Málþroskaröskun er það kallað þegar málskilningur og máltjáning barna þroskast ekki á eðlilegan hátt. Talið er að á bilinu 7-10% barna glími við erfiðleika í tengslum við málþroska. Sum börn eiga aðallega erfitt með að skilja það sem sagt er, önnur eiga erfiðara með að tjá sig og segja frá því sem þau vilja en flest þessara barna eiga erfitt með hvort tveggja.
Málþroskaröskun getur m.a. falið í sér erfiðleika við að raða orðum saman og mynda setningar, orðaforði getur verið skertur og skilningur á málinu verið takmarkaður, sérstaklega þegar kemur að tví- eða margræðni orða og að lesa á milli línanna. Enn fremur á þessi hópur oft í vandræðum með félagsleg samskipti.
Mörg þeirra barna sem eru með málþroskaröskun glíma við erfiðleika á mörgum sviðum og geta þessir erfiðleikar haft mikil áhrif á nám og störf barnanna í framtíðinni. Eðli málþroskaröskunar er þó mun flóknara en hér er nefnt og efni í mun lengri grein en megintilgangur þessarar umfjöllunar er að kynna samtökin Málefli sem eru hagsmunasamtök í þágu barna og unglinga með málþroskaröskun.
Hagsmunasamtökin Málefli
Samtökin Málefli voru stofnuð þann 16. september 2009. Helstu markmið samtakanna eru að vekja athygli á málefninu og veita fræðslu til foreldra, kennara og annarra aðila sem standa þessum hópi nærri. Einnig að vinna að auknum réttindum þessa hóps og styðja við og hvetja til rannsókna á tal- og málþroskaröskun. Enn fremur vilja samtökin vera vettvangur þar sem foreldrar geta hist og borið saman bækur sínar, rætt saman og fengið stuðning hvert af öðru.
Þar sem Málefli er 10 ára í ár munu samtökin standa fyrir ýmsum viðburðum til að halda upp á afmælið og samtímis vekja umræðu um og beina athygli að málþroskaröskun.
Leikhúsferðir
Í janúar síðastliðnum buðu samtökin félagsmönnum sínum og fjölskyldum þeirra í leikhús að sjá sýninguna um Ronju ræningjadóttur. Sá viðburður var mjög vel sóttur og almenn ánægja ríkti með framtakið.
Í haust er önnur leikhúsferð á dagskrá. Þann 15. september næstkomandi kl. 13:00 býður Málefli félagsmönnum á sýninguna Matthildi í Borgarleikhúsinu og eru flestir miðar þegar fráteknir. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu samtakanna, www.malefli.is.
Námskeið og málþing
Þann 25. september verður haldið námskeið fyrir fagfólk og aðstandendur barna með málþroskaröskun þar sem farið verður yfir orsakir, einkenni og leiðir til að koma til móts við börn með málþroskaröskun. Tinna Sigurðardóttir talmeinafræðingur heldur námskeiðið sem er styrkt af Málefli. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu samtakanna, www.malefli.is.
Einnig mun Málefli standa fyrir málþingi þann 18. október í tilefni af alþjóðlegum degi málþroskaraskana sem er 19. október ár hvert. Málþingið hefst kl. 14:00 og verður haldið í Öskju, Sturlugötu 7, Reykjavík. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson mun setja málþingið og í kjölfarið verða ýmsir fyrirlestrar á dagskrá þar sem fjallað verður um málþroska og málþroskaröskun ásamt því að fræða um hagnýt ráð til foreldra og kennara, meðal annars. Nánari dagskrá verður auglýst síðar en aðgangur verður ókeypis og allir velkomnir.
Allir sem áhuga hafa á málefninu eru hvattir til að kíkja á heimasíðu samtakanna www.malefli.is eða finna samtökin á facebook undir nöfnunum Málefli eða Málefli – hagsmunasamtök í þágu barna og unglinga með málþroskaröskun.