á stofn merkasta Rannsóknarnefnd í sögu okkar.
„Á opinberum vettvangi þarf siðferðileg hugsun öðru fremur að lúta viðmiðum um almannahagsmuni enda ber almannaþjónum að efla þá og vernda gegn hvers konar sérhagsmunum. Það er einkenni siðferðilegrar hugsunar að hún metur gæði þeirra markmiða sem stefnt er að. Tæknileg hugsun aftur á móti snýst um að velja áhrifaríkustu leiðirnar að völdu markmiði óháð því hvert það er. Siðferðileg hugsun hefur átt erfitt uppdráttar meðal annars vegna þess að ákveðið viðmiðunarleysi hefur verið ríkjandi um ágæti markmiða og vantrú á rökræðu um þau. Slík afstaða býr í haginn fyrir að sérhagsmunir þrífist á kostnað almannahagsmuna en það er eitt megineinkenni á því hugarfari sem ríkti hérlendis í aðdraganda bankahrunsins," segir í rannsóknarskýrslu Alþingis.
Í málflutningi, kynningu og meðferð OP3 virðist sem þingmenn, í stjórn og stjórnarandstöðu hafi vart lesið eða tekið til sín gagnrýni úr skýrslu RNA eða GRECO.
Hvernig má það vera að nú standi til að fara gegn hagsmunum þjóðar og almenningsálitinu í jafn mikilvægu máli sem þessu?
Gera þingmenn sér ekki betur grein fyrir fulltrúaábyrgð gagnvart þjóð en svo, að þeir telji sig ekki þurfa að virða umræðuþörf, skoðanaskipti, og þann umþóttunartíma sem almenningur og fræðimenn krefjast til að taka yfirvegaða ákvörðun í mikilvægu máli sem þessu?
Hvað varð um lýðræðisvakninguna í kjölfar hrunsins?
Valdið er okkar þegnana, þingmenn eru okkar fulltrúar. Svo virðist sem stjórnmálastéttin lifi við slíkan hliðrænan veruleika almennings að sjálfsvitund hennar sé á pari við það sem tíðkaðist við konungshirðir fyrri alda?
Á vandaðan málflutning fræðimanna beggja vegna borðs er athyglisvert að hlýða og opnar umræður lærðra og leikna eru sannarlega jákvæður vitnisburður um að lýðræðisvitund þjóðar vex fiskur um hrygg sem er vel. Öll rök þessa fólks hafa þó ekki með lokaniðurstöðu að gera. Af hverju?
Jú, rök aðila, beggja vegna borðs, byggja á þeim forsendum að um upplýsta umræðu sé að ræða; að upplýstar forsendur flutningsaðila með OP3 séu heiðarlegar eða í besta falli sýnilegar gagnvart þegnum sem og þeim flokkum í stjórnarandstöðu sem styðja innleiðingu OP3 gegnum þingið. Svo er ekki. Heildarmyndin er þessi; að hluti fulltrúa-valdsins innan Alþingis, þeirra sem harðast ganga fram, virðast í hagsmunasambandi við uppkaupendur jarða og sæstrengsöfl, sem mun lykta á þann veg að Alþingi, í skjóli meirihluta afls núverandi ríkisstjórnar, mun verða notað þessum sömu aðilum til hyglingar.
Blekkingarhluti þessa veruleika er miður og bjagar einnig heildarmyndina í augum heiðvirðra sérfróðra manna og lögspekinga beggja vegna borðs.
Það er hugsanablinda þeirra grandalausu (þegna og fræðimanna) að komast að lokaniðurstöðu byggða á hreinskiptni aðalleikenda sem forsendu. Í þessu leikriti er því miður öðru nær og aðal leikendur með margar grímur á lofti. Nauðsynlegt er fyrir okkur öll að lesa milli línanna sem og í leikmyndir. Fari svo að OP3 verði innleiddur með samþykki Alþingis, sem allt útlit er fyrir, verður lokaniðurstaðan ávalt sú að sæstrengur á vegum pólitískt tengdra einkaaðila verður lagður, sem er jú megin inntak þeirrar þaulhugsuðu viðskiptafléttu sem aðilar lögðu af stað með í upphafi. Þessi öfl, hagsmuna sinna vegna, vilja enga alvöru fyrirvara.
Sérfræðingahluti málsins, með og á móti, eru og verða einungis leikþættir fyrir hlé. Eftir hlé, (þegar innleiðing hefur verið samþykkt af Alþingi) má eiga von á seinni hluta leikþáttarins sem snýr að hugsanlegum málaferlum og uppdiktuðum ágreiningsefnum sem kveikja á öðru sérfræðingahandriti, með og á móti. Til sögunnar verða þá kynntir áhugasamir aðilar um lagningu sæstrengs sem yfirvöldum (lifi þessi ríkisstjórnin svo lengi) verða þóknanlegir. Þessir (uppdiktuðu) aðilar verða auðvitað þeir sömu og eru arkitektar upphaflegu viðskiptafléttunnar sem Alþingi þjóðarinnar er nú leiksoppur í. Leiktjöldin munu síðan falla í lokin og veruleikinn blasa við. Þjóðin hefur ítrekað áður orðið vitni að misbeitingu lýðræðisins í þágu sérhagsmuna og mátt gjalda dýrum dómum eins og staðfest var í níu binda skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis
Af hverju ekki fyrirvara?
Af hverju ekki að gefa þjóð tíma til frekari rannsókna og umræðu?
Skilyrði
Ef þingheimur ætlar að keyra þennan pakka í gegn um Alþingi án frekara samráðs við þjóð ætti að setja fyrirvara um sæstreng og vísa síðan OP3 til EES nefndarinnar.
Verði það ofan á að hagsmunum Íslands verði best borgið með lagningu sæstrengs, ættu allir fyrirvarar að lúta að því að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun myndi eiga og reka þann sæstreng. Tveir væntanlegur annmarkar yrðu þó á framangreindum skilyrðum:
EES myndi hafna á samkeppnisforsendum og viðskiptaflétta pólitískt tengdra hagsmuna aðila rynni út í sandinn.
Aðeins um samviskuna
Samviskan hefur stundum verið túlkuð sem leiðarvísir æðri vitundar. Þeir sem trúa á Guð þekkja andans tengingu við samviskuna. Þeir sem trúa ekki á Guð þekkja samviskuna. Hvor hópurinn sem er, veit og skynjar að samviskan eða Guð vakir yfir okkur öllum, hið ytra sem innra til leiðbeiningar á vegi dyggðarinnar. Okkur hefur lærst, að göngum við gegn samviskunni og betri vitund, líður okkur illa en vel ef við þýðumst hana. Um samviskuna og sannleikann þurfum ekki að lesa okkur til í frumspeki eða fræðum. Okkur er þessi meðvitund borin og barnfædd.
Að gefnu tilefni:
Hvaða stjórnmálamenn í meðförum OP3 kynnu að vera á hálum ís þegar skoðaðar eru framangreindar siðareglur Alþingis?
Höfundur er áhugamaður um betra líf.