Stundum líður mér eins og áhorfanda í absúrdleikhúsi.
Samfélagið okkar er um margt gott. Og raunar held ég að flest fólk sé gott, allavega í innsta kjarna sínum. Ég held líka að flestir reyni að bæta sig, vanda sig í störfum sínum og leggja gott til samfélagsins.
En svo kemur "kerfið", eitthvert óskilgreint afl, sem við erum þó öll þátttakendur í og berum ábyrgð á, og gerir eitthvað þveröfugt. Og manni líður eins og verið sé að hafa okkur að fíflum eða að við séum að heyra fréttir frá einhverjum hliðstæðum heimi sem er í tómu rugli. En svo erum það við sem erum í ruglinu.
Síðustu dagar hafa kannski ekki verið verri en margir aðrir en þó hafa minnst þrjú dæmi um þetta birst mér. Mál sem fá mig til að skammast mín fyrir samfélag mitt en líka til að reyna að leggja gott til og gera betur.
Eitt:
Í vikunni var hér haldin alþjóðleg ráðstefna um #Metoo-byltinguna. Ég átti þess ekki kost að sitja hana en skilst að hún hafi farið að mestu vel fram og mikið hafi verið á henni að græða. Á sama tíma birtust fréttir á mbl.is um að kona hafi fallið fram af svölum. Önnur frétt var birt um að hún hefði slasast alvarlega við "fallið".
Eðlilegt er að sýna nærgætni við fyrstu fréttir af hörmulegum atburðum en þegar nákvæmari vitnisburður um atburðarásina liggur fyrir er eðlilegt að uppfæra fréttir. Og það gerðu aðrir fjölmiðlar sem greindu frá þessu einmitt. Þeir breyttu sínum fyrirsögnum um leið og ljóst var að konan féll ekki. Henni var hrint fram af svölunum. Slíkt gerist ekki sjálfkrafa. Það var einhver sem hrinti henni, sem sagt gerandi. Samt kemur hann hvergi fram og er með öllu ósýnilegur í fréttaflutningi mbl.is
Tvö:
Nú í byrjun sumars samþykkti Alþingi ný lög um kynrænt sjálfræði. Þessi lög eru mikil réttarbót fyrir transfólk eða ættu allavega að vera það. Markmið laganna er skýrt: "Lög þessi kveða á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi."
Engu að síður berast nú fréttir um að ríkisstofnun sem á að þjóna okkur borgurunum og fara að lögum neiti íslenskri konu um að leiðrétta kynskráningu sína og nafn sitt í þjóðskrá. Uppgefin ástæða er að konan eigi lögheimili í útlöndum. Ekkert í lögunum kveður þó á um að búseta á Íslandi sé skilyrði eða að þessi íslenska löggjöf gildi ekki um alla íslenska ríkisborgara. Þetta virðist geðþóttaákvörðun kerfisins, þrátt fyrir spánýja löggjöf sem ég held að vandað hafi verið til.
Þrjú:
Mig setti hljóða þegar ég sá forsíðu Fréttablaðsins í morgun. Þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi, eftir áratugabaráttu sakborninga og annarra, sýknað sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálum og forsætisráðherra Íslands beðið þá afsökunar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar á því ranglæti sem þeir hafa mátt þola, hefur ríkið hafnað bótakröfu eins þeirra með vægast sagt andstyggilegum rökstuðningi. Rökstuðningi sem er hreinlega eins og úr hliðstæðum heimi þar sem engin mannréttindabarátta hefur átt sér stað, enginn hæstaréttardómur fallið og forsætisráðherra ekki beðið neinn afsökunar á neinu. Þar sem segir meðal annars: "Af hálfu íslenska ríkisins er öllum ávirðingum gagnvart lögreglu og dómstólum, svo og ásökunum um meinta refsiverða háttsemi, lögreglu, ákæruvalds og dómstóla hafnað enda ósannaðar með öllu". Svona getur ríkið ekki hagað sér, bara alls ekki.
Hin fögru fyrirheit eru eins og stjörnur á sporbaug sem svífa yfir okkur án þess að rekast nokkurn tímann á hinn kalda veruleika kerfisins. Hvernig getur maður hætt í þessu fáránlega leikriti?