Í fréttum á dögunum hélt Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, nýr dómsmálaráðherra, því fram að Hæstiréttur hafi dæmt dómaraskipan Sigríðar Andersen löglega. Fullyrðing þessi er auðvitað algjör afbökun á raunveruleikanum því eins og alþjóð veit dæmdi Hæstiréttur Sigríði Andersen brotlega við 10. grein stjórnsýslulaga þegar hún sniðgekk tillögu hæfisnefndar og skipaði dómara við Landsrétt eftir eigin geðþótta. Vegna ólöglegra embættisfærslna Sigríðar Andersen var íslenska ríkið í vor dæmt af Mannréttindadómstól Evrópu fyrir brot gegn 6. grein Mannréttindasáttmálans sem fjallar um réttinn til réttlátrar málsmeðferðar.
Áslaug Arna bætir reyndar um betur og hefur tekið upp gömlu möntruna sem talsmenn Sjálfstæðisflokksins lærðu utanbókar við dómsuppkvaðningu síðastliðið vor, að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi með dómi sínum „gengið of langt“. Þessi rógur er ekki rökstuddur að neinu leyti en er til þess fallinn að kasta skugga á störf Mannréttindadómstólsins og grafa undan trúverðugleika hans á tímum þegar mannréttindi standa höllum fæti víða í okkar heimshluta. Í stað þess að horfa inn á við, viðurkenna mistökin og draga af þeim lærdóm er spjótunum beint út fyrir landsteinana og sökinni skellt á vondu mannréttindadómarana í Strassborg.
Það var kannski barnsleg einfeldni að vona að Áslaug Arna tæki á þessu mikilvæga máli af auðmýkt og ábyrgð. Það væri jákvætt skref á þeirri vegferð að efla glatað traust til stjórnvalda ef hún viðurkenndi mistökin sem gerð voru og drægi af þeim lærdóm. Ef Áslaug Arna neitar að viðurkenna og draga lærdóm af mistökum Sigríðar Andersen, hvernig eigum við þá að treysta því að þau verði ekki endurtekin nú þegar til stendur að Áslaug skipi dómara við Hæstarétt í haust?
Við sem vonuðumst eftir auðmýkt og ábyrgð frá nýjum dómsmálaráðherra fengum hvorugt. Þess í stað er okkur boðið upp á gamalt vín á nýjum belgjum. Gamla pólitík frá nýjum ráðherra.