Í helgarblaði Morgunblaðsins 24. ágúst skrifaði Styrmir Gunnarsson enn um þriðja orkupakkann án þess að fjalla um það sem í pakkanum er, rétt eins og réttri viku fyrr. Nú snýst greinin um einkavæðingu Landsvirkjunar og Orkuveitunnar, sem er alls ekki hluti orkupakkans. Ég svaraði grein hans frá 17. ágúst í Kjarnanum og lét þess getið að ég myndi láta þetta eina svar nægja.
Svo vel vill til að ég þarf alls ekki að svara þessari nýju grein Styrmis. Það var gert í forystugrein Morgunblaðsins 3. nóvember árið 2006 undir heitinu: Samkeppni og einkavæðing á orkumarkaði.
Ég læt þau svör nægja. Sú grein endar svona: „[Það er] óþarfi að láta eins og einkaframtakið eigi ekkert erindi í orkuvinnslu og -sölu.“
Hver skyldi hafa verið ritstjóri blaðsins þá? Enginn annar en Styrmir Gunnarsson.
Styrmir 24.8.2019: Vilja þau markaðsvæða orkugeirann?
Styrmir 3.11.2006: Samkeppni og einkavæðing á orkumarkaði
Styrmir 24.8.2019: Markaðsvæðing orkugeirans er svo stórt mál að það væri eðlilegt ef einhverjir stjórnmálaflokkar vildu stefna að því af fúsum og frjálsum vilja að leggja slíka ákvörðun undir dóm þjóðarinnar.
Styrmir 3.11.2006: Reykjavíkurborg og Akureyrarbær hafa nú selt ríkinu hlut sinn í Landsvirkjun. Þessi ráðstöfun er skynsamleg út frá hagsmunum allra, sem í hlut eiga. Nú er komin á samkeppni á raforkumarkaði og hún stendur m.a. á milli fyrirtækja, sem ríkið og viðkomandi sveitarfélög eiga í.
Styrmir 24.8.2019: En kannski er það furðulegast í þessu máli að bæði Samfylking og VG vilji taka þátt í markaðsvæðingu orkugeirans. Hvernig má það vera? Þessir flokkar eru afsprengi Alþýðuflokks og Alþýðubandalags/Sameiningarflokks alþýðu- Sósíalistaflokks/Kommúnistaflokks Íslands. Hvenær var sú grundvallarbreyting samþykkt í æðstu stofnunum þessara tveggja flokka, að þeir hefðu nú komizt að þeirri niðurstöðu að bezt færi á því að einkavæða orkugeirann á Íslandi?(!)
Styrmir 3.11.2006: Hins vegar er engin ástæða til að útiloka að orkufyrirtækin færist í hendur einkaaðila. Ef hér þróast raunverulegur samkeppnismarkaður með framleiðslu og sölu á raforku, af hverju ætti hann að vera öðrum lögmálum undirorpinn en aðrir samkeppnismarkaðir?
Styrmir 24.8.2019: Einkavæðing grunnþjónustu, hverju nafni sem nefnist, hlýtur alltaf að vera álitamál og hefur ekki gefizt vel.
Styrmir 3.11.2006: Sömuleiðis hefur verið bent á að það sé ekki góð staða, m.a. út frá sjónarmiðum náttúruverndar, að ríkið sé bæði eigandi umsvifamesta orkufyrirtækisins og sé eftirlits- og úrskurðaraðili í málefnum orkugeirans.
Styrmir 24.8.2019: Í þeirri samþykkt felst um leið ákvörðun um markaðsvæðingu orkugeirans. Hún mun hafa afleiðingar. Einkarekin einokun er ekki betri en ríkiseinokun.
Styrmir 3.11.2006: Opinbert eignarhald er þar með ekki lengur forsenda þess að almenningur fái eðlilegan arð af eignum sínum. Fyrsta skrefið í átt til einkavæðingar á raforkumarkaðnum hlýtur að vera hlutafélagavæðing orkufyrirtækjanna. Það hafa t.d. Hitaveita Suðurnesja, Norðurorka og RARIK stigið. Hlutafélagsformið er almennt talið henta betur fyrirtækjum í samkeppnisrekstri.
Styrmir 24.8.2019: Í alla þá áratugi sem Sjálfstæðisflokkurinn stjórnaði Reykjavíkurborg varð þess aldrei vart að sá flokkur teldi það eftirsóknarvert að einkavæða Hitaveitu Reykjavíkur. Stöku raddir hafa komið upp innan flokksins um einkavæðingu Landsvirkjunar en þær hafa þagnað enda engar undirtektir fengið.
Styrmir 3.11.2006: Þótt það sé ekki tímabært að einkavæða Landsvirkjun er líka óþarfi að láta eins og einkaframtakið eigi ekkert erindi í orkuvinnslu og -sölu.