Það er hluti af lífsferli flestra á jörðu að fara í skóla frá unga aldri, en var ekki á Íslandi á mínum tímum fyrr en maður varð 7 ára. Við fimm manna fjölskylda komum til Íslands árið 1954 eftir að vera í burtu í einhver ár. Foreldrar lengur en ég.
Ég fór víst í Melaskóla og í Laugarnesskóla en hef enga minningu frá Laugarnesskólanum, veit bara að líkami minn var þar í smátíma. En ég man eftir að það stóðu könnur úti í gluggum í Melaskólanum sem litu út eins og hanar, og úr þeim var volgu lýsi hellt niður kokin á okkur þegar við borðuðum nestið. En ég hef hinsvegar enga minningu um hvað það nesti var. Eftir það fór lýsi aldrei inn fyrir mínar varir, en seinna tók ég hylkin.
Það var ekki fyrr en ég fór í Langholtsskólann árið 1955 að virkur hluti heilabúsins upplifði það, og var það trúlega vegna þess að kennarinn var yndisleg mannvera og hreinlega umvafði alla nemendur sína með sinni miklu móðurást og mannúð. Upplifun sem ég hafði ekki heima hjá mér og naut í skólanum.
Ég vildi ekki missa af einum einasta degi í skólanum með henni því að hún gerði allt svo skemmtilegt og ljúft. En svo pissaði ég blóði einn daginn og neyddist þá til að vera heima í einhverja daga, og var ekki glöð yfir því.
Í því hverfi sem við vorum var líka önnur kona sem kom þannig fram við mig svo að það var ljúft að heimsækja hana sem átti tvö börn og það eldra jafngamalt mér.
Við höfðum eins og áður er sagt komið frá Bandaríkjunum held ég um vor árið 1954. Svo þegar við komum í sundin árið 1955 var verið að vinna að einum mestu og framsýnustu framkvæmdum stjórnmálaákvarðana í landinu, og það trúlega bæði fyrr og síðar.
Það að þau höfðu ákveðið að nýta jarðhitann og leiða heita vatnið úr iðrum jarðar inn í öll hús í Reykjavík með pípum. Svo hef ég lært að hugmyndin um það hafi ekki komið frá Íslendingi heldur frá Ameríkana.
Það voru langir skurðir í götunum og við urðum að ganga yfir planka til að komast inn og út af lóðinni.
Þegar ég hugsa um þetta núna, og hvað það voru fáir bílar til, sé ég að það væri allt önnur athöfn og skipulagning að gera slíkt núna þegar það eru jafnvel tveir eða þrír bílar í fjölskyldu. En þá var bíll föður okkar einn af fáum í nágrenninu, það var svartur og hvítur Oldsmobíll, og þótti nágrannabörnum mikil dýrð að fá smá ferð í honum. Það var löngu áður en bílbeltin komu, svo að hann gat hlaðið þeim inn í rúmgóðan bílinn og keyrt smá rúnt með hópinn, og allt fór vel.
Hitaveitulagningarnar urðu auðvitað til þess að hann varð að geyma bílinn einhversstaðar frá húsinu. Og hef ég ekki glóru um hvar það var. Hitaveitan var og er guðdómlegt verkefni sem hefur hlýjað stórum hluta þjóðarinnar í meira en hálfa öld.
Við vorum þar til ársins 1957 að við fluttum í hlíðarnar.
Eigið húsnæði og leyndir sannleikar
Foreldrar okkar voru að festa kaup á hlut í húsi í hlíðunum og við þrjár sem þá vorum fæddar vorum teknar með mömmu til hins hálfkláraða húss þar sem hún var að gera sitt til að leggja hönd á bygginguna eftir að það var hægt að gera hluti eins og að skrúfa víra af og slíkt. Svo tók málning við, veggfóðrun og slíkt, og við börn þeirra sem einnig voru að vinna í nágrannahúsbyggingum skilin eftir úti til að leika okkur að einhverju, eins og til dæmis að baka drullukökur og skreyta með sóleyjum og fíflum. Setja þær á viðarkubb og þurrka og þykjast svo borða þær. Ég man ekki neitt eftir hvar við borðuðum eða drukkum, eða hvað við fengum þá.
Um haustið var komið að nýju skólaári. Þá varð slæm ákvörðun tekin fyrir mína hönd og ég ekki einu sinni spurð um það hvora leiðina ég myndi vilja fara í strætó í skólann sem var af því að það var enginn skóli kominn í hlíðarnar á því stigi. Auðvitað hefði ég valið að halda áfram í Langholtsskólanum hjá þessum yndislega kennara, en mamma taldi sig þekkja fólk í smáíbúðahverfinu og var ekkert að ræða neitt um þetta við mig. Börn og það líka tíu ára börn voru trúlega ekki séð sem fær um að hugsa fyrir sig, né taka ákvarðanir. En hún vissi samt ekki neitt hvað beið mín.
Harkan sex réð á þessum árum
Fjölskyldan sem ég átti að eiga samastað hjá í smáíbúðahverfinu var auðvitað samansett að mestu leyti af góðu fólki, en heimilisfaðirinn var greinilega ekki með góða stjórn á skapi sínu, sem trúlega var frá óánægju með líf sitt og vinnu, og tók það út í að lemja syni sína í hádeginu. Ég vissi ekki til að þessir góðu drengir hefði gert neitt til að eiga slíkt skilið, og í raun á það enginn skilið að vera laminn þannig. Og aðrir fjölskyldumeðlimir og gestur vitnuðu, en enginn sá sig geta stoppað það fyrir blessaða drengina. Það var engin leið fyrir tíu til tólf ára barn sem var gestur þar til að skipa honum að hætta, svo að allt heimilisfólkið sat eða stóð og tók inn áfallastreituna frá samhygð með drengjunum kyngjandi sársaukanum í þögn.
Eldri drengurinn var jafngamall mér og gengum við yfirleitt samferða frá heimili hans og upp í Breiðagerðisskóla. Það voru þrír erfiðir vetrar. Erfitt veður, erfitt að ganga eldsnemma um morgunn út á Miklubrautina í hvaða veðri sem var til að bíða eftir strætó, svo frá heimili þeirra og upp til Breiðagerðisskólans.
Miklabrautin var ekki malbikuð á þessum árum og allt ansi dimmt fyrir átta á morgnana yfir háveturinn. Það voru hvorki snjóruðningsforeldrar né þyrluforeldrar, þá í að dekra við okkur börnin til að sjá um að við værum örugg. Og kennarinn í þessum skóla var slæmur. Hafði enga hlýju til nemenda sinna og tók mig aldrei upp, og ég lærði það löngu seinna að það var af því að ég var lægri í loftinu en hinir í bekknum. Hugsanlega dró hann þá ályktun að það væri ekki nothæfur heili í svo lítilli stelpu. Honum var svo sagt upp seinna þegar foreldrar fóru að þora að opna munninn og kvarta yfir honum.
Börnin urðu blórabögglar á tímum tilfinningalegrar hörku
Þegar mamma var búin að skreyta íbúðina og allt var klappað og klárt þá fóru erfiðu tilfinningarnar að birtast í henni hið innra. Brostnir draumar og í hjónabandi sem var ekki það sem draumur hennar hafði verið um, en þeim skipað að láta það endast. Og þau fengu hótanir um slæma hluti ef þau myndu ekki hlýða.
Það ríkti algert ráðaleysi og kunnáttuleysi á þessum árum um að vinna með tilfinningar sínar í samfélagi sem dýrkaði rökhyggju fram yfir allt og svo hlýðni við kerfið. Frekar en að það sem einstaklingurinn fyndi sig kallaðan til í lífi sínu væri virt og metið.
Viðhorfið þá var eins og það að vera einstaklingur og vita hver tilgangur manns væri fyrir líf manns, og það ekki síst fyrir konu væri séð sem óæskilegt. Konur nutu ekki oft slíkra réttinda þá að mega ráðstafa eigin lífi og lífsferli.
Þeim, okkur kvenkyni var ætlað að vera barneignavélar. Viðhorf sem myndu hafa skapað mikla vansælu í mörgum konum sem þráðu annarsskonar líf á tímum iðnvæðingar sem var hlaðborð af möguleikum.
En hún eins og faðirinn á hinu heimilinu varð að fá útrás, sem fyrir henni var í orðum, en ekki barsmíð, og hún sá um að engin vitni yrðu að því þegar orðaflóð vansælunnar rigndi yfir mig slysabarnið sem var rótin að því öllu. Og það á tímum þegar foreldrar voru séðir sem Guðir af yfirvöldum trúarbragða landsins. Hafnir yfir alla gagnrýni.
En mengunin frá þeim sáru orðum fóru niður í iður, í langtíma geymslu.
Þessir þrír vetur liðu við að fara í strætó upp í smáíbúðahverfið og einhvern veginn rúllaði ég það að mestu flesta daga.
Af einhverjum ókunnugum ástæðum gubbaði ég stundum á nóttunni án þess að vera veik, og var fín um morguninn. Það athyglisverða gerðist að þessa morgna var það pabbi sem kom inn í herbergið mitt, en ekki mamma. Ég var sú eina með sér herbergi og hann þvoði upp gubbið og lét mig ekki fara í skólann þann daginn.
Þau ár var af og til öskrað á mig að ég væri dvergur sem ég er ekki, bara stutt í hinn endann.
Nú skil ég frá lestri bókar Bessels Van Der Kolk um að líkaminn geymi reynslu að það hafi verið líkaminn að losa sig við einhverjar af þeim bældu upplifunum sem líkaminn hafði í sér
Þær hafi verið merki um bælingu sem rökhyggjan vissi ekki hvað væri, en líkaminn varð greinilega að dæla þessu út úr sér.
Ég pissaði undir öll þessi ár og einnig eftir að byrja í gagnfræðaskóla, og var það mikil skömm og byrði en endaði einhverntíma á gagnfræðaskóla árunum.
Unglingsár með nýrri reynslu
Þá tók það tímabil við að verða þrettán ára og nám í nýjum skóla sem var Gagnfræðaskóli Austurbæjar. Vegna þess að vera lág í loftinu um einn og hálfur metri að hæð fékk ég öskur frá drengjum um að ég ætti ekki heima í þeim skóla, og ætti þess vegna að fara í barnaskólann sem var næst honum. Auðvitað fór ég ekki þangað. Og ég heyrði þau orð ekki aftur.
Það var smá upplifun af einhverju nýju sjálfstæði að verða þrettán ára. En ég var ekki með brjóst enn, og ekki komin á túr eins og hinar stelpurnar. Það var fyndið að ein af stelpunum í bekknum var með brjóst, en ekki eins stór og hún vildi að þau væru, svo að hún notaði nælonsokka til að bæta um betur. Og hún var ekki feimin við að taka þá út og endurskipuleggja þá ef þeir voru að ónáða hana ef þeir fóru ekki nógu vel í brjóstahaldaranum í það skiptið.
Hæfileikar mínir til að eiga við hár komu upp en ég man ekki hvernig. Það dugði einni stelpunni til að taka mig sem þjónustu fyrir sig með hár, bökun og barnapössun, en hún gerði aldrei neitt fyrir mig á móti.
Fermingarfæribandið
Þetta var líka tímabilið þegar unglingar voru meira og minna settir óspurðir á færiband kirkjunnar til að við myndum segja já við almættið og sú athöfn kallað ferming og er enn hluti af kerfi hins Íslenska samfélags. Það er ekki gert hér í Ástralíu á þann hátt. Það koma ekki neinir listar í blöðum um þá sem hafa sagt það já, né neinar fermingargjafir eða veislur ef unglingar láta ferma sig hér í Ástralíu.
Umbunin fyrir að ganga í gegn um ferlið var og er í að það er haldin veisla og unglingarnir fá gjafir. Hér gerist slíkt ekki við þá játningu, en það gerist þegar unglingar verða 21 árs.
Það voru nokkur atriði sem komu engan veginn heim og saman í því dæmi. Í fyrsta lagi að það var ekki rætt um neitt heima um hvað væri innifalið í þessu ferli nema það sem ég yrði að gera, fara til prestsins og láta setja permanent í hárið á mér, og klæðast þessum skrýtnu fötum, og svo yrði veisla og ég fengi gjafir, en heilabúið í mér var þá það lamað að ég var ófær um að mótmæla. Nú hef ég lært að sumir unglingar neita að fermast, eða neita að fermast í kirkju og fara í borgaralega fermingu sem ekki var til þegar ég var á Íslandi.
Ég fór á færibandið til að fara í þessa tíma hjá presti sem í raun hafði engan áhuga fyrir okkur sem mannverum, bara að vilja að fá sem minnst frá okkur um það sem við ættum að játast. Hann spurði okkur aldrei neinna persónulegra spurninga, en var ánægður ef einhver af okkur þrjátíu eða svo gat tuðað eitthvað smá úr biblíu eða sálmi, og sendi okkur svo heim eftir mjög stutta stund þar.
Hann var enginn sálargæslumaður fyrir þennan hóp, bara að safna nöfnum.
Og er myndin af hópnum táknræn fyrir tengingarleysi hans við okkur og við lítum öll út á myndinni eins og við séum öll lömb á leið til slátrunar og presturinn með sérkennilegt bros „smirk“ af ánægju af að fá þessi nöfn á listann.
Pjátrið sem var krafist að maður klæddist og skreyttist var svo út úr kú fyrir mér. Ég hafði enga gleði af því, sá mig bara sem verða að vera í þessu ferli. Það að verða að fá hælaskó, og ég þá með aðeins mislanga leggi vegna mjaðmar úr liði frá fæðingu sem þeim tókst ekki að laga í spítalanum þrátt fyrir viðleytni. Og það var nær ógerningur að fá hælaskó í mínu númeri sem var með minni fætur en ætlað var að þær konur hefðu sem gengu í slíkum skóm. En þeir fundust nú samt eftir mikla leit, og ég man ekki til að nota þá nokkurn tíma aftur eftir þann dag. Þvílík sóun.
Það að verða líka að fá kjól og svo permanent og þessa hárkórónu var allt eins og að vera hlutur á færibandi til að falla í kramið. Ekki neitt elskuð meðvituð þátttaka.
Auðvitað var veislan sem fylgdi flott, enda sérgrein mömmu að skipuleggja og skapa allt fyrir veislur. Ég upplifði mig samt ekki vera aðalatriðið og upplifði mig mjög utan við allt þetta. Það voru svo margir í veislunni sem ég hafði aldrei hitt eða þekkt eða talað við. Enda var það í fyrsta skiptið sem ég hafði hitt sumt af því fólki sem mamma sá sem kjörið tækifæri að hóa saman fyrir þessa veislu og tilefni. Ég man eftir að fá lítið ferðaútvarp, úr og tösku með bandi í gegn til að loka henni, en á ekkert af þeim hlutum lengur.
Eini bekkurinn sem hafði endurfund
Nokkrum áratugum eftir að ljúka námi í Gaggó Aust kom maður til mín í Þórskaffi og spurði hvort að ég væri Matta og sá ég að það var kunnuglegt andlit á honum. Hann reyndist bekkjar bróðir úr þeim skóla. Við spjölluðum og hann kom heim með mér og við spjölluðum yfir kaffi fram á morgunn og hann kom með þá hugmynd um að hóa bekkjarsystkinunum saman. Hann sagðist myndi sjá um það, og ég sagðist myndi skaffa húsnæðið, þau kæmu heim til mín.
Svo rann dagurinn upp og það var athyglisvert að sjá að stelpurnar voru allar sjálfum sér líkar sem komu, en drengjaandlitin frá því að vera þrettán ára og ekki kynþroska drengir þegar ég hafði séð þá síðast höfðu auðvitað breyst ansi mikið, svo að sumir urðu að kynna sig. Það var ljúft að sjá þau og hvað flest þeirra höfðu gert vel með líf sitt. Sú sem ég hafði verið hárgreiðslukona og fleira fyrir mætti þó ekki.
Lindargötuskólinn og teikn fyrir framtíð
Eftir þessa tvo vetur þar taldi ég eins og við kvenkyn vorum meira og minna heilaþvegnar fyrir á þeim árum, að ég ætti að læra meira um húshald og þá lá leiðin í hússtjórnardeildina í Lindargötuskólanum.
Þar hitti ég aðra stelpu sem einnig lyktaði þetta með hárgreiðsluhæfileika og aðra eiginleika og ég varð hárgreiðslukonan hennar þá tvo vetur, og aftur án þess að ég fengi neitt í staðinn.
Eftir að kynnast þessum tveim stelpum sá ég seinna að það var sama mynstrið í fjölskyldu þeirra, þar sem faðirinn var dóminerandi og móðirin undirgefin og án neins sjálfstæðis.
Svo að tilfinningalegt virðisleysi mitt var auðvitað á botninum og þá sjálfvirkt skilaboð til þess dómínerandi í þeim að fá þörfum sínum mætt, sjálfsbjargarviðleitni sem þær höfðu lært meðvitað sem ómeðvitað af feðrum sínum, og kannski ekki viljað líkjast mæðrum sínum, sem ég lái þeim ekki.
Lindargötusskólinn var lítill skóli og skólastjórinn var athyglisverður einstaklingur með mun meiri persónulegan áhuga fyrir nemendum en hinir skólastjórarnir höfðu verið, alla vega um að ef við komum ekki í skólann hringdi hann heim og lét nemendur vita að honum væri umhugað um líf þeirra og framtíð. Og auðvitað mest um mikilvægi skólagöngu og mætingar sem undirbúning fyrir atvinnulíf í framtíðinni.
Ég svaf einu sinni yfir mig og hafði ákveðið að ætla að segja að ég væri mamma og Matta væri veik. En stjóri vissi við hvern hann var að tala og spurði mig beint út hvort ég ætlaði ekki að koma í skólann? Ég sagði auðvitað já og fór með næsta strætó af því að foreldrarnir voru í útlöndum.
Svo var kennari þar sem kenndi okkur ensku og hún lét okkur einu sinni syngja Ástralska lagið, „Waltzing Matilda“ og auðvitað var mér strítt á því, en það var í lagi, það særði mig ekki. Það var að smá togna úr mér þá og myndin af okkur í bekknum var mynd af sextán ára unglingum sem virtust bara nokkuð bjartsýn á framtíðina. Hvort við urðum fullkomnar húsmæður er spurningin, og jafnréttisbarátta fór í gang nokkrum árum síðar með öðrum áherslum fyrir líf okkar kvenna. En drengirnir í bekknum tilheyrðu sjómannadeildinni.
Líkamar að lifa en án réttrar upplifunar um sjálf
Dælur mömmu í mig frá hennar innri sárum voru ekki alveg eins tíðar vegna þess að tvær dætur höfðu bæst við með tveggja ára millibili, og ég ekki það mikið heima yfir daginn, en orðin komu samt þegar tækifæri gafst án vitna. Og þau fóru í hina óræðu geymslu til síðari tíma.
Alvöru sjálfsmeðvitund var ekki í manni, og ekki í dæminu hjá þjóðinni að slíkt væri mikilvægt. Lífið var meira og minna um að falla inn í kerfi hópsálar viðhorfa, þó að við værum auðvitað allar og öll með okkar eigin misþroskaða persónuleika. Uppgötvunin um hver við værum sem slík, og hvert okkar raunveruleika hlutverk væri fyrir þetta líf var enn í heimi ókunnugleikans. Hugtakið „Individuation“ eins og það er að innihaldi er ekki til í málinu á þann hátt að það komi eins út. Það að læra hver maður sé með kostum og göllum er það næsta sem ég get lýst því.
Ég náði ekki að gera það fyrr en eftir að vera komin hinum megin á hnöttinn til landsins þar sem lagið „Waltzing Matilda“ á uppruna sinn. En það nafn er í raun ekki um konu heldur litla dýnu sem þeir notuðu sem sváfu oft úti í náttúrunni.
Þessi fjögur gagnfræðaskóla ár voru eins og millistykki frá tímabili barnæsku og áður en alvöru líf manns sem var ætlað að kallast að maður ætti að vera „fullorðinn“ hófst. Ég skil orðið sem eigi að halda því fram að mannveran sé fullkomlega þroskuð á öllum sviðum en það er óraunsætt. Það orð er ansi afstætt, og sjaldan algerlega satt um nokkra mannveru, þó að hún eða hann séu almennt vel virk í samfélaginu og lífinu.
Ég get ekki sett fingur mína á það hvort það sem ég lærði í skólum hjálpaði með aðra lífsreynslu, en ég var góð í að baka. Hlutur sem ég geri ekki mikið af lengur, en baka einstaka köku af sérstökum tilefnum.
Sögukennsla var til dæmis gagnslaus og var öll um að læra hver drap hvern, hvernig og hvenær, atriði sem ég sá engan tilgang, gleði né gagn af, hvað þá þörf fyrir í lífi mínu. Heilsufræðikennsla sleppti því mikilvægasta sem var um getnaðarfærakerfið, og svo framvegis, en við vorum þarna saman allir þessir krakkar og unglingar í gegn um þessi ár ekkert okkar neitt nálægt því að vera nærri nógu gagnlega þroskuð. Fátt varð af langtíma tengingum eftir að skóla lauk.
En það að læra að skrifa með réttri stafsetningu og slíku er hugsanlega það sem stendur upp úr fyrir mér. Skólinn virtist meira færsla líkamanna áfram í gegn um barna og unglingaskeiðið en að hann væri um að við finndum út hver tilgangur okkar sem einstaklinga væri hér á jörðu.
Heimsóknir í bókasafnið voru flótti minn inn í annan heim og þar lærði ég trúlega ómeðvitað um skrif frá hinum ýmsu bókum sem ég fann í bókasöfnum.
Og það var ansi langt í land með að afleiðingar uppeldis hreyfði sitt skrýtna höfuð.