Engum blandast hugur um að óánægja Jóns Gunnarssonar alþingismanns (D) með friðlýsingarstefnu umhverfisráðherra helgast af friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum gegn orkuvinnslu, hinn 10. ágúst sl.
Umhverfisráðherra á miklar þakkir skildar fyrir að hafa komið þessari friðlýsingu í verk. Það var raunar vonum seinna enda náðist óformlegt samkomulag um friðlýsingu árinnar þegar árið 2002. Hugmyndin að friðlýsingu alls vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum var upphaflega kynnt í júní 2002 á fundi með fulltrúa Náttúruverndarsamtaka Íslands, fulltrúum Alcoa og fulltrúum hinna alþjóðlegu náttúruverndarsamtaka World Wide Fund for Nature. Alcoa lýsti því þá yfir að fyrirtækið myndi eindregið styðja stofnun víðáttumikils þjóðgarðs norðan Vatnajökuls og að allt vatnasvið Jökulsár á Fjöllum yrði hluti af þeim þjóðgarði.
Þessi stuðningur Alcoa kom fram í viðtali við Jake Siewert, upplýsingafulltrúa Alcoa, í Morgunblaðinu 18. júlí 2002. Lýsti hann því jafnframt yfir að fyrirtækið væri reiðubúið til viðræðna um einhvers konar þátttöku í því verkefni.
Alcoa hefur frá árinu 2009 styrkt starfsemi Vina Vatnajökuls, sem frá 2010 hafa veitt hundruð milljónir króna í styrki til starfsemi þjóðgarðsins.
Staðreyndin er sú að Alcoa lagði nokkuð hart að íslenskum stjórnvöldum að ná einhvers konar sáttum vegna mikillar andstöðu almennings við Kárahnjúkavirkjun. Slík sátt gæti falist í stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem tæki einnig til alls vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum. Með öðrum orðum, ekki yrði leyfð nein virkjun í ánni.
Skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands leiddi í ljós að mikill meirihluti landsmanna væri hlynnt stofnun þjóðgarðs fyrir norðan Vatnajökul.
Siv Friðleifsdóttir hófst strax handa og skipaði í október 2002 nefnd „til að móta tillögur og vera umhverfisráðherra til ráðgjafar um stofnun verndarsvæðis eða þjóðgarðs norðan Vatnajökuls“.
Fleiri nefndir voru stofnaðar og mikið samráð haft alla hagsmunaaðila. Fjórum árum síðar, í nóvember 2006, boðaði ríkisstjórnin frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð. Í ýtarlegri fréttatilkynningu umhverfisráðherra, Jónínu Bjartmarz, segir að þjóðgarðurinn muni „þekja um 15.000 km2, sem samsvarar um 15% af yfirborði Íslands og nær til lands sem varðar stjórnsýslu átta sveitarfélaga“. Enn fremur segir:
Samkvæmt frumvarpinu mun þjóðgarðurinn í fyrstu ná til alls jökulsins og helstu áhrifasvæða hans, þ.m.t. Jökulsá á Fjöllum.
Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður í áföngum en formleg friðlýsing alls vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum lét bíða eftir sér. Spurningin er: Hvað tafði? Hugsanlega var það rammaáætlun en að loknum 1. áfanga var ljóst að allt svæðið norðan Vatnajökuls, þ.m.t. Jökulsá á Fjöllum, hafði mjög hátt verndargildi. Í 2. áfanga rammaáætlunar sem samþykkt var sem þingsályktunartillaga frá Alþingi skömmu fyrir kosningar 2013 var Jökulsá á Fjöllum í verndarflokki og á það bæði við um Arnardalsvirkjun og Helmingsvirkjun. Samkvæmt lögum nr. 48/2011 um rammaáætlun nær verndarflokkur yfir þá virkjunarkosti sem
… ekki er talið rétt að ráðast í og landsvæði sem ástæða er talin til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu að teknu tilliti til sjónarmiða sem fram koma í 4. mgr. 3. gr.
Enn tafðist þó friðlýsing vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum og í janúar 2015 lagði orkumálastjóri til við Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar að virkjun Dettifoss - að bæði Arnardalsvirkjun og Helmingsvirkjun skyldu metnar, þá í þriðja sinn. Þessu hafnaði Verkefnisstjórnin enda höfðu báðir þessir virkjunarkostir og þar með vatnasvið árinnar verið afgreiddir á Alþingi.
Það var því ekki eftir neinu að bíða fyrir sitjandi umhverfisráðherra sem kynnti í ríkisstjórn áform um átak í friðlýsingum hinn 8. júní 2018 eða fyrir rúmu ári og vel það. Í fréttatilkynningu umhverfisráðherra sama dag segir:
Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um slíkt átak, þar með talið að friðlýsa svæði í verndarflokki rammaáætlunar og svæði á eldri náttúruverndaráætlunum, að stofna þjóðgarð á miðhálendinu og að beita friðlýsingum sem stjórntæki á viðkvæmum svæðum sem eru undir álagi ferðamanna.
Ekki er kunnugt að formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, hafi haft uppi neinar mótbárur nú 13 árum eftir að ríkisstjórnin samþykkti frumvarp sem fól í sér friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum.
Þjórsárver eru líka í verndarflokki rammaáætlunar og ekki annars að vænta en að umhverfisráðherra taki af skarið og friðlýsi allt svæðið vestan árinnar, frá Hofsjökli niður að efstu fossum.
Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.