Í grein sinni í Kjarnanum segir Ingvar Helgi Árnason að honum finnist hallað á fræðigreinina efnafræði þegar kolabrennsla á Bakka er gagnrýnd og vísar til greinar eftir mig í Fréttablaðinu sem dæmi.
Ég held að þetta hljóti að vera misskilningur hjá Ingvari eða leikaraskapur framinn í þeim tilgangi einum saman að réttlæta þá ákvörðun að fórna umhverfissjónarmiðum fyrir kísil. Sú ákvörðun byggðist á engan máta á lögmálum efnafræðinnar heldur stjórnmálanna. Að baki ákvörðuninni var einlægur áhugi Steingríms Joð og annarra stjórnmálamanna til þess að stuðla að atvinnuuppbyggingu í kjördæmi hans.
Það er lofsvert í sjálfu sér en er ekki í mínum huga réttlæting á hverju sem er. Mér finnst það til dæmis ekki réttlæting á því að brenna 66 þúsund tonnum af kolum og 33 þúsund tonnum af timbri ár hvert og stuðla á þann hátt að þeirri mengun sem er að kynda undir hnettinum okkar hjartkæra og þess alls eina fyrir afkomendur okkur að búa á.
Ingvar bendir að vísu réttilega á að það megi búa til ýmis konar flotta og umhverfisvæna hluti úr kísilnum en það er enginn samningur milli landsmanna og kísilverksmiðjunar á Bakka um að kísillinn þaðan verði notaður í þannig, hvorki aðeins né eingöngu. Síðan er það líka áleitin spurning hvers vegna við Íslendingar ættum að skíta út landið okkar svo aðrar þjóðir geti framleitt hreinar, fallegar vörur.
Ákvörðunin að leyfa brennslu á kolum og timbri á Bakka hefur ekkert með efnafræði að gera heldur verðmætamat stjórnmálamanns sem stofnaði stjórnmálaflokk sem heitir Vinstri grænir. Hans mat var að það fælist nægileg réttlæting á brennslunni að hún skapaði störf í kjördæminu hans, mitt mat er að það geri það ekki; eingöngu verðmætamat, engin efnafræði. Það er síðan önnur saga að þetta verðmætamat Steingríms Joð bendir til þess að græni hlutinn í nafninu á stjórnmálaflokknum hans hafi einungis átt við litinn á bindinu hans.
Og svo er það efnafræðin sem er stórkostleg og hefur lagt meira að mörkum til nútímans en nokkur önnur grein vísinda en á sér hráslagalega sögu. Það var til dæmis í byrjun síðustu aldar að fyrirtæki á sviði efnafræðinnar fengu skattaafslátt í borginni Basel í Sviss ef þau hleyptu eitruðum efnaúrgangi út í ánna Rín þannig að hann skolaðist beint inn í Þýskaland.
Íslensk stjórnvöld undir forystu þáverandi fjármálaráðherra Steingríms Joð slógu borgaryfirvöldum í Basel við og borguðu fyrir undirbúning og alls konar aðstöðu fyrir kísilverksmiðju á Bakka. Það er ekki nóg með að það sé spúð yfir okkur eldi og brennisteini, við borguðum fyrir hann. Og nú vilja þeir að við borgum meira.