List og menning skapa ómetanlegt hlutverk í daglegu lífi okkar allra. Þannig er list af ýmsum toga til þess gerð að auka lífsgæði okkar, auka fjölbreytileika mannlífs og brjóta upp hversdagsleikann. Listir og menning geta líka spilað hlutverk í atvinnulíf okkar, þannig eru ýmsar skapandi greinar orðnar stoð í íslensku atvinnulíf. Með skapandi greinum er átt við starfsemi sem sprettur úr sköpunargleði, þekkingu og hæfileikum fólks og sem eflir velferð og eykur atvinnutækifæri með því að skapa og nýta þekkingarlegan auð. Hér undir getur t.d. fallið myndlist, tónlist, ritlist, kvikmyndir, tölvuleikir og ýmiskonar hönnun.
Mikilvægt er að auka enn frekar fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og styrkja stoðir efnahagslegrar velferðar lands og þjóðar. Þar geta skapandi greinar svo sannalega spilað stórt hlutverk enda um að ræða atvinnugreinar sem ekki ganga á náttúruauðlindir heldur nýta hið óþrjótandi hugvit.
Hugverk og skapandi greinar spila stækkandi hlutverk í íslensku atvinnulífi og mikilvægt að svo verði áfram. Þannig má búast við að Ísland muni á næstu áratugum auka vægi atvinnugreina sem ekki eru jafn háðar náttúruauðlindum og okkar helstu atvinnuvegir í dag eru.
Skattalækkun á sköpun
Nýverið samþykkti Alþingi lög sem lækka skatta á höfundarréttargreiðslur. Þannig munu síðari afnot af höfundarréttarvörðu efni vera skattlagt eins og um fjármagnstekjur sé að ræða.
Tilefni frumvarpsins má m.a. rekja til sáttmála stjórnarflokkanna þar sem fram kemur að hugað verði að breytingum á skattlagningu á tónlist, íslensku ritmáli og fjölmiðlum. Hugmynd um skattalækkun á höfundarréttargreiðslur er ekki ný af nálinni enda hafa hagsmunasamtök höfundaréttarvarins efnis margoft rætt það ósanngirni sem fellst í að meðhöndla ekki hugverk og tréverk með sama hætti þegar að skattlagningu kemur.
Með breytingu er verið að auka sanngirnina og viðurkenna að hugverkavarið efni sé eins og önnur peningaleg verðmæti t.d. fasteignir, fjármuni og hlutabréf. Þannig er sanngjarnt að síðari afnot að slíku efni, hvort sem um er að ræða bækur, tónlist, myndlist eða annað, sé skattlagt eins og um húsaleigu eða fjármagnstekjur sé að ræða.
Með þessari breytingu er verið að auka vægi skapandi greina og byggja undir þær mikilvægu atvinnugreinar sem skapandi greinar eru.
Með þessari skattalækkun er líka verið að bæta samkeppnisstöðu Íslands þegar kemur að skapandi greinum.
Því þó orkan okkar sé mikilvæg auðlind þá er hugvitið án efa okkar allra mikilvægasta auðlind.