Ég er eiginlega enn að jafna mig eftir frábæra Menningarnótt sem hófst á Reykjavíkurmaraþoni. Og þvílík stemming sem var í loftinu á þennan morgun í Lækjargötunni, eftirvænting og spenna fylltu loftið og gleðin skein úr andlitum allra sem voru að leggja af stað í hlaupið. Þessi viðburður er alltaf að festa sig betur og betur í sessi sem upphaf Menningarnætur. Það er gaman að sjá hlaupið þróast í þá átt að hlaupaleiðin dreifist víðar um borgina og inn í húsagötur um allt. Það þýðir fleiri lokanir fyrir bílaumferð en jafnframt að fleira og fleira fólk fær tækifæri til að taka þátt með því að hvetja hlauparana áfram þegar þeir fara um götur borgarinnar. ÍBR á veg og vanda að þessu hlaupi og ég vil þakka þeim öllum og þeim 600 sjálfboðaliðum sem störfuðu við undirbúning að hlaupinu og við hlaupið sjálft, án þeirra væri þetta ekki mögulegt. Í ár voru tæplega 15.000 manns sem tóku þátt í hlaupinu, þátttökumet var slegið í styttri vegalengdum, 3 og 10 kílómetrum en það er ekki síður skemmtilegt að söfnunin sem er hluti af hlaupinu, hlaupastyrkur.is hefur aldrei gengið betur, nýtt met var slegið þegar um 170 milljónir söfnuðust.
Menningarnótt er einstök, það er aldrei eins gaman að fylgjast með mannlífinu eins og einmitt þennan dag. Bærinn fyllist af fólki og skemmtilegir viðburðir eiga sér stað á ólíklegustu stöðum. Það er hreint út sagt ótrúlegt framboð af menningarstarfsemi í borginni okkar og virkilega gaman að fá tækifæri til að labba á milli og upplifa ólíka viðburði. Menningarnótt væri ekkert án allra þeirra fjölmörgu sem leggja hönd á plóg að gera þetta að eftirminnilegum degi fyrir borgarbúa.
Brúum bilið
Við í borginni vinnum áfram að því að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskóla sem er gríðarlega stórt mál og mikilvægt fyrir alla foreldra. Lykilþáttur í því er að fjölga leikskólum og því er sérstaklega gaman að segja frá því að samþykkt var að byggja nýjan leikskóla á Kirkjusandi. Þetta er mikill þáttur í því að tryggja þjónustu við íbúa í þessu vinsæla hverfi. Nýir leikskólar munu svo halda áfram að bætast við í borginni á næstu misserum, áform eru um leikskóla í Úlfársdal (Dalskóla), Vogabyggð, Skerjafirði og miðborg. Einnig er unnið að viðbyggingum og nýjum ungbarnadeildum til viðbótar við þær sem opnaðar hafa verið síðastliðin tvö ár. Það er okkur öllum til bóta sem búum í borginni að þetta bil verði brúað, þessi tími í lífi foreldra getur verið ákaflega stressandi og á tímum þegar kulnun í starfi hefur aldrei verið algengari er mikilvægt að við sem störfum á vegum borgarinnar gerum það sem í okkar valdi stendur til að styðja við foreldra.
Stóra grænmetismálið
Óhætt er að segja að háværar raddir hafi heyrst í síðustu viku þegar umræða skapaðist um grænkerafæði í skólum borgarinnar. Allir kepptust við að hafa skoðanir, ýmist með eða á móti, og svo virtist vera sem einhverjir hafi óttast að kjötframleiðsla á landinu myndi leggjast af ef kjötneysla yrði lögð niður í grunnskólum borgarinnar. Öðrum fannst þetta eina leiðin til þess að leysa loftslagsvánna en í öllu falli var kýrskýrt að fólk hefur á þessu miklar skoðanir og virtust óhrædd við að viðra þær. Engin formleg áform eru uppi um að banna kjötneyslu í grunnskólum eða öðrum mötuneytum borgarinnar. Að því sögðu má þó ekki gleyma að það er bara af hinu góða að borða meira af grænmeti og ávöxtum. Það hefur aldrei drepið neinn. Matarstefna borgarinnar var samþykkt vorið 2018 nú liggur fyrir tillaga í borgarstjórn hvernig hún skuli innleidd. Hættum að vera með svart hvíta umræðu og höldum okkur við aðalefnið sem er lýðheilsa og heilnæmt umhverfi í forgrunni nú og ávallt þegar kemur að skólabörnum borgarinnar.
Óþolandi bakreikningur
Bakreikningur upp á tæplega 1.4 milljarð vegna mistaka er ekki eitthvað sem hægt er að dusta undir teppið, við því þarf að bregðast og kalla til ábyrgðar. Í fréttatilkynningu frá framkvæmdastjóra Sorpu sem birtist í gær kemur fram að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, í byggðasamlagi Sorpu, fái nú afar háan bakreikning vegna vanáætlana og mistaka. Svona lagað á ekki að geta gerst en ég er því miður ekki hissa. Kerfið sem sveitarfélög um allt land hafa komið sér upp, svokölluð byggðasamlög, eru að mínu mati óskiljanlegt fyrirbæri sem klífur ábyrgð og ákvarðanatöku í sundur. Ákvarðanataka og framkvæmd verða að taka mið af hlutverki, ábyrgð og umboði sem er tilfellið hjá Sorpu. Mistök geta gerst en þegar um er að ræða fjárhæðir eins og þessa þarf að staldra við og leita skýringa. Svo er hægt að meta næstu skref. Það er ljóst að eigendur og útsvarsgreiðendur eiga það skilið að mistök sem þessi séu tekin alvarlega og allra leiða leitað til að tryggja að slíkt geti ekki endurtekið sig. Nú fá sveitarfélögin háan bakreikning sem á að fjármagna með lántöku og tryggingu sveitarfélaga. Á sama tíma fjárfestum við í skólum. leikskólum, íþróttamannvirkjum og samgöngum en nú er skuldastaða sveitarfélaganna sett í uppnám og framkvæmdaaðili setur ábyrgðina yfir á sveitarfélögin. Það er ekki hægt að leiða þetta hjá sér, upphæð af þessari stærðargráðu mun setja langvarandi fótspor á fjármál sveitarfélaganna. Borgarráð mun fá framkvæmdastjóra og stjórnarformann Sorpu á fund í vikunni og krefjast skýringa. Viðreisn hefur frá upphafi sett almannahagsmuni framar sérhagsmunum og það verður haft að leiðarljósi í þessu máli eins og öðrum. Viðreisn í Reykjavík lagði ríka áherslu á að lækka skuldir borgarinnar og gerir fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar ráð fyrir því ásamt aukinni fjárfestingu í grunnþjónustu. Til að það sé möguleg verður að vera hægt að treysta fyrirtækjum til að áætla og vinna sína vinnu vel. Að það sé ekki hægt er hreinlega ólíðandi.
Höfundur er oddviti Viðreisnar og formaður borgarráðs.